12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Einar Olgeirsson:

Haustið 1944 var gert samkomulag um að reyna að stjórna einum þýðingarmesta þætti þjóðarbúskapar vors, nýsköpun atvinnulífsins, samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun, — en ekki að láta geðþótta peningamanna og meira eða minna óljósar hugmyndir atvinnurekendanna um gróðavon eða markaðshorfur ráða framkvæmdunum á þessu þýðingarmikla sviði. Í kosningunum s.l. sumar kepptust allir flokkarnir við að lofa nýsköpun þessa og heita þjóðinni því að halda henni áfram. Nú sjást efndirnar hjá gömlu þjóðstjórnarflokkunum þremur, er þeir nú hafa myndað sína gömlu þjóðstjórn á ný. Hefur stjórnarliðið nú við 2. umr. sýnt hinn sanna hug sinn í garð nýsköpunarinnar með því að fella allar till. mínar um að framkvæma áætlanir nýbyggingarráðs um sjávarútveg og um gjaldeyrissparnað og drepa allar ákvarðanir um stórhuga framtíðarfyrirætlanir.

Það er hver þjóð sinna eigin örlaga smiður, og þjóð vor skapar sér sína sögu, að vísu ekki alveg eftir eigin vild, en vefur hana úr þeim þáttum, sem fyrir eru. Hve vel sá efniviður er notaður, fer eftir kjarki og framsýni þess, er efnið mótar. Bölsýni og bjartsýni sköpum vér sjálfir, mennirnir, og ef vesaldómur og trúleysi á land og þjóð ríkir í hugum okkar, þá verður líka sagan, sem vér sköpum, aum og vesalmannleg. En ef vér setjum markið hátt og spörum ekki að gera stórar kröfur til sjálfra vor — telja kjark í þjóðina og vekja hana til meðvitundar um möguleika sína, þá getum vér unnið stórvirki, jafnvel af litlum efnum.

Það þótti dökkt fram undan haustið 1944. Helztu fjármálaspekingar þjóðarinnar sáu ekkert nema hrun og öngþveiti á næstu grösum, og við, sem bentum á, að þjóðarinnar biði bjartasta framtíð, ef hún hagnýtti tækifærið til nýsköpunar atvinnulífsins, vorum kallaðir skýjaglópar og nýsköpunarkenningar vorar taldar glapræði, landráð og svik. Með samtökum þeirra, sem þá trúðu á landið og þjóðina, var kvíðanum og bölsýninni á nokkrum mánuðum breytt í áræði og bjartsýni, sem gagntók alla þjóðina. Burt frá hrunstefnunni var sveigt inn á braut nýsköpunar og djörfustu framfara, sem land vort hefur þekkt. Bjartsýnin, sem þá sigraði, hefur sett mark sitt óafmáanlega á tvö síðustu ár Íslandssögunnar. Sú bjartsýni var oss dýrmætari en allir togararnir, sem keyptir voru í krafti hennar. Og ávextir þess áræðis munu halda áfram að setja mark sitt á söguna næstu tvö árin, þrátt fyrir allt afturhald. Hver togari og hvert flutningaskip. sem siglir í höfn á þessu og næsta ári, mun verða lifandi sönnun þess. Það er því óhrekjanlega sannað með staðreyndum þessara ára, hver lífsnauðsyn Íslandi er á djarfmannlegu áræði og einbeitingu orku sinnar til þess að skapa sem allra bezt framleiðslukerfi á eins skömmum tíma og nokkur kostur er á.

Við, sósíalistar, hófum ekki baráttuna fyrir nýsköpun atvinnulífsins vegna þess eins, að okkur þætti svo gaman að því. að þjóðin eignaðist nýja togara eða skapaði sér fjölbreytt og mikilvirkt framleiðslukerfi. Við hófum baráttuna vegna þess, að við álitum, að nú væru að skapast á Íslandi efnahagsleg skilyrði til þess að afnema það böl, sem lengst hefur þjáð íslenzka alþýðu og löngum þjóð vora alla, fátæktina. Við drógum enga dul á þetta mark vort. Í útvarpsræðu fyrir kosningarnar í sumar kynnti ég takmark Sósfl. í því efni með eftirfarandi orðum:

„Takmarkið, sem þjóðin á að setja sér að ná á næsta áratug, er: afnám fátæktarinnar. Nógu lengi hafa alþýðuheimili lands vors þjáðst undir fargi fátæktarinnar, undir þrældómnum og niðurlægingunni, undir sjúkdómunum og sorgunum, sem því böli fylgir.

