06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) [Frh.]:

Herra forseti. Ég hafði í fyrri hluta ræðu minnar lokið við að skýra nokkuð frá því, hvað fælist í brtt. mínum viðvíkjandi frv. um fjárhagsráð, einkanlega í sambandi við sjávarútveginn. Og var ég kominn að þeim brtt., sem eru viðvíkjandi landbúnaðinum. Þar hef ég tekið upp till., sem var í frv. um ræktunarsjóð, eins og nýbyggingarráð útbjó það fyrir hæstv. fyrrv. ríkisstj. og hún lagði fyrir hv. Alþ., og hefur það verið rætt hér í þinginu og mun hafa komið úr landbn. þessarar d. Þessar till. hef ég tekið upp svo að segja orðréttar.

Ég man, að þegar frv. var hér til 2. umr., þá skýrði frsm. landbn., hv. 1. þm. Skagf., frá því, að n. hefði orðið sammála um það, að þessi gr., sem er 4. gr. í ræktunarsjóðsfrv., ætti heima í frv. um fjárhagsráð, og á þeim grundvelli væri rétt að fella hana niður úr ræktunarsjóðsl.

Ég hef nú tekið þessa gr. orðrétta upp, nema 3 síðustu línurnar, sem fjalla um starfsmenn hjá Búnaðarfélagi Íslands. Og geri ég ráð fyrir, að hv.d. verði sammála, um að taka þetta hér upp í þetta frv., því að við munum allir vera sammála um það, að slíkar áætlanir beri að gera sem þarna er um að ræða. Og slíkar áætlanir eru nauðsynlegar fyrir landbúnaðinn. Það verður að vera samræmi á milli þeirra aðgerða að koma upp t.d. stórum raforkuverum og stórum iðnaðarverum eins og áburðarverksmiðju.

Ef við ætlum að láta landbúnaðinn eiga sig, þannig að haldið verði áfram með þau framleiðslutæki, sem bændur hafa nú, og ekkert verður frekar að gert, þá hef ég ekki von um, að hægt verði að koma upp áburðarverksmiðju hér á landi, þar sem hún þyrfti að vera svo stór til þess að geta borið sig, að áburðarmagnið mundi verða margfalt meira en landsmenn gætu og þyrftu að nota. En ef við gætum ekki komið upp slíkri verksmiðju, mundi ef til vill óráðlegt að koma upp stóru raforkuveri.

En ef við gerðum áætlanir, t.d. til 10 ára, um ræktun Suðurlandsundirlendisins og skipulegðum það og veldum beztu staðina og notuðum þau beztu tæki, sem völ er til þeirra hluta, þá er mikil von til þess, að við gætum haft mörgum sinnum meiri þörf fyrir tilbúinn áburð og gætum notað mörgum sinnum meira áburðarmagn. Og það er vel hægt að skapa þessa möguleika hér á landi. Hitt er barnaskapur, að ætla bændum að ráðast í svona fyrirtæki. Þess vegna þyrfti ríkið að gera þarna stórfellda áætlun og gera beinlínis sjálft þarna frumvinnslu, svo sem framræslu, og taka fyrir stór flæmi.

Við þurfum að koma okkar landbúnaði í það horf, sem hann er víðast hvar erlendis, að framkvæma alla vinnu á ræktuðu landi. Bændur eru sem óðast að fá sér fullkomin vinnutæki, og kemur þá fljótt í ljós, að ræktaða landið, sem þeir hafa, er allt of lítið vegna meiri afkasta vélanna, af því að það er ekki hægt að vinna með þeim nema á ræktuðu landi, svo að þeirra afköst koma þeim ekki að fullu gagni. Það hefur líka komið í ljós, að þeir bændur, sem hafa sjálfir getað lagt út í ræktun í stórum stíl, hafa getað heyjað á mjög skömmum tíma með fullkomnum tækjum svo mikið magn af heyi, að ótrúlegt hefði þótt hér áður. Ég veit um einn bónda, sem s.l. sumar heyjaði með mjög lítilli hjálp heiman frá sér á 5 vikum um 1500 hesta með vélum og á ræktuðu landi.

Ef not þessara framkvæmda geta orðið til þess að gera vöruna ódýrari, er hægt að lækka afurðaverðið.

Til grundvallar 6 manna n. álitinu gamla lá það að tryggja bændum samsvarandi kjör og öðrum atvinnustéttum í landinu, og þá líka að veita bændunum samsvarandi tækni og öðrum stéttum.

Þetta er sá rétti mórall, en til þess að þetta geti orðið, verður að aðstoða bændurna við þetta og gera sams konar byltingu í landbúnaðinum og nú hefur verið gerð í sjávarútveginum. En svona verk tekur langan tíma. Þess vegna þurfa ákvæðin að vera til langs tíma, og ef úr þessu yrði, t.d. að Urriðafoss í Þjórsá yrði virkjaður með t.d. 300 hestafla stöð, yrði því líklega lokið 1952–'53. Sama um það, ef ráðizt yrði í byggingu áburðarverksmiðju. Þessar framkvæmdir þyrftu að stefna að vélbyltingu á Suðurlandi. Það tekur 5–6 ár að rífa landið allt sundur, svo að bændur geti eingöngu unnið með vélum á ræktuðu landi. Þessu yrði lokið um 1952–53, ef byrjað er strax á byggingu áburðarverksmiðju og að búa Suðurlandsundirlendið undir ræktunina. En þetta verður að vera til langs tíma. Fleiri staði þarf svo að taka með sama taki, t.d. Borgarfjörð og Skagafjörð.

Þá eru ákvæði í þessari gr. varðandi staðsetningu framleiðslunnar, eftir því sem hentar á hverjum stað og tíma. Ég hef oft sýnt fram á, hvernig auka þarf verkaskiptinguna milli nautgriparæktar og sauðfjárræktar, en alveg sérstaka áherzlu vil ég leggja á gróðurhúsin, en á því sviði eigum við alveg stórkostlega framtíð með þeim góðu skilyrðum, sem landið býður upp á: heita vatnið og sólarljóssrafmagn. En þetta á að vera atvinna fyrir bændur, en ekki kapítalista úr Reykjavík, eins og nú er. Og það verður að vera í svo stórum stíl, að hægt sé að vinna með almennilegum verkfærum, en ekki eintóm smáhús, eins og nú er. Þannig er það í Bandaríkjunum. Þar hafa þeir hús, sem ná yfir marga hektara lands, svo að hægt er að vinna þar með traktorum og sambærilegum verkfærum.

Þá eru ákvæði um lánveitingar ræktunarsjóðs. Þessi ákvæði eru líka úr gamla frv., og ég vil fastlega treysta því, að landbn. þessarar hv. d., sem lagði til við 2. umr., að þessi gr. yrði felld úr frv., til þess að hún kæmi í frv. um fjárhagsráð, láti skoðun sina í ljós um þetta atriði, en grundvallarákvæðin þurfa að vera í l.

Þá kemur d-liður, 7. gr.: „Fjárhagsráð skal gera nákvæma áætlun um byggingu íbúðarhúsa fyrir næstu 5 ár, þar sem ákveðin sé gerð húsa og stærð og á hvaða stöðum þau skuli byggð. samkvæmt þörfinni fyrir íbúðir á hverjum stað, og skal miðað við það hvort tveggja að fullnægja íbúðarhúsaþörfinni fyrir þá staði. sem sérstaklega þurfa íbúðarhúsa vegna vaxandi framleiðslu, og svo hitt, að bæta sem skjótast úr húsnæðisvandræðum þeim, sem fyrir eru. Skal fjárhagsráð leita álits bæjar- og sveitarstjórna. svo og byggingarfélaga, áður en áætlunin er samin. Í samræmi við áætlun þess skal fjárhagsráð láta ráðstafa- byggingarefninu til þessara staða. Skulu byggingarfélög launþega, samvinnubyggingarfélög og bæjar- og hreppsfélög hafa forgangsrétt að öllu efninu, enda myndi þau samtök sín á milli á hverjum stað til þess að annast byggingarnar og innkaup til þeirra í þeim tilgangi, að byggt verði sem ódýrast og bezt.“

