12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Háttv. áheyrendur. Það er eftir kröfu frá Sósfl., að nú er útvarpað umræðum um þetta frv. við 3. umr. þess hér í d. En við fyrri umr. um þetta mál. bæði 1. og 2. umr., hafa þm. Sósfl. flutt um það mjög langar ræður, sem samtals hafa staðið yfir í margar klst. Hafa þeir þá að sjálfsögðu ekki komizt hjá endurtekningum, og ræður þeirra hér í kvöld verða vafalaust að mestu endurtekningar á því, sem þeir hafa sagt um málið hér á þingi undanfarna daga. Úr því að þeir vilja fá útvarpað umræðu um málið nú við 3. umr. þess, hefðu þeir getað sparað sér eitthvað af löngu ræðunum við 1. og 2. umr., ef þeir hefðu viljað flýta þingstörfum. En þeir virðast síður en svo hafa áhuga fyrir því, að þetta þing, sem nú er búið að standa í 7 mánuði og 2 daga, ljúki störfum sem fyrst. Það er venja, að álit þingnefnda um mál, sem vísað hefur verið til þeirra, liggi fyrir við 2. umr. En ekki hefur verið meiri hraði á fulltrúa Sósfl. í fjhn. en svo, að áliti hans um málið var fyrst útbýtt í d. í dag. Þessi hv. þm., Einar Olgeirsson, hefur látið fylgja þessu nál. sínu ritgerð um sjávarútvegsmál, sem nýbyggingarráð, þar sem hann hefur átt sæti, hefur látið gera. Í l. um nýbyggingarráð, sem sett voru seint á árinu 1944, segir, að hlutverk nýbyggingarráðs sé „að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu 5 ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar“.

Þessi heildaráætlun hefur ekki sézt ennþá, en ráðið er fyrir alllöngu búið að ráðstafa öllu því fé, sem það fékk til umráða. En í sambandi við það frv., sem hér er til umr., hefur hv. 2. þm. Reykv., nýbyggingarráðsmaðurinn Einar Olgeirsson, lagt fram brtt. um það, að fjárhagsráð skuli gera 5–10 ára áætlun um nýsköpun. Og vafalaust lýsir hann þessu „plani“ sínu hér í kvöld. Hann átti að semja áætlun, gerði það ekki, en vill nú fela öðrum að semja 5–10 ára áætlun, þegar allir peningarnir eru eyddir. Sniðugur ráðsmaður sá!

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir stofnun 5 manna fjárhagsráðs, sem á að koma í staðinn fyrir tvö ráð, er starfað hafa að undanförnu, þ.e. viðskiptaráð og nýbyggingarráð. Á þannig að sameina hjá einni nefnd þau störf, sem þessar tvær nefndir hafa áður annazt, og eru lagaákvæði um innflutning og gjaldeyrismeðferð og um verðlag tekin upp í þetta frv. — En auk þess er hinu nýja fjárhagráði ætlað að hafa eftirlit með fjárfestingu og yfirstjórn hennar. Er þetta að því leyti nýmæli, að áður hefur engum einum aðila verið falið þetta verkefni. Að öðru leyti er hér ekki nýmæli á ferð, því að langt er frá því, að menn hafi verið frjálsir ferða sinna í atvinnu- og viðskiptalífinu á liðnum árum. Margs konar víðtækum hömlum hefur þar verið beitt af hálfu þess opinbera. Enginn hefur getað fengið keyptan varning frá útlöndum eða erlendan gjaldmiðil til annarra nota nema að fengnu leyfi hjá viðskiptaráði eða nýbyggingarráði. Meira að segja á þeim tíma, þegar innieignir þjóðarinnar í útlöndum jafngiltu nærri 600 millj. króna, en það komust þær hæst seint á árinu 1944. þótti ekki fært að aflétta gjaldeyrishöftunum. Var þó yfirstjórn fjármála og viðskiptamála þá hjá ráðherra úr Sjálfstfl., sem hefur talið sig fylgja frjálsri verzlun og hefði því vafalaust verið fús til að afnema höftin, ef hann hefði talið það fært. Menn geta því ekki vænzt þess. að nú sé hægt að létta hömlunum af, þegar allar þessar erlendu innieignir eru til þurrðar gengnar.

