06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. Það hefur nú verið mælt fyrir öllum brtt. við frv. Hv. þm. A-Húnv. flytur tvær brtt. við frv., sem hann hefur mælt fyrir. Fyrri brtt. er um það, að kjósa skuli fjárhagsráð með hlutfallskosningu af Alþ. Við í meiri hl. n. lítum svo á, að ríkisstj. eigi að skipa þetta ráð, því að það eigi enginn klofningur að myndast milli ríkisstj. og þessa ráðs, þar sem hvorir tveggja fara með framkvæmdarvald. Þó að bætt sé við verkefni ríkisstj. því að þurfa að skipa nýjar nefndir og ný ráð, á ríkisstj. að hafa höfuðábyrgð á beitingu framkvæmdarvaldsins. Ég játa, að það hefur stundum verið gert á Alþ. að dreifa framkvæmdarvaldinu og koma alls konar stofnunum þar að. En yfirleitt held ég, að það sé röng stefna. Það er rétt, að pólitíska ábyrgðin sé aldrei annars staðar en hjá ríkisstj. sjálfri. Þar fyrir getur ríkisstj. tekið öll réttmæt tillit. Og ég er ekki að gefa í skyn, að stjórnin eigi ekki að taka tillit eins og t.d. til þingflokkanna og hlutfalla milli stærða þingflokka á Alþ. Virðist engin ástæða til að breyta frv. í þessu efni. — Sama er um 2. brtt. hv. þm. A-Húnv. að segja. að meiri hl. fjhn. leggur á móti þeirri brtt., eins og hún er. En þar fyrir getum við viðurkennt ýmislegt af því, sem hv. þm. A-Húnv. sagði í því sambandi. En einmitt með því að gefa þessu ráði nokkurt vald yfir fjárfestingu landsmanna, þá er verið að tryggja betur en nokkurn tíma hefur áður verið gert, að hinar dreifðu byggðir verði ekki afskiptar. Og um leið og við erum að tryggja það, þá er minni þörf en nokkurn tíma áður á því að orða lagagreinar á þann hátt eins og það væri slagur á milli Reykjavíkur annars vegar og landsbyggðarinnar að öðru leyti. Það væri mjög óviðfelldið að sjá í l., að ef eitthvað eigi að skerða, þá skuli það allt koma niður á Reykjavík. Sá hugsanleiki er líka mögulegur, að eftirspurn samtals alls staðar að eftir efni, áhöldum og fjármagni og vinnu verði meiri en hægt er að verða við. Og ef eftirspurn eftir þessum hlutum er svo mikil utan af landi, að hún gæti gleypt allt, sem fyrir hendi væri af þessum hlutum. þá ætti samkv. þessari brtt. að afskipta Reykjavík svo, að hún fengi ekkert. Þegar um umsóknir er að ræða um tæki og fjármagn og framkvæmdaleyfi, þá geta þær orðið helmingi meiri en hægt sé að sinna, svo að það þurfi af öllu þessu eitthvað að klípa. En hitt er rétt, að víða úti um land hafa menn orðið afskiptir í þessum efnum vegna þess skipulagsleysis, sem verið hefur í því sambandi. En hér er verið að reyna að koma á a.m.k. svo miklu skipulagi, að afskekktari staðir verði öruggari í þessum efnum en þeir áður hafa verið.