Nú vil ég vekja eftirtekt á því, að eins og frv. er nú, hefur ráðið vald til þess að ákveða byggingu hvers einasta húss í landinu. Ég veit ekki, hvort allir hafa gert sér grein fyrir því, að atvinnufrelsið er nú svo skert, að ekkert má gera nema með leyfi n. í Reykjavík. Það er því nauðsynlegt. að sú stofnun, sem hefur valdið, geri sér og þjóðinni grein fyrir því, hvernig hún ætlar að nota þetta vald, hvar hún ætlar að byggja íbúðir og hve mikið á hverjum stað og hvernig hún ætlar að fullnægja kröfum fólksins. Það þarf ákveðna stefnu frá ráðinu. Það er ómögulegt að sækja ár eftir ár um sama leyfið, fá ár eftir ár neitun, en aldrei neina vissu um það. Ráðið þarf að búa út áætlun um það t.d., hvar byggð skuli íbúðarhús. Það er talið, að byggja þurfi þar sem framleiðslan er. Það er óhæfilegt að geta ekki rekið framleiðslu á ýmsum stöðum, vegna þess að fólk geti ekki flutt þangað sökum skorts á íbúðarhúsum. Það þarf að koma fram frá ráðinu, að ákveðið sé að byggja svo og svo mikið á ákveðnum stöðum á landinu, og þá veit fólkið, hvað það á að gera. Það þarf að ákveða þetta sérstaklega með tilliti til tvenns. Í fyrsta lagi með tilliti til framleiðslunnar, og í öðru lagi þar, sem þörfin og framleiðslan er mikil. Við vitum um togstreituna um þessa hluti. En þetta verður að vera einhverjum takmörkunum háð. Það væri óbætanlegur skaði, ef það lenti út í því. að önnur sjónarmið en þessi væru látin ráða. Þá er það enn fremur nauðsynlegt, að ákveðin sé gerð húsa og stærð. Undanfarið hafa þessi mál verið rekin á mjög ópraktískan hátt. Það eru varla til tvö hús eins, þegar frá eru tekin þau hús, sem hið opinbera eða bæjarfélög hafa látið reisa, allir einstaklingar byggja hver með sínu lagi. En þegar svona er að farið, að við hvert hús þarf sérstakan byggingarmeistara, málarameistara. múrarameistara o.s.frv., þá verður allur kostnaður margfaldur. Eigi að takast að byggja mikið af íbúðum, verður að byggja eftir einni ákveðinni gerð. Sumir segja, að þetta muni verða tilbreytingarlaust. En þegar við erum í kapphlaupi um að koma fólkinu úr óhæfum íbúðum, verður að gera eitthvað. Fólkið er í baráttu út af þessu, og þegar hver byggir með sínu lagi, verður kostnaðurinn svo mikill, að margir, sem vilja, geta ekki ráðizt í það kostnaðar vegna. Það er líka mjög mikið vafaatriði, hvort það er fallegra að hafa húsin hvert með sínu lagi, en þetta vandamál verður að leysa.

Þá geri ég ráð fyrir, að ráðið leiti álits bæjar- og sveitarfélaga og byggingarfélaga og þau fái aðstöðu til að láta álit sitt í ljós, áður en ráðið gerir upp við sig, hvert það ráðstafar byggingarefninu. Þangað er það svo flutt beint, því að ef á að fara að ráðstafa því milli staða, verður það oft eins dýrt og að flytja það frá útlöndum. Þessi ákvæði eru ekki síður mikilvæg en aðrir þættir. sem ég hef nú rakið. Það er líka svo, að af allri fjárfestingunni veitir ekki af, að 1/3 fari til íbúðarhúsabygginga. sérstaklega þar sem við verðum að byggja allt upp að nýju. Það er allt annað í löndum eins og t.d. Englandi, þar sem núverandi íbúar hafa erft 4/5 þjóðarauðsins og mikið af því eru hús, heldur en á Íslandi, þar sem mjög lítið er erft af húsum.

Um forgangsrétt ákveðinna aðila síðast í 7. gr. er það að segja, að það hefur áður verið í l., að þessi félög hafi forgangsrétt, en það hefur ekki verið fyllilega framkvæmt. Félögin þurfa líka að hafa samtök sín á milli. Það er óhæft annað, ef ríkið styrkir þessi félög, en að það hvetji þau líka til að vinna skynsamlega, og félögin hafa líka hug á þessu og hafa myndað stofnun, sem sér um innkaup og jafnvel byggingar, sé eins konar verktaki. Til þess að geta útrýmt braski úr byggingarmálum er nauðsynlegt, að þeim sé stjórnað í heild, en óhætt er að segja, að það sé þjóðarnauðsyn. Það má nú raunar segja, að þetta sé þjóðnýting, en það er ekki þjóðnýting ríkisins, heldur samtaka þeirra, sem á þessum hlutum þurfa að halda, en ríkið ýtti undir. En höfuðnauðsynin er að útrýma braskinu, sem gerir byggingarnar allt að þriðjungi dýrari hér í Reykjavík en úti á landi, þar sem sama verkkaup er.

Þá segir enn fremur í 7. gr.: „Þessi áætlun skal birt, strax og hún hefur verið samin, og send þeim aðilum, er hún varðar, svo að þeir geti gert við hana aths. og brtt. Eigi skal þó fjárhagsráð láta slíkar till. tefja framkvæmd áætlunarinnar, en endurskoða hana á hverju misseri í ljósi þeirrar reynslu, sem þá er fengin.“

Það er enginn efi, að þetta er mjög nauðsynlegt. Það er kvartað svo mikið yfir úthlutunum út um land, t.d. bílaúthlutuninni, og það má gera sér í hugarlund, hvernig það yrði, þegar eitt ráð í Reykjavík ætti t.d. að úthluta öllu byggingarefni til alls landsins. Það er því nauðsynlegt, að gegn svona óánægju séu gerðar haldgóðar varúðarráðstafanir.

Þá segir enn fremur, að lánveitingum lánstofnana til bygginga skuli hagað í samræmi við þessa áætlun fjárhagsráðs um íbúðarhúsabyggingar.

Það er alveg óhæft, ef fjárhagsráð hefur ákveðnar hugmyndir um þessa hluti, að lánstofnanirnar hafi allt aðrar hugmyndir um þetta. Þarna verður að vera samræmi á milli, svo að allt lendi ekki í handaskolum, svo að ekki sé gefið leyfi annars vegar, en neitað um peninga hins vegar. Sérstaklega er þetta nauðsynlegt um byggingarefni, vegna þess að í ár verður erfitt um útvegun byggingarefnis, það eru hlutir, sem allur heimurinn þarfnast, og því verður mjög hörð samkeppni um það. Þó að við fengjum 70 þús. tonn á s.l. ári, þurfum við ekki að búast við að fá nema lítinn hluta þess á þessu ári, þó að fullkominn dugnaður verði við að ná í það. Timbur er nú ein eftirsóttasta vara heimsins, eins og síldarlýsið okkar, og því erfitt að útvega það. Þess vegna verður skömmtunin að vera miklu raunhæfari en verið hefur. Þess vegna er nauðsynlegt, að fullt samræmi sé í öllum þessum aðgerðum.

Þá hef ég sett sérstaka málsgr. síðast í 7. gr.: „Fjárhagsráði er heimilt að láta sérstaka starfsdeild. byggingardeild fjárhagsráðs, annast samning og framkvæmd þessarar áætlunar. Enn fremur að ákveða, að skömmtun og innflutningur byggingarefnis sé í höndum þessarar deildar.“

Nú má vel vera, að þessi málsgr. verði meira ágreiningsefni en ætti að vera. Það er gengið út frá því, að fjárhagsráð reki sérstakar deildir. Í l. er gert ráð fyrir einni, gjaldeyris- og innflutningsdeild. Það er vegna vinnulagsins, að ég geri ráð fyrir sérstakri deild, er annist þessi mál, byggingarmálin. Ef ráðið ætti að hafa þau sjálf með höndum, þá yrði starfsfriður þeirra manna, sem í því eru, enginn. Það er því, eins og það er skynsamlegt að setja sérstaka innflutnings- og gjaldeyrisdeild, ekki síður skynsamlegt og nauðsynlegt að hafa þessa deild, sem ég var nú að tala um. Og þeir, sem eiga að ákveða um þessa hluti, verða að hafa tíma til þess. Ef menn verða að sækja um leyfi til allra íbúðarhúsa, þá er það alveg ótækt, að menn þurfi að bíða lengi eftir svari. Allt gerir þetta óhjákvæmilegt, að það sé sérstök deild, sem fólk geti snúið sér til, og enn fremur, að þessi deild hafi innflutninginn í sínum höndum. Nú er innflutningurinn í höndum innflutnings- og gjaldeyrisdeildar, og ef hann er takmarkaður, svo að tiltölulega lítið fer í hvern stað, þá veitir ekki af, að sérstakir menn hafi þetta með höndum, því að þetta verður eitt af erfiðustu verkefnum ráðsins. Ég tala nú ekki um, þegar svo er, að ríkið kaupir mest af timbrinu sjálft, eins og nú er venjulega, að mest af byggingarefninu er fengið með milliríkjasamningum.

