14.05.1947
Neðri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

240. mál, félagsheimili

Sigurður Bjarnason:

.......... En hann má njóta þeirra verka, sem hann hefur góð gert, og mætti hann því enn sýna þessu máli sanngirni. En að hann missir af veizlumatnum í einni góðri veizlu í höfuðborginni verður til þess, að hann snýst jafnhatramlega gegn fyrri skoðun sinni í þessu máli.

Viðvíkjandi hæstv. menntmrh. vil ég segja það, að mér virðist hv. þm. S-Þ. finnast, að hæstv. menntmrh. hafi farið í fötin hans, meðan hann var að baða sig í bjarmanum af fyrri afrekum sínum í leikhúsmálunum, og hæstv. menntmrh. hafi flutt þarna frv., sem hv. þm. S-Þ. gjarnan vildi sjálfur hafa borið fram. Hv. þm. finnst sárt, að hæstv. menntmrh. skyldi verða fyrri til þess, að vísu í samráði við þá stefnu, sem kom fram í frv., sem ég og hv. 2. þm. Rang. fluttum fyrr á þessu þingi.

Ég vildi láta þetta koma fram hér, því að það er óþarfi fyrir hv. þm. S–Þ. að vera að brigzla okkur, sem stöndum að þessu máli, um einhver svik við þetta mál. Við höfum flutt þetta mál fram og unnið að því að skapa um það samkomulag á sem breiðustum grundvelli og það í þeirri trú, að með því séum við að vinna æsku framtíðarinnar úti um landið gott og þarft verk. En hv. þm. S-Þ. hefur snúizt til andófs í þessu máli af persónulegum ástæðum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Það er kjarninn í þessu, að í því er mörkuð ný stefna, þar sem frv. fjallar um hina nýju skiptingu á skemmtanaskattinum, þar sem gert er ráð fyrir, að 40% af honum renni til félagsheimila dreifbýlisins. Það munu á næstu árum rísa mörg myndarleg samkomuhús í þorpum og sveitum og kaupstöðum þessa lands fyrir atbeina þeirrar breyttu löggjafar og fyrir þá skipulagsbreytingu, sem verður hér í þessum efnum.

Ég hygg, að það sé fremur illt verk að vinna að því hér á hv. Alþ. að hindra og rjúfa þá samvinnu, sem tekizt hefur um nokkra málamiðlun í þessum efnum. Ég hefði mjög gjarnan óskað þess, að meiri hluti skemmtanaskattsins hefði runnið til þessara félagsheimila dreifbýlisins, en ég hef slegið nokkuð af í því efni til þess að samkomulag gæti tekizt um málið.