En þó að það sé þannig ekki nýtt í okkar sögu. að beitt sé gjaldeyrishömlum og eftirliti á atvinnu- og viðskiptasviðinu, þá hefur þetta opinbera eftirlit og vald verið hjá fleiri aðilum síðustu árin, og þar af leiðandi hefur gætt allmikils ósamræmis í framkvæmdum og heildaryfirlit og heildarstjórn vantað. Þetta hefur valdið þeim einstaklingum og stofnunum, sem hafa þurft að leita til „ráðanna“ til þess að koma fram málum sínum, erfiðleikum og tímatöfum, þar sem oft lék vafi á því, hvert átti að leita eftir nauðsynlegum leyfum, og dæmi eru þess, að hin opinberu „ráð“ hafa stjakað umsækjendum á milli sín vegna ágreinings þeirra um verkaskiptingu, auk þess sem af þessari skiptingu valdsins hefur leitt ósamræmi í leyfisveitingum og framkvæmdum. Þrátt fyrir öll opinberu afskiptin af framkvæmdum einstaklinga og félaga síðustu árin hefur engin ein stofnun haft yfirstjórn á framkvæmdunum og fjárfestingu landsmanna, og af því hefur leitt, að margar nauðsynlegar framkvæmdir hafa stöðvazt á miðri leið og orðið að sitja á hakanum, meðan fé var lagt í annað, sem ef til vill var ekki eins þýðingarmikið.

Með l. um nýbyggingarráð, sem samþ. voru á þingi 1944, var ákveðið að leggja til hliðar jafnvirði 300 millj. kr. í erlendum gjaldeyri, og skyldi fé þessu varið til kaupa á framleiðslutækjum eftir ráðstöfun nýbyggingarráðs. Öllum þessum gjaldeyri hefur þegar fyrir nokkru verið ráðstafað. En hitt hefur að verulegu leyti verið vanrækt að sjá um leið fyrir innlendu fjármagni á móti þessum útlenda gjaldeyri. Um leið og menn fá ávísun á erlenda peninga til þess að kaupa fyrir þá framleiðslutæki eða annað, þurfa þeir vitanlega að leggja fram hér íslenzka peninga á móti, og eigi þeir ekki þessa fjármuni sjálfir, þurfa þeir að fá þá að láni. Nú mun það vera svo um flesta þá, sem fengið hafa gjaldeyrisleyfi hjá nýbyggingarráði síðustu tvö árin til kaupa á skipum eða öðrum framleiðslutækjum, að þeir hafa ekki sjálfir nema lítið af því fjármagni, sem þurft hefur til kaupanna, og því orðið að leita eftir miklu lánsfé. En fyrir þeirri þörf hefur ekki verið séð, svo að fullnægjandi sé. Að vísu voru sett lög um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands á þingi í fyrra, og með þeim l. var seðladeild bankans gert skylt að lána stofnlánadeildinni allt að 100 millj. kr., en til þess að stofnlánadeildin geti annað því verki, sem henni er ætlað, þarf hún miklu meira fé til umráða, og þrátt fyrir öflugan áróður og áskoranir til almennings um að lána stofnlánadeildinni fé hefur ekki enn fengizt nema lítið af því, sem þar er þörf fyrir. Það mikla fjármagn, sem leikið hefur lausum hala að undanförnu, hefur að verulegu leyti runnið í aðra farvegi, og því liggur við borð, að ýmsar nauðsynjaframkvæmdir á sviði framleiðslustarfseminnar stöðvist vegna vöntunar á stofnlánum. Til dæmis um það, hvað miklar framkvæmdir eru í undirbúningi, og þar af leiðandi mikil eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri og innlendu fjármagni, má nefna áætlun, sem hagfræðinganefndin, er starfaði á vegum þingflokkanna s.l. haust, gerði um fyrirhugaða fjárfestingu þess opinbera og einstaklingsfyrirtækja árið 1947, en áætlun þessa er að finna í nál. hagfræðinganna. Þeir komast að þeirri niðurstöðu, að fyrirhuguð fjárfesting árið 1947 nemi 335 millj. kr. og þar af í erlendum gjaldeyri 130 millj. Þó taka þeir það fram, að þessar tölur muni vera heldur of lágar en of háar, þar sem þeim hafi á þeim skamma tíma. sem þeir höfðu til starfa, ekki tekizt að fá tæmandi upplýsingar um fyrirætlanir manna í þessum efnum. Af þessum fyrirhuguðu framkvæmdum er ekki, samkvæmt áætlun hagfræðinganna, nema litill hluti, eða um það bil 1/5, svo kallaðar nýsköpunarframkvæmdir, heldur er meginhlutinn ýmiss konar aðrar framkvæmdir ríkisins, bæjarfélaga og einstaklinga. svo sem húsabyggingar, rafveitur o.m.fl. Þetta eru miklu meiri framkvæmdir en verið hafa á síðustu 2 árum samkvæmt yfirliti um þær, sem birt er í áliti hagfræðinganna.

