14.05.1947
Neðri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

240. mál, félagsheimili

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu þessa máls og lýsi því yfir, að ég er samþykkur þeim brtt., sem hún leggur fram við frv.

Ræða hv. þm. S-Þ. var heldur furðuleg og ber þess vott. að hann hefur ekki lesið frv. — Hann sagði, að gaman væri að heyra álit hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. á því, hvort kaupstaðirnir í umdæmum þeirra mundu sætta sig við að borga skemmtanaskatt þaðan, vegna þess að þeir gætu ekki komið til greina með að fá styrk til byggingar félagsheimila. Það er auðséð á þessu, að hann hefur ekki lesið frv., því að vissulega geta þessir staðir komið til greina. — Þá sagði hv. þm., að meiningin væri ekki að styrkja myndarleg samkomuhús, heldur aðeins félagsheimili fámennra félaga. Nú stendur í 1. gr. frv.: „Með félagsheimilum er í l. þessum átt við samkomuhús...“ Frv. fjallar um það að styrkja samkomuhús og hvers konar menningarfélög. Þá sagði hann, að aðeins væri gert ráð fyrir að styrkja einstök félög, en reynt að útiloka sveitarstjórnirnar frá því að hafa afnot af byggingunum. Í 4. gr. frv. stendur: „Nú hefur sveitarfélag eða sveitarfélög forgöngu um byggingu félagsheimilis. og skal þá heimilt að styrkja hana úr félagsheimilasjóði“ o.s.frv. Slíkur var allur málflutningur hv. þm. S-Þ., og er þetta nægilegt til að sýna. að svona ræðuhöld eru ekki frekar svaraverð.