06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hér skrifl. brtt., sem leitað hefur verið afbrigða fyrir, og vildi fara nokkrum orðum um hana. — Í frv. er gert ráð fyrir því í 10. gr., að fjárhagsráð starfræki innflutnings- og gjaldeyrisdeild, er einnig hafi með höndum verðlagseftirlit. Nú hef ég flutt brtt. um það, að í stað þess, að hér er gert ráð fyrir því að hafa eina gjaldeyris- og innflutningsdeild. þá verði því fyrirkomulagi komið á, að þetta verði haft í fernu lagi, þannig að fjárhagsráð starfræki innflutnings- og gjaldeyrisdeildir á þessum stöðum: Í Reykjavík, á Ísafirði, á Akureyri og í Neskaupstað. Ég legg til, að Reykjavíkurdeildin gegni hlutverki sínu í þessum sýslum og kaupstöðum: Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Vestmannaeyjum, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu, Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafeilssýslu. Ísafjarðardeildin gegni hlutverki sínu í Ísafirði. Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Akureyrardeildin í Siglufirði. Akureyri. Ólafsfirði. Vestur- og Austur-Húnavatnssýslu. Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu. Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu. Neskaupstaðardeildin í Neskaupstað, Seyðisfirði, Norður- og Suður-Múlasýslu og Austur-Skaftafellssýslu. Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að fjárhagsráð ákveði hlutdeild þá fyrir hvert ár. sem hverri innflutnings- og gjaldeyrisdeild ber af gjaldeyri þeim. sem ráðstafa á til vörukaupa erlendis, og að við þá skiptingu á gjaldeyrinum milli þessara deilda verði tekið sérstakt tillit til íbúafjölda og þess, hve mikill gjaldeyrir verður til á starfssvæðinu. — Það er ekki nokkur vafi á. að það, að hafa þessa gjaldeyrisúthlutun eingöngu í Reykjavík, hefur haft það í för með sér um allar vörur, a.m.k. stykkjavöru og hvers konar neyzluvörur aðrar en þungavörur, sem fluttar eru inn í heilum förmum, að innflutningur þeirra hefur dregizt algerlega hingað til Reykjavíkur. þannig að innflutningsverzlunarfyrirtæki úti á landi hafa beinlínis orðið að stöðvast fyrir það, að ekki voru skilyrði til þess að reka þau áfram þar, þegar leita þurfti til Reykjavíkur um að fá öll gjaldeyrisleyfi, sem þurft hefur að fá. Þetta liggur í augum uppi, að er af því, að þeir, sem heima eiga í Reykjavík, hafa margfalt betri aðstöðu í þessum efnum en menn úti á landi til þess að fá gjaldeyrisleyfi. Þannig er útilokað, að raunverulega sé nokkurt vit í því að reka innflutningsverzlun með þessar vörur, sem ég nefndi sérstaklega, upp á þær spýtur að þurfa að leita utan af landi til Reykjavíkur um gjaldeyrisleyfi. Verulegur hluti af starfsemi heildverzlana fer í það að kría út gjaldeyrisleyfi, og til þess að ná í gjaldeyri er beitt ýmsum brögðum. Það eru viðtöl við meðlimi þessara nefnda og ráða, sem um gjaldeyrisleyfi hafa að segja. Það er vitað öllum, að viðtöl við starfsmenn í þessum stöðum og jafnvel viðtöl við alls konar kunningja og venzlamenn þessara manna eru notuð af heildverzlunum til þess að heyja taugastríð, sem oft ber þann árangur, að þær ná þannig gjaldeyri til sín. Þeir, sem hafa verið að burðast með heildverzlanir úti á landi, hafa átt í vök að verjast mjög tilfinnanlega. Og t.d. fyrirtæki