Þegar nú litið er til þess, að allar þær innieignir, sem söfnuðust utanlands á stríðsárunum, eru þegar eyddar, og þegar enn fremur eru athugaðar þær horfur, sem nú eru um sölu á íslenzkum framleiðsluvörum í öðrum löndum, verður að telja það ákaflega hæpið, og ég vil raunar segja útilokað, að þjóðin hafi 130 millj. kr. í afgang af gjaldeyristekjum sínum á þessu ári, þegar búið er að borga allar innfluttar neyzluvörur og aðrar daglegar nauðsynjar. En þetta er, eins og áður er getið, sú upphæð í erlendum gjaldeyri, sem hagfræðingarnir áætla, að þurfi til þeirra nýju framkvæmda, sem þeir gátu fengið upplýsingar um, að ráðgerðar væru á árinu. Og verði öll þessi upphæð ekki fyrir hendi, kemur til kasta hins væntanlega fjárhagsráðs að velja og hafna. Þá verður ráðið að hlutast til um, að þær af hinum nýju framkvæmdum, sem nauðsynlegastar eru, verði látnar sitja fyrir því fjármagni, bæði erlendu og innlendu, sem hægt er að verja í þessu skyni. Þá á fjárhagsráðið einnig, um leið og það miðar ákvarðanir sínar við fjárhagsástæðurnar, að athuga, hvað mikið vinnuafl er fáanlegt til hinna nýju framkvæmda, miðað við það, að næg atvinna haldist í landinu, en að framleiðsluatvinnuvegirnir fái fullnægt vinnuaflsþörf sinni.

Samkv. 3. gr. frv. er fjárhagsráði ætlað að semja fyrir fram áætlun um heildarframkvæmdir fyrir ár hvert. En samkv. 6. frvgr. á það jafnframt að gera sérstaka áætlun um framkvæmdir ríkisins, áður en fjárlög eru samin ár hvert, og sé við samning þeirrar áætlunar, er Alþ. og ríkisstj. geti haft til hliðsjónar við fjárlagaafgreiðslu og ákvarðanir um framkvæmdir, stefnt að því að tryggja öllum landsmönnum næga atvinnu, en koma jafnframt í veg fyrir ofþenslu.

Ákvarðanir um ríkisframkvæmdir verða að sjálfsögðu eins og áður í höndum Alþ. og ríkisstj., en hins vegar er fjárhagsráði ætlað að gera um þetta áætlanir, sem þing og stjórn geti haft til hliðsjónar. Þetta er nauðsynlegt ákvæði og sett í þeim tilgangi að tryggja eðlilegt samræmi í framkvæmdum þess opinbera og annarra, en slíkt hefur skort tilfinnanlega að undanförnu. Á síðustu þingum hafa verið sett mörg lög um ríkisframkvæmdir og um heimildir til ríkisstj. til þess að taka lán til þeirra. Hafa þessar lagasetningar að ýmsu leyti mótazt meira af vilja þingsins til þess að stuðla að framkvæmdum og framförum á ýmsum sviðum heldur en af mati á því, hvaða möguleikar væru fyrir hendi til framkvæmdanna á hverjum tíma. Ég man nú í svipinn eftir slíkum ríkislántökuheimildum frá þingunum 1944 og 1945, sem nema samtals hátt á annað hundrað millj. kr., og er þó ekki þar með talin 60 millj. kr. lántökuheimild vegna togarakaupanna, en það lán átti að greiðast upp, um leið og skipin seldust. Vel getur þetta hafa verið enn meira en það. sem ég man eftir nú í svipinn. Margar af þessum framkvæmdum eru enn ekki hafnar, m.a. vegna vöntunar á fjármagni. Hér fyrir utan eru svo allar þær ríkisábyrgðir, sem þingið hefur samþ. að veita fyrir lánum bæjar- og sveitarfélaga vegna ýmiss konar framkvæmda. sem þau hafa með höndum. Á þennan hátt er af ríkisins hálfu stofnað til samkeppni á lánamarkaðinum við þau einstaklingsfyrirtæki, sem hafa þurft að afla sér lánsfjár til þess að kaupa fyrir ný framleiðslutæki og endurnýja þau, sem fyrir voru. En í stað slíkrar samkeppni þarf að koma eðlileg samvinna þessara aðila og samræmi í framkvæmdum þess opinbera og annarra, þar sem hagsmunir heildarinnar eru hafðir fyrir augum. Þetta áður vanrækta, en stóra og þýðingarmikla verkefni er fjárhagsráðinu ætlað. Þessi opinberu afskipti eru óhjákvæmileg, eins og nú er ástatt, ef takast á að koma í veg fyrir stöðvun á mörgum nauðsynlegum framkvæmdum, sem þegar eru hafnar eða í undirbúningi.

