06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Pétur Ottesen:

Ég mun að sjálfsögðu verða við tilmælum hæstv. forseta um að takmarka mál mitt, og máske þarf ég ekki einu sinni allan þann ræðutíma, er hann tiltók.

Á þskj. 559 er brtt., sem ég flyt hér ásamt hv. 1. þm. Skagf. og hv. 6. þm. Reykv., um það, að Búnaðarbanki Íslands fái nokkra íhlutun um verzlun á erlendum gjaldeyri. Búnaðarbankinn er ört vaxandi stofnun, starfsfé hans hefur rúmlega sexfaldazt á síðustu 7 árum og viðskiptaveitan aukizt um 600% frá byrjun. Aðalverksvið bankans er, eins og kunnugt er, í sveitum landsins, en viðskipti hans hafa einnig aukizt mikið hér í bænum á síðustu árum, bæði með lánum til iðnaðar, húsbygginga og verzlunarfyrirtækja. Er hér að langmestu leyti um skammæja víxla að ræða, á meðan verið er að afla lánsfjár til lengri tíma.

Útlán sparisjóðsdeildarinnar skiptust nokkurn veginn þannig 31. des. 1945:

Landbúnaður ...................Kr. 17500000

Verzlun .......................... — 6800000

Iðnaður .......................... — 6200000

Byggingar ....................... — 4300000

Útvegur .......................... — 125000

Ýmislegt ........................ — 7500000

Samtals eru þessi viðskipti 42 millj. 425 þús. kr. Ég hef ekki fyrir hendi slíka sundurliðun 31. des. 1946, en þá hafði heildartalan vaxið upp í rúmlega 50 millj. kr.

Auk þessa eru útlán hinna einstöku sjóða bankans, sem öll eru til landbúnaðar, og samkvæmt nýju l. um landnám. nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum er áformuð stórfelld aukning útlána. Þessi sjóðir eru: byggingasjóður, veðdeild, ræktunarsjóður, viðlagasjóður, nýbýlasjóður og smábýladeild. Í árslok, eða 31. des. 1945, námu viðskipti þessarar deildar bankans 10,8 millj. kr., en í árslok 1946 11 millj. 775 þús.

Af öllu þessu má sjá, að veita þessarar stofnunar er orðin afar mikil og fer ört vaxandi. Það virðist því mjög eðlilegt, að bankastofnun eins og þessi eigi þess kost að kaupa erlendan gjaldeyri til þess að greiða fyrir viðskiptum viðskiptamanna sinna. eigi siður en hinir bankarnir tveir, enda hafa ýmsir viðskiptavinir Búnaðarbankans þráfaldlega óskað eftir því, að þeir gætu einnig haft gjaldeyrisviðskipti sín við hann. Í brtt., sem við flytjum um þetta efni, er stungið upp á því, að hlutur Búnaðarbankans í þessum utanríkisviðskiptum verði aðeins 16% þess gjaldeyris, sem til fellur árlega, og er þetta dregið hlutfallslega af hinum bönkunum, miðað við þá skiptingu, sem gilt hefur síðan 1943 um gjaldeyrisviðskipti bankanna, sem er það, að Útvegsbankinn hefur heimild til þess að hafa 1/3 af gjaldeyrisviðskiptunum. Samkv. þessu yrði þá skiptingin þannig, að Landsbankinn fengi 56%, Útvegsbankinn 28% og Búnaðarbankinn 16% af gjaldeyrinum. Þetta er þá harla smár hluti, viðskiptin, sem Búnaðarbankanum eru ætluð hér. Hins vegar felst þó í þessu. ef samþ. er þessi brtt., viðurkenning á því, að þessi banki fái einnig þátttöku í þessari verzlun, sem virðist vera ákaflega eðlilegt, eftir því sem högum þessarar stofnunar er nú háttað. Það er vitað, að þessi viðskipti hafa gefið bæði Landsbankanum og Útvegsbankanum allgóðan arð. Og það virðist enn fremur vera eðlilegt, að Búnaðarbankinn fái einnig aðstöðu til þess að fá nokkra hlutdeild í þeim arði, sem leiðir af þessum viðskiptum — auk þess sem það virðist líka vera fullkomin sanngirniskrafa, að þeir menn, sem reka viðskipti sín við Búnaðarbankann, fái einnig aðstöðu til þess að hafa við þennan banka, innan þeirra takmarka, sem hér eru sett, viðskipti í sambandi við gjaldeyrisverzlunina. — Ég vænti því, að hv. þdm. muni líta með sanngirnisaugum á þetta mál, þannig að þessi brtt. fái samþykki hv. þd.