Þá hefur hv. þm. Borgf. mælt fyrir brtt. sinni og tveggja annarra hv. þm. á þskj. nr. 559. En hún er um það að veita Búnaðarbankanum leyfi til að verzla með erlendan gjaldeyri. Ég vil nú segja það, að þessi brtt. er borin nokkuð seint fram, þegar búið er að eyða okkar mikla gjaldeyrisforða, þannig að nú er ekki um að ræða að verzla með annan gjaldeyri en þann, sem fellur til hér eftir. Auk þess er brtt. komin fram á óheppilegum tíma að því leyti, að Búnaðarbankinn hefur gefið sig að ýmsum öðrum verkefnum en þörfum landbúnaðarins, einmitt á stríðsárunum, þegar eftirspurnin úr sveitunum eftir fé var mikil. Til þess að afla sér tekna og til að hafa fé upp í vexti hefur Búnaðarbankinn þess vegna nú um nokkurra ára skeið lánað til verzlunar og til bygginga og til annarra hluta, sem flestir hafa litið þannig á, að bankinn gerði eingöngu, meðan svo stæði á. Það er bersýnilegt, að landbúnaðurinn er í þörf fyrir svo mikið fé nú á næstu árum, að það væri óheppilegt fyrir Búnaðarbankann að víkja frá hinu upphaflega verkefni og skapa sér nýtt svið. sem kostar hann að hvika að einhverju leyti frá því verkefni, sem honum er ætlað fyrir sveitir landsins. Hann var stofnaður til þess að tryggja sveitum landsins lánamöguleika. Og það er þegar sýnt, bæði af þeim frv., sem liggja fyrir þessu þingi, og yfirleitt af öllum þeim verkefnum, sem liggja fyrir í sveitum landsins, að Búnaðarbankinn verður frekar fjárþurfi fyrir þessa starfsemi en að hann hafi afgang til þess að taka að sér nýja starfsemi. Við þurfum ekki annað en að líta á það frv., sem nú liggur fyrir þinginu um breyt. á ræktunarsjóðsl., til þess að sjá, að Búnaðarbankinn fær ærið nóg að gera við sitt fjármagn. Ég sá líka. að það skein í gegn hjá hv. flm., að þessi brtt. væri mest flutt til þess, að Búnaðarbankinn gæti fengið nokkuð af þeim arði. sem aðrir bankar hafa haft hingað til. En sá arður væri of dýrkeyptur að mínu áliti, ef bankinn færi hans vegna að afrækja það starf, sem hann á að hafa fyrir sveitirnar. Ég skal ekki segja miklu fleira um þessa brtt. En ég hygg, að augljóst sé, að ef Búnaðarbankinn færi að taka upp gjaldeyrisviðskipti. þá yrði það ekki til hagsbóta fyrir landbúnaðinn. Auk þess er það svo, jafnvel að því er snertir útflutningsvörur landbúnaðarins, þá veitir Búnaðarbankinn ekki lán yfirleitt til þeirrar starfsemi. Kaupfélögin hafa yfirleitt flestöll í gegnum S.Í.S. verið hjá Landsbankanum með þau viðskipti. Og sumir aðilar, sem flutt hafa út landbúnaðarvörur, hafa verið hjá Útvegsbankanum. Þessir bankar tveir hafa annazt lánastarfsemi til þeirrar starfsemi landbúnaðarins, sem skapar erlendan gjaldeyri. — Þetta legg ég fram aðeins til viðbótar hinum atriðunum, sem út af fyrir sig ættu ein að duga að fullu til að sýna, að ekki sé þörf á, að Búnaðarbankinn annist gjaldeyrisverzlun.

Aðalræðan. sem hér var flutt um málið, var flutt af hv. frsm. minni hl. fjhn., sem við var að búast, og bar margt á góma hjá honum. Ég skal fúslega játa, að sumt, sem hann sagði, var athugavert og getur vel verið til leiðbeiningar. En það er sama að segja um brtt., sem hann ber fram, að þær eru að sumu leyti athyglisverðar hugleiðingar og geta orðið til leiðbeiningar. En það er ekki þörf á því á þessu stigi að lögtaka þessar hugleiðingar. Það er ærið nóg nú að gera þá breyt., sem í frv. felst. frá því sem áður var, að þessi nýja nefnd fái allmikið vald yfir fjárfestingu hins opinbera og almennings yfirleitt. Og fyrsta stigið er auðvitað ekki að setja nákvæmar reglur um þetta. Við í meiri hl. fjhn. höfum alveg gefizt upp við það — ég skal fúslega játa það — að setja í sjálf l. glögg greinarmerki milli þess, sem á að vera háð leyfisveitingum, og hins, sem á að undanþiggja leyfisveitingum til fjárfestingar. Við treystum því, að heppilegar reglur skapist þarna í framkvæmdinni. sem svo mætti lögfesta síðar. Við höfum hins vegar talið, að þetta ráð þurfi að hafa mjög víðtækt vald, svo að það skorti aldrei vald til þess, sem það telur nauðsynlegt að gera