Þá kem ég að e-lið, því, sem ég legg til, að verði 8. gr. frv., sem snertir sérstaklega verzlunina í landinu. Í 2. gr. frv., 3. lið, er sérstaklega komið inn á það, að framleiðsluráð skuli miða störf sín við, að neytendur eigi kost á að kaupa neyzluvörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur sínar á hagkvæmasta hátt og að vörukaup og vörudreifing verði gerð sem hagkvæmust. Er þetta gert til þess að tryggja hag neytenda. Þessi brtt., sem ég geri í e-lið. varðar það, að verzlunin sé ekki gerð yfirleitt að sérstökum gróðaatvinnuvegi. Frá því að fyrst var byrjað að rannsaka skipulag á atvinnu á Íslandi af skipulagsnefnd atvinnumála, sem skipuð var 1934, þá hefur það verið staðreynd, sem mikið hefur verið rætt og deilt um, að fjármagnið á Íslandi er að stórum mun of mjög bundið í verzluninni, og að það er eitt höfuðvandamál í okkar atvinnulífi að fá því til vegar komið, að fjármagnið fari ekki svo mikið til verzlunarinnar eins og verið hefur, heldur fari meir til framleiðslunnar, sjávarútvegs. landbúnaðar og iðnaðar. Og það væri þörf á að mæla beinlínis svo fyrir í l., að stefna fjárhagsráðs skuli vera, að því er verzlunarreksturinn snertir, að spara fjármagn og vinnuafl það, sem nú er í verzluninni, svo sem verða má, og beina hvoru tveggja til framleiðslugreinanna, og að þetta skuli gert með því m.a. að takmarka með verðlagningarákvæðum og öðrum ráðstöfunum svo gróða þann, er ná megi í verzlunarrekstri, að svo miklu leyti sem hann er rekinn í gróða skyni, að arðvænlegra þyki að setja fjármagn í framleiðsluatvinnugreinarnar. Við vitum, að í kapítalistísku þjóðskipulagi, þar sem fjármagnið er í einstakra manna höndum, þar er aðeins ein leið, meðan ekki er gripið til neinna harðstjórnaraðgerða, til þess að beina fjármagninu af einu sviði inn á annað, þ.e. að minnka svo gróðamöguleikana á því sviði, sem maður vill fá fjármagnið burt úr, en létta undir með atvinnu á öðrum sviðum, sem maður vill fá fjármagnið inn á. Og í þessu efni væri möguleikinn sá, að minnka möguleikann, sem kaupsýslustéttin hefði til álagningar á vöruverð, til þess að beina fjármagninu nokkuð frá verzluninni. Og hins vegar væri sá möguleiki til þess að beina fjármagninu inn á framleiðsluatvinnusvið, að veita hagfelld lán til langs tíma til framleiðsluatvinnugreinanna, t.d. til 15–20 ára með lágum vöxtum, og lána svo sem 2/3 eða 3/4 af því, sem þarf til þess að reisa ákveðin framleiðslufyrirtæki eða kaupa þau. Þetta eru allt ráðstafanir, sem miða í þá átt að draga úr gróðamöguleikum manna á því að setja fé í verzlunina og til að beina slíku fjármagni til framleiðsluatvinnunnar. Hins vegar hefur sýnt sig, að meiri hluti þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í þessum efnum, hafa ekki dugað fram að þessu. Það verður að ganga mun lengra en gert hefur verið um það að kreppa að verzluninni í þessu efni.

Nú kunna menn kannske að segja, að þetta sé illa hugsað. Í gamla daga var slík frjáls verzlun, að samkeppnin var það hreyfiafl, sem kreppti að verzluninni og gerði að verkum, að það féll alltaf svo mikið úr verzluninni af mönnum, sem ekki þótti borga sig að verzla, og samkeppnin takmarkaði þá verzlunargróðann. Þessir dagar frjálsrar verzlunar eru nú löngu taldir, og það er ekki möguleiki til að koma henni á aftur, hvort sem menn vildu eða ekki. Hins vegar hafa menn nú fengið ákveðin leyfi til að verzla og þau þjóðfélagsskilyrði til þess að hagnýta þessa aðstöðu til þess að selja svo að segja allt, sem boðið er fram af innfluttum vörum. Hvert leyfi er þá um leið orðið ávísun á ákveðinn ágóða. Það þýðir, að sú áhætta, sem kaupmaðurinn hafði í gamla daga á að geta ekki selt sína vöru, hún er raunverulega fallin. Einmitt vegna þessa eru innflutningsverzlun og vörusala innanlands orðin örugg gróðafyrirtæki. Hins vegar er aðeins með þjóðfélagslegum aðgerðum, og tiltölulega hörðum aðgerðum, hægt að skapa nýtt hreyfiafl til þess að knýja fram þróun þá í þjóðfélaginu. sem frjálsa verzlunin gerði með öllum sínum barbarísku aðferðum, gjaldþrotum og öðru slíku. Það er gefið, að slík þróun mundi verða í þá átt, að það mundu alltaf verða færri og færri og stærri og stærri fyrirtæki, sem verzluðu. — Það hefur oft verið rætt um það hér á hæstv. Alþ., að þörf væri á því að knýja það fram, að fjármagnið færi verulega burt úr verzluninni og í framleiðsluatvinnuvegina fremur en nú er. En þegar hefur átt á að herða, hafa menn venjulega guggnað á því að beita svo hörðum aðgerðum sem til þess þarf. Fjárhagsráð mundi hafa slíkt vald í sínum höndum, að það gæti komið þessu til vegar. En það er viðbúið, að það mundi verða mjög erfitt að fá fjárhagsráð til þess að taka það upp hjá sér að fara að beita þess háttar aðgerðum, þó að þeir menn, sem í því væru, álitu það nauðsynlegt, ef ekki væru beinlínis fyrirmæli í 1., sem fyrirskipuðu fjárhagsráðsmönnum að vinna að þessu. Við vitum, að allar slíkar ráðstafanir taka langan tíma, nema við viljum láta þetta ganga fljótt fyrir sig, þá þarf að grípa til róttækra ráðstafana. Ég veit, að sumir segja, að það mundi kannske nægja, að neytendafélög landsins fengju meiri rétt í þessum efnum, og með því að þau gætu keppt við verzlun annarra aðila, þá mundi þetta vera allt í lagi. En ég held, að það sé ekki nægilegt. Það hefur sýnt sig, að það eru líka stundum tilhneigingar hjá stjórnendum slíkra verzlana, hvort sem það eru kaupfélög eða önnur slík innkaupa- og sölufélög, til að sýna góðan hagnað af rekstri síns fyrirtækis. Það þarf að skapa aðhald hjá kaupfélögunum, þannig að það þarf að segja ekki aðeins við kaupmenn, heldur og S.Í.S.: Þjóðfélaginu bráðliggur á því, að það mikla vinnuafl, sem verzlunin tekur nú til sin, og það hlutfallslega mikla fé, sem hún einnig tekur til sín, verði minnkað, og það verður að gera ráðstafanir til þess. Ég held því, að þessi 8. gr. samkv. brtt. minni sé mjög nauðsynleg, af því að það þurfi að setja fram þessa ákveðnu stefnuyfirlýsingu, sem fjárhagsráð eigi að fara eftir, að fjármagninu og vinnuaflinu skuli veitt úr verzluninni til framleiðsluatvinnuveganna. Þetta þýðir ekki að drepa verzlunina á Íslandi. En það þýðir, að hún verði rekin af stórum fyrirtækjum með praktísku fyrirkomulagi. Og það er lífsnauðsyn fyrir þjóðina. Við megum bókstaflega ekki við því, að svo gangi til í þessum efnum sem er. Þetta er að verða svo mikil byrði á okkar þjóðfélagi, að við kiknum undir því. Ég á þar ekki við þann margumtalaða gróða heildsalanna, heldur líka það, sem fer í súginn sem kostnaður við verzlunina á margan hátt, vegna þess að verzlunin er óhaganlega rekin. Það, sem verzlunin kostar þjóðina of mikið, er ekki eingöngu heildsalagróðinn, heldur margt, sem verzlunarmenn þurfa að kosta til, svo sem auglýsingakostnaður, aukinn skrifstofukostnaður og annað slíkt, sem er margfalt á við það, sem þyrfti að vera. Þessi kostnaður þarf allur að minnka. Og ef þetta næðist, mundi það þýða það, sem sett er fram í 3. tölulið 2. gr. frv., að vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands verði gerð eins ódýr og hagkvæm eins og frekast er unnt. Ef þetta væri gert, mundi það geta þýtt taprekstur hjá hér um bil helmingi af þeim, sem reka nú verzlun.

