06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég nokkra grein fyrir því, hvert væri álit mitt á aðalatriðum þess, og vék nokkuð að því, að mér þætti gengið hér inn á nokkuð mikla einræðisbraut í okkar fjármálalífi. Eftir þær umr., sem þá urðu, og eftir þær smávægilegu brtt., sem hér eru fluttar af hv. meiri hl. fjhn., þá þóttist ég sjá, að það hefði ekki mikla þýðingu að flytja mjög róttækar brtt. við þetta frv., sem að sjálfsögðu er samkomulag um, að í einhverri mynd eigi að ganga fram. Samt sem áður hef ég nú leyft mér að flytja hér tvær brtt. á þskj. nr. 690 og vil fara um þær nokkrum orðum.

Ég lýsti því hér við 1. umr., að þegar svo væri komið, að hér ætti að fara að leggja mikið af valdi hæstv. Alþ. í fjármálum landsins undir eina nefnd, þá væri það hin minnsta krafa, sem Alþ. gæti gert, að það kysi þá þessa n., en hún væri ekki stjórnskipuð. Í samræmi við þetta hef ég leyft mér að flytja brtt. um, að fjárhagsráð sé kosið með hlutfallskosningu af Alþ. til tveggja ára í senn og jafnframt séu þá kosnir varamenn í þetta ráð. Segja má, að út af fyrir sig sé það aukaatriði, hvort varamenn eru eða ekki eða hvort kjörtímabil þessa ráðs er tvö ár eða lengra. En ég hef stungið upp á þessu, ef það væri hugsanlegt samkomulag við hv. fjhn. um þetta. — Þá hef ég lagt til, að 5. gr. frv. verði orðuð um. Við 1. umr. kom það greinilega fram hjá hæstv. fjmrh., að hann teldi, að það væri á engan hátt tryggt, að þeirri starfsemi yrði haldið áfram með hinni breyttu skipun. sem framkvæmd hefur verið af nýbyggingarráði á undanförnum tveimur árum. Og því miður er ég mjög hræddur um, að um leið og nýbyggingarráð verður lagt niður og sameinað viðskiptaráði. eins og ætlazt er til með þessu frv., þá yrði meira eða minna af þeirri starfsemi, sem nýbyggingarráð hefur haft með höndum, vanrækt allmiklu meir en verið hefur. Það er kunnugt mál, að nýbyggingarráð hefur á undanförnum tveimur árum verið ákaflega mikil nytjastofnun fyrir framfarir í landinu, sérstaklega til að greiða fyrir framfaramálum úti um byggðir landsins, því að fyrir þess milligöngu hafa komizt á margvíslegar framfarir víðs vegar um land. Og það er ekki smávægilegt starf, sem nýbyggingarráð hefur haft með höndum. Það hefur haft með höndum að semja áætlun um fjármálalíf og framfarir í landinu og greitt fyrir útvegun og úthlutun margvíslegra tækja, vinnuvéla, bifreiða og annars. Það hefur haft með höndum að undirbúa stórstígar framfarir, bæði til lands og sjávar. Og það hefur undirbúið l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins og l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, sem hvort tveggja er orðið að lögum. Og það hefur undirbúið frv. um ræktunarsjóð, sem enn liggur óafgreitt hér í hv. d. vegna tilmæla frá hæstv. landbrh., því að landbn. hefur ekki afgr. það frá sér enn, vegna þess að það hefur ekki verið til, hvaða breyt. hæstv. ríkisstj. óskaði að gera á því máli. Þá hefur nýbyggingarráð, eins og kunnugt er, haft með höndum leiðbeiningar um útvegun skipa og leiðbeiningar um byggingu iðjuvera og leiðbeiningar og hjálp við útvegun á lánsfé til ýmissa framfaramála. Allt þetta eru verkefni, sem eru jafnvel enn meir fyrir fólkið úti á landsbyggðinni, sem á erfitt með að afla hins og annars til sinna framkvæmda, heldur en þá, sem hafa beztu aðstöðuna samningslega séð. Nú er það kunnugt, að á undanförnum tuttugu árum hefur sveitahéruðum okkar lands verið smátt og smátt að blæða út, bæði að fólki og fjármagni. Og það er af þeim sökum, hvernig hagað hefur verið fjármálastjórn í þessu landi. Þeirra hluta vegna hefur það farið svo, að fólkið hefur dregizt meir og meir í hina stærri bæi, og einkum hingað til höfuðstaðarins. Aldrei hefur þessi straumur þó verið örari heldur en á stríðsárunum síðustu, því að þá var það mjög margt, sem að því studdi að draga fólkið burt frá sveitaatvinnunni og jafnvel einnig úr hinum smærri þorpum. Og ekki sízt vegna þessara hluta er það, að á þessum stríðsárum voru svo að segja allar framkvæmdir í atvinnurekstri einstaklinga stöðvaðar hér á landi. Þangað til nýbyggingarráð tók til starfa. Þetta kom til af því, hve mikill efnisskortur var þá í landinu, og líka af því, að