06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. Borgf. var að tala um búnaðarbankann. Það, sem hv. þm. sagði, haggaði ekki þeirri staðreynd, að hann hefur fullkomið verkefni við landbúnaðinn fyrir allt sitt fjármagn.

Ég tel það ekki hættulegt, þó að framkvæmdavaldið sé hjá ríkisstj. Það er grundvallarsetning, að Alþ. framselur vald sitt til einhvers, sem sér um framkvæmdina. En Alþ. hefur eftir sem áður löggjafarvaldið, en Alþ. framkvæmir ekki sjálft. 2. till. hv. þm. A-Húnv. er óframkvæmanleg, eins og hún er, en margt, sem hann hefur sagt, er satt, og ætti vissulega að sjá til þess, að hinar dreifðu byggðir verði ekki afskiptar, en að segja svo, ef eftirspurn er meiri en fjármagn er til að fullnægja henni, að þá skuli skorið niður í Reykjavík, það er óframkvæmanlegt. Ég skal svo ekki eyða meiri tíma í þetta vegna þess, sem forseti hefur mælzt til.

Það er nú ýmislegt að athuga við ræðu hv. frsm. minni hl., sem ég vildi ógjarnan sleppa.

Þegar hv. frsm. minni hl. fjhn. segir, að 10% af okkar útflutningsverðmæti geti orðið 400 millj. kr. á 10 árum, þá er það náttúrlega hugsanlegt. En það er ekki nein vissa og því ekkert til að byggja á neitt plan. Þetta gæti alveg eins orðið 200 millj. kr. og jafnvel lægri upphæð en það. Um þessa hluti vitum við lítið, t.d. um það, hvað verður gildi krónunnar áfram, hvort það hækkar eða lækkar. Og allt, sem byggt væri á slíkri ágizkun, væri út í bláinn. Viðkomandi sölu á matvörum til annarra landa og að við getum bjargað okkur eitthvað á því að semja til langs tíma um þá sölu, þá getum við ekki byggt neina áætlun til 5 eða 10 ára á sölu á matvöru. Þessir löngu samningar, sem hafa í sumum löndum farið fram, eru, að svo miklu leyti sem ég bezt veit, um vélar, framleiðslutæki og annað þ.h. Og ég veit ekki til, að hægt sé að selja matvöru fyrir fram til langs tíma af öðrum ástæðum en vegna fæðuskorts í heiminum. Hann getur ekki orðið kominn í lag fyrr en eftir 2 ár a.m.k. og sennilega ekki fyrr en eftir lengri tíma. En það er ekki hægt að semja til langs tíma um sölu á fiski fyrir það verð, sem ríkisstj. hefur ábyrgzt nú. Ég þori að fullyrða það. Við getum því ekki bjargað okkur á því að gera slíka langa samninga. Og þessar þjóðir, sem hafa haft mikinn planrekstur hjá sér upp á síðkastið, eins og Tékkóslóvakía, hún hefur hann ekki nema á svo sem helmingi af þjóðarbúinu. Og það er hér um bil allt iðnaður, sem fellur inn í það, en ekki matvörukaup til langs tíma. Ég get nefnt fleiri ríki sem sönnun fyrir því, að um matvörukaup er ekki samið til langs tíma. Viðkomandi því, sem hv. frsm. minni hl. fjhn. var að tala um áætlunarbúskap í öðrum löndum, þá er það að segja, að hann er miklu auðveldari í löndum, sem eru sjálfum sér nóg á mörgum sviðum og geta fært vinnuaflið til eftir geðþótta. En það er ekki meiningin hjá okkur að ganga lengra en Englendingar og Norðurlandabúar, sem eru á slíkum brautum að hafa þar planrekstur, sem rúm er fyrir hann, en þó sé sem mest frelsi í þjóðfélaginu. Og það eru þessar brautir, sem við erum inni á, en ekki þær, að úti sé um allt frelsi. Þetta frv. er fyrst og fremst byggt á einkaframtaki við hliðina á því, sem Alþ. ákveður á hverju ári með fjárl., því að það eru engar heimildir hér til fjárframlaga frá ráðinu eða til lántöku eða neinna slíkra hluta. Og þar kemur aðalruglingurinn í þessu máli fram hjá hv. frsm. minni hl. n., að það er eins og hann geri ráð fyrir, að þetta ráð eigi að gera allt mögulegt í þessum efnum án þess að spyrja þingið. En strax og ráðið gerir eitthvert plan, á það að koma til þingsins, því að það er ekki hægt annað, nema hægt sé að fá einstaklinga eða einstök félög til þess að ganga inn í þetta, þá þarf ekki að fara til þingsins. — Hv. frsm. minni hl. n. vildi leggja mikla áherzlu á, að allt, sem frá ráðinu kæmi, færi til þingsins. Og svo sagði hann, að það þyrfti að fullnægja þessu eina plani um sjávarútveginn og ákveða tölu togara o.m.fl. í sambandi við sjávarútveginn. En þetta plan er ekki komið til þingsins, og þessi krafa hv. þm. ríður í bága við 6. brtt. hans, sem hann leggur áherzlu á. Þetta plagg er í prentun nú, og er ekki búið að útbýta því til þm., svo að á þessu stigi, meðan hv. þm. hafa ekki lesið það, skal ég ekki fara ýtarlega út í það. — Mér er kunnugt um, að það eru framleiðslunefndir til víða um heim. En við kapítalísk fyrirtæki í hinum frjálsu löndum er mér ekki kunnugt um, að slíkar nefndir geti vaðið í alla reikninga fyrirtækja, og það held ég, að verði aldrei gert hér. Ef þjóðfélagið vill skipta sér af þeim greinum, verður það að nota sérstaka menn til þess. Slíkt verður ekki samþ. á þessu þingi, og verður sennilega nokkuð langt þangað til það verður gert.

Ég vildi nefna að lokum, að það er rétt, sem ég sagði, að einn aðalvandinn hjá okkur viðvíkjandi stórum rafvirkjunum hefur verið að útvega verkefni fyrir raforkuna. Hingað til höfum við ekki getað virkjað nema fyrir þörf þéttbýlisins og nokkurn iðnað, sem er ekki í stórum stíl. Krafturinn er til í fossunum, en spursmálið er enn óleyst, hvað sá kraftur á að vinna, ef framkvæma á stórvirkjanir — þrátt fyrir öll okkar „ráð“. Og þó að till. um þetta séu til, þá munu engar þeirra vera svo rökstuddar, að hægt sé nú að taka ákvarðanir um þær á Alþ. Í þessum l., sem eru yfirlitslög um stórt fjárhagsráð, þá eiga ekki að vera neinar sérstakar ákvarðanir. sem taka fram fyrir hendurnar á stjórninni um nánari athugun. Þetta eru yfirlitslög, og allt hlýtur að koma síðar með sérstökum frv. með viðeigandi heimildum, til þess að eitthvað sé hægt að gera af því opinbera og til styrktar þeim, sem ekki hafa nóg fjármagn eða kraft til framkvæmda. En þessar reglur á að setja með sérstökum frv., en eiga ekki að vera í þessum l., en till. um þær eiga helzt að koma frá ráðinu, en síður frá einstökum þm.