Sósfl. álítur það helga skyldu þjóðarinnar, þegar hún nú er laus undan sjö alda erlendri áþján, að losa sig á fyrsta áratug lýðveldisins endanlega úr þeim viðjum örbirgðar og eymdar, sem þjakað hefur þorra Íslendinga í þúsund ár, — skapa hverjum þjóðfélagsþegn sínum öryggi gegn skorti.

Sósfl. álítur raunhæfan grundvöll vera að skapast fyrir afnámi fátæktarinnar með þeim þjóðarauð og þjóðartekjum, sem vér öðlumst nú í krafti nýrrar tækni. En skilyrði til þess, að sá grundvöllur verði hagnýttur til þess að ná þessu háleita marki — en ekki til þess að auka braskið, fjármálaspillinguna og arðránið í þjóðfélaginu er réttlát skipting eigna og tekna í landinu, og hana getur alþýðan tryggt í krafti lýðræðisins í landi voru með góðu kaupi, öruggri atvinnu, fullkomnum alþýðutryggingum og auknu valdi alþýðu í atvinnulífinu.“

Svo mörg voru þau orð.

Í samræmi við þessa yfirlýsingu okkar höfum við nú lagt fram tillögur við meðferð þessa máls, sem miða að þessu tvennu:

1) að auka og margfalda framleiðslukerfi vort á næsta áratug samkv. fyrir fram gerðri áætlun;

2) að tryggja vinnandi stéttunum aukin áhrif og völd í atvinnulífinu, samfara því sem frelsisbarátta þeirra utan þingsalanna miðar að því að tryggja þeim vaxandi hlutdeild í hraðvaxandi afrakstri og auðlegð þjóðfélagsins.

Og í samræmi við hagsmuni skammsýnasta hluts auðmannastéttarinnar hefur afturhaldið hér á Alþ. drepið hverja einustu brtt. vora, samtímis því sem það brennimerkir viðleitni verkalýðsins til vaxandi hlutdeildar í velmegun þjóðarinnar sem glæp.

Það ætti þó nú að vera orðið hverjum manni ljóst, hver hagur það er þjóðinni að verja fé sínu fyrst og fremst til sköpunar nýs framleiðslukerfis — og hart er að sjá meiri hlutann hér á þingi drepa það nú að framkvæma t.d. þá áætlun nýbyggingarráðs að afla þjóðinni 20 nýrra togara fram að 1950.

Íslenzka þjóðin veit, að ef hún leggur að sér til þess að koma upp á skömmum tíma stórfelldu framleiðslukerfi, þá fær hún það margfalt endurgreitt í stórbættum þjóðarhag eftir nokkur ár.

Það er gott dæmi um slíkt nú, að b.v. Ingólfur Arnarson, fyrsti nýsköpunartogarinn, skuli þegar vera búinn að selja fyrir eina millj. kr. á 3 mánuðum. þannig að ef svipað gengi. mætti gera ráð fyrir, að hann seldi fyrir 3 millj. kr. á ári eða m.ö.o. skapaði gjaldeyri á einu ári, sem svarar andvirði hans sjálfs. 30 slíkir togarar ættu með sama hætti að geta aflað gjaldeyris fyrir 90 millj. kr. á einu ári.

Skúla Guðmundssyni fannst slík undirstaða sem þessir togarar og þeirra afli veik og líkti því við, að undirstöðurnar væru dregnar í turninn. Það er ekki nýtt að heyra slíkt úr því heygarðshorni.

