21.05.1947
Efri deild: 140. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég lofaði við 2. umr. að tefja ekki málið með því að flytja þá brtt., en þar sem frsm. hefur ekki séð sér fært að taka mínar aths. til greina, ber ég nú fram tvær brtt., sem ég mælist til, að verði samþ. Fyrri brtt. er við 13. gr. og er þess efnis, að bankarnir geti skipt með sér gjaldeyrinum, án þess að ríkisstj. komi þar til. Hin till. er við b-lið á brtt. meiri hl. fjhn. og er um það, að í stað millibankanefndar komi fjárhagsráð. Mér þykir eðlilegt, að fjárhagsráð hafi þetta á sínu valdi og miklu eðlilegra heldur en að til þess sé kvödd einhver millibankanefnd. Í sambandi við skiptinguna milli bankanna, þú var frsm. að tala um það, að ég bæri hag einkabankans fyrir brjósti. Þetta þykir mér harla einkennileg ádeila, — eða veit þessi þm. ekki, að Útvegsbankinn er líka landsbanki? Og veit hann ekki, að í stjórn Útvegsbankans hefur ríkisstj. bæði töglin og hagldirnar og af hlutabréfum bankans hefur ekki verið greiddur arður í 20 ár og samþ. hér að leysa hluthafa út. Það eru til menn, sem halda, að enginn geti gert neinar till. eða nokkuð nýtilegt nema í eiginhagsmunaskyni. Það getur náttúrlega hver haldið því fram, sem vill, að ég sé hluthafi í Útvegsbankanum, þó að ég eigi ekki í honum grænan eyri. Þá virtist mér þessi nýi þm. ófróður í sambandi við skattana. þó að hann hafi eitthvað með skattamál að gera.

Ég held ég verði að reyna ofurlítið á þolinmæði forseta og svara 3. landsk. nokkru. þó að ræða hans sé varla þess virði, að henni sé svarað. Ég vil byrja á því að mótmæla þeim orðum, sem 3. landsk. gerði mér upp í garð viðskmrh., eða að hann notaði röng rök, en hins vegar sagði ég, að hann beitti rökunum í dag á þennan hátt, en svo öðruvísi á morgun, eftir því sem bezt hentaði hans málstað, og þetta er ekki lítið hól um manninn, að hann skuli vera svo slunginn, en því síður, að það sé nokkurt last. En það er ekkert nýtt, þó að 3. landsk. fari rangt með ummæli, því að hann er fæddur með þeim ósköpum að geta ekki skýrt rétt frá. Þessi þm. fór út í sjónarmið flokkanna, en þetta. sem hann var að hæla, voru einmitt verk Sjálfstfl. Það var undirbúningurinn að fyrri stjórnarsamvinnu, sem Ólafur Thors átti stærstan þátt í og þm. Str. kallaði „plötuna“, og það frv., sem hér liggur fyrir um fjárhagsráð, er ekki annað en áframhald af nýbyggingarráði, sem Sjálfstfl. lagði grundvöll að 1944. Þá talaði þessi þm. með lítilsvirðingu um það, að Sjálfstfl. berðist fyrir verzlunarstéttina, og vildi gera lítið úr henni. Ég vil benda þessum þm. á það, að það er ekki alveg sama, hvernig innkaup við gerum, þegar við flytjum inn í landið fyrir 300 millj. Það getur munað okkur töluverðu, hvort varan er þá ódýrari, en það skilur þessi þm. ekki. Yfirleitt hefur það reynzt illa hér að hafa einkasölur á einu og öðru, og þó að við getum vitnað í tóbakseinkasölu, áfengiseinkasölu, þá er ekki þar með sagt, að ekki sé hægt að reka þetta á heppilegri hátt. Það er sama sagan með útgerð. Hún hefur yfirleitt gefizt betur í einstaklingsrekstri, þó að til séu dæmi, að hún hafi gengið vel hjá bæjarfyrirtækjum. eins og í Hafnarfirði, en þar hefur líka starfað betri maður en yfirleitt er völ á, en þó ber þess að gæta, að þessar stofnanir þurfa ekki að greiða opinbera skatta, og þættu það góð fríðindi hjá einstaklingum. Ég mæli þetta ekki sem neina sérstaka andúð á þeim flokkum, sem þessa stefnu aðhyllast, heldur sem rök. En ef 3. landsk. þm. gæti bent mér á ríkisrekstur, sem færi betur úr hendi en hjá einstaklingum, þá þætti mér vænt um það. Ég veit ekki betur en það sé nokkuð sama, hvað við tökum, hvort það er landssmiðjan, skipaútgerðin eða síminn, allt tapar, og sum þessara fyrirtækja tapa, þegar alveg hliðstæð einkafyrirtæki græða stórfé. Ég held því, að það sé ekki heillavænleg stefna að útiloka einstaklingsframtakið, og tel, að það séu lítið þarfir menn, sem reyna að ala á úlfúð milli verkamanna og atvinnurekenda.

