06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. meiri hl. hefur vikið hér lítillega að brtt. þeirri, sem ég er flm. að ásamt tveim öðrum hv. þm. Hefur mér verið sagt frá því, þar eð ég var ekki viðstaddur, þegar hann hélt sína ræðu, að hann hafi viljað gera lítið úr þýðingu till. og að réttur Búnaðarbanka Íslands til þess að gerast þátttakandi í gjaldeyrisverzluninni væri harla lítill eða enginn. Ég þóttist færa rök fyrir því með þeim fáu orðum, sem ég talaði fyrir þessari till., að eðlilegt væri, miðað við viðskiptaveltu og starfsemi þessa banka, að hann fengi einnig hlutdeild í gjaldeyrisverzluninni. — Mér er þá tjáð, að hv. frsm. hafi vikið að því, að bankinn hefði ekki þurft að nota allt sitt fé til þarfa landbúnaðarins á undanförnum árum og af því stöfuðu þau viðskipti, sem hann hefur nú haft á þessum árum í verzlun, iðnaði og að því er snertir byggingar utan sveitanna. Þær tölur. sem ég tilgreindi hér, voru um umsetningu sparisjóðsdeildar bankans, eins og hún var 31. des. 1945, sem skiptist þannig, að lánað hefur verið til landbúnaðarins 17500000 kr., en rúmar 16 millj. kr. til verzlunar, iðnaðar og bygginga utan sveitanna, auk þess var nokkur upphæð, 7,5 millj. kr., sem ekki var tilgreint, hvert hefur runnið, hvort hún hefur farið til sveita eða til kaupstaða. — Það er nú svo um starfsemi sparisjóðsdeildar Búnaðarbankans, að hún er ekki bundin við neina sérstaka atvinnuvegi. Þess vegna er ástæðulaust að halda því fram, að Búnaðarbankinn hafi farið fram hjá því hlutverki, sem honum er sérstaklega ætlað. Hitt er vitað, að starfsemi bankans, hvað snertir þær sérstöku deildir, sem þar eru sérstaklega tileinkaðar landbúnaðinum, þeirra starfsemi er eingöngu rekin á sviði landbúnaðarins. — Hv. frsm. meiri hl. hefur enn fremur haldið því fram til þess að andmæla þessari till., að þær stofnanir í landinu, sem verzla með gjaldeyri þann, sem tilheyrir landbúnaðinum, skipti við aðrar peningastofnanir. landsbankann og útvegsbankann. Ég vil benda á í þessu sambandi, að þótt Samband ísl. samvinnufélaga muni ef til vill að miklu eða mestu leyti eiga viðskipti sín í þessum efnum við landsbankann, þá er það síður en svo, að kaupfélögin skipti ekki við búnaðarbankann, og er mér vel kunnugt um það. að þau skipta við búnaðarbankann í stórum stíl. Hitt leiðir af sjálfu sér, að þar sem svo er ákveðið í l.. að engir aðrir bankar en landsbankinn og útvegsbankinn hafa rétt til þess að fara með gjaldeyrisverzlun. hafa innflutningsstofnanir á sviði landbúnaðarins verið einskorðaðar við það að skipta við þessar peningastofnanir, en fyrirmunað að skipta við búnaðarbankann. Það er einmitt þetta, sem brtt. mín fer fram á, að þessum aðilum sé ekki lokuð leið til þess að reka einnig þessi sín viðskipti gegnum sína eigin stofnun, Búnaðarbanka Íslands. Mér finnst það því undarlegt að mæla gegn þessari till., úr því að svo er ákveðið, að það er ekki aðeins ein stofnun, sem hefur á hendi gjaldeyrisverzlunina, sem gæti vel komið til mála, að væri, heldur skuli önnur stofnun, sem er hliðstæð búnaðarbankanum, sem sé útvegsbankinn, hafa þennan rétt, en búnaðarbankanum fyrirmunað að hafa hann. Þetta álít ég undir öllum kringumstæðum ekki samrýmanlegt og þess vegna sé eðlilegt, að hv. Alþ. bæti úr þessum misrétti, sem hér er á, og veiti búnaðarbankanum einnig hlutdeild í gjaldeyrisverzluninni.

Það má segja, að við flm. þessarar brtt. séum ekki kröfuharðir fyrir hönd Búnaðarbankans, þar sem við ætlum honum minni hlut en hinum stofnununum, en það ætti ekki að vera þrándur í götu þess, að réttur Búnaðarbankans væri viðurkenndur eins og gert yrði með samþ. þessarar till.

Mér er sagt, að frsm. meiri hl. hafi sagt, að mjög sé nú gengið á gjaldeyrisforðann og sé því ekki þar feitan gölt að flá. En það er engin röksemd móti sanngirniskröfu þessarar brtt., því að gjaldeyrisskorturinn er aðeins stundar fyrirbrigði, og svo framarlega sem við eigum að halda lífskjörum okkar jafngóðum, verðum við að hafa mikil utanríkisviðskipti, og það kreppuástand, sem nú er í gjaldeyrismálunum, stendur til bóta og getur ekki verið röksemd gegn samþ. þessarar till.