Það voru slíkar ráðstafanir sem öflun slíks togaraflota. sem helztu fjármálaspekingar Íslands og aðalstuðningsblöð núv. stjórnar töldu fásinnu, þegar við lögðum þær til árið 1944. Nú standa þessir hrunadansarar svo berstrípaðir frammi fyrir þjóðinni, að þeir reyna að hylja nekt sína með stolnum fíkjublöðum. — En baráttan fyrir nýsköpun atvinnulífsins stóð ekki aðeins um það að skapa fullkomið framleiðslukerfi, er gæti staðið undir betri lífsafkomu þjóðarinnar. — Inntak hennar var einnig hitt, að skapa efnahagslegt sjálfstæði Íslands, — losa þjóðina úr því niðurlægingarástandi að flytja hráefni sín óunnin eða lítt unnin út sem hver önnur nýlenda. Takmarkið var að hagnýta auðlindir lands vors til þess að reisa hér stóriðju á sem flestum sviðum, er fullnægt gætu hráefni, sem unnin yrðu úr skauti lands og sjávar.

Verkalýður Íslands og atvinnurekendur tóku höndum saman í þessari efnahagslegu frelsisbaráttu þjóðarinnar árið 1944. Báðar þessar stéttir gerðu þetta í meðvitund þess, að verið væri þar með að smíða vopn handa þjóðinni, sem gerðu hana sem heild sterkari í lífsbaráttunni, hver svo sem forystu þjóðarinnar hefði, verkalýðurinn eða atvinnurekendur. Þær komu sér saman um að reyna að stjórna þjóðinni í einingu og láta það sitja í fyrirrúmi að hagnýta þennan auð, er Íslandi hafði borizt, til þess að auka og margfalda framleiðslukerfi þess allri þjóðinni til blessunar. Okkur sósíalistum var ljóst, að það lá á, að þessi vopn í efnahagslegri frelsisbaráttu þjóðarinnar væru smíðuð sem fyrst, til þess að þjóð vor yrði á sinn friðsamlega hátt sem bezt vígbúin, þegar baráttan um afkomuna færi að harðna úti í heimi. Þess vegna lögðum víð, sósíalistar, aðaláherzluna á, að allur sá auður, sem Ísland hafði eignazt, yfir 500 millj. kr., væri lagður til hliðar á nýbyggingarreikning, þótt ekki tækist þá samkomulag nema um 300 millj. kr. sakir skilyrða Alþýðuflokksins.

Þess vegna lögðum við sósíalistar líka áherzlu á það, að þjóðin yrði að setja sér það að lifa á því, sem hún flytti út. en falla ekki fyrir freistingunni að eyða innistæðunum, sem hægt var að nota til að leggja grundvöll að efnahagslegri valferð hennar í framtíðinni. — Það tókst að fá því framgengt, að þessar 300 millj. kr., sem til hliðar voru lagðar, væru notaðar til þess að umskapa algerlega farskipa- og fiskiskipastól landsins, — hefja margföldun á fisk- og síldariðnaði í landinu og byrja á vélbyltingunni í landbúnaðinum. — Öllum Íslendingum kemur nú saman um það, að slík stórvirki hafi verið unnin fyrir þessar einustu 300 millj. kr., að kalla megi það atvinnubyltingu í landinu, og þjóðin reisir höfuðið hærra með réttlátu stolti í hvert sinn, er nýr togari siglir í höfn.

En þessi bylting kostaði baráttu. Fyrir hverjum sigri framfaranna á atvinnu- og fjármálalífinu varð að berjast við þann hluta peningavaldsins, sem fyrst og fremst heimtaði að fá féð til stundargróðans í verzluninni og braskinu. Sú barátta harðnaði því meir sem á leið. og að lokum fór svo, einkum eftir kosningarnar í júní 1946, að íslenzka yfirstéttin brást í því bandalagi, sem hún hafði myndað við verkalýðinn um einbeitingu að því að efla framleiðslukerfi landsins og tryggja efnahagslegt sjálfstæði þess. Yfirstéttin brást, þegar atvinnurekendastéttin innan hennar lét undan þeim hluta peningavaldsins, sem krafðist þess að fá að eyða í verzlunargróða handa sér. „lúxusbyggingar“ og annað, sem þjóðin gat verið án. Sósfl. barðist frá upphafi nýsköpunarinnar fyrir því, að meira fé en 300 millj. yrði lagt inn á nýbyggingarreikning, og birti hvað eftir annað í blöðum sínum kröfur þess efnis.