3. landsk. var að tala um íhald, — en hver var mesti íhaldsmaðurinn 1944, hvaða hraundrangar voru það, sem vildu viðhalda gamla danska valdinu á Íslandi þá? Var það Sjálfstfl.? Nei, ætli það hafi ekki einmitt verið 3. landsk. og fylgifiskar hans. og svo leyfir þessi þm. sér að svara öðrum til um íhaldssemi.

Hvernig hefur það verið með skattamálin? Hefur Sjálfstfl. verið á móti veltuskattinum, sem komið hefur mest niður á kaupmannastéttinni? Nei, það var Alþfl. og Framsókn, sem þar snerust á móti, vegna þess að sá skattur kom líka niður á félagsverzluninni, en það mátti ekki jafnt yfir alla ganga.

Það hefur áreiðanlega verið mikið happ fyrir okkar þjóð, að einmitt peningavaldið svo nefnda skuli hafa tekið saman við verkafólkið í því skyni að lyfta Grettistaki, eins og gert var með nýsköpuninni, þegar hún var hafin 1944. og það er sú samvinna, sem þarf að haldast. Það eru því lítið þarfir menn, sem stöðugt nota tækifærið til þess að reyna að rjúfa þá samvinnu.

Svo á Sjálfstfl. að krjúpa á kné til að fá að vera með í stjórn, og svo ræður hann öllum málum, þegar í stjórn er komið. Það er ekki til sú staða, sem hann ekki ræður yfir, hvað þá bankar og aðrar stofnanir. Ég verð að segja, að ég held bara, að ríkisstj. megi ekki vera án slíkra mikilmenna. Þótt þeir séu alls staðar í minni hluta, þá ráða þeir samt öllu. Annaðhvort er þetta stórkostlegt hól um sjálfstæðismenn eða last um, hvað hinir eru miklar druslur. Ég vil segja hv. 3. landsk., að mér er ekki kunnugt um, að krafan um að hafa 5 menn í ráðinu hafi komið frá sjálfstæðismönnum. En ef honum finnst þessi krafa, sem hann talar um, ósanngjörn, þá vil ég benda á og bera hana saman við kröfur þær, sem komu frá Alþfl., þegar rætt var um tryggingaráðið á síðasta Alþ. Þær kröfur voru runnar undan rifjum læriföður þessa hv. þm., Vilmundar Jónssonar, sem hann jafnan flýr til, þegar hv. þm. þarf á hinni miklu stjórnspeki að halda. Kröfurnar voru þannig, að ráðið skyldi skipað 8 mönnum, þar af átti heilbr.- og félmrh., sem þá var Finnur Jónsson, að skipa 3 menn til að byrja með, síðan átti hver flokkur að kjósa einn mann í þinginu, og fékk þar Alþfl. fyrst þessa þrjá og svo þar einn, og svo átti hann að skipa form. Þar með var hann búinn að fá 5 menn. Þetta mætti kannske kalla meira réttlæti en það, að Sjálfstfl. fái nú hlutfallslega sama og hans styrkleiki segir til um í þinginu. Ég verð að biðja hv. 3. landsk. að athuga þessi mál. Þessi krafa kom frá Alþfl., en var ekki sinnt. Hér í þinginu hefur verið gerð tilraun til þess að marka þá stefnu að láta í slíkar valdastöður samkv. styrkleikahlutföllum flokkanna almennt, svo að sjónarmið kjósendanna á hverjum tíma komi sem réttast fram í þessum málum. En nú virðist mér vera fylgt annarri stefnu. Það sjónarmið er sem sagt látið ráða. að því minni sem flokkurinn er, þeim mun meiri völd skuli hann fá.

Áður en ég lýk máli mínu, vildi ég upplýsa hv. þm. um eitt. Hann spurði um það, hvort búið væri að semja um það, að sjálfstæðismenn fengju 2 menn í ráðið. Um það get ég ekki sagt. Mér er ókunnugt um það. Svo spurði hv. þm. um það, hvort væri búið að semja um formann ráðsins. Ég get ekki svarað því heldur. En hinu get ég svarað, hvort búið sé að semja um, að ég verði form. ráðsins. Um það hefur ekki verið samið við mig. Og ég hélt, að ég mundi vita, ef búið væri að semja um það. (HV: Mér er þetta gleðiefni.) Mér þykir vænt um, ef ég get glatt hv. þm. Og honum er óhætt að greiða atkv. með frv. þess vegna, að ekki er búið að semja um þetta atriði, því þótt ekki væri nema 10% rétt af því, sem hv. þm. hefur sagt um mig, þá kemur varla til mála, að slíkur formaður yrði settur í ráðið. Ég skal svo ekki þreyta hæstv. forseta meira, og ég þakka honum fyrir þolinmæðina, en mér fannst ég verða að svara í tilefni af því. sem á mig var deilt.