vegna þjóðarhags og til þess að samræma framkvæmdir almannavaldsins og einstaklinganna. En í þessum efnum erum við að fikra okkur áfram. Og við höfum sannarlega séð það á starfsemi okkar ágæta nýbyggingarráðs, sem hefur starfað í tvö ár, að við höfum ekki í þessum efnum stigið fullvaxnir út úr höfði Seifs eins og Aþena, en við verðum að byrja á fyrsta stigi og fikra okkur áfram. Ég segi þetta ekki til áfellis fyrir nýbyggingarráð. En við verðum að gera okkur ljóst, að eftir tveggja ára starf erum við búnir að eyða okkar gjaldeyrisforða, að vísu miklu af honum til nauðsynlegra framkvæmda, en líka töluverðu af honum til þess, sem ekki hefur áhrif á framleiðslugetu þjóðarinnar. Þegar svo er komið, þá er hætt við því, að það sé ómögulegt að forðast það, að það verði farið eitthvað hægar nú á eftir, þegar eingöngu er tekið til ráðstöfunar það fé, sem við getum klipið af okkar útflutningi. — Hv. 2. þm. Reykv. fullyrti það. að þau 15% ef erlenda gjaldeyrinum, sem eru nefnd í frv. stjórnarinnar, eigi ekki að fara til annars en almenns viðhalds. En ef svo er, að þessi hluti nægi ekki til annars eða meira, þá held ég, að hann geti ekki bjargað öllum þeim hlutum og framkvæmt þá, sem hann taldi upp, með þeim 10% af erlenda gjaldeyrinum, sem hann vill taka til þessara hluta til viðbótar 15%, svo sem að virkja Urriðafoss fyrir marga tugi milljóna og tífalda landbúskap á Suðurlandsundirlendinu. fyrir utan það að koma fiskiskipaflotanum í það lag, að hann geti veitt allan þann fisk, sem hægt sé að veiða við Íslands strendur. En í því eina plani, sem ég hef séð frá nýbyggingarráði, er gert ráð fyrir, að við getum komið slíku í framkvæmd á næstu fjórum árum eða svo. Nei, það er hætt við, að þá verði orðinn lítill afgangur a.m.k. af þessum 10% af gjaldeyrinum. Það er svolítið erfitt fyrir okkur í þessu landi. þar sem það getur gengið upp og niður með okkar afla og afurðir og gjaldeyrismöguleika, að gera mjög stórfelld plön. Þar að auki höfum við litla hugmynd um, hvað við getum fengið frá útlöndum af efnivörum, jafnvel þótt við hefðum nógan gjaldeyri, þannig að það er erfitt að planleggja langt fram í tímann framkvæmdir hér á landi. Við getum skrifað ritgerðir og haft ýmsar hugleiðingar um þessi efni, eins og margt af þessu er. En eins og málum er hjá okkur komið, skulum við ekki kalla það fullkomin plön, sem við getum sett upp og gengið svo eftir eins og járnbrautarvagnar á teinum. Það er miklu auðveldara að planleggja framkvæmdir í stórum löndum, sem eru sjálfum sér nóg á öllum sviðum, — ég tala nú ekki um í löndum, þar sem hægt er að skipa fólkinu og segja: Þarna skaltu vera og vinna, og svo hefur fólkið ekkert annað að segja við því en að hlýða. Þar er hægara að skipuleggja framkvæmdir langt fram í tímann en í okkar landi, sem hefur einhæfa framleiðslu og verður á hverjum tíma að laga sig eftir markaðsmöguleikum. Og þó að við gerum okkur vonir sem beztar, þá eru markaðsmöguleikar fyrir vörur okkar óvissar, þannig að við getum ekki til fulls búið okkur undir að nota markaðsmöguleika okkar löngu fyrir fram. Við getum t.d. orðið að breyta frá ári til árs um verkunaraðferðir á vörum okkar og annað slíkt, því að í því þurfum við að taka tillit til annarra og laga okkur eftir þeim. — Mig minnir, að ég hafi heyrt það hér í þingræðu, að því hafi verið haldið fram, að við ættum helzt að haga svo okkar framkvæmdum í sjávarútvegsmálum, að innan nokkurra ára verði því lokið í bráð, sem þurfi að gera á því sviði. En því verður bara aldrei lokið til fulls, hvorki í bráð né lengd. Við getum heldur ekki tekið þannig einn atvinnuveg út úr og lokið við það, sem fyrir hann þarf að gera, og tekið svo annan atvinnuveg á sama hátt á eftir og látið t.d. landbúnaðinn bíða, á meðan við erum að koma sjávarútveginum í eitthvert fyrirhugað horf. Þetta getum við ekki í okkar landi. Við erum að sjálfsögðu á sömu brautum og aðrar þjóðir að því leyti, að við sjáum, að það gengur ekki lengi að láta allt arka að auðnu og treysta á, að óskipulagðir