Til þess að leitast við að skýra þetta mál nokkru nánar og leiða í ljós þá þörf, sem er nú um sinn fyrir opinbera afskiptasemi af öllum meiri háttar framkvæmdum landsmanna, sem fjárfestingu þarf til, vil ég taka hér dæmi. Við skulum hugsa okkur bónda, sem býr á jörð, þar sem þörf er mikilla umbóta. Hann á eftir að byggja nýtt íbúðarhús í stað gamla bæjarins. hann þarf að byggja nýtt fjós, fjárhús og hlöðu. Hann þarf að slétta það af túninu, sem óslétt er, svo að það verði ala vélfært, og hann þarf að stækka túnið, svo að engjaheyskapurinn verði óþarfur. Hann þarf líka að setja fjárhelda girðingu um túnaukann og hann þarf að girða beitilandið. Hann vantar líka rafmagn til heimilisnota og ýmiss konar vélar til þess að létta störfin. Við getum líka hugsað okkur. að þarna sé útræði og bóndinn þurfi að fá smíðaðan nýjan bát, vegna þess að sá gamli sé orðinn fúinn. Bóndinn á kannske eitthvað af peningum, sem hann getur varið til framkvæmdanna, en þó ekki nándar nærri nóg til þess að kosta þetta allt saman. — Og hvernig fer hann þá að? Gerir hann kröfu til þess að fá strax að láni hjá banka eða sparisjóði allt það fé, sem þarf til að vinna þetta allt á einu ári, og pantar hann vélarnar og efni til allra framkvæmdanna í einu? Sé þetta hygginn maður og forsjáll, fer hann öðruvísi að. Hann gerir áætlun um framkvæmdirnar og skiptir þeim niður á hæfilega mörg ár. eins og Hákon á Borgum, eftir því sem hann skýrði frá í sögu sinni. Hann metur það og gerir upp við sjálfan sig. hvað mikið sé hægt að gera á einu ári, hvað sé mest aðkallandi og hvað sé frekar hægt að láta bíða til næsta árs. Að þessari athugun lokinni hefst hann svo handa um þær framkvæmdir, sem hann metur mest, útvegar sér efni til þeirra og lánsfé, ef hann þarf á því að halda. En við þessar áætlanir og ákvarðanir hefur hann vitanlega enn eitt í huga, og það er þetta: Hvað get ég komið miklu í framkvæmd af þessum nýjungum í ár með þeim vinnukrafti, sem ég hef yfir að ráða, án þess að heyöflunin og önnur framleiðslustörf biði hnekki við það? Þau nauðsynjastörf verða vitanlega að sitja í fyrirrúmi, til þess að hinar nýju framkvæmdir geti orðið og verði einhvers virði, þegar þær eru komnar.

Eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu, verður ekki hjá því komizt að taka upp starfsaðferðir þessa forsjála bónda. Alþm. gera miklar kröfur um ýmiss konar ríkisframkvæmdir, bæjar- og sveitarstjórnir hafa líka margt á prjónunum, og félög og einstaklingar gera líka sínar kröfur um efni og fjármagn til nýrra framkvæmda. Þegar þetta allt er lagt saman, er það meira en svo, að hægt sé að koma því öllu í verk á skömmum tíma. Og þá þarf einhver aðili að vera til, einhver Hákon á Borgum, sem raðar skynsamlega niður framkvæmdum þessa smábýlis, sem þjóðfélagið okkar óneitanlega er, vegur og metur, annars vegar óskirnar og hins vegar framkvæmdarmöguleikana, og ákveður, hvað skuli sitja í fyrirrúmi og hvað skuli bíða þar til síðar. Þetta á fjárhagsráðið að gera.

Þess má geta, að ákvæði þessa frv. um stofnun fjárhagsráðsins eru í fullu samræmi við þær tillögur, sem fram komu frá hagfræðinganefndinni s.l. haust og birtar eru í áliti hennar.