Nýbyggingarráð lagði um mitt sumarið 1946 einróma til, að 100 millj. kr., sem þá voru ennþá til óeyddar utan við nýbyggingarreikning, væri bætt inn á hann til þess að tryggja áframhald nýsköpunarinnar. Vald heildsalanna var þá nógu mikið til þess, að sú krafa væri algerlega hundsuð, og síðari hluta ársins 1946 voru þessar 100 millj. kr. notaðar í almenna eyðslu og neyzlu. Það samsvarar því, að andvirði allra nýsköpunartogaranna hefði verið hagnýtt til augnabliksþæginda. Og það var ekki nóg með, að ekki fengist samkomulag um svo viturlega tillögu sem þessa. Meira að segja lög, sem til urðu í þessa átt, voru ekki haldin.

Í árslok 1945 hafði nýbyggingarráð samið frv., sem að lögum varð, um, að 15% af andvirði útflutnings hvers árs skyldi bætt inn á nýbyggingarreikning. Þessi lög voru brotin, heildsalastéttinni fannst ekki nægilegt að hafa til umráða 85% af útflutningi landsins þessi árin og fá þar að auki að hagnýta sér yfir 200 millj. kr. af inneign Íslands, eins og hún var 1944. Heildsalastéttin knúði ráðherra sinn í ríkisstj., annan fulltrúa Sjálfstfl., til þess að bregðast þeirri lagaskyldu að leggja þessi 15% til hliðar, og þrátt fyrir það að ítrekaðar áminningar kæmu frá nýbyggingarráði og fulltrúar Sósfl. í ríkisstj. gerðu kröfu um framkvæmd laganna, fékkst þessi upphæð ekki greidd inn og hefur ekki verið greidd inn ennþá nema að hverfandi litlu leyti. Augnablikshagur yfirstéttarinnar varð í hennar augum þýðingarmeiri en þjóðarþarfir. Þannig brást íslenzka yfirstéttin hugsjón þjóðarinnar um áframhaldandi nýsköpun atvinnulífsins.

Þegar sýnt var hvernig hér fór, var hafin ein atrennan enn til þess að reyna að tryggja það, að nægur hluti þjóðarteknanna yrði lagður til hliðar til þess að endurskapa allt framleiðslukerfið sem fyrst.

Nýbyggingarráð lagði einróma til í áætlun sinni haustið 1946, að þaðan í frá yrðu 25% af útflutningsverðmætinu lagt á nýbyggingarreikning í stað 15% áður og færði óhrekjandi rök að.

Sósfl. tók þessa kröfu um 25% upp við stjórnarsamningana í vetur og bar hana fram nú við 2. umr. þessa máls. Nú gátu þjóðstjórnarflokkarnir, sem hæst töluðu um nýsköpun í síðustu kosningum og allir vildu tileinka sér hana, sýnt alvöru sína. — Þeir sameinuðust allir um að drepa þessa till., þó að fulltrúar þeirra allra hefðu staðið saman um hana í nýbyggingarráði.

Eftir að yfirstéttin hafði brugðizt nýsköpuninni og atvinnurekendur gefizt upp vegna áfergju heildsalanna, var tekinn upp aftur gamli söngurinn um hrunið, sem fram undan væri, — um, að engir peningar væru til, að íslenzkar afurðir væru ekki samkeppnisfærar, að alþýðan yrði að fórna.