kraftar gefi beztan árangur. En þar fyrir skulum við ekki hugsa okkur, að það sé svo ákaflega auðvelt verk að planleggja þjóðarbúskap okkar að flestöllu leyti og stjórna okkar þjóðarbúskap ofan frá. Og ég vil játa, að okkur vantar enn sem komið er fullhæfa menn til þess að stjórna þannig þjóðarbúskapnum, vegna þess að við fáum ekki þá menn nema fyrir æfingu og fyrir margra ára gætilegt og viturlegt starf. Þegar þjóðir taka fyrir ný verkefni — og hér er sumt nýtt okkur á sviði verklegra framkvæmda —, þá kemur það sem þróun. en ekki sem bylting. Og það, sem lengi á að standa, þarf einnig að hafa töluvert langan vaxtartíma. Þessi ákvæði í frv. um að leggja 15% af andvirði útflutningsins á sérstakan reikning, eins og þar getur þau eru vitanlega ekki fullnægjandi, en eru yfirlýsing um það, að við eigum að gera okkur far um það. að það verði aldrei minna en 15%. sem þannig verði lagt til hliðar. En það getur komið fyrir, að okkur verði þetta ómögulegt. En á hverjum tíma, sem það er kleift, á ríkisstj. að gera sér far um að leggja þetta til hliðar a.m.k. Og þessi 15% geta orðið töluvert drýgri en þau hefðu getað orðið eftir þeim reglum, sem nýbyggingarráð starfaði eftir, vegna þess að ég tel sjálfsagt, að listinn yfir þær vörur, sem eiga að koma á þessi 15%. verði þrengdur mjög frá því, sem verið hefur, þannig að á honum verði ekkert annað en framleiðslutæki og það, sem kemur við nýsköpun atvinnuveganna og aukinni tækni í atvinnuvegunum. Þannig að þessi hundraðshluti á, samkv. þeim reglum, sem að vísu eru ekki settar hér í frv., en sem fjárhagsráð verður að setja, að geta verið töluvert drýgri en hann hefur verið áður. — Það kemur líka fram í þessum brtt., að það mun vera erfitt að setja upp nokkra áætlun, sem eigi að gilda til lengri tíma en eins árs. Og í þeirri gr. í brtt. hv. 2. þm. Reykv., sem hér ræðir um, að heildaráætlun skuli lögð fyrir Alþ., þá er ekki ætlazt til, að önnur áætlun sé gerð en árs áætlun. sem þarf að endurskoða mánuð fyrir mánuð.

Þar sem í 6. gr. frv. er talað um að leggja áætlun um heildarframkvæmdir fyrir Alþ., þá get ég ekki skilið þá gr. svo. að hér sé fyrirskipað að leggja þessa áætlun fyrir Alþ. í frv.-formi. Það stendur ekki í gr., enda efast ég um, að hægt væri að framkvæma það að gera slíkar áætlanir að 1., þegar allir viðurkenna, bæði í ræðu og till., að slíkum áætlunum þurfi að vera hægt að breyta ársfjórðungslega og jafnvel mánaðarlega eftir breyttum viðhorfum. Það er sjálfsagt mál, að allar slíkar stórar áætlanir verða lagðar fyrir ríkisstj. og fjvn., og hafa allir hv. þm. að sjálfsögðu aðgang að þeim. Og þá hafa þm. sama möguleika og þeir alltaf hafa. því að hjá Alþ. situr alltaf æðsta valdið í þessum efnum, að löggjafarvaldið getur alltaf á hverjum tíma skipað fyrir um þetta, hvað sem því sýnist. Hver þm. getur þá líka komið fram með þáltill., sem getur gengið fram sem ályktun Alþ., ef þinginu svo sýnist. Ef með l. á að breyta einhverju, þá getur hver þm. komið með lagafrv., sem svo gæti verið samþ. En hitt er óþarfi, að gefa utanþingsmönnum rétt til þess að bera fram frv. á Alþ. Ég veit ekki, hvort það samrýmist þingsköpum, því að hér stendur í brtt.: „Rétt hafa þó einstakir fjárhagsráðsmenn að leggja fram till. um þessi mál á Alþingi“ o.s.frv. Þetta mundi, ef samþ. væri, að þetta skyldi vera í frv.-formi, gefa þeim mönnum, sem ekki eru þm., en aðeins eru í þessu ráði, rétt til þess að koma hér fram sem þm. að vissu leyti. Mér skilst, að þetta sé lítils virði, ef þeir hafa ekki málfrelsi og allt hvað eina. En það verður eins auðvelt fyrir fjárhagsráðsmenn að koma sínum aths. að á Alþ. eins og hverjum manni, sem góðar till. hefur að flytja. Við þurfum ekki að telja upp í þessum l. allar þær nefndir og stofnanir, sem menn kynnu að vilja setja á laggirnar. Frv. þetta er nógu almennt orðað til þess, að það misskiljist ekki, að allt, sem von er um, að komið geti í þjóðarhag og orðið þjóðarbúskapnum til góðs. kemur fjárhagsráði við og er á þess starfssviði.