Það er út af fyrir sig ekki vandasamt að setja um þetta lög og reglugerðir, þó að þar þurfi að sjálfsögðu margs að gæta, heldur kemur vandinn aðallega til sögunnar, þegar að framkvæmdunum kemur. Er þá þýðingarmikið, að afgreiðsla mála, sem undir ráðið heyra, geti orðið sem greiðust og að skriffinnskan, sem þegar er allt of mikil í ríki voru, færi þar ekki allt á bólakaf. Má í þessu sambandi binda á það, að í 5. gr. frv. er svo fyrir mælt, að með reglugerð skuli ákveða, að tilteknar minni háttar framkvæmdir séu heimilar án fjárfestingarleyfis. Er þess að vænta, að hæstv. ríkisstj. hafi þessi undanþáguákvæði svo rúm sem hún telur sér frekast fært, án þess að með því sé spillt fyrir því, að sá heildarárangur náist, sem stefnt er að með frv. Er það mikils um vert fyrir þá fjölmörgu einstaklinga um land allt, sem hafa minni háttar framkvæmdir með höndum, að þeir geti starfað að þeim með eðlilegum hætti og svipað og áður hefur tíðkazt án þess að þurfa að leita um mjög margt samþykkis stjórnarvalda í höfuðstaðnum. Þykist ég vita, að hæstv. stjórn sé þetta vel ljóst og að hún hafi þessi reglugerðarákvæði svo frjálsleg sem hún telur mögulegt.

2. gr. þessa frv. kveður á um skipun fjárhagsráðs og hlutverk þess. Þar er svo fyrir mælt, að ráðið skuli m.a. miða störf sín við það, „að öllum vinnandi mönnum, og þó sérstaklega þeim, er stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.“

Þetta er vel mælt, og ef fjárhagsráðinu auðnast að stuðla verulega að því, sem hér er nefnt, þá held ég, að það hljóti að fá góð eftirmæli, þegar þar að kemur, þó að störf þess verði vafalaust að einhverju leyti aðfinnsluverð, eins og önnur mannanna verk. En vitanlega er hið væntanlega fjárhagsráð ekki einhlítt í þessu efni. Það hefur ekki þessa siðabót að öllu á sínu valdi, heldur verða hér margir fleiri að koma til og leggja fram sitt lið, ef þetta takmark á að nást. Þetta ákvæði 2. gr. er í fullu samræmi við það, sem segir í öðru stjfrv., sem nú liggur fyrir þessari d., frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins. Þar er því slegið föstu, að afurðaverð til bænda á innlendum markaði eigi að miðast við það, að þeir hafi tekjur sambærilegar þeim, sem aðrar vinnandi stéttir njóta.

Þessi ákvæði í 2 stjfrv. er ekki hægt að skilja á annan veg en þann, að ríkisstj. vilji stefna að því að koma á réttlátri skiptingu þjóðarteknanna yfirleitt, en þess er brýn þörf og ástæða til að fagna því, að fjárhagsráðið á að miða störf sín við þetta. Þó að þetta sé þannig orðað, að sérstaklega skuli tryggja þeim mönnum, er stunda framleiðslustörf til sjávar og sveita, réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, þá er ljóst, að til þess að það mark náist, verða tekjur þeirra að vera í eðlilegu og sanngjörnu hlutfalli við tekjur annarra manna í landinu. Að öðrum kosti eru þær ekki réttlátar.

Ég vil í þessu sambandi og af þessu tilefni minnast með fáeinum orðum á þáltill., sem ég bar fram í sameinuðu Alþingi fyrr á þessu þingi. Efni hennar er nátengt því ákvæði frv., sem ég hef hér gert að umtalsefni, og vænti ég þess því, að hæstv. forseti telji ekki óviðeigandi, þótt ég geti hennar lítils háttar hér um leið. Tillagan er um hlutfallstölur tekna hjá þjóðfélagsstéttunum, og er á þskj. 304. Efni hennar er það, að ríkisstj. skuli skipa 6 manna nefnd til þess að gera tillögur um hlutfallstölurnar. Er þar lagt til, að félagasamtök fjölmennustu stéttanna í þjóðfélaginu hafi rétt til að velja einn mann hvert í þessa nefnd. Náist samkomulag um tekjuhlutfallið, verði síðan unnið að því að koma tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu í samræmi við það.

Þessari till. minni var vísað til allshn. Sþ. til athugunar. og hefur n. nýlega skilað áliti um hana. Kemur þar fram, að nm. voru ekki á eitt sáttir í málinu, en urðu þó sammála um að leggja til, að till. yrði vísað til ríkisstj. til athugunar. Get ég eftir atvíkum sætt mig við þá meðferð á því máli. Aðalatriðið tel ég það, að sem flestir vilji íhuga þetta mál og fallast á, að rétt sé að stefna að því að koma á meira réttlæti í skiptingu þjóðarteknanna, en ekki hitt, hvaða aðferðir þar eru við hafðar, þótt ég hins vegar telji mikils vert og líklegast til árangurs, að sem flest stéttasamtökin fáist til að gefa málinu gaum og beita sér fyrir sanngjarnri lausn þess. Og ég get því betur sætt mig við þá meðferð á till. minni. að henni verði vísað til hæstv. ríkisstj., þar sem stjórnin hefur einmitt í þessu frv. um fjárhagsráð lýst yfir þeim vilja sínum að koma á meira réttlæti í þessu efni og lagt fyrir ráðið að vinna að því, að tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu verði komið í heilbrigðara og réttlátara horf.

