14.05.1947
Neðri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

240. mál, félagsheimili

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Snemma á þessu þingi var lagt fram frv. um félagsheimili. Var það flutt af mér og núverandi hæstv. atvmrh. Í því frv. var gert ráð fyrir, að ríkissjóður legði árlega fram nokkra upphæð til að styrkja byggingu félagsheimila úti um land. Hefur málið legið alllengi í þeirri n., þangað sem það fór til athugunar, en í sambandi við þau mál, sem nú var verið að afgreiða hér í d., um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, hefur þetta mál aftur komið til athugunar og þá í nokkuð nýju formi, þar sem hæstv. ríkisstj. að tilhlutan hæstv. menntmrh. hefur flutt frv. það, sem liggur nú fyrir, um félagsheimili. Sú meginbreyting, sem gerð er á málinu, frá því það var lagt fram í frv. okkar núverandi hæstv. landbrh. í haust, er sú, að í stað þess, að ætlazt var til, að ríkissjóður legði fram nokkra upphæð til styrktar félagsheimila, þá skuli 45% af skemmtanaskattinum renna í sjóð, sem nefnist félagsheimilasjóður. og skuli úr honum veitt fé til styrktar slíkum byggingum, þó ekki yfir 40% af byggingarkostnaði félagsheimilanna á hverjum stað.

Menntmn. hefur tekið þetta frv. til umr. og athugunar og er sammála um, að frv. sé afgr. með nokkrum breyt., sem prentaðar eru á þskj. 827. Eru þær ekki stórvægilegar frá því, sem frv. er sjálft, og vil ég nú leyfa mér að gera grein fyrir, í hverju þessar brtt. n. eru fólgnar.

1. brtt. er við 1. gr., þar sem talin eru upp þau félög, sem til greina geta komið viðvíkjandi byggingu slíkra heimila. Hefur það orðið að samkomulagi að taka upp kvenfélög í þessa upptalningu. Þess ber að geta, að þessi upptalning er engan veginn tæmandi, heldur ber fyrst og fremst að miða við þá skilgreiningu, sem stendur í gr., að með félagsheimilum sé og átt við hvers konar önnur menningarfélög. sem standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana, sem þarna geta komið til greina sem aðilar um þetta mál. — Þá leggur n. til, að nokkur breyt. sé gerð við 2. gr. frv. Í 2. gr. segir svo: „Ekki má heldur styrkja byggingu nema eins félagsheimilis í hverju sveitarfélagi, meðan þörfum annarra sveitarfélaga fyrir slík hús hefur ekki verið fullnægt.“ Sú skoðun kom fram í n., að það væru settar nokkuð þröngar skorður með því að binda það í l., að ekki mætti veita styrk nema til eins félagsheimilis í hverju sveitarfélagi. og féllst n. á, að réttara mundi vera að hafa þetta á valdi þeirra aðila, sem eiga að sjá um félagsheimilasjóð og úthluta tekjum úr honum. án þess að hafa þetta bundið í l. sjálfum. — Þá er 3. brtt. n. við 3. gr. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því, að stjórn félagsheimilasjóðs sé í höndum menntmrh. og að hann hafi einn rétt til þess að úthluta fé úr sjóðnum. Sú skoðun kom fram í n. við athugun á þessu máli, að það mundi vera eðlilegra, að aðrir aðilar hefðu allmikil ráð um það. hvernig fénu yrði dreift milli félagsheimilanna samkvæmt umsóknum, sem fyrir lægju. Varð það að samkomulagi að breyta þessu á þann veg, að íþróttanefnd og fræðslumálastjóri skyldu gera till. um það, hvernig fénu skyldi varið, og ef þessir aðilar væru sammála í sínum till., skyldi ráðh. veita styrkina eftir þeim. Ef ágreiningur kæmi hins vegar upp milli þessara tveggja aðila eða innan íþróttan., yrði að sjálfsögðu að skjóta þeim ágreiningi til ráðh., sem þá væri ekki bundinn af till. þessara aðila, og skyldi hann þá skera úr um ágreininginn. — Smávægilegar orðabreytingar hafa einnig verið gerðar á frv. — Í 3. gr. frv. segir, að uppdráttur að húsi því, sem fyrirhugað er að byggja, skuli fylgja umsókninni. Þótti n. of langt gengið að krefjast þess, að uppdráttur fylgdi umsókninni í bréfi, því að slíkt er vinna, sem verður að leysa af hendi af sérstökum fagmönnum og helzt hér í höfuðstaðnum. Þess vegna hefur n. breytt þessu á þá lund, að nákvæm lýsing af húsinu skuli fylgja umsókninni. Gert er svo ráð fyrir því. að umsóknir allar sendist íþróttan., og á hún að samþykkja alla uppdrætti, áður en félagsheimilin geta orðið aðnjótandi styrks úr sjóðnum. — 4. brtt. er við 5. gr. frv. Þar segir. að fræðslumálastjóri geti með samþykki menntmrh. ákveðið hámark afnotagjalds þeirra félaga, sem afnot fá af félagsheimilum þeim, sem styrkt hafa verið úr ríkissjóði, en ekki eru eigendur þeirra. Þarna bætir n. inn í, að fræðslumálastjóri og íþróttan. geti með samþykki menntmrh. ákveðið þetta. Þar sem íþróttan. er aðili um meðferð þessara mála. þótti menntmn. eðlilegt, að hún hefði ákvörðunarrétt um þetta atriði eins og önnur í sambandi við framkvæmd þessara mála.

Ég hef þá stuttlega gert grein fyrir brtt. menntmn., sem í sjálfu sér eru ekki stórvægilegar efnisbreytingar frá frv., eins og það liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj. Sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum. nema sérstakt tilefni gefist til.