Þá kem ég að f-lið í minni brtt., sem ég legg til, að verði 9. gr. frv. Þar er svo fyrir mælt, að fjárhagsráð skuli, auk heildaráætlana sinna og séráætlana fyrir einstakar atvinnugreinar, semja sérstakar áætlanir um þróun hinna einstöku byggðarlaga og landsfjórðunga og skuli þær yfirleitt miðaðar við lengri tíma en séráætlanirnar og sé tilgangur þeirra að tryggja samfellda þróun atvinnulífsins. — Þetta má segja, að sé mjög nauðsynlegt fyrir okkur. Það er engum efa bundið, að ef við ætlum að reyna að vinna skynsamlega að uppbyggingu okkar lands á næstu áratugum, þá verðum við frá upphafi að reikna með þeim kostum eða göllum, sem hinir einstöku staðir á landinu hafa í þessu efni, og reyna að þroska og þróa í hverju héraði og byggðarlagi það, sem það fyrst og fremst getur gefið okkur bezt. Við höfum áður gert mjög smáar tilraunir um þetta, sem enn sem komið er hafa ekki tekizt vel, vegna þess að of litlu fé hefur verið varið til þeirra og þær hafa ekki verið gerðar í nógu stórum stíl. En það hefur verið rætt þó nokkuð í nýbyggingarráði í sambandi við þetta. að það þyrfti að taka helzt allt Suðurlandsundirlendið fyrir til þess að planleggja það. Það hefur oft verið um það rætt, að á Suðurlandsundirlendinu gætu ef til vill allir Íslendingar lifað. Og það er ekki efi á því, að ef á að byggja upp þróun atvinnulífsins og byggðarlaganna á Íslandi um næstu áratugi. þá komumst við ekki hjá því að gera alveg sérstaklega ráð fyrir því, hvernig við ætlum að haga slíkri uppbyggingu með tilliti til hinna einstöku byggðarlaga og héraða. Og það, sem gerir sérstaklega nauðsynlegt, að við ákveðum þetta fyrir fram og gerum ráðstafanir í þessu sambandi, er, að þetta verður miklu dýrara, ef ekki er gerð áætlun um það fyrir fram. T.d. er svo um Suðurland, ef við vissum, að eftir svo sem 40 ár byggju um 50 þús. manns í Árnes- og Rangárvallasýslum, og ef við vissum, að þetta mundi ekki gerast eftir fyrir fram gerðri áætlun, þá vissum við einnig, að það mundu rísa upp á ótal stöðum smá þorp, sem teygðu sig í áttina hvert að öðru, þar til þau næðu saman. Þetta mundi gerast óskipulega, og íbúarnir mundu ekki njóta nema að hverfandi litlu leyti þeirra kosta, sem þessi landssvæði hefðu og hafa að bjóða. Ef við vissum þetta fyrir fram — og við getum vitað þetta fyrir fram að verulegu leyti, af því að þar er byggilegast í sveitum á Íslandi —. mundum við þá ekki fremur kjósa að gera ráðstafanir til þess að byggja á Suðurlandsundirlendinu eina borg, sem væri á stað, sem okkur kæmi saman um, að heppilegastur væri í slíku tilliti? Ég geri ráð fyrir, að það yrði þá reist aðalborg á þessu svæði, en svo væru nokkur þorp eða bæir, ekki hér og hvar úti um Suðurlandsundirlendið eins og af tilviljun, liðum í nýbyggingarráði rætt þó nokkuð um þetta og þá verkaskiptingu, sem til greina kæmi milli einstakra staða á þessu svæði. En það, sem við þyrftum að gera allra fyrst viðkomandi slíkri ákvörðun, væri að láta ríkið kaupa upp þau landssvæði, sem við ætlum að byggja slíka borg á, og tryggja frá upphafi, að það færi aldrei þannig, að lóðirnar í slíkri borg lentu í braski, eins og t.d. nú hefur farið um lóðirnar í Reykjavík. Nú mundum við líklega meta lóðirnar í Reykjavík til söluverðs einhvers staðar milli 100 og 200 millj. kr., eða upp undir a.m.k. 1/3 af húsaverðinu í Reykjavík. Og þegar við hugsum út í, hvað þetta þýðir, hvaða skattur þetta er, sem raunverulega liggur á atvinnuvegunum í landinu, þá er það einnig ljóst, að þetta með öðru skapar dýrtíð í landinu. Ef við hugsum okkur, að á 10–20 árum rísi upp 10–15 þús. íbúa bær, t.d. í Hveragerði, hvað skyldi lóðaverðið þar verða þá orðið hátt, ef ekkert verður gert til þess að koma í veg fyrir brask með lóðirnar þar? Hvað skyldi þjóðarbúið vera búið að verða fyrir þungum búsifjum vegna óhæfilega mikils lóðaverðs? Við, sem búumst við, að þéttbýli rísi upp á Suðurlandsundirlendinu, verðum að taka tillit til þessa í tíma. Og það er Alþ., sem á að ráða, hvar koma upp bæir á Suðurlandsundirlendinu, og það er Alþ., sem á að gefa fjárhagsráði sérstakt vald í þessu efni. Þess vegna þurfum við að hugsa þetta fyrir fram og gera ráðstafanir, ekki aðeins viðkomandi lóðunum, heldur öllu, sem þarna þarf að fylgjast að, bæði viðkomandi menningarstofnunum, iðjuverum o.fl. Í sósíalistískum löndum hafa verið byggðar heilar borgir eftir fyrir fram gerðri áætlun. Og líka í kapítalstískum löndum hefur mikið verið framkvæmt þannig eftir áætlun, en í slíkum löndum er þetta erfiðara. Eitt dæmi um miklar framkvæmdir eftir fyrir fram gerðri áætlun, sem er þess vert, að menn kynni sér það sérstaklega, er frá Tenesseedalnum í Bandaríkjunum, sem gerðar voru af stjórn Roosevelts í Bandaríkjunum, þar sem gífurlega stórt landssvæði var tekið og þessi mikla Tenessee-á hagnýtt. Þarna var áður svo ástatt, að þessi á ógnaði oft með flóðum eyðileggingu allra lífsmöguleika á þessu stóra svæði og gerði það að verkum, að þetta landssvæði í kringum hana varð eitthvert fátækasta landssvæði. Þessi á var beizluð og er nú eitt stórkostlegasta orkuver í Bandaríkjunum, og síðan hefur verið komið upp þarna fjölda af iðjuverum. Og þetta var gert af ríkisins hálfu, en hagnýting á þessum iðjuverum miðuð við einkaframtak að mestu leyti. — Og ég hef hugsað mér í sambandi við Suðurlandsundirlendið, að við gætum á vissan hátt í smáu gert eitthvað dálítið svipað þessu og síðan tæki við að gera það sama viðvíkjandi öðrum byggðarlögum, sem mikla möguleika hafa í þessum efnum.

Þá er síðasta setningin í þessari fyrirhuguðu 9. gr., að ráðið skuli einnig í slíkum áætlunum gera ráðstafanir til heppilegastrar þróunar eða uppkomu allstórra bæja í hinum ýmsu landsfjórðungum. Við verðum að gera okkur ljóst, að með því að setja svona l. eins og um fjárhagsráð, þá erum við að taka þróunina í okkar hendur, þannig að þróunin hættir að verða afleiðing af meir eða minna blindum þjóðfélagsöflum, sem hefur okkur meira og minna að leiksoppi. Við sem fulltrúar á Alþ. eigum og ætlum að ákveða, hvernig þessi þróun skuli vera. Og við beinum henni í ákveðinn farveg vitandi vits. Og við þurfum að koma okkur saman um. hvaða farveg við ætlum að beina henni í, og segja þjóðinni það. Það þarf að rísa upp a.m.k. ein stór borg utan Reykjavíkur. Við vitum t.d., að þegar bær hefur 5–6 þús. íbúa, þá gefur hann íbúunum vissa möguleika, sem 2 þús. íbúa bær getur ekki gert. Ef því reynt er að hlynna að því að koma upp slíkum bæjum á Vesturlandi, Austfjörðum eða annars staðar, skapast miðstöðvar fyrir þessa landsfjórðunga hvern fyrir sig í margs konar menningarlegu og atvinnulegu tilliti, þannig að fólk þurfi t.d. ekki að flytja úr þessum landsfjórðungum til Reykjavíkur til þess að koma börnum sínum á menntaskóla, af því að mönnum sé ómögulegt að kosta börn sín á slíkan skóla á annan hátt. Ég álít, að fjárhagsráð eigi að ráða því, hvar á Íslandi verði byggt á næstunni, og þá er alveg gefið, að það þarf ákveðið í l. að marka stefnuna um það. Skipulagning í þessu efni eftir því, hvar byggilegast er, væri miklu heppilegri en að veitt væru leyfi fyrir t.d. vissum hundraðshluta af byggingum, sem sótt væri um á hverjum stað. Frá öllu þjóðfélagslegu sjónarmiði væri vitleysa að veita leyfin í blindni, t.d. hlutfallslega eftir umsóknum án tillits til atvinnumöguleika. En hvað á fjárhagsráð að gera í þessu efni, ef það hefur engin fyrirmæli um þetta frá Alþ.? Ég álít nauðsynlegt að taka fram um þetta í svona l. Það hefur t.d. verið talað um það og deilt, hvort hinn mikli vöxtur Reykjavíkur væri heppilegur. Ég býst við, að flestir líti svo á, að þessi gífurlegi vöxtur bæjarins sé óheppilegur. En vöxtur Reykjavíkur er svo mikill af því. að þjóðfélagsöflin hafa fengið að hafa áhrif á það. án þess að mannshöndin hafi þar stjórnað. T.d. ef maður hefur átt auðveldara með að fá lán fyrir atvinnutæki, ef hann hefur verið í Reykjavík, heldur en t.d. með því að vera í Vopnafirði eða Vestfjörðum, sem oft virðist hafa verið, þá hefur hann frekar getað byggt hús fyrir sín atvinnutæki með því að vera hér í Reykjavík en að vera á Austfjörðum eða Vestfjörðum.

Það er vitað, hvað það hefur verið mikill hagur fyrir efnamenn í Reykjavík að fá lánað. Vegna þess eru menn efnaðir. Það er bankatekník að lána þeim mönnum. sem eiga eitthvað. Þeir hafa eitthvað til að tapa. Það er ekki heþpilegt að lána mönnum utan Reykjavíkur. Bankarnir hugsa meira um sinn verzlunarrekstur en að reka starfsemi sína út frá þjóðfélagslegu sjónarmiði. Bankarnir eru reknir út frá bankahagsmunasjónarmiði. og það þýðir, að bankastjórnirnar verða eins og peð í öllu þessu tafli og afgreiða málin þannig, að meginið af fólkinu kemur til Reykjavíkur, en mennirnir úti á landinu geta ekki komið neinu upp, vegna þess að þar er fátækt fyrir og þar verður að vera fátækt áfram.

