21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér er nú til umræðu eitt stærsta málið, sem fyrir þinginu hefur legið, og því þótti mér tíðindum sæta, er enginn hinna sex ráðherra gat verið hér viðstaddur til að leggja það fyrir þessa hv. d. Að vísu er sagt, að það sé orðið svo þrautrætt í hv. Nd., en hér er ekkert smámál á ferðinni, og jafnvel smámálum eru flm. vanir að fylgja úr garði. Það gleður mig því, að tveir ráðherrar eru hér nú viðstaddir þessa umr. Hæstv. forsrh. hefur gert glögga grein fyrir málinu, og er ég honum þakklátur fyrir það.

Ég tek það strax fram, að ég tel það fyrirkomulagsatriði í frv. til bóta, að fella undir eina yfirstjórn störf nýbyggingarráðs og viðskiptaráðs. Mér er tjáð, að stundum hafi orðið mikil mistök í leyfisveitingum þessara stofnana. Hvor um sig hefur veitt full leyfi, svo að einstaklingar og stofnanir hafa riðið feitum hesti frá garði með allt að tvöföld leyfi upp á vasann. Þetta á ekki að koma fyrir hér eftir.

Ég játa, að hlutverk ráðsins samkv. 2. gr. er hið glæsilegasta. Ég hygg, að enginn andmæli því. Í fyrsta lagi á samkvæmt því að hagnýta alla framleiðslugetu til fulls og tryggja öllum verkfærum mönnum næga og örugga atvinnu. Í öðru lagi á að tryggja mönnum réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, einkum þeim, er stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, og koma í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku. Þá mun enginn vera því andvígur, að neytendur eigi kost á að kaupa neyzlu-vörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur sínar á hagkvæmasta hátt og að vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands verði gerð sem ódýrust og hagkvæmust, eins og segir í 3. lið 2. gr., því að fyrirkomulagið á þessu hefur verið þannig, að tálsnörur og freistingar hafa leitt þá, sem með vörukaupin hafa farið, til að gera þau sem óhentugust fyrir neytandann, hafa innkaupsverðið sem hæst og kostnaðinn sem mestan á leiðinni til neytendanna, því að það hefur aukið álagninguna, svo að þetta hefur verið sannkölluð gróðurhúsaræktun dýrtíðarinnar. Ef takast mætti að snúa hjólinu réttsælis í þessu efni, þá væri það eitt afar mikils virði, því að öllu atvinnulífi stafar háski af þessu.

Þá er í 2. gr. tekið fram, að áframhald skuli verða á öflun nýrra framleiðslutækja til landsins. því er m.ö.o. lofað, að nýsköpuninni verði haldið áfram, eftir því sem gjaldeyrisástæður og vinnuafl leyfa. Það er einnig gott loforð, ef vel verður staðið við það. Í sömu átt gengur það verkefni, að byggðar verði verksmiðjur og iðjuver í því skyni, að unnt verði að flytja út fullunnar vörur. Fjárhagsráð á að reyna að tryggja starfsskilyrði iðjuvera og verksmiðja, að þau verði sem hagkvæmust og sem mestur gjaldeyrir sparist. Í 6. lagi á ráðið að leitast við að koma í veg fyrir stöðvun atvinnuveganna af völdum dýrtíðar. Ekki hefur enn verið fundin sú leið, sem stöðvar hina raunverulegu dýrtíð, en hér er gefið fyrirheit um dýrtíðarráðstafanir. Síðasta verkefni fjárhagsráðs samkv. 2. gr. er útrýming húsnæðisskortsins. Ég verð að segja, að svo bágborið sem ástandið í þessu efni er í öllum kaupstöðum og kauptúnum og nálega öllum sveitum landsins, þá væri mikill sigur unninn, ef ráðinu tækist að leysa þann vanda.