Það væri til skammar fyrir oss, Íslendinga, að láta það heyrast, að hér sé ekki hægt að halda áfram uppbyggingu atvinnulífsins á öllum sviðum, vegna þess að peningar til að borga með tækin liggi ekki í bönkum erlendis. Aðeins sá á skilið efnahagslegt frelsi, sem daglega verður að vinna sér fyrir því og hefur það siðferðisþrek og framsýni að geta neitað sér um einn hlut í dag til þess að geta lifað betur á morgun. Og þegar vér, Íslendingar, nú — í krafti þess stórhuga, sem mótaði hag vorn árin 1944–1946 — höfum eignazt 30 nýtízku togara og stórvirk tæki á öðrum sviðum, þá förum við sannarlega ekki berhentir út í baráttuna fyrir hraðari uppbyggingu og efnahagslegu frelsi.

Vér sósíalistar höfum aldrei álitið nýsköpun atvinnulífsins einskorðaða við innieignir erlendis. Árið 1939 lögðum við til með frv., er við lögðum fyrir Alþ. þá, að hafin yrði nýsköpun atvinnulífsins hér á landi með skipulögðum sparnaði af þeim litlu tekjum, sem þjóð okkar þá hafði, og vér höfum nú lagt fyrir þetta þing í sambandi við það frv., sem hér er verið að ræða, ýtarlegar till. um nýsköpun atvinnulífs vors á næsta áratug á grundvelli þess að spara 25% af útflutningi hvers árs til uppbyggingar stórvirks framleiðslukerfis.

Hugsum okkur, að meðaltal útflutningsins á næstu 10 árum væri 400 millj. kr. Ef 25% væru lagðar til hliðar á nýbyggingarreikning, yrðu það 1000 millj. kr. á 10 árum, sem hægt væri að hagnýta til að skapa hér ef til vill hlutfallslega stórvirkasta framleiðslukerfi heims, miðað við stærð þjóðarinnar. Og þegar þjóðin hefur séð, hvað einar einustu 300 millj. kr. eru að gefa henni í aðra hönd, þegar þeim er varið til öflunar framleiðslutækja, þá getur hún gert sér í hugarlund, hvað 1000 millj. kr., eða jafnvel þótt það væri eitthvað lægri upphæð, mundi veita.

Í þeim brtt., sem ég lagði fram við 2. umr. þessa máls. var í höfuðatriðum gengið út frá eftirfarandi:

1) Að sjávarútvegsáætlun nýbyggingarráðs yrði framkvæmd til fullnustu á næstu 10 árum, þar með talið. að keyptir verði 20 nýir togarar. sem mundu kosta eitthvað yfir 60 millj. kr.

2) Að lokið verði við hina fyrirhuguðu nýsköpun í síldar- og fiskiðnaði og þó alveg sérstaklega lýsisherzluverksmiðjuna, sem ætluð er til að vinna úr síldarlýsinu, þannig að það verði markaðshæf vara í hvaða landi sem er.

Einmitt nú, meðan verðið á síldarlýsi er eins hátt og raun ber vitni um, þurfum við að koma slíkri verksmiðju upp til þess að gera þessa vöru okkar fullunna út úr lýsisverksmiðjunum álíka dýrmæta og síldarlýsið sjálft er okkur nú, þó að það þá yrði farið að falla. En fram að þessu höfum við látið erlenda auðhringa gleypa gróðann af því að herða þetta lýsi og selja það smjörlíkis- og sápuverksmiðjum Evrópu. Uppkoma lýsisherzluverksmiðju hér á landi er einn stór þáttur í efnahagslegri frelsisbaráttu Íslendinga til þess að losna úr einokunarklóm „Unilever“-hringsins.