Fyrrv. stjórn gerði ráðstafanir til þess að snúa þessu við með því að staðsetja togara hjá bæjarfélögum úti um landið. Til þessa verður að grípa til sérstakra ráðstafana, því það er mjög erfitt fyrir þessa bæi að koma þessum tækjum upp og reka þau. Ég veit líka, að margir auðmennirnir hér í Reykjavik segja: „Ætli þeir komi svo ekki til okkar.“ Strax og eitthvað bjátar á, skapast líkur fyrir, að fjármagnið komi til Reykjavíkur. Það er þess vegna alveg heildarbreyting, sem þarf að verða á þessum málum. Ef við ætlum að miða við það að koma upp úti á landi stórum bæjum, byggja upp bæi og tryggja þeim starf og góða afkomu. þá verður að grípa til óvenjulegra ráðstafana. Þess vegna vildi ég, að hraðað yrði ráðstöfunum til þess að koma upp bæjum, þar sem þeir eru ekki fyrir.

Það hefur oft verið rætt í nýbyggingarráði, að norðausturhlutinn af Íslandi væri að leggjast í eyði. Útvegurinn fer minnkandi, fólkið flytur burt. Ef við ætlum að byggja þarna upp skipulega, mundi verða að taka til þess sérstakt landssvæði og gera ráðstafanir til þess að byggja upp bæ. Þótt ekki væri nema um 2 þús. íbúa að ræða til að byrja með, mundi bærinn vaxa. Ég held, að þessi ákvæði séu mjög nauðsynleg. Það er ekki til neins fyrir okkur að stjórna svo, að fólkið haldi áfram að flytja til Reykjavíkur, heldur þurfum við að stjórna þannig, að það sé til hagsbóta fyrir allt landið.

Brtt. mín við 10. gr. er annars eðlis en við þær gr., sem ég hef verið að lýsa. Allar gr., sem ég hef lýst, fjalla um útfærslu á „principum“. 10. gr. er um ákveðið „princip“. sem ég veit, að muni valda deilum. Það er stefna, sem mótuð er af sjónarmiðum okkar flokks. Það, sem ég hef verið að ræða á undan, þarf ekki að mótast af stefnu Sósfl. Það er hægt fyrir aðra en Sósfl. að vinna að áætlun samvinnubúskapar. Ég býst við, að það verði farið meira og meira inn á það, enda hefur verið gert samkomulag um það, og það samkomulag virðist benda til þess, að allir séu farnir að viðurkenna áætlunarbúskap, en bara ekki, hvað langt ætti að ganga í því efni.

10. gr. segir, að þegar menn greini á. skuli þau fyrirtæki tekin fram yfir. sem rekin eru með hag heildarinnar fyrir augum. Þessu er nauðsynlegt að slá föstu, því að fjárhagsráð getur oft þurft að gera út um svona hluti. Iðnreksturinn kemur til með að markast af því, hvað þessi þjóð er smá. Það þarf ekki nema eina verksmiðju í hverri grein. Ég tala ekki um, ef það þarf að fara inn á stórrekstur. Það, hvort lagt verður út í stórrekstur, gerir út um það, hvort okkur tekst þetta. Þá er óhjákvæmilegt, þegar tveir vilja reka eitthvert atvinnufyrirtæki, að gerður verði greinarmunur á starfseminni í þjóðfélaginu. Það hefur komið fyrir í nýbyggingarráði, að gera hefur þurft upp á milli t.d. Sambandsins og einhvers annars fyrirtækis, og þegar það hefur komið fyrir, hefur nýbyggingarráð veitt Sambandinu leyfið.

Stundum, ef engin fyrirmæli eru sett, eru veitt leyfi fyrir fleiri fyrirtækjum en þjóðin þarf á að halda. Ég skal nefna það, að hér í bænum eru óþarflega margar smjörlíkisverksmiðjur. Það þyrfti ekki nema eitt sett af fullkomnum tækjum til þess að framleiða það smjörlíki, sem þarf. Hins vegar, ef þessar verksmiðjur skapa hring, þá skapast hjá þeim þörf til þess að kaupa af þeim óánægðu, og ef þannig yrði haldið áfram og farið eftir samkeppnisaðferðinni, yrðu veitt allt of mörg sett, en vegna þess að vélarnar yrðu allt of margar, yrði kostnaðurinn allt of mikill. Þess vegna þarf að taka ákvörðun um það, hvaða „principi“ við ætlum að fylgja í þessu efni. Annars gæti farið svo, að fjárhagsráð léti í eitt skipti Sambandið og í annað skipti bæjarfélögin sitja fyrir. Það yrði engin stefna, engin ákveðin áætlun. Þetta er annað en það, sem ég hef verið að taka fram hér á undan, enda er hér um ákveðið „princip“ að ræða.

Í seinasta kafla hafði ég fjallað um stefnu þá, sem fjárhagsráð þyrfti að taka og Alþ. að marka því.

Nú koma þá brtt. við 4. gr. Þar er mælt svo fyrir, að ráðið skuli leita samvinnu um samning heildaráætlunar við opinberar stofnanir. félög og einstaklinga, sem framleiðslu, verzlun, iðnað eða annan atvinnurekstur hafa með höndum, er fjárfestingu þarf til. Skulu þessir aðilar senda fjárhagsráði fyrir þann tíma, er það ákveður, áætlun um stofnfjárþörf sína, lánsfjárþörf, gjaldeyrisþörf og vinnuþörf. Hér legg ég til, að bætt sé við: „Þá skal og ráðið hafa samstarf við samtök launþega. bænda, fiskimanna og annarra framleiðenda um samning áætlana sinna og framkvæmd þeirra.“

Því er svo háttað, að til þess að framkvæma sumar ráðstafanir í lýðræðisþjóðfélagi er ekki nægilegt að snúa sér til þeirra, sem hafa yfir fjármagninu að ráða. Fólkið verður líka að vita um þessa áætlun, svo að það geti vitað, hvar er vænlegt að vera, hvar framkvæmdir verði o.s.frv. Ráðið verður því að hafa samband við ýmis samtök landsmanna, sérstaklega við hina vinnandi menn. Það þarf ákveðinn vilja og samtök hjá fólkinu, til þess að hægt sé að framkvæma þessa hluti. Væri t.d. ákveðinn hluti verkalýðsins andvígur áætluninni, yrði mjög erfitt að framkvæma hana. Því þarf að hafa samband við samtök fólksins sjálfs, og því er það nauðsynlegt að hafa sem bezt sambönd við fólkið, og það, hvernig þetta fer úr hendi, er ekki hvað sízt komið undir áhuga og krafti fólksins sjálfs. Þjóðfélagið á mikið undir því, að framkvæmdin takist vel, en það verður því aðeins, að ráðið hafi samstarf við hinar vinnandi stéttir þjóðfélagsins.

Þá er enn fremur ákveðið, að fjárhagsráð skuli hafa samvinnu við lánsstofnanir í landinu um samning fjárfestingaráætlunar, og ber þeim að skýra fjárhagsráði frá fjármagni því, er þær hafa yfir að ráða. Á eftir þessari málsgr. legg ég til, að komi: „Skulu lánsstofnanirnar síðan framfylgja fjárfestingaráætluninni og ákvörðunum hennar í lánastarfsemi sinni.“

Þetta er alveg sjálfsögð setning og felur þó mikið í sér. Ráðið verður auðvitað að hafa samstarf við lánsstofnanirnar, en það verður líka að tryggja, að þær hagi starfsemi sinni í samræmi við ákvarðanir ráðsins. Væri þetta ákvæði ekki, væri þetta ekki tryggt, væri það gat í l. Þegar landbn. þessarar hv.d. ræddi frv. um ræktunarsjóðinn, var hún sammála um þessi ákvæði, eins og ég hef tekið þau upp. Það hlýtur líka að vera meginatriði. að lánsstofnanirnar hafi ekki aðeins samvinnu við ráðið, heldur vinni líka að framkvæmdinni. En verði þetta ekki í l., verða þau aðeins pappírsgagn, eða sífelld togstreita verður á milli ráðsins og lánsstofnananna. Við höfum haft þá reynslu í sambandi við nýbyggingarráð og landsbankann, að þessar tvær stofnanir litu mjög ólíkum augun á, hvaða lánapólitík bæri að reka. Þegar nýbyggingarráð samdi ýtarlegt frv. um fiskveiðasjóð, var af hálfu landsbankans hafin mjög hörð gagnrýni á frv. Síðan voru deilur milli bankans og ráðsins um þetta, sem ollu því, að frv., sem var til um haustið, var ekki lagt fyrir þingið fyrr en komið var undir jól, og var þó ágreiningur um það innan ríkisstj. Stjórn landsbankans tókst svo að orka svo á ýmsa hv. þm., að frv. var breytt verulega. Og hvað sem deila má um þetta, þá er það þó víst, að nýbyggingarráð hafði þá skoðun, að þetta væri hið mesta nauðsynjamál, en landsbankinn var andvígur því. Það hafði svo þær afleiðingar, að lánamarkaðurinn. sem var mjög góður 1945, eyðilagðist hvað sölu á bréfum stofnlánadeildarinnar snerti. Ég býst við, að ef frv. nýbyggingarráðs hefði verið samþ. um haustið, hefði verið hægt að selja fyrir tugi milljóna fram að nýári. En 1946 eyðilagðist lánamarkaðurinn af ýmsum orsökum, svo að ekki var hægt að selja neitt fyrr en tekinn var upp áróður fyrir því og þá fyrir um 12 milljónir, sem sýnir hvað hefði verið hægt að selja á sæmilegum tímum. Það er því nauðsynlegt, ef ráðið á að geta unnið það verkefni, sem því er ætlað, að tryggja það, að lánsstofnanirnar framfylgi fjárfestingaráætlun þess. Það er búið að ræða svo mikið um togstreituna milli viðskiptaráðs og nýbyggingarráðs og nýbyggingarráðs og landsbankans, að ég trúi ekki, að hv. þm. vilji halda þeirri togstreitu áfram.