Ég er harla mjög ánægður með efni frv., ef það væri nokkurn veginn tryggt, að framkvæmdin yrði í samræmi við það. En það verður ekki, nema fjárhagsráð taki á því heilum höndum, að fara inn á braut skipulegs þjóðarbúskapar. Vitað er, að einn stjórnarflokkurinn er með því, en búast má við, að Framsfl. og þó sérstaklega Sjálfstfl. sé það óljúft. Upphaflega var gert ráð fyrir, að fjórir menn ættu sæti í þessu ráði, en samkv. breytingu, sem gerð var í Nd., verða þeir fimm, og hygg ég, að orsökin sé sú, að sjálfstæðismenn hafi gert kröfu til að hafa ekki minna en tvo menn í þessu valdamikla ráði. Mér er það ljóst, að Sjálfstfl. telur það jafnvel andstætt sinni stefnu að fara eftir meginreglum skipulagðs þjóðarbúskapar, en hér hefur einmitt vald þessa flokks verið aukið við þessa breytingu á frv. eða skipun ráðsins. Einnig hefur það komið fyrir eyru mér, að þessi flokkur, sem er svo andvígur skipulögðum þjóðarbúskap, eigi að hafa formann ráðsins. Áhrifavald Sjálfstfl. er því gert mjög sterkt, og þykir mér það mjög miður, hann mun sveigja því skemmra frá sinni stefnu. Allt byggist á því, að starfsemi fjárhagsráðs grundvallist á „planökónómí“, en vonir mínar um það, að framkvæmt verði af heilum hug í þessum efnum, veikjast mjög við það, að styrkt er til verulegra muna aðstaða þess flokksins. sem andstæðastur er „planökónómi“. Það er í raun og veru svo, að allt er undir framkvæmd þessa frv. komið. Í 4. gr. er t.d. um það talað, að ráðið eigi að leita samvinnu opinberra stofnana, félaga og einstaklinga í framleiðslu, iðnaði og verzlun um samningu heildaráætlunar. Það er gefið mál, að það verður mest á valdi formanns ráðsins, til hvaða stofnana verður leitað í þessu efni. Því get ég efnislega vel sætt mig við brtt. við þessa gr. á þskj. 920 og teldi æskilegt, að hún yrði samþ., en þar er fjárhagsráði gert að leita einnig samráðs launþega, bænda og fiskimanna um samningu heildaráætlunar. Þó að þessa samráðs væri leitað, sé ég ekki, að það dyttu neinir gullhringar af neinum, en aftur á móti væri betra, að þessi samtök gætu fengið að segja sitt orð, áður en slíkar áætlanir væru samdar. Og þær stéttir eiga vissulega ekki minna en aðrir aðilar undir því, hvernig atvinnulífi þjóðarinnar er stjórnað. Á hinn vinnandi mann á sjó og landi kemur það fyrst niður, ef misstigin spor verða í stjórn atvinnumálanna. Það er undir framkvæmdinni komið, hvernig árangur það fær, að fjárhagsráðið leitar samvinnu við lánsstofnanir og aðra aðila, sem hlut eiga að máli, um fjáröflun til þeirra fyrirtækja og lánveitinga, sem fjárhagsráð samþykkir. Þar verður maður aðeins að treysta á, að þetta samstarf sé gott og lánsstofnanirnar séu fúsar til að gera sitt ýtrasta til að verða við óskum fjárhagsráðs. Ef til vill er ekki hægt að setja nein ákvæði þarna, sem fyrirskipa, en ekki fullyrði ég það. En eins og þetta er orðað, er engin trygging fyrir æskilegum framkvæmdum. nema vel fari á með þessum aðilum, lánsstofnunum og meðlimum fjárhagsráðs. Það má ef til vill segja. að samkv. ákvæði 9. gr. sé nokkur trygging í því, að yfirstjórn fjárhagsráðs á að vera í höndum ríkisstj. í heild, og ef einhver flokkur skærist úr leik og torveldaði framkvæmd þessara l. með því að snúast gegn megingrundvelli frv., gæti það varðað stjórnarsamvinnu. Það má segja, að forsrh. muni eiga að hafa yfirstjórn þessara framkvæmda, úr því að það heyrir undir ríkisstj., og framkvæmdirnar hvíla fyrst og fremst á hans herðum og eru undir hans forystu, en ekkert sérstakt ráðuneyti geti farið sinna ferða í þessum mikils verðu málum. Ég sem sagt ber mestan kvíðboga fyrir því, að framkvæmd þessara l. verði í höndum meira og minna andvígra aðila, að skipulag þjóðarbúskaparins kunni að verða aðeins svipur hjá sjón, miðað við þann bókstaf, sem við höfum í þessu frv. En enginn skyldi gleðjast meir en ég, ef þeir aðilar, sem valdir verða til þess að framkvæma þessa lagasmíð, verða þess um komnir að hefja sig yfir flokkságreining í framkvæmd þessa mikils verða máls og framkvæma þau gullnu loforð, sem í frv. sjálfu felast.