En aðalþátturinn í brtt. mínum við frv. um fjárhagsráð, hvað framtíðarstefnuna snertir, er sá, að undirbúa skuli nú þegar og koma síðan upp á árabilinu 1951–1956 þeim stærstu raforkuverum, sem völ er á, með tilliti til framleiðslu ódýrrar orku og stóriðju á grundvelli hennar. — Íslendingar geta ekki byggt framtíð sína á sjávarútvegi einum saman. Til þess eru fiskimiðin of ótrygg, meðan ekki tekst alþjóðlegt samkomulag um vernd þeirra og um sérréttindi okkar Íslendinga til hagnýtingar þeirra. Við þurfum þess vegna að hagnýta þá auðsuppsprettu, sem fiskimið okkar eru, einmitt meðan þau eru eins mikil auðsuppspretta og nú, til þess að leggja grundvöllinn að stóriðju á Íslandi með hagnýtingu beztu fossa vorra, til að veita okkur ódýra orku, er keppt geti við hvaða ódýran orkugjafa sem vera skal. Öll framtíð iðnaðar og landbúnaðar á Íslandi byggist á rafmagni, — nógu miklu og nógu ódýru rafmagni. Skorturinn á rafmagni er nú þegar þrándur í götu iðnaðarþróunar og vélbyltingar í landbúnaði. Reynslan hefur verið sú, að við höfum verið svo seinir í að koma orkuverunum upp, að hvert einasta orkuver er að heita má orðið of lítið, jafnóðum og lokið er við það, og hvaða stóriðja sem er, sem áhugi hefur skapazt á að reisa hér heima, strandar næstum strax á skorti á rafmagni. Það má nefna áburðarverksmiðjuna sem dæmi. — Af hverju erum við svona seinir að koma upp raforkuverum? Hvað veldur því. að við leggjum ekki í þau nógu stór og nógu mikilvirk í einu — sem þó er viðurkennt að vera eina aðferðin til þess að geta framleitt nógu ódýra orku? Það er fátæktin, fjármagnsleysið og gjaldeyrisskorturinn, sem valdið hefur þessu á undanförnum áratugum. Eða hver man ekki þá tíma, þegar fulltrúar Íslands urðu að ganga land úr landi til að biðja um lán til þess að koma upp Sogsvirkjuninni — og fengu hvað eftir annað nei?

Í Urriðafossi í Þjórsá má virkja yfir 100 þúsund hestöfl. Ef til vill er það einhver ódýrasta stórvirkjun, sem völ væri á á Íslandi, en orkuvirkjanir eru einmitt það gjaldeyrisfrekasta, sem við getum ráðizt í. — Skilyrðin til þess, að við þorum að ráðast í svona stórvirki og getum það, eru eftirfarandi:

1) Að við eigum fjármagnið sjálfir í erlendum gjaldeyri, því að ella mundum við þurfa að borga svo háa vexti, ef við ætluðum að fá það lánað, að orkuframleiðslan yrði okkur of dýr. og við mundum aldrei þora að leggja út í hana þess vegna.

2) Að við eigum þetta fé fyrirliggjandi allt í einu lagi, svo að við getum ráðizt í virkjunina í einu, en þurfum ekki að taka hana í smápörtum.

3) Að við getum séð til þess, að samtímis raforkuverinu komi upp það stórfelldar verksmiðjur í ýmsum greinum, að orkuframleiðslan verði næstum því strax hagnýtt til fullnustu, svo að vaxtatap verði sem minnst, og jafnframt fylgist að margföldun ræktaðs lands, til þess að landbúnaðurinn geti hagnýtt vélaaflið til hins ýtrasta og sveitaheimilin notið þess sem mest.

En ef þetta á að gerast, þá verður að fara saman áætlunin um uppkomu raforkuversins — um sköpun stóriðjunnar, sem á að nota kraft þess, og þar með rannsóknin á því, hvers konar iðja það helzt eigi að vera — og sú vélabylting í landbúnaðinum, sem gerir honum kleift að hagnýta raforkuna og tryggja í senn ódýrari framleiðslu íslenzkra afurða heldur en nú er og betri kjör þeirra bænda, er afurðirnar framleiða. Athugum svo, að ef við ættum að koma upp raforkuveri við Urriðafoss, t.d. á árinu 1952, og sömuleiðis stóriðju um svipað leyti, þá mun ekki veita af að panta túrbínu og önnur tæki til þessara framkvæmda með 3ja til 4ra ára fyrirvara, þannig að í síðasta lagi á árinu 1949 yrði heildarrannsókn og áætlun um, hvort hægt væri að koma slíku raforkuveri og stóriðju upp, að vera lokið og praktískur undirbúningur hafinn. — Þetta er glöggt dæmi þess, hve óhjákvæmilegur áætlunarbúskapur, sem miðar heildaráætlanir sínar við 5–10 ára tímabil, er orðinn íslenzku þjóðinni. Án slíks fullkomins áætlunarbúskapar munum við ekki geta lagt í þær stórframkvæmdir, sem eru undirstaðan að tækni nútímans og þeirri efnahagslegu velmegun, sem henni getur fylgt. Áætlunarbúskapur er Íslandi jafnmikið skilyrði til efnahagslegs sjálfstæðis og stjórnarskráin er skilyrði pólitísks sjálfstæðis.