Við lifum á öld stéttarsamtaka og stéttabaráttu. Hver stétt fyrir sig reynir að ná til sín sem ríflegustum hlut, og er þess þá ekki ætið gætt svo vel sem skyldi, að jafnvægi þarf að haldast í þjóðfélaginu, ef vel á að fara. Ef einstakar stéttir eða hópar manna draga til sín meira verðmæti en þjóðarbúskapurinn í heild þolir, og meira en sanngjarnt er í samanburði við aðra, þá er komið á óheillabraut. Skipting þjóðarteknanna má ekki fara eftir því, hvað einstaklingar eða stéttir geta til sín togað í skjóli þeirrar aðstöðu eða þess valds, sem þeim hefur skapazt. Í stað slíkrar togstreitu þarf að koma réttlæti og sanngjörn lausn málanna, að beztu manna yfirsýn, þar sem nægilegt tillit er haft til þjóðarheildarinnar, og helzt þarf þetta að gerast með samkomulagi stéttanna.

Ég nefndi áðan bónda, sem þarf að gera margs konar umbætur í búskap sínum, og aðferðir hans við það. Nú ætla ég að taka annað dæmi. Við skulum hugsa okkur fiskibát, sem fer í róður og aflar vel. Bátverjar skipta aflanum, þegar í land er komið, eins og siður var í gamla daga og eftir þeim reglum, sem þar um gilda. Þeir fara í annan róður næsta dag, en þá afla þeir þriðjungi minna en fyrri daginn. En þegar að því kemur að skipta í fjörunni, þá vandast málið. Einn hásetinn heimtar að fá jafnmarga fiska í sinn hlut og daginn áður, þó að aflinn sé nú þriðjungi minni. „Mér kemur það ekkert við, hvort mikið eða lítið aflast, segir hann. „Mér veitir ekkert af þessu, og þetta vil ég hafa.“ Þá kemur annar til sögunnar, ekki vægari í kröfum. „Ég vil fá jafnmarga fiska í minn hlut nú og í gær“, segir hann, „og svo vil ég fá einn fisk í viðbót núna. vegna þess að nýlega hafa verið hækkaðir tollar. Ég verð að gera gagnráðstafanir, og þess vegna heimta ég einum fiski meira en í gær. Hvort mikið eða lítið aflast. það kemur ekki mál við mig.“

Og svo er hnakkrifizt út af skiptunum.

Þið segið nú ef til vill, góðir hálsar, að slíkt og því líkt komi ekki fyrir hjá sjómönnunum, enda væri þetta óbjörgulegt úthald. Rétt mun það, að þetta gerist ekki bókstaflega í sjóferðum. En er ekki þetta dágóð mynd af okkar nýendurreista og sjálfstæða lýðveldi? Landið er báturinn og landsfólkið áhöfnin.

Heildartekjur þjóðarinnar eru vitanlega misjafnlega miklar frá ári til árs, og er margt. sem þeim mismun veldur. Tíðarfar er ekki alltaf jafnhagstætt fyrir framleiðslustarfsemina. Uppskera og aflabrögð er hvort tveggja ótryggt og breytingum háð. Þá hafa markaðsástæður í viðskiptalöndunum mikil áhrif á efnalega afkomu okkar. Hvernig er þá hægt að hugsa sér, að heilar stéttir í þjóðfélaginu, hvort sem það eru nú embættismenn ríkisins, kaupsýslumenn, daglaunamenn eða einhverjir aðrir, geti haft fastákveðnar og óhreyfanlegar tekjur? En þó eru til hópar manna í landinu. sem hugsa og tala á þessa leið: „Okkur kemur það ekkert við, hvernig þjóðartekjurnar breytast, hvernig aflast þetta eða hitt árið eða hvernig ykkur gengur að selja framleiðsluna. Við þurfum að fá okkar ákveðnu laun, og við gerum kröfu til þess að fá þau. Við sættum okkur ekki við neitt öryggisleysi í þeim efnum.“

Svo rísa deilur, þar sem rifizt er um hvern spón og bita, sem til fellur á þjóðarheimilinu, og minna þær aðfarir oft einna helzt á hrafnahóp í kringum hrossskrokk.