úti á landi, sem þurfa að fá hráefni til síns rekstrar, eru svo sett af þessum sökum, að það liggur við borð, að þau verði að stöðvast, vegna þess að þau fái ekki hráefni til þess að geta haldið áfram sínum rekstri. T.d. eru gosdrykkjaverksmiðjur á Siglufirði og Akureyri svo langt frá því að geta fengið nægan sykur, að þær geta ekki framleitt nema einn fimmta hluta af því, sem þær hafa markað fyrir. En svo eru á sama tíma fluttir gosdrykkir héðan úr Reykjavík þangað norður, þannig að bæði glerið og vatnið er flutt þessa löngu leið, til Akureyrar og Siglufjarðar, í stað þess að framleiða þessar vörur þarna nyrðra. Þannig er þetta. Ástæðan er sú, að betri aðstaða er hér syðra til þess að fá gjaldeyri til þessa iðnaðar en fyrir norðan. Það er engin leið til þess fyrir fyrirtæki, sem ekki eru í Reykjavík, að standast samkeppni í þessu efni með núverandi fyrirkomulagi á úthlutun gjaldeyrisins, sem ég tel verulegan þátt eiga í því að draga alla innflutningsverzlun til Reykjavíkur með því að setja Reykjavík í sérréttindaaðstöðu í þessu efni. Ef maður fengi gjaldeyri á þessum stöðum: Ísafirði. Akureyri, Siglufirði, Neskaupstað og Vestmannaeyjum, þá er alveg víst, að margir þeirra hefðu allmikla innflutningsverzlun, t.d. Akureyri. En þetta er dottið niður, vegna þess að það eru engin skilyrði lengur til þess að reka innflutningsverzlun á þessum stöðum, svo að nokkurt vit sé í. Og það fæst ekki nein leiðrétting á þessu, nema því aðeins að gjaldeyrisúthlutun sé höfð úti á landi. Ég býst við, að þessir staðir, sem ég greini í brtt. minni. séu alls ekki illa til þess fallnir, og eru þeir allir staðir, sem voru verzlunarmiðstöðvar hver á sínu svæði á sínum tíma, þótt þeir séu ekki orðnir það nú af ástæðum, sem ég hef greint. Akureyri er t.d. ekki orðum neinn staður um þetta móts við það, sem var, þó að mjög fáir staðir séu betur í sveit settir í þessu tilliti en Akureyri. — Hins vegar er gert ráð fyrir því í brtt. minni, að gjaldeyris- og innflutningsdeildin í Reykjavík hafi með höndum allt verðlagseftirlit. Enn fremur er þar gert ráð fyrir, að hún hafi með höndum vöruskömmtun í þeim tilfellum, sem það er nauðsynlegt, að fengnu samþykki fjárhagsráðs. Þetta er eftir sem áður eftir mínum brtt. í höndum nefndar í Reykjavík.

Ég býst við, ef leitað væri álits manna úti á landi í bæjum, t.d. eins og Akureyri. Siglufirði, Neskaupstað, Seyðisfirði o.fl. bæjum á Austurlandi og á Ísafirði og í nærsveitum þessara bæja, þá mundu menn verða þar sammála um það, að með því að koma fyrirkomulaginu í það horf, sem hér er gert ráð fyrir, að skipta gjaldeyrisúthlutuninni þannig niður á milli landsfjórðunga. væri stigið mjög þýðingarmikið spor til þess að bæta verzlunarhætti í þessu landi og til þess að tryggja það, að vörur, sem fluttar eru til landsins, verði fluttar sem allra mest beint til þeirra staða, þar sem þeirra er neytt eða þær notaðar. Það hefur verið mikið talað um, að það sé of lítið, sem þessir bæir kaupa, til þess að flytja gjaldeyrisúthlutun þangað. En það er ekki rétt. Ef þessir bæir hefðu sömu möguleika og Reykjavík hefur til innkaupa hlutfallslega við stærð, þá mundi sýna sig, að meiri þróun kæmi í verzlun og atvinnulíf þar en nú er, ef þetta fyrirkomulag væri tekið upp.

