06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði, að það, sem ég talaði um 400 millj. kr., sem væru þau 10% af gjaldeyrinum, sem inn kæmi á tíu árum, sem ég vil bæta við 15%. væri út í bláinn. Ég sló þessu fram sem hugmynd og sem líklegum hlut. En auðvitað er ekki hægt að ákveða neitt um slíkt fyrir fram. En aðeins til að sýna, hvað líklegt megi telja með sama útflutningi sem verið hefur, að þessi 10% af útflutningsverðmætinu mundu nema eða geta numið á þessu árabili, sló ég þessu fram, því að þessi 10%, sem fram yfir eru 15% af útflutningsverðinu. geta gert útslagið á það, á hve mörgum sviðum er hægt að byggja upp atvinnuvegina í þessu landi á þessu árabili. Það er að vísu hægt að segja, að krónan geti fallið á þessu tímabili og að verðlagið geti fallið. En það er ólíklegt, að verðlagið falli á íslenzkum afurðum, en lækkaði ekki á þeim vörum, sem við þyrftum að kaupa til þessarar uppbyggingar. Og þó að við reiknum með 200 millj. kr. í þessu efni, í stað 400 millj., gerir það sömu útkomu raunverulega, því að þá mundi lækka í verði jafnframt það, sem til uppbyggingarinnar þyrfti að kaupa. Ef maður getur ekki reiknað með líkindareikningi, þá er ekkert hægt að planleggja í þessum efnum. Það getur komið uppskerubrestur og vantað síld og fisk, það er allt hugsanlegt. En við reiknum með því, að sólin hætti ekki að skína og að síldin komi á miðin og þorskurinn komi o.þ.h., þó að við vitum, að afli geti tregðazt.

Hv. frsm. meiri hl. n. talaði um frelsi. Við erum nú einmitt með þessu frv. að setja rothöggið á það atvinnufrelsi, sem miðað er við í stjskr., það lítið sem eftir er af því, því að því verður ekki neitað, að allur áætlunarbúskapur víkur til hliðar í aðalatriðum því atvinnufrelsi 19. aldarinnar, sem okkar stjskr. gengur út frá. En við göngum út frá því, að áætlunarbúskapur sé í frjálsu þjóðfélagi, vegna, þess að við álítum, að menn séu frjálsir, jafnvel þótt ríkið taki af þeim svo og svo mikið af þeirra rétti, sem þeir einu sinni höfðu til þess að geta notað sitt fé og annað slíkt eins og þeim þóknaðist, því að þau réttindi, sem menn fá aftur, eru svo margfalt dýrmætari en þetta atvinnufrelsi, sem af þeim er tekið. Þessi réttindi í sambandi við atvinnu og afkomumöguleika, sem menn fá í staðinn, gefa þeim það, sem er fyrir þá raunverulegt frelsi í þeirra lífi.

Viðvíkjandi því, að fjárhagsráð eigi að leggja frv. fyrir Alþ., vil ég segja, að ég veit ekki betur en að einmitt fjárhagsráð Norðmanna hafi nú nýlega verið að leggja áætlun fyrir Stórþingið, þar sem lagt er til, hve mikið veita skuli í hverjar framkvæmdir fyrir sig.

Viðvíkjandi því, sem minnzt var á 5 ára áætlun nýbyggingarráðs og að hún hefði ekki komið til þingsins, þá er því að svara, að ég veit ekki betur en að nýbyggingarráð hafi sent öllum hv. þm. þessa bók fjölritaða. Ég veit ekki betur en að hv. frsm. meiri hl. fjhn. hafi séð hana. Til þingsins er hún því komin, og til stjórnarinnar er hún komin þar áður. Hvað það snertir, hefur því þessi áætlunargerð farið rétta boðleið. En stjórnin hefði átt að leggja þetta fyrir þingið. Og það er til lítils að leggja fyrir eina nefnd að vinna mikið og stórt, ef svo er ekki farið eftir l. um að leggja það fyrir.