Ég veit, að það vantar ekki áhuga hjá þeim þúsundum bænda, sem rafmagnið skortir, fyrir því að koma upp nógu stórum raforkuverum. Ég veit, að iðnaðarmenn, sem verða oft að vinna á nóttum í verksmiðjum og hvað eftir annað að hætta, ef unnið er á daginn, sökum rafmagnsskorts, vilja líka fá nægilega stór raforkuver. En það vantar framsýni og stórhug hjá þeim fulltrúum, sem þeir hafa kosið á þing, því að vitanlegt er, að þegar Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin verða fullgerðar, verður rafmagnsskorturinn aftur að 2 árum liðnum orðinn jafntilfinnanlegur og nú, ef ekki er strax farið að hugsa fyrir nýjum stórvirkjunum. Og áburðarverksmiðjur og önnur stóriðja verður aðeins blekkjandi kosningamál, meðan ekki er á eftir fylgt með ákvörðunum um stórfelld orkuver og ráðstöfunum til þess að safna fé til þeirra.

Ef fulltrúa þjóðarinnar á þingi skortir framsýni til þess að leggja nægilegt fé til hliðar nú strax, þú mun okkur líka finnast á næstu árum, að við séum alltaf of fátækir til þess að hafa efni á að gera það, sem nógu stórt er til þess að geta margborgað sig. Vér lifum á örlagastund í dag eins og haustið 1944. Vér vitum nú, hverju vér hefðum tapað, ef vér hefðum ekki borið gæfu til að grípa tækifærið þá. En það er verið að kasta tugum milljóna króna út úr höndunum á Íslendingum með því að sleppa nú tækifærinu til þess að halda nýsköpun atvinnulífsins áfram af fullum krafti, eins og vér sósíalistar höfum lagt til og barizt fyrir.

Það er svo stórkostlegt, uppbyggingarstarfið, sem bíður vor, að vér megum engan tíma missa.

Vér Íslendingar þurfum að vinna upp aldirnar, sem vér höfum glatað meðan vér vorum kúguð þjóð. Þess vegna liggur oss svo á að byggja upp nú. Og engri kynslóð í landi voru ber helgari skylda til að leggja þessi störf á sig en einmitt vorri kynslóð, því að engin þeirra kynslóða, er byggt hafa þetta land, hefur lifað við jafngóð kjör og hún.

Í trausti þess. að þjóðin finni til þessarar köllunar sinnar, höfum vér sósíalistar barizt fyrir því, að þetta tækifæri, sem enn býðst oss nú eins og árið 1944, verði hagnýtt. En það er auðséð af þeim undirtektum, sem brtt. vorar við frv. um fjárhagsráð hafa fengið á Alþ. — þær voru allar felldar við 2. umr. —, að núverandi valdhafar eru staðráðnir í því að sleppa því tækifæri, og það verður að ske stórkostleg breyting, svo framarlega sem það dýrmæta tækifæri á ekki að ganga úr greipum þjóðarinnar um lengri tíma.

Peningavaldið í Reykjavík sveik nýsköpunina og lætur nú þjóðstjórnarþjóna sína hér á Alþ. brugga henni banaráðin. Þegar þjóðinni reið mest á þjóðhollustu þeirra og þegnskap, féllu auðmenn Íslands og þjónar þeirra í æðstu embættum landsins fyrir þeirri freistingu að búa til kreppu hér heima — skrúfa fyrir lánveitingar bankanna og gera aðrar ráðstafanir, sem reka hina smærri atvinnurekendur og fátæka eða bjargálnamenn, sem skortir lánsfé, í greipar okraranna. Með slíkri heimatilbúinni kreppu er nú peningavald stórlaxanna á Íslandi að féfletta þá smáútgerðarmenn og aðra, sem í trausti á áframhaldandi nýsköpun og velvilja fjármálavaldsins brugðust vel við kalli þjóðarforystunnar á þeim tíma um að leggja fram allt það fjármagn, er þeir megnuðu, til að taka þátt í nýsköpun atvinnulífsins.