Ég skal nú ekki fara svo ákaflega nákvæmlega út í þetta, enda hefur hæstv. forseti mælzt til, að við takmörkuðum okkar ræðutíma. Ég skal þó aðeins taka fram. að ég sé ekki. að það sé nauðsynlegt endilega að telja upp þessa 9 liði, sem eru í 4. tölul. brtt. hv. 2. þm. Reykv., að það skuli t.d. afla 20 nýrra togara. Er nokkur ástæða til að binda þetta? Hvers vegna ekki að hafa þetta frjálst til athugunar fyrir ráðið? Og að þetta eigi að gerast ekki síðar en að því sé lokið 1951, það virðist vera að einhverju leyti í samræmi við sjávarútvegsblaðið frá nýbyggingarráði, þar sem sagt er, að ef við getum ekki rýmt öðrum burt af okkar miðum. þá eigum við að taka þátt í að eyðileggja þau sjálfir. — Þegar við lítum á það heildarplan, sem sett er fram í þessari gr. brtt., sjáum við, hversu margt hlýtur að vera óathugað í þessum efnum fram sett, því að eftir till. skulum við nú gera þetta, þegar við erum búnir að eyða okkar 300 millj. kr. og hælum okkur af því, hvað við séum búnir að veita mikið til skipaflotans, bæði til togara og minni báta, þannig að erfitt verður að fá menn á þennan flota. Það er ekki hægt að búa skipshafnir til með l. frá Alþ. Þetta verður að þróast. Við verðum að gera okkur ljóst, í hvaða stefnu skuli haldið, en svo tekur það allt sinn tíma að koma framkvæmdunum í hið bezta horf. Og það er ekki sama, hvaða menn halda á þessum málum. Ég held, að það sé hæpið, að það sé hægt að draga allt okkar starfslíf og atvinnulíf í framtíðinni saman í lagafrv., svo sem hér er miðað að, t.d. að „koma upp fiskiðjuverum ríkisins á Hornafirði, Vestmannaeyjum. Ísafirði og einum stað á Suðurnesjum.“ Ég fyrir mitt leyti væri alls ekki tilbúinn að samþykkja, að þessir staðir eigi að fá einhver forréttindi frá ríkinu fram yfir aðra staði. sem er eins og eigi að hafa út undan í sambandi við fiskiðjuver. Og ég kynni að geta nefnt ýmsa staði á landinu. sem mundu vera betur settir fyrir fiskiðjuver en sumir af þessum stöðum, sem hér eru taldir. Ég efast um, að bak við þetta sé nægilega gott plan, og ég efast um, að við eigum endilega að samþykkja svona uppástungur óbreyttar. Og hvers vegna á að setja á svona staði iðjuver að kostnaðarlausu fyrir íbúa staðanna? Einmitt sumir þessara staða hafa kannske fjármunamöguleika fremur en aðrir smærri staðir til þess að setja upp iðjuver. Væri kannske réttast að láta sömu styrktarreglur gilda um öll útgerðarpláss á landinu. sem vildu koma upp fiskiðjuverum hjá sér. En svona till. um þetta, eins og brtt. eru, eru ekki sjálfsagðar. Þær geta verið góðar á sumum stöðum. — Svo er talað um í þessari tillgr. að koma upp lýsisherzluverksmiðju, síldarniðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju, tunnuverksmiðjum og síldarverksmiðju austan Langaness o.fl. Allt þetta eru ákvæði um í l., og mér virðist engin ástæða til að telja þetta upp hér. Og þó að svona till. yrðu felldar, þá held ég, að enginn tryði því, þótt sagt væri, að Alþ. hefði drepið þetta allt á einni kvöldstund, því að þetta er allt nú þegar á vegum ríkisstj. samkv. l. og á vegum nefnda, og kemur til framkvæmda fjárhagsráðs. — Svo stendur hér enn fremur í till., að það eigi að „stuðla að uppkomu hafna og verbúða í samræmi við þörf og staðsetningu fiskiflotans.“ Þetta er alltaf verið að gera í fjárl., og það er ekki nein lífsnauðsyn að nefna þetta svona sérstaklega þarna. En svo stendur hér, að þessu á svo að vera lokið í bráð, sem stendur hér í þessum till., og er þetta einnig mjög óheppilegt orðatiltæki í l., sérstaklega þar sem lífsbaráttunni hér í þessu landi verður aldrei lokið í bráð.