Í brtt. mínum er gert ráð fyrir, að fjárhagsráði verði uppálagt að taka tillit til þess viðkomandi skiptingunni á gjaldeyrisúthlutuninni, hve mikill gjaldeyrir er framleiddur á hverju starfsvæði fyrir sig. Það er að vísu ekki hægt að skipta þessu eingöngu eftir því. En það er fullkomin ástæða til að taka tillit til þessa. Það þarf að láta hvert byggðarlag haga sinni framleiðslu þannig, að það framleiði sem mestan gjaldeyri. Reykjavík framleiðir óhæfilega lítið af gjaldeyri, miðað við eyðslu hennar á gjaldeyri. Reykjavík situr nú fyrir um eyðslu á gjaldeyri. Og það er vitanlega óhæfa, að Reykjavík skuli eiga heimtingu svo mjög sem nú er á að taka gjaldeyri af öðrum héruðum landsins, þar sem svo að segja er eingöngu gjaldeyrisframleiðsla, en ekki eyðsla á gjaldeyri, svo að neinu nemi. Það verður að skapa eitthvert aðhald fyrir héruðin, til þess að þau reyni að leggja eitthvað af mörkum við framleiðslu gjaldeyrisins, sem við byggjum okkar atvinnulíf á. Þess vegna ber ég þessa brtt. fram. Úti á landsbyggðinni er þetta sameiginlegt álit allra, að þetta ástand, að gjaldeyrisúthlutunin öll skuli fara fram í Reykjavík, sé mjög óheppilegt, þannig að menn verði að leita til Reykjavíkur um öll gjaldeyrisleyfi. og ekki nóg með það, heldur verði hver maður úti á landi, sem þau vill fá, að hafa mann hér í Reykjavík til að borga leyfin, því að annars fá þeir þau ekki. Hver maður úti á landi, sem ætlar að fá gjaldeyrisleyfi, verður að sjá um, að einhver hér í Reykjavík leysi út leyfið, því að það er hætt að senda leyfin út á land upp á það, að bæjarfélögin innheimti leyfisgjöldin. Það getur kostað tugi króna að leysa út eitt smávegis leyfi, ef maður fær það, sem er úti á landi. Og það fer vaxandi gremja og óánægja út af þessu. Þetta verður ekki þolað til lengdar, þó að þessi brtt. verði kannske ekki samþ. að þessu sinni. Það er ekki vafi á, að ef sú skipun væri höfð um leyfisúthlutunina, sem gert er ráð fyrir í brtt. minni, mundi það verða til þess, að atvinnulíf mundi verða blómlegra úti á landi en nú er.

Það er t.d. enn eitt atriði í þessu sambandi. sem er ekki þýðingarlaust. Af því að Reykjavík hefur svo mikla innflutningsverzlun, getur hún lagt útsvör á þann atvinnurekstur, meðan aðrir staðir eru að veslast upp af tekjuleysi. Því að þeir, sem reka innflutningsverzlun úti á landi við þau erfiðu skilyrði, sem þeir eiga við að búa, geta ekki borið útsvar á borð við það, sem á sér stað um innflytjendur hér í Reykjavík. Þessi skipun á úthlutun gjaldeyrisleyfa, sem nú er, stendur því alla vega í vegi fyrir því, að bæjarfélög og byggðarlög úti á landi geti blómgazt og þrifizt með eðlilegum hætti.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í önnur atriði þessa frv. en þetta. En þetta mál, sem ég hef flutt brtt. um, er eitt mesta áhugamál alls þorra manna í hinum ýmsu bæjum og kauptúnum úti um allt land, vegna þess að þessi samdráttur atvinnulífsins hér í Reykjavík. sem stafar mjög af gjaldeyrisúthlutunarfyrirkomulaginu, er að ríða allt á slig og er á góðum vegi með að verða þess valdandi, að bókstaflega heilar sýslur leggist í eyði. Það hefur aldrei verið meiri flótti frá stöðum úti á landi til Reykjavíkur en einmitt nú. Ég tel, að það, sem ég legg hér til í brtt. minni, mundi verða sú fljótvirkasta ráðstöfun, sem hægt er að gera til þess að stöðva þennan óskaplega samdrátt hér í Reykjavík.