Þingmennirnir, sem kosnir voru fyrir tæpu ári síðan, allir með loforð um nýsköpun á vörunum, hafa nú gengið á það lagið — svo að segja allir að undanteknum þm. Sósfl. — að kveða þá nýsköpun niður, sem þeir lofuðu þjóðinni að varðveita og efla. Þessir menn munu á sínum tíma verða að standa þjóðinni reikningsskil. Þeir skulu, eftir umr. hér í neðri deild a.m.k., ekki hafa sér það til afsökunar þá, að þeir hafi ekki vitað, hvað þeir gerðu.

Íslands óhamingju hefur orðið allt að vopni þessa síðustu mánuði. Samsæri peningavaldsins og stjórnmálaafturhaldsins er með sköpun núverandi stjórnar að leiða yfir þjóðina stöðvun og kreppu, fyrst hún bar ekki gæfu til að losa sig við vald þeirra í síðustu kosningum. Núverandi stjórn hefur valið sér það hlutskipti að verða eins konar afturganga Cooa-cola-stjórnarinnar og taka þar nú við, sem hún varð að gefast upp í október 1944, er hún ætlaði að hefja árásina þá á launakjör verkamanna og lífskjör allrar alþýðu. Þessi ríkisstj. á að stjórna afturhvarfinu frá nýsköpunarstefnunni, og fái hún að sitja um nokkra stund enn að völdum, þá munu okrararnir, sem svikust um þátttöku í nýsköpuninni, fá tækifæri til þess að kaupa upp tækin, sem athafnamennirnir lögðu eigur sínar í. Hún byrjar á að reyna að brjóta það, sem þjóðinni er dýrmætast, fjöregg hennar: kjark hennar og áræði. Hver á fætur öðrum troða nú hinir vísu, sjálfkrýndu landsfeður upp hér í útvarpinu til þess að telja þeirri þjóð, sem á undanförnum öldum hefur þolað „ís og hungur, eld og kulda“ — og lifað það allt saman af, trú um, að nú loksins á árinu 1947 sé hún að steypast niður í gljúfrið, nú bíði hennar ekkert nema hrun og öngþveiti, nú sé það heimska að hugsa hátt, nú sé það glæpur að gera kröfur til sómasamlegs lífs.

Og það er aðeins þjóðin sjálf, sem getur afstýrt því, hin starfandi, framleiðandi þjóð, verkamenn, bændur og fiskimenn, með því að rísa upp í samtökum sínum — þeim sterku og voldugu samtökum, sem framleiðslustéttirnar á Íslandi hafa skapað sér, og krefjast þess einum rómi, að áfram sé haldið og að á sé hert um fullkominn, djarfan og stórhuga áætlunarbúskap fyrir Íslendinga, er tryggi efnahagslegt sjálfstæði vort og skapi á einum áratug grundvöll að öruggri lífsafkomu, jafngóðri og nokkur önnur þjóð á jörðinni býr við. —Þetta er hægt, ef þjóðarsamtök eru tafarlaust sköpuð um þetta hugsjóna- og atvinnumál. — En tíminn er dýrmætur. 170 millj. kr., sem nú ættu að liggja á nýbyggingarreikningi, ef hollum ráðum og lögum hefði verið fylgt, hafa ekki komið þangað, sökum þess að eigingirni auðmannanna varð þörfum þjóðarinnar yfirsterkari. Og með hverjum mánuði, sem líður í tákni þeirrar stjórnarstefnu eða stjórnleysis, er nú ríkir, glatast þau verðmæti, sem hagnýta mætti til þess að tryggja efnahagslegt sjálfstæði og afkomuöryggi Íslendinga.