Það er svo breytt um í þessu frv., að fjárfestingin er tekin í hendur hins opinbera til þess að tryggja það, að réttilega sé farið með fjárfestinguna. En þar sem lánsstofnanirnar hafa það hlutverk að stjórna þessu með sinni lánapólitík, verða að vera fyrirmæli um það, að ákvarðanir ráðsins skuli framkvæmdar af lánsstofnununum. Þetta verk ríkisstj. væri óklárað, ef þessari setningu væri sleppt úr, enda alltaf verið á þetta bent, þegar um þetta hefur verið rætt.

Þá hef ég lagt til, að aftan við gr. verði bætt: „Fjárhagsráð skal beita sér fyrir og hafa forustu um skipulagningu þeirra átaka, er þjóðin gerir á sviði fjármála og atvinnulífs til þess að framfylgja ákvörðunum þess. Sérstaklega ber því að beita sér fyrir fjáröflun meðal þjóðarinnar til slíkra fyrirtækja og annast upplýsingastarfsemi um þau. Enn fremur skal ráðið gefa út leiðbeiningar til almennings um þær atvinnuhorfur, er séu í hinum ýmsu greinum, er ráðið hyggst að stuðla að:

Jafnframt því sem ráðið stjórnar fjárfestingunni, er nauðsynlegt, að það geri meira en að fyrirskipa, það þarf líka að hafa áhrif á þjóðina í þessum málum. Við skulum taka dæmi til skýringar. Nú ákveður ráðið, að nauðsynlegt sé að koma upp áburðarverksmiðju. Ríkisstj. álítur hins vegar, að það svari ekki kostnaði, og telur ríkissjóðinn ekki hafa fé til að leggja fram til þess. Ráðið ákveður þá að bjóða út lán í þetta fyrirtæki. Þá verður ráðið að hafa forgöngu fyrir upplýsingastarfsemi um þetta fyrirtæki meðal þjóðarinnar. Við höfum ekki mikla reynslu af svona „propaganda“, áróðri, hér á Íslandi. Við höfum þó dæmi frá eimskipafélaginu, þegar það var stofnað, og nú fyrir skemmstu frá stofnlánadeildinni, og það er einmitt ágætt dæmi. Bréfasalan var dauð, þangað til nýbyggingarráð og landsbankinn tóku til að „agitera“ fyrir þessu með þeim árangri, að á tveim mánuðum voru keypt bréf fyrir 10–12 millj. kr., þegar engin önnur bréf voru seljanleg. Þetta sýnir, að verzlunar- og hagfræðilögmáli, sem gildir á einhverjum tíma, getur verið breytt með starfsemi þess opinbera, þegar það hefur áróður fyrir því að fá menn til að leggja fé í ákveðin fyrirtæki. Þetta er svo nauðsynlegur liður í verki fjárhagsráðs, að binda verður ráðið skyldu til að gera þetta.

Varðandi síðasta málslið er það að segja, að það er ekki aðeins rétt að láta þá, sem hafa fjármagnið, vita, hvað er ætlunin að leggja í, það er líka rétt að segja almenningi, að hverju hann á að einbeita sér. Þetta er nauðsynlegt af því. að þegar fjárhagsráð ákveður sérstaka þróun í atvinnumálum landsins, útheimtir það einbeitingu vinnuaflsins og alveg sérstaklega, að faglærða vinnuaflinu sé beint í ákveðnar greinar. Það er því nauðsynlegt, að ráðið veiti mönnum, áður en til framkvæma kemur upplýsingar um, hvað í vændum sé. Við skulum taka dæmi. Einn af erfiðleikunum í sambandi við kaup hinna nýju togara var sá, að fyrirsjáanlegt var, að skortur yrði á vissum fagmönnum, sérstaklega vélstjórum. Við í nýbyggingarráði vöktum eftirtekt manna á þessu og gerðum ráðstafanir til þess, að nægilega margir fagmenn yrðu til, þegar skipin kæmu. Nú getur það tekið allt að 8 ár að útskrifast sem vélstjóri, og er það út af fyrir sig óviðunandi, að svo langan tíma þurfi til þess, og algerlega ónauðsynlegt, en þetta sýnir, hversu nauðsynlegt er, að allar áætlanir séu gerðar með alllöngum fyrirvara. Það tekur langan tíma að fá fagmenn, en þeir eru líka eitt það dýrmætasta, sem eitt þjóðfélag á, sérstaklega þegar það verður að byggja á fullkomnum iðnaði.

Fjárhagsráð verður því að gefa út leiðbeiningar til fólksins, til þess að það viti, á hvaða sviði það á að einbeita sér. Dæmi: Fyrir ári síðan þótti það hin mestu uppgrip að vera vörubílstjóri og vörubifreiðar því hin eftirsóttasta vara. Allir lögðu mikið kapp á að eignast þær, og varð það til þess, að þær fóru í mjög hátt verð á svörtum markaði. Þessi stofnun, fjárhagsráð, getur nú ákveðið það með innflutningsráðstöfunum, að það verði engin uppgrip að vera vörubílstjóri. Nú skulum við segja, að ráðið ákveði að gera þetta, þá gerir það almenningi kunnugt um þessa ákvörðun og þar með, að nægilegt muni verða af vörubílum, svo að ekki sé ráðlegt að kaupa þá á svörtum markaði. Með svona ráðstöfunum væri mörgum bjargað frá því að tapa fé í svona braski, en stuðlað að því, að menn létu fé sitt í annað, þar sem meiri þörf væri fyrir það, t.d. við landbúnað eða vélstjórn á togurum.

Svona leiðbeiningar eru líka nauðsynlegt atriði í starfsemi ráðsins. Það er oft eins mikið komið undir því. að þannig sé hugsað um vinnuna, ekki síður eða eins og fjármálin. Framkvæmdir fjárhagsráðs snerta hvern einasta þegn í þessu þjóðfélagi, og þeir eiga kröfu á að vita, hvert er verið að stefna.

Þá koma brtt. við 6. gr. Eins og hún er í frv., er gengið út frá, að fjárhagsráð geri áætlanir sínar, áður en fjárl. eru samin fyrir ár hvert. En nú er ákveðið í stjskr., að Alþ. skuli koma saman 15. febr. Fyrir þann tíma yrði ráðið að hafa áætlunina tilbúna, og raunar alllöngu áður, svo að hægt sé að semja fjárl. með tilliti til hennar, þannig að áætlun um framleiðslu ársins 1948 yrði til í ársbyrjun 1947. Það er við búið, að eftir því sem þingið bindur sig meira við áætlun. þá verði óhugsanlegt að semja árið 1946 áætlun fyrir 1948. Mér finnst, að ríkisstj. hafi hugsað sér, að ekki þyrfti að leggja áætlunina fram fyrr en seint á árinu, og hef tekið það upp í mína brtt.. sem eiginlega er aðeins vatill. Það, sem ég álít, að skera þurfi sérstaklega úr um, er, hvaða aðili hafi úrslitavaldið um samning áætlunarinnar. og geri ég ráð fyrir, að það verði Alþ. Áætlunin yrði lögð fyrir Alþ. eins og fjárl. nú, og eins og stjórn stendur eða fellur með fjárl., þá yrði það eins með áætlun um þjóðarbúskapinn í heild. Við verðum að gera okkur ljóst, að með stofnun fjárhagsráðs er verið að reka smiðshöggið á þá þróun að breyta starfssviði Alþ. og færa það endanlega í það horf að vera stjórn á þjóðarbúskapnum í viðbót við að hafa á hendi stjórn ríkisins. Heildaráætlunin yrði þannig fjárl. þjóðarbúskaparins. Áður hefur Alþ. farið í vaxandi mæli inn á það að stjórna þjóðarbúskapnum og skipað ýmsar nefndir í því skyni, t.d. nýbyggingarráð. Nú á að setja á stofn fjárhagsráð til að búa til fjárl. þjóðarbúskaparins. Ég hef aukið við 6. gr. og geng út frá því, að ríkisstj. hafi heildaráætlunina til hliðsjónar við samning fjárl., áætlunina þurfi svo að leggja fyrir Alþ., og fái hún þar endanlega afgreiðslu. Ég geng út frá því, að Alþ. sitji 1. okt., en ef svo verður ekki, þá kveðji ríkisstj. það saman til fundar um áætlunina, sem í frv. stjórnarinnar er hugsuð, að eigi að vera svo nákvæm, að ég undrast stórlega, enda hefur nú meiri hl. fjhn. dregið þar úr í sínum till., að mínu áliti til bóta. En vegna þess, hve gert er ráð fyrir nákvæmri áætlun, tel ég rétt að leggja hana fyrir Alþ. Séráætlanir fyrir langt tímabil eru ekki þess eðlis, að hægt sé að leggja þær fyrir Alþ. til bindandi afgreiðslu, heldur til leiðbeiningar, og er mál, sem vel má „diskutera“. En ef heildarstefnan, sem langar áætlanir eiga að fylgja, er mótuð eins og gert er ráð fyrir í minni till., þá er ekki þörf að taka þær áætlanir fyrir á Alþ., en þó geri ég ráð fyrir, að til slíks geti komið. Ég geng út frá því, að ef ágreiningur er í fjárhagsráði um heildarstefnuna, þá verði Alþ. að skera úr, vegna þess að framkvæmdir hvers árs miðast við það, sem gengið er út frá í heildaráætlun fyrir langt árabil. Legg ég því til, að fjárhagsráðsmenn hafi rétt til að leggja till. sínar fyrir Alþ., en þann rétt hafa náttúrlega fyrir þeir, sem eiga sæti á þingi. Það „principiala“ við þessa grein er í stuttu máli það, að Alþ. hafi endanlegu ráðin. Það má segja. að ráðin séu hjá Alþ., þar sem stjórnin er ákveðin af því. En ef við athugum meðferð fjárl., þá er höfð sérstök fjvn. og reynt að koma þar að mörgum sjónarmiðum einstakra þm., og kjarninn í valdi Alþ. er einmitt fjárveitingavaldið. Það er sama eðlis og fjárl., þegar semja á heildaráætlun um allar framkvæmdir landsmanna. Á Alþ. þarf að fást eitthvert samkomulag, þegar fara á að hefja áætlunarbúskap, því að það verður að vera tryggt, að stórar áætlanir megi leggja fyrir þingið, án þess að allt fari í handaskolum, þegar Alþ. hefur endanlega farið inn á þá braut að taka upp áætlunarbúskap.