En er það nú alveg óhjákvæmilegt að hafa þjóðfélagið svona? Nei, langt frá því. Það er alveg óþarft. Það er vel hægt að koma á það meiri menningarbrag, ef menn, nógu margir, aðeins vilja og vinna að því. Hér er nóg af hagfróðum mönnum, sem geta reiknað út þjóðartekjurnar ár hvert og komizt að niðurstöðu um það, hvað mikið sé til skipta milli landsmanna. Og það er hægt að setja sanngjarnar reglur um skiptingu þjóðarteknanna, ef menn aðeins vilja gera það og fara síðan eftir þeim. Í launalögunum er ríkisstarfsmönnum skipt í milli 10 og 20 launaflokka eftir gildi starfanna. Þannig er hægt að hafa þetta um fleiri. Ef forvígismenn stéttanna vilja á annað borð koma sér saman og fremur stuðla að friði en ófriði í landinu, þá hljóta þeir að geta náð samkomulagi um það, hvernig tekjuhlutföllin eigi að vera hjá hinum ýmsu starfshópum, t.d. hjá sjómönnum, landverkamönnum, embættismönnum og kaupsýslumönnum, hvað bændurnir þurfi að fá fyrir sínar vörur, til þess að tekjur þeirra verði réttlátar í samanburði við tekjur annarra, hvað húsameistararnir og aðrir byggingarmenn eigi að fá mikið fyrir að byggja hús af ákveðinni stærð á hverjum tíma, til þess að tekjur þeirra verði í eðlilegu samræmi við tekjur annarra, o.s.frv. — Þegar þetta hlutfall væri ákveðið, ættu svo tekjur stéttanna að fylgja því og breytast eftir heildartekjum þjóðarinnar á hverjum tíma. Þessi tilhögun kæmi í stað þess vísitölufyrirkomulags, sem nú gildir, en fæstir munu þó að vísu telja, að sé viðhlítandi til frambúðar.

Þegar þessi nýja skipan væri komin á, væri það allra hagur, þegar vel árar og þjóðartekjurnar vaxa, og þá mundu líka allir bera byrðarnar í eðlilegum hlutföllum, þegar verr gengur.

Ég held því ekki fram, að þetta sé vandalaust, en framkvæmanlegt er það, ef vilji er fyrir hendi. Og það væri áreiðanlega stórum hollara og þarfara viðfangsefni fyrir stéttasamtökin í landinu, að reyna að ná samkomulagi um slíka lausn málanna, heldur en það meira og minna neikvæða nagg, sem þau standa nú í oft og einatt. En einmitt á því, hvernig stéttirnar í þjóðfélaginu beita samtökum sínum og valdi, mun það fyrst og fremst velta, hvort hér verður stefnt inn í nýja Sturlungaöld eða í áttina til réttarríkis, sem samboðið er siðuðu fólki. þar sem reynt er að leita sanngirni og beita henni við lausnir allra mála.

Samkv. 2. gr. frv. á fjárhagsráðið enn fremur að miða störf sín við það, „að atvinnuvegir landsmanna verði reknir á sem hagkvæmastan hátt á arðbærum grundvelli og stöðvist ekki vegna verðbólgu og dýrtíðar.“

Hér er komið að því, sem nú skiptir mestu máli. að takist að koma í veg fyrir enn frekari vöxt verðbólgunnar og að samtök fáist um að draga úr henni, til þess að undirstöðuatvinnuvegir landsmanna geti komizt á traustan grundvöll. Það er í raun og veru táknrænt dæmi um þá öfugu þróun, sem hér hefur orðið í þessum efnum á síðari tímum, að um það leyti, sem fyrstu nýju skipin eru að koma til landsins og búast á veiðar, þá er svo komið rekstri sjávarútvegsins, að ríkið verður að ganga í ábyrgð fyrir hærra verði á framleiðsluvörum hans, sumum a.m.k., heldur en útlit er fyrir, að nokkurs staðar sé hægt að fá fyrir þær erlendis. Og þetta er sá atvinnuvegur, sem hefur skapað og verður einnig framvegis að skapa að mestu leyti þau verðmæti, sem þjóðin hefur til að nota í viðskiptunum við aðrar þjóðir. En þrátt fyrir þessar ömurlegu staðreyndir er til hópur manna í landinu, sem enn vill hlaða nýjum byrðum á þennan atvinnuveg og aðra og hefur í hótunum um að beita sér gegn þeirri viðleitni ríkisstj. að stöðva verðbólguskriðuna. Reynt er að nota það sem tilefni æsinga og andstöðu, að nýlega hafa verið hækkaðir tollar til þess að jafna hallann á fjárl. Vandlega er þá forðazt að geta þess, að ríkissjóður þurfti að fá auknar tekjur, m.a. og ekki hvað sízt til þess að geta risið undir útgjöldum af löggjöf síðustu þinga. sem þeir hinir sömu menn, sem nú hamast gegn tekjuöfluninni, töldu sig mjög fylgjandi, svo sem lögum um skólamál, lögum um almannatryggingar o.fl. Líka gleymist að geta þess, að um sama leyti og hin nýju tollalög komu til framkvæmda, hafa stjórnarvöld landsins minnkað allverulega álagningu verzlana á innfluttan varning, sem vegur að nokkru upp á móti tollahækkuninni.