hinir vinnandi menn voru dregnir með háum kaupboðum að setuliðsvinnunni. Og afleiðingin varð, að ekki aðeins nýjar framkvæmdir, heldur einnig viðhald eldri mannvirkja dróst úr hömlu. Það eina, sem í þessum efnum mátti segja, að héldi nokkurn veginn áfram, voru opinberar framkvæmdir, svo sem vegabætur, sem ekki þurfti erlent efni í. Nú er það svo, að þegar verið er að setja hér l. um það að láta allar framkvæmdir, opinberar og framkvæmdir einstaklinga, hlíta yfirráðum eins ráðs, einnar nefndar, þá finnst mér, að það megi ekki minna vera en að gerð sé tilraun til þess í l. að tryggja það, að ekki sé haldið áfram á sömu braut eins og gengið hefur verið né gengið lengra í því, eins og mér þykir mjög mikil hætta vera á nú, að fólkið streymi til stóru bæjanna og fjármagnið líka, þannig að reynt sé að stuðla að því að stöðva þennan straum nokkuð. Og það er áreiðanlegt, að það verður ekki gert á annan hátt en þann að auka verklegar framkvæmdir úti um byggðir landsins, byggingar, samgöngubætur og allar þær framkvæmdir, sem nauðsyn ber til, til þess að sveitafólkið og fólkið, sem býr í þorpum úti á landi, verði ekki áfram eins tiltölulega afskipt um lífsþægindi eins og orðið er og hlýtur að leiða til þess að draga meira og meira af hinu vaxandi fólki áframhaldandi hingað til höfuðstaðarins. Stefnan er sem sagt sú, að ef áfram heldur á sömu braut og verið hefur, a.m.k. síðan í stríðsbyrjun í þessu efni, þá verður þess ekki langt að bíða. að miklu meira en helmingur þjóðarinnar safnist saman hér í Reykjavík og í grennd. Með tilliti til þessa hef ég flutt þessa mína brtt., sem er umorðun á 5. gr. og hljóðar um það, að fjárhagsráð skuli vera skyldugt til að stuðla að því með efnisútvegun, lánsfjárútvegun, útvegun á tækjum og vinnuafli, að þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru í sveitahéruðum landsins, verði ekki stöðvaðar vegna þess, að ekki fáist til þeirra efni eða tæki eða annað nauðsynlegt. En mér sýnist, eftir því sem þetta frv. er formað og eftir því sem talað hefur verið við 1. umr. þessa máls hér í hv. þd., þá stefni allt miklu meir í sambandi við þetta frv. að því að takmarka framkvæmdir en að því að auka þær. Ef um það er að ræða að takmarka framkvæmdir, þá er það svo, að þeir, sem eiga örðugasta aðstöðu og eru lengst frá og allir þurfa að ganga í gegnum margfaldar girðingar nefnda og ráða, þeim er hættast við að verða út undan, þannig að þeir fái ekki nauðsynleg tæki, nauðsynlegt efni og nauðsynlegt fé til þeirra framkvæmda, sem þeim er lífsnauðsyn að koma áfram, ef þeirra atvinnurekstur á að geta haldizt við. Nú hef ég sett það inn í mína brtt., að fjárhagsráð skuli um þessa hluti vera í samráði við nýbýlastjórn ríkisins, við raforkuráð, vegamálastjóra og vitamálastjóra varðandi þær framkvæmdir, sem þeim aðilum koma við. Eins og hv. þm. vita, voru l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum og raforkulög samþ. hér á þingi í fyrra. Og þau l. krefjast mjög mikils fjár, tækja, efnis og vinnu, ef framkvæmdir í því sambandi eiga að verða nokkuð í samræmi við það, sem l. gera ráð fyrir. Nú vakir það fyrir mér, ekki sízt vegna þess, að ég er formaður í nýbýlastjórn, sem á að hafa með höndum yfirathugun á því, hve mikið sé byggt af nýbýlum og endurbyggt af sveitabæjum og húsum úti um landið, að það sé nokkuð tryggt, að ekki sé alveg gengið fram hjá þeim aðilum, sem hér eiga að hafa hönd í bagga um málin, eins og nýbýlastjórn og raforkuráð, svo og vegamálastjóra varðandi samgöngubætur og vitamálastjóra í sambandi við hafnargerðir og lendingarbætur. Virðist það sjálfsagt og eðlilegt og réttlátt, að þetta stóra og valdamikla ráð verði að hafa samráð við vegamálastjóra og vitamálastjóra um samgöngu- og hafnarmál, því að þeir menn hljóta á hverjum tíma að vera þeir menn, sem kunnugastir eru um þá hluti, sem þar er um að ræða. Þess vegna þykir mér það mjög undarlegt, ef hv. alþm. geta ekki fallizt á þann hluta minnar brtt., sem er um það, að fjárhagsráð skuli stuðla að þessum framkvæmdum öllum úti um landsbyggðina og vera í því efni í samráði við þá aðila. sem áður er búið með l. að setja til þess að stjórna þeim framförum, sem þar koma til greina.