Viðvíkjandi virkjun og stóriðju þá er það rétt, að okkur skortir raforku til þeirrar iðju, sem við höfum haft. En ef við ætlum að planleggja stórvirkjun hér, þurfum við um leið að ákveða nú þegar alveg á næstunni, hvaða stórfyrirtæki við ætlum okkur að leggja áherzlu á að koma upp. Það hefur verið talað um að koma upp t.d. áburðarverksmiðju, en við höfum vitað, að við mundum verða í vandræðum með að skaffa nóg rafmagn til þess að geta rekið hana, eins og nú er ástatt. En ef við ætlum að koma á fót svona stórvirkjunum fyrir 1952, þá geng ég út frá því, að við verðum að panta túrbínur og annað, sem til þeirra þarf, 1949 og jafnvel fyrr, þannig að við hefðum ekki nema eitt til tvö ár fyrir okkur til þess að gera þær rannsóknir, sem við þurfum að gera, til þess að vita, hvort t.d. bygging áburðarverksmiðju eða annað slíkt er fyrirtæki, sem við getum ráðizt í, svo að það er ekki seinna vænna að ákveða það en nú, í maí 1947, ef við ætlum að koma þessu í framkvæmd fyrir árið 1952. Það getur kostað tugi millj. kr. skaða fyrir landið, ef ekki er hugsað fyrir svona. stórum framkvæmdum í tíma, heldur þá fyrst, þegar það í mörgum tilfeilum er allt of seint að hugsa fyrir þeim.

Ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan og hv. frsm. meiri hl. fjhn. hefur ekki hrakið, að ef þessar brtt., sem ég flyt hér við frv., verða ekki samþ. nú, þá er ég viss um það, að fjárhagsráð, sem skipað verður, kemur áreiðanlega ekki til með, nema þá fyrir einhverja sérstaka slembilukku, að geta tekið þær ákvarðanir. sem þjóðinni er þörf á, að teknar séu í þessum málum, sem það á að fjalla um. Sjálft frv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, er þannig úr garði gert, að það er eftir því hægt að láta fjárhagsráð hætta að vinna á þessu ári. Það á ekki að lifa, nema meðan hinar miklu atvinnuframkvæmdir standa yfir, sem byrjað hefur verið á. Og eitt þess aðalverk á að vera að skera þannig niður. að það sé ekki of mikil eftirspurn eftir vinnu. Þessi l. falla í raun og veru úr gildi um fjárhagsráð, þegar hinar miklu atvinnuframkvæmdir eru ekki lengur fyrir hendi, sem nú standa yfir. Þess vegna hef ég lagt verk í að undirbúa og semja þessar brtt. við frv. Ég álít mjög illa farið, hvernig hagað hefur verið umr. um þetta mál. Ég álít það til skammar, að þetta frv. hæstv. ríkisstj. hefur verið undirbúið eins illa og það er undirbúið og að stjórnin skuli ekki hafa neitt skeytt um að reyna að lagfæra nokkurn hlut í sambandi við það, meðan þingið hefur haft það til meðferðar, og að hún skuli síðan hafa fyrirskipað hæstv. forseta að pína málið í gegnum þessa umr., án þess að raunverulega fengist um það umr. og án þess að hv. þm. almennt geri sér far um að afla sér nokkurrar verulegrar vitneskju um. hvað gerzt hefur á þessum sviðum undanfarið. Ég álít það illa farið, að hæstv. forseti skuli beita því valdi. sem hann hefur, til þess að enda þessa umr. um þetta mál hér í þinginu nú með þeim hætti, sem gert er hér. Sú ábyrgð verður að hvíla á hæstv. ríkisstj., sem þessu ræður. En það tjón, sem af því hlýzt, ef þessu er haldið áfram. verður ekki reiknað í tugum millj. kr., heldur hundruðum millj. kr.