Ég hef borið fram litla brtt. við 7. gr., sem ég býst við, að meiri hl. fjhn. hefði getað fallizt á. Hún er um það, að fjárhagsráð taki við þeim verkefnum, sem nýbyggingarráði eru nú falin í ýmsum l., jafnskjótt og það hefur verið lagt niður. Engin ákvæði eru um þetta í frv., eins og það er nú, hver rækja skuli störf þau, sem nýbyggingarráði og viðskiptaráði eru falin í öðrum l. T.d. má nefna l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins. en í þeim er ákveðið. að til þess að fá lán í stofnlánadeildinni þurfi meðmæli nýbyggingarráðs. Ef þetta ákvæði fellur burt. svífur þetta í lausu lofti, og mætti ætla, að stjórn stofnlánadeildarinnar ætti ein að ráða, hverjir fengju lán, en slíkt er óheppilegt. vegna þess að þetta er veigamikill þáttur í framkvæmd áætlunarbúskaparins, og þrátt fyrir deilur milli nýbyggingarráðs og landsbankans, þá hefur upp á síðkastið vegna valds nýbyggingarráðs orðið vaxandi samvinna um slíkar framkvæmdir, og má segja, að samstarfið hafi verið farið að ganga vel, en færi út um þúfur, ef málsgr. eins og í minni brtt. væri ekki tekin upp. Þetta vald. sem nýbyggingarráð hefur, er vissulega mikið öryggi fyrir menn utan af landi, er reyna að fá lán, og við í nýbyggingarráði höfum gert ráðstafanir til að hjálpa þeim, og hefur það oft borið árangur, því að það er hægara að fá bankastjórana til að taka tillit til óska manna, ef opinber valdastofnun liðsinnir þeim. Ef um það er að ræða, að fjárhagsráð byggði bæi úti á landi eða setti upp atvinnurekstur, þá væri nauðsynlegt, að það tæki við störfum nýbyggingarráðs á þessu sviði. Í fleiri l. eru ákvæði um nýbyggingarráð. t.d. í l. um Höfðakaupstað og l. um nýbýlastjórn, þar sem nýbyggingarráð á að tilnefna einn mann. Finnst mér í fyllsta máta eðlilegt, að fjárhagsráð taki við öllum þessum verkefnum. sem nýbyggingarráð hefur nú með höndum.

Í 8. gr., eins og hún nú er í frv., er sérstaklega rætt um samvinnu verkamanna og atvinnurekenda. Þetta er þörf og réttmæt grein, en það er rétt, að svona hlutir séu gagnkvæmir. Það er rétt að stefna beri að auknum afköstum verkamanna, en það verður líka að auka afköst fjármagnsins. Því legg ég til, að við sé bætt. að ef verkamenn óska þess, þá skuli settar á stofn framleiðslunefndir, er hafi samstarf við viðkomandi atvinnurekstur, og skal fjárhagsráð einnig hafa samvinnu við þær. Það mundi þýða, að eins og atvinnurekendur vænta aukinna afkasta verkamanna, þannig vænta verkamenn aukinna afkasta fjármagns og véla. Sjálfstæðismenn hafa flutt frv. svipaðs eðlis, og vona ég, að þeir athugi þessa till. Nú á síðustu árum hafa svona nefndir verið settar upp, t.d. í Englandi, og gefið góða raun og sýnast þær hafa verið veigamikill þáttur í að bjarga Englendingum út úr þeim vandræðum, sem að þeim hafa steðjað. Það mun því heppilegt að setja upp slíkar nefndir og í samræmi við andann í 8. gr. frv. En það er vissulega réttmætt, að tryggt sé jafnrétti verkamanna og atvinnurekenda.

Þá kemur að b-lið brtt. við 8. gr., en hann er um, að aftan við gr. bætist ákvæði um það, að ef fjármagn og vinnuafl landsmanna sækir meir inn á sérstök atvinnusvið utan beinnar framleiðslustarfsemi en þörf er fyrir frá þjóðhagssjónarmiði. þá skal fjárhagsráð rannsaka orsakir slíks og gera tillögur til ríkisstj. og ráðstafanir, að svo miklu leyti sem í þess valdi stendur, til þess að draga úr slíku aðstreymi. Samstarf skal hafa við samtök verkalýðsins og eigendur fjármagnsins um þessar aðgerðir, eftir því sem kostur er á. Þetta er að nokkru leyti tekið upp úr reglugerð fyrir nýbyggingarráð. Nýbyggingarráði er nú fyrirskipað að rannsaka, þegar slíkt aðstreymi er of mikið í einhverja atvinnugrein. og gert að hafa samstarf við verkamenn og atvinnurekendur.

9. brtt. er um, að koma skuli ný grein svo hljóðandi: „Fjárhagsráði er heimilt að fela atvinnudeild háskólans og rannsóknaráði ríkisins svo og öðrum rannsóknar- og vísindastofnunum ríkisins sérstök verkefni. er snerta rannsókn á auðlindum landsins, jafnt á jörðu sem sjó, og að gera tilraunir og rannsóknir varðandi hagnýtingu lífrænna sem ólífrænna efna, sem gildi gætu haft fyrir atvinnulíf landsmanna.“ — Það er mitt álit, að þótt kostnaður við rannsóknir sé oft mikill, þá sé um of horft í þann kostnað, sem líklegur er til að bera mikinn árangur seinna meir. Það er að mestu órannsakað, hvaða auðlindir Ísland hefur að geyma. Við eigum ýmsa ágæta kunnáttumenn og sérfræðinga, en kraftar þeirra eru ekki notaðir sem skyldi. Það getur orðið tafsamt, ef það á að ganga gegnum stjórnardeildir, hvenær og hvar rannsókn eigi að hefja, og legg ég því til, að fjárhagsráði sé heimilt að stofna til rannsókna og tilrauna í þágu atvinnuveganna, og má þá búast við betri árangri. Þá er ekki síður nauðsynlegt að vinna fullkomlega úr framleiðslunni. Með því að vinna fullkomlega úr síldarlýsinu, gætum við gert það margfalt verðmeira, og af fiskaflanum er ekki nema helmingurinn nýttur, og höfum við sannarlega ekki efni á að fleygja kannske því dýrmætasta úr honum.