En þá kemur að síðustu það, sem ég býst við, að hv. þm. kunni að reka augun fyrst og fremst í og hnjóta um. Og það er sá endir á minni brtt., að þegar skortur verði á gjaldeyri, vinnuafli og lánsfé til þess að fullnægja eftirspurn, þá sé fjárhagsráði heimilt að takmarka byggingar og aðrar framkvæmdir í Reykjavík, eftir því sem nauðsynlegt reynist. Ég get búizt við, að einhver segi sem svo, að þetta sé ekki vinsamleg tillaga í garð Reykjavíkur. En því fer fjarri, að á bak við þessa till. liggi nokkur andúð í garð okkar höfuðstaðar, því að vissulega óska ég eftir, að höfuðstaðarins hag sé sem bezt borgið, að unnt er. En ég tel, að hér eigi að fara saman hagur landsbyggðarinnar utan Reykjavíkur og hagur höfuðstaðarins sjálfs, því að það er sannarlega ekki hagur Reykjavíkur, að hópað sé þangað stöðugt þúsundum á þúsundir ofan af fólki utan af landsbyggðinni til þess að þurfa að byggja yfir þetta fólk hér í Reykjavík, þar sem vafinn verður meiri og meiri á, að tilsvarandi atvinna geti orðið fyrir allan þann fólksfjölda hér í Reykjavík, sem hingað flykkist, jafnframt því sem byggðirnar úti á landi leggjast smátt og smátt í auðn, ef þessi straumur heldur áfram óhindraður, þannig að þeim byggðum er, eins og ég sagði áðan, smátt og smátt að blæða út. Það er talið, að undanfarin tvö til þrjú ár hafi verið byggt hér í Reykjavík fyrir 70 til 90 millj. kr. á ári. En það eru smáar upphæðir í samanburði við þetta, sem byggt hefur verið fyrir úti á landi á sama tíma. Og ef það á svo til að ganga viðkomandi byggingum úti á landinu, að takmarkað verði enn meir, hve mikið þar er byggt, með því að þeir menn, sem þar eiga hlut að máli, verði að fara svo að segja í gegnum margfaldar girðingar ráða og nefnda til þess að fá fyrirgreiðslu fyrir sínum málum, og ef þeir tapa þeirri stofnun, sem vinsælust er orðin allra stofnana, sem með þessi mál hefur haft að gera úti á landsbyggðinni, sem er nýbyggingarráð, þá stefnir það að því að halda við straumnum til höfuðstaðarins, en tálma framkvæmdum og framförum úti á landsbyggðinni, sem ég tel mjög skaðlegt. Ég fyrir mitt leyti hefði álitið, að miklu réttara hefði verið að láta nýbyggingarráð halda áfram og fá meiri völd en það hefur haft en að leggja það niður og sameina starf þess starfi viðskiptaráðs. En úr því að það á að sameina þetta undir einn hatt. finnst mér ekki til of mikils mælzt, að gerð sé í l. alveg skýlaus krafa um, og að það sé ákveðið, að þetta fjárhagsráð vinni í samráði við þær stofnanir og nefndir, sem ég hef hér nefnt, og að það sé skyldað til að stuðla að því, að framfaramálum verði haldið áfram, eftir því sem frekast eru föng til og þeir aðilar hafa aðstöðu til að styrkja, sem ég hef nefnt.

Ég sé að sinni ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um þessar brtt. Það kann að vera, ef einhver mótmæli koma gegn þeim frá einhverjum hv. þd-mönnum, að ég geri nokkru nánari grein fyrir efni því, sem hér er um að ræða í þessum brtt. En ég vænti þess, að menn sjái, að hér er um að ræða till. um nauðsynlegar breyt. á þessu lagafrv., og samþykki þess vegna þessar tvær brtt., sem ég flyt hér á þskj. nr. 690.