Málið er túlkað einhliða og villandi í því skyni að torvelda ríkisstj. nauðsynlegar ráðstafanir, sem nú þarf að gera til þess að forða aðalatvinnuvegum landsmanna frá enn frekari vandræðum.

En þó að það hljóti að verða og þurfi að verða höfuðviðfangsefni næstu mánaða að stöðva verðbólguna og gera ráðstafanir til þess að minnka hana. svo að afstýrt verði stöðvun atvinnulífsins og þar með fylgjandi atvinnuleysi og vandræðum, þá er vitanlega ýmislegt fleira, sem þarf að gefa gætur. Ríkisútgjöldin hafa farið síhækkandi og eru orðin ískyggilega há. Ég vil nefna hér fáeinar tölur, sem sýna, hvert stefnir. Á árunum 1935–1936, að báðum meðtöldum, Var útflutningsverðmæti landsins að meðaltali 53,7 millj. á ári. Á þeim árum voru ríkisútgjöldin samkvæmt rekstrarreikningi ríkissjóðs að meðaltali 16,6 millj. kr. eða um 31% af útflutningnum. En s.l. ár, 1946, var vöruútflutningurinn frá landinu um 291 milljón að verðmæti, og þá voru ríkisútgjöldin um það bil 60% af útflutningnum, eða um það bil helmingi hærri hlutfallslega en á árunum fyrir stríðið. — Og enn hækka gjöldin. Alþ. hefur nýlega samþ. fjárlög fyrir árið 1947 með rekstrarútgjöldum, sem nema rúmlega 196 milljónum króna. Það er nær 70 en 60% af útflutningsverðmæti s.l. árs. En enginn veit enn. hvað útflutningur þessa árs verður mikill.

Þetta eru tölur, sem tala sínu máli. Yfirbygging þjóðfélagsins fer sífellt stækkandi, og þó örast á síðustu tímum. Þangað vilja flestir komast, en fólk vantar til bjargræðisatvinnuveganna. Í sumum verstöðvum voru fiskiskip ónotuð í vetur vegna vöntunar á sjómönnum. Og þó eru nýju togararnir aðeins að byrja að koma til landsins. Þetta er öðruvísi en það ætti að vera.

Þannig er þessu varið. — Það eru ýmsir vankantar á þeim heimi, sem mennirnir eru að smíða, bæði hjá stóru þjóðunum og eins hjá okkur, hinni fámennu þjóð á þessum hólma.

Í næsta mánuði verður lýðveldi okkar þriggja ára. Sú lýðveldisbygging, sem hér hefur verið að rísa á þessum þremur árum, kemur mér þannig fyrir sjónir, í fáum orðum sagt:

Hús í smíðum. Hljómar í viðum

hefils raust og sagar kliður.

Háa stiga á stafni og hliðum

stiga smiðir upp og niður.

Hamrar og axir höggva og sníða.

Höllin á að fríkka og stækka.

Efni safna ýtar víða.

Enn skal turninn breikka og hækka

Yfirsmiður, æruverður,

aldar prýði, líkur jarli,

öllu stjórnar, aldrei verður

orða- og ráðafátt þeim karli.

Tæmist vorar timburhlöður,

tæknin bjargar nýrra daga.

Allar hallar undirstöður

upp í turninn smiðir draga.

En hvernig skyldi það vera með þyngdarlögmálið? Ætli það haldi ekki gildi sínu þrátt fyrir alla nýsköpun vorra daga? Og mun þess þá ekki ærin þörf að skjóta stoðum undir bygginguna, í stað þeirra, sem kippt hefur verið burtu? Er það ekki einmitt það verk, sem ríkisstj. nýja, og fjárhagsráðið, þarf fyrst og fremst að vinna?