Ég skal svo skýra nokkuð frá afstöðu minni til þeirra brtt., sem fyrir liggja. Hún er í skemmstu máli sú, að ég mundi hafa kallað mjög eðlilegt, að allir bankar þjóðarinnar hefðu fengið aðstöðu til að verzla með erlendan gjaldeyri og einn bankinn væri þar ekki settur hjá. Ef til vill eru einhver rök fyrir því, að þessi réttur sé bezt kominn í höndum þjóðbankans og útvegsbankans, en þau liggja ekki opin fyrir mér. Ég hefði því fellt mig mjög vel við till., sem kom fram í Nd. og margir þm. stóðu að. Þá tel ég rétt, að ábending hefði verið um það í frv., eins og ég hef þegar bent á, að samstarfs skyldi leitað ekki aðeins við félög og einstaklinga í atvinnurekendastétt, heldur einnig meðal bænda og verkamanna, og leitað til samtaka þeirra stétta um þær áætlanir. sem ráðið á að gera. Og sérstaklega væri mér ljúft að fylgja till. eins og þeirri 5. í nál. á þskj. 920, að samvinnufélögum sé að öðru jöfnu tryggð sama hlutdeild í heildarinnflutningi á vefnaðarvörum, búsáhöldum og skófatnaði sem þau hafa í matvöruinnflutningi landsmanna. Þetta finnst mér sanngirnismál. Þegar einn aðili hefur tekið að sér á myndarlegan hátt að sjá fyrir innflutningi matvara með lágri álagningu, virðist sanngjarnt, að þau sömu samtök fái svipaðan „kvóta“ af öðrum vörum. sem meiri ágóði er af. Ég sé ekki, að „grundvallar-prinsipi“ þessa frv. sé haggað, þó að þessi brtt. næði fram að ganga.

Í 1. gr. frv. er sagt, að leggja eigi ekki minna en 15% ársfjórðungslega eftir á í sérstakan reikning erlendis og skuli verja því fé eingöngu til kaupa á framleiðslutækjum og til annarrar nýsköpunar atvinnulífsins. Brtt. á þskj. 920 segir, að í stað 15% komi 20%. Ef vel tækist með gjaldeyrisframleiðslu þjóðarinnar og vilji er fyrir hendi, ætti með núverandi orðalagi að nást sama mark, enda þótt lágmarksupphæðin sé tiltekin nokkru lægri. En hins vegar kann að vera. að lágmarkið 20% sé meir til að standa á pappírnum en að líkur séu fyrir því, að hægt sé að framkvæma það. Það stoðaði lítið að hafa ákvarðað 15% af gjaldeyrisframleiðslu síðasta árs á nýbyggingarreikning, þar sem ekki hefur verið staðið við það, eftir því sem fullyrt er.

Að síðustu vil ég segja, að mér finnst óviðkunnanlegt orðalag á 1. gr. 2. kafla 10. gr., þar sem segir, að í fjárhagsráði skuli starfa innflutnings- og gjaldeyrisdeild. Mér fyndist viðkunnanlegra, ef gr. orðaðist svo: Undir yfirstjórn fjárhagsráðs starfar innflutnings- og gjaldeyrisdeild, er einnig hefur með höndum verðlagseftirlit. Gæti ég hugsað mér brtt. í þá átt, annaðhvort við þessa umr. eða 3. umr.

Ég skal svo að síðustu taka fram, að mín heildarafstaða til þessa máls er sú. að ég greiði hiklaust atkv. með þessu frv., hvort sem fleiri eða færri af þeim brtt., sem ég kann að fylgja, verða samþ. eða ekki, og treysti því, að framkvæmd verði eitthvað nálægt því, sem orðalag og efni frv. vekur von um.