Það þyrfti að vísu nákvæmar, efnafræðilegar rannsóknir til að vinna úr öllum innyflum fisksins, en það þarf að gera þær rannsóknir og tilraunir, þótt þær séu stundum mjög dýrar. Það er ef til vill eitt það erfiðasta fyrir okkur sem smáþjóð að reka allar tilraunir, sem þarf í þessu sambandi. Ef til vill gæti tekizt samstarf með okkur og Norðmönnum í þessu efni, báðum þjóðum til hagsbóta, og víst er það, að fyrir hvert ráð, sem stofnað er og falið að hagnýta framleiðslu og auðlindir landsins sem bezt, er slík efnafræðileg rannsókn ekki þýðingarminnst. Ég veit, að ekki er gott fyrir okkur þm. að dæma um þetta, en við verðum að reyna að setja okkur sem bezt inn í hlutina, ef við ætlum að stjórna þjóðarbúinu, eins og við höfum tekið að okkur. Þegar lagt er á herðar Alþ. og ríkisstj. að hugsa fyrir þjóðina næstum því að segja í þessum efnum, þá verðum við að finna til skyldunnar, sem á okkur hvílir, og breyta hér til. Við vitum vel, að enginn útgerðarmaður getur byggt stóra rannsóknarstöð, það þarf ríkið að gera. Erlendis eru slíkar stofnanir eitt af því þýðingarmesta. sem unnið er. Ég get t.d. nefnt, að Kodak-hringurinn ver árlega til sinna „laboratoria“ 50 millj. dollara, sem er allmiklu hærri upphæð en samanlögð fjárlagaupphæð okkar, en þetta gefur hugmynd um þær „gigantísku“ upphæðir, sem auðhringar verja til rannsóknarstofnana sinna. Og því er það, eins og nú er í veröld hinnar gífurlegu teknísku þróunar, að lífsnauðsyn er að rannsaka þessa hluti til hlítar. Við vitum t.d., að úr sjó getum við unnið flestöll efni, sem unnin eru úr jörðu, og þar sem við höfum jarðhitann, höfum við sérstök skilyrði til að vinna ýmis efni úr sjónum með uppgufun. Og þetta krefst fljótt úrlausnar. Það er nauðsynlegt að gera sér það ljóst, að þessi ár og þessir mánuðir, sem eru að líða, eru hið stórkostlegasta breytingatímabil um efnafræðilegar rannsóknir, og möguleikarnir eru ákaflega miklir, ef menn fylgjast með tímanum. Rétt er það, að það er aðeins fyrir örfáa sérfræðinga að fylgjast vel með í þessum efnum, en hitt þarf að tryggja, að til séu þó einhverjir menn með okkar þjóð, sem fylgjast vel með í fremstu röð, og þótt ekkert sjáist eftir þá í eitt, tvö eða þrjú ár, þá er ekkert við því að segja, ef þeir koma aðeins einhvern daginn með hluti, sem þeir geta gert. Því er það, að valdið til að ráða sérfræðinga og hafa stjórn rannsóknarstofnana ríkisins er mjög þýðingarmikið vald, ef fjárhagsráð er vakandi í þeim efnum. Í fyrsta lagi á að miða við, að sérfræðingar okkar fylgist vel með, í öðru lagi, að þeir fái tæki til hagnýtingar. Og því hef ég sett þessa grein þarna inn. Ég geng nefnilega út frá því, að samkv. eðli fjárhagsráðs verði því helzt síðar álasað fyrir það, sem það hefur vanrækt að gera, og því þarf að gefa því vald til að geta ráðið verulega um hluti, sem það vildi ráða.

Þá hef ég gert hér grein fyrir öllum brtt. mínum, sem eiga við fyrstu kafla frv., og ég hef í framsöguræðu minni, brtt. og nál. sérstaklega einbeitt mér á fyrsta kaflann. Það er það svið frv., sem ég hef mestan áhuga og kunnugleika á, og við það miðast till. mínar. Þó er hér síðasta brtt. við annan kafla frv., það er 10. brtt. á þskj. 725, sem er við 12. gr. Hún er á þá leið, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir framleiðslutæki og annað, sem greiðast á af nýbyggingarreikningi, skuli yfirleitt veitt þeim, sem ætla sér að nota eða starfrækja tækin. Nýir aðilar skulu hafa sama rétt til kaupa á atvinnutækjum og þeir, sem fyrir eru.

Ég geng hér út frá því, að í verkaskiptingu innflutnings- og gjaldeyrisdeildar fjárhagsráðs verði aðskilin leyfi út á nýbyggingarreikning og leyfi til almenns vöruinnflutnings. Áður hafa gilt tvennar reglur um þetta í nýbyggingarráði og viðskiptaráði. Í viðskiptaráði hafa leyfi verið veitt í ákveðnu hlutfalli við innflutning fyrirtækjanna áður, það er hið svo kallaða „kvótasystem“, og þetta hefur verið gert, þó að það skapi nýjum fyrirtækjum mikla erfiðleika. Í nýbyggingarráði hefur aftur verið fylgt þeirri reglu, að menn hafa fengið leyfi án tillits til þess, hvort þeir hafa verið í viðkomandi atvinnugrein áður eða ekki, og það er samkvæmt þeim fyrirmælum í reglugerð nýbyggingarráðs, að nýir menn skuli njóta sama réttar um leyfisveitingar og aðrir. Ég álít þetta allþýðingarmikið atriði og rétt, að þetta reglugerðarákvæði nýbyggingarráðs gildi áfram, þegar fjárhagsráð tekur við. Viðskiptaráð hefur yfirleitt veitt innflytjendum leyfin, og ef við tökum dæmi, t.d. af manni, sem ætlar að kaupa sér rennibekk, þá hefur hann í því tilfelli orðið að kaupa rennibekkinn af heildsala eða innflytjanda. Hin almenna regla í nýbyggingarráði er hins vegar sú að veita slíkum manni sjálfum beint þetta leyfi, en ekki firmum, sem flytja inn vöruna og hafa ef til vill umboð fyrir hana. Sá maður, sem fær þannig leyfi fyrir atvinnutæki eða framleiðslutæki, ræður því þá sjálfur, hvar hann kaupir hlutinn. Ef hann fær t.d. leyfi fyrir vörubíl, þá ræður hann, hvar hann kaupir bílinn. En innflytjendur hafa oft í slíkum tilfellum fengið leyfin beint í sínar hendur frá viðskiptaráði. Og viðvíkjandi innflutningi á öllum stærri tækjum er regla nýbyggingarráðs alveg sjálfsögð. Og þar sem hin frjálsa samkeppni kemst ekki að með innflutning á slíkum tækjum almennt, þá ætti kaupandinn sjálfur að ráða, hjá hvaða umboðssala hann kaupir, og gæti hann þá látið gera sér tilboð og tekið hinu hagkvæmasta. Ég álít alveg nauðsynlegt að lögfesta þessa reglu, eins og hún hefur þegar verið meira og minna fest í reglugerðum.

Ég ætla hér ekki að fara út í 2., 3. og 4. kafla frv. að svo stöddu, geri það ef til vill eitthvað seinna. Ég vildi gjarnan gera brtt. við þá einnig, en ég hef einbeitt mér á fyrsta kaflann, eins og ég hef áður sagt og brtt. mínar bera með sér, á framkvæmd hans veltur mest, þar eru gerðar mestar breytingar frá því, sem nú er. Ég hef því lagt mikla vinnu í það undanfarnar vikur að gera brtt. við þennan frv.-kafla, og ég vildi mælast til þess, að hv. dm. vildu athuga gaumgæfilega þær till., sem hér liggja nú fyrir. Með þessu frv. erum við að fara inn á nýtt starfssvið, og það er nauðsynlegt, að við alþm. gerum okkur það ljóst, að við erum hér með, meira eða minna, að taka af landsmönnum afskipti þeirra af atvinnulífinu. Ég vil sérstaklega mælast til þess, að þm. hafi þetta í huga og ræði þessar till. Það er trú mín, að ef við sleppum að ræða þessar till. og samþykkja þær að mestu, þá sleppum við miklu tækifæri. Við vitum nú, að það hefði verið mikið óhapp, ef ekki hefði náðst samkomulag um það 1944 að ráðstafa 300 milljónum króna til togarakaupa o.fl., en ef við samþykkjum nú ekki að leggja 25% af útflutningi hvers árs á nýbyggingarreikning, þá munum við einmitt á þessum árum sleppa einhverju hinu bezta tækifæri til að hagnýta auð næstu ára sem framast er unnt, og það verður þungt högg fyrir atvinnulífið að hagnýta ekki þann auð, sem sjávarútvegurinn skapar á næstu árum. til að gera þá atvinnulegu gerbyltingu, sem þarf að verða. Við erum nú meira og minna sammála um, að rétt var stefnt með byltingu og nýsköpun skipastólsins, sem var framkvæmd strax og hiklaust, en ég vil undirstrika það, að ef við hagnýtum ekki þann auð, sem þessi skip færa í þjóðarbúið á næstu árum, þá spilum við úr höndum okkar tækifæri til stóriðju á grundvelli raforkuframkvæmda. Það tækifæri kemur ef til vill aftur, en kostar þá miklu meira, eins og það kostaði mikið að nota ekki allar 600 milljónirnar 1944 til atvinnulífsins. Eins leiðir það nú til ófyrirsjáanlegs tjóns, ef við leggjum ekki 25% til hliðar á nýbyggingarreikning til ráðstöfunar fyrir fram. Það gildir að spara gjaldeyrinn til óþarfans, en nota hann til þarfa. Ef við ætlum að nota tækifærið, þá verðum við að þora að líta fram og festa þetta fé og ráðstafa því fyrir fram, taka ákvarðanir, sem við getum glaðzt yfir og verið stoltir af að hafa tekið, segjum eftir einn áratug. Einstaklingarnir hafa þurft á sparsemi og framsýni að halda til að komast áfram í lífsbaráttunni, og fleiri slíkar dyggðir mætti nefna. Við, sem hugsum fyrir þjóðina að svo mörgu leyti, ef svo mætti segja, við þurfum að þora að spara og ráðstafa því, sem lagt er til hliðar, til uppbyggingar íslenzku atvinnulífi.

Ég vona, að hv. þm. íhugi þetta vel.