14.05.1947
Neðri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

240. mál, félagsheimili

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það sýnist svo sem hæstv. menntmrh. verði að lúta að molum, hvaðan sem þeir falla af borði, því að þetta leikhúsmál er reynt að leysa með því að taka hálfkarað frv., sem kommúnistastjórnin hafði búið til í flýti viðvíkjandi leikhúsinu í Reykjavík, en hins vegar viðvíkjandi sveitunum er annað frv. borið hér inn án verulegs undirbúnings og skilnings á því. sem fyrir liggur í þessum efnum. Það sem er höfuðmeinloka hæstv. ráðh. og n., sem um þetta hefur fjallað, og hv. frsm. hennar. sem nú hefur talað, er fyrst og fremst sú, að fram hjá því er gengið að halda áfram að byggja myndarleg samkomuhús úti um land og í kaupstöðunum. Vil ég beina orðum mínum til hv. þm. Ísaf., hvort hann telur þessa málsmeðferð, sem hér er höfð, eðlilega viðvíkjandi hans kaupstað. Það virðist sem sé útilokað, að staður eins og Ísafjarðarkaupstaður fái nokkuð af þessu fé, og vildi ég gjarnan heyra álit hans á því, hvort þess megi vænta, að Ísafjarðarkaupstaður muni borga þetta gjald áfram. — Á sama hátt vildi ég spyrja hv. þm. Borgf., sem hefur næstum því eins stóran kaupstað í sínu umdæmi, hvort hann muni sætta sig við fyrir sinn kaupstað, að hann verði einnig útilokaður frá því að njóta hlunninda úr sjóðnum. Ég sé svo ekki aðra hv. þm. hér stadda, sem eru fulltrúar fyrir stóra kaupstaði úti um land, sem vænta mætti að gætu gefið upplýsingar um þetta atriði.

Ég býst við því, að ef mál þetta hefði verið undirbúið af kunnugleika og skilningi á þörfinni í þessum efnum, hefði ekki verið gert ráð fyrir því að fara að styðja lítil félög í sveitunum. heldur hefði verið haldið áfram að styrkja kaupstaðina til að koma upp myndarlegum samkomustöðum. Slíkt er sjálfsagður hlutur, og er ekki að furða, þótt dræmt gangi með afgreiðslu málsins, því að fyrst og fremst vantar hér helming hv. þm., og þeir vita, að hér er verið að gera rangt, og kjósa því heldur að skjóta sér undan að greiða atkv. um málið en að taka beinlínis þátt í því, sem þeir vita, að verður til ófarnaðar.

Í l. gr. frv. stendur, að með félagsheimilum sé í l. átt við samkomuhús, sem ungmennafélög, íþróttafélög, lestrarfélög, bindindisfélög, skátafélög — og síðan hefur n. bætt inn í kvenfélögum - og hvers konar önnur menningarfélög, sem standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana, eiga að nota til fundarhalda eða annarrar félagsstarfsemi. – Það er sennilegt, að þeir, sem að þessu hafa staðið, hafi aldrei reynt að átta sig á því, hvernig muni ganga um sambúðina milli þessara félaga, þar sem kannske 7 mismunandi félög á sama stað ættu að undirbúa slíka byggingu eða stjórna heimilinu, eða ef eitt af þessum félögum hreppti það hnossgæti að verða eigandi félagsheimilis, — hvernig ætli sambúðin yrði við hin? — Hæstv. ráðh. og hans hjálparmenn í n. hafa ekki áttað sig á því, að til er einn hlutlaus aðili í þessum efnum, sveitarstjórnir og bæjarstjórnir, sem öll slík félög gætu snúið sér til. Í staðinn fyrir þetta er hægt að hugsa sér, að farið verði að koma upp fljótfærnislegum byggingum, og svo mikil er ágengnin gegn sveitarfélögunum, að beinlínis er tekið fram í frv., að ef þau leyfi sér að hafa afnot af húsunum, eigi þau að kosta stóran hluta byggingarinnar, og verði þá dregið af styrknum, og er allt gert, sem mögulegt er, til þess að torvelda sveitarfélögunum að hafa afnot af þessum húsum. Við skulum snúa okkur að Reykjavík í þessum efnum. Það er útilokað. að t.d. bæjarstj. hér verði torveldað að fá að halda samkomur í því leikhúsi, sem hér er verið að ljúka við, eða einstökum félögum fyrir starfsemi sína. Það er hins vegar auðséð, að þetta frv. er gert af aðila, sem er að hugsa um að kljúfa þá veiku krafta. sem til eru úti um land í þessum efnum. Það er mjög illa farið með þennan hluta málsins af hæstv. ríkisstj., því að gengið er fram hjá þeim aðilum, sem mesta þörf hafa fyrir styrkinn, og er reynt að koma þessu svo fyrir, að sem minnst gagn verði að styrknum. Vildi ég gjarnan heyra varnir þeirra manna, sem standa að þessum óburði.