Um stóriðjukaflann skal ég ekki segja neitt sérstaklega. Það eru vitanlega margir aðrir góðir fossar til en Urriðafoss í Þjórsá, og hitt er ekki minna atriði en sjálfir fossarnir og virkjun þeirra, að hægt sé að nota orkuna, sem þeir framleiða. Það að fá orkunni arðbær verkefni er vandi, sem hingað til hefur ekki verið leystur hjá okkur að neinu verulegu leyti. En það má vel vera, að einhverjir möguleikar finnist í náttúru okkar lands, sem megi nota í framtíðinni, og þá er sjálfsagt að vinna að því að leysa þau auðæfi úr læðingi. En það er ekki ástæða til að nefna neina sérstaka fossa í þessum l. í því sambandi.

Viðkomandi því, sem tekið er hér fram í brtt. um landbúnaðinn, er það að segja, að það ákvæði, sem hér var tekið út úr frv. um daginn, að því er landbúnaðinn snertir. það hefur ríkisstj. nú lagt fyrir þingið í frv., sem þetta felst í með öðru orðalagi, því að í 2. gr. frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins, 2. tölul., stendur, að meðal aðalverkefna framleiðsluráðsins sé „að stuðla að eflingu landbúnaðarframleiðslunnar í samstarfi við Búnaðarfélag Íslands, svo að hún fullnægi. eftir því sem kostur er á, þörfum þjóðarinnar“, og í 5. tölul. „að vinna að því að beina framleiðslu landbúnaðarins að þeim framleiðslugreinum. sem landbúnaðinum eru hagfelldastar og samrýmast bezt þörfum þjóðarinnar á hverjum tíma.“ Þetta er að vísu mjög almennt orðalag, en ég hygg, að það sé ekki tilsvarandi gagn að því að orða þetta öllu nákvæmar sem verkefni fyrir starfandi framleiðsluráð landbúnaðarins, sem á vissulega að starfa í samráði við fjárhagsráð. — Það er búizt við, að fjárhagsráð hafi manns vit, rétt eins og þingmennirnir, sem við erum nú hér að ræða við.

Sama má segja um bygging íbúðarhúsa og áætlun um það efni fyrir næstu 5 ár, sem í brtt. er rætt um, að það eru til l. frá síðasta þingi um byggingarstarfsemina yfirleitt. Og í sambandi við þau l. hefur það verið fundið að, að ekki hafi verið séð fyrir fjármagninu, sem þarf til þess að byggja. En fyrir fjármagninu er ekki heldur séð hér í þessari brtt., fyrir utan það, að það er langt frá, að hægt sé að ákveða fyrir fram til 5 ára, hvaða þörf fyrir byggingar á að meta mest á hverjum tíma á því árabili. enda felst í þessari gr. brtt., að það á að byggja fyrst þar, sem atvinnuskilyrði eru góð. og svo á að leysa úr húsnæðisvandamálunum þar, sem of mikið er fyrir af fólkinu. Þetta er því svo almennt sem hægt er. Ég álít, að það bæti ekkert framkvæmdir fjárhagsráðs að samþykkja svona almenna löggjöf. — Og þegar lagt er til, að sett verði svo almenn löggjöf sem hér er till. um fyrir þjóðarbúskapinn og atvinnulífið, þá kann ég illa við gr., eins og brtt. er hér um við 8. gr. frv., að sú atvinnugrein sé tekin út úr og skrifuð í till.-formi eins konar hálfgerð blaðagrein um það, að taka beri fjármagn út úr verzluninni og færa yfir í eitthvað annað. Vitanlega á fjárhagsráð gegnum innflutningsleyfi að hafa það fyrir aðalsjónarmið, hver sé þörf þjóðarinnar, og það er þess hlutverk að ákveða, hvað þurfi að flytja inn. Og það er ekkert við því að gera, þó að menn verði látnir velja um, hvort þeir vilji heldur kaupa vörur hjá kaupmönnum eða eiga við samvinnufélög um það. Það verða þeir að eiga við sjálfa sig. Þeir, sem vilja losna við heildsalana, geta verzlað við kaupfélög. Menn þurfa ekkert að furða sig á því, þó að búið sé að gera vesalings heildsalana að Gyðingum, því að „agitationin“ þarf alltaf að hafa eina stétt og hana helzt sem fámennasta til þess að beina óvild sinni til. (Forseti GÞ: Ég vil segja hv. þm., að það var meiningin að hafa nú kaffihlé.) Já, ég skal stytta ræðutíma minn. Sízt vil ég taka undir, að það eigi að eyðileggja smáfyrirtækin, en láta vera eftir nokkur fá og stór. Það væri andstætt reynslunni, því að smáfyrirtæki. sem eru rekin af ágætum mönnum, þrífast alltaf.

Það er ýmislegt fleira, sem ég gæti nefnt, sem er ekki þörf að hafa með. Það er ekki þörf að vera að tala um sérstakt samstarf launþega, bænda og fiskimanna, því að því leyti, sem þeir fást við félagsmálastarfsemi, þá heyrir það undir 2. gr. Eins er það, að lánsstofnanir skuli framfylgja fjárfestingaráætluninni og ákvörðunum hennar í lánastarfsemi sinni. Um það flytjum við brtt., sem er réttar orðuð. Hún er um það, að fjárhagsráð skuli hafa samvinnu við lánsstofnanirnar um samningu og framkvæmd fjárfestingaráætlunar. Um þessa brtt., líka um framkvæmd hennar, vil ég segja, að það kemur margt af sjálfu sér um framkvæmd þessarar áætlunar hjá bönkunum, því að það er það sama og með gjaldeyrisleyfi nú, að það fær enginn gjaldeyri, nema hann hafi gjaldeyrisleyfi, eins fær enginn lán, nema hann hafi fjárfestingarleyfi. Bankarnir verða að spyrja um þennan hlut eins og annað, sem við kemur framkvæmdinni. Hitt er annað mál, að það er ekki hægt að skylda bankana til að hafa nóga peninga til að fullnægja allri eftirspurn. Það þýðir vitanlega ekki að hafa svona grein upp á það að gera.

Ég skal nú fara að stytta mál mitt, en ég þori að segja það, að ákvæði eins og það, er hér er lagt til að bæta aftan við 1. málsgr. 8. gr., að ef settar eru á stofn framleiðslunefndir á vinnustöðvum, þá skuli þær hafa aðgang að reikningum þeirra fyrirtækja, sem þessir menn vinna hjá, svona gr. verður ekki samþ. á þessu þingi. Það er sama, hvaða sovétskipulag er sett upp, ef þar er einstaklingsrekstur. þá verður þessu ekki hagað svona. Gr. um fjármagnið og það allt er nægilega greinileg í frv. og að það eigi að taka við af viðskiptaráði. Ef þarf ákvæði um, að fjárhagsráð eigi að taka við verkefnum, sjóðum og fleira af báðum þessum ráðum, þá á að nefna þau bæði.

Ég hef svo ekki þessi orð fleiri, en hér verður allt komið undir framkvæmdinni. Heimildin er víðtæk. en það er sama, hverju maður bætir við af þessu tagi, að ég hygg, að það tryggi ekki framkvæmdina betur en það, sem er í frv. nú. Við þurfum að fikra okkur áfram. Þetta þarf að vera fast, en þó gerum við engar áætlanir til næsta árs án þess að hugsa lengra fram í tímann. Jafnvel þó að um sé að ræða smáframkvæmdir í sambandi við fjárl., þá fylgir því alltaf áætlun, hvað það kosti og hvað það taki langan tíma. Eins þarf fjárhagsráð að hafa áætlun og samvinnu við allar stofnanir og þjóðina alla í sambandi við þá löggjöf, sem nú er verið að vinna að hér og verður sett.