17.03.1947
Efri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

27. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta frv., sem nú er hér til umræðu. hefur legið hjá sjútvn. síðan 28. okt., og skal ég ekki fara út í það. hvers vegna mál þetta hefur ekki komið fyrr til d., en af því að hér var til umr. dráttur á ýmsum öðrum málum, þá sést, að það er ekki neitt einsdæmi. En málið er nú komið frá n., og mun ég í nokkrum orðum skýra afstöðu n. til málsins.

Eins og sjá má á nál. á þskj. 501. hefur öll n. verið sammála um það, að mál þetta skuli hljóta samþykki d., og með því er það skoðun n., að þetta mál sé svo þýðingarmikið, að það eigi að öðlast samþykki Alþingis. En þegar rætt var um greinar frv., þá er því ekki að leyna, að í n. voru allskiptar skoðanir um það, hverju bæri að breyta og hverju ekki. Þessi ágreiningur kemur fram í þeim brtt., sem fluttar eru á þskj. 502 af form. n. Ég mun ekki fara út í þær fyrr en hann hefur gert grein fyrir þeim, þó að okkur nm. séu kunn þau rök, sem hann telur fyrir þeim liggja. Mál þetta er mjög mikið umfangs, og skal ég ekki fara út í einstakar greinar, en fara nokkrum orðum um frv. í heild, hvernig það er til orðið, og tel ég rétt, að það komi fram, sem gerzt hefur í því, síðan þetta mál var tekið til meðferðar. Það tilefni er sú löggjöf, sem við búum nú við og hefur verið að taka ýmsum breyt. á undanförnum árum, siðast 1941. Með þáltill. sem samþ. var 18. febr. 1944, var lagt til, að þessi l. yrðu tekin til endurskoðunar. Svo skipaði þáv. ríkisstj. 5 manna n. til að endurskoða þessa löggjöf, og var hún skipuð eftir tilnefningu frá útgerðarfélögum, vátryggingarfélögum, sjómannafélögunum í Rvík og Hafnarfirði, Farmanna- og fiskimannasambandinu. og ríkisstj. valdi svo formann, Bárð Tómasson skipaverkfræðing, og var þá 5 manna nefnd fullskipuð. Þessi n. vann svo að endurskoðun og lagði tillögur sínar fram í október 1945, og hafði þá verið lagt mikið starf í undirbúning. svo að hægt væri að leggja það fyrir ríkisstj. um haustið. Ráðh. lagði svo frv. fyrir sjútvn., en þá komu fram brtt. frá skipaskoðunarstjóra og Farmannasambandinu, svo að n. vísaði málinu aftur frá sér til ráðh., og hann lagði það aftur fyrir mþn. til frekari athugunar. Þessari athugun var lokið í janúar 1946, og hafði n. þá komizt að samkomulagi við skipaskoðunarstjóra og aðra, sem brtt. fluttu. Þá var frv. og endurskoðað og samræmt og sent ráðherra að nýju til fyrirgreiðslu og var svo lagt fyrir Nd. og afgr. frá n. á því sama ári, og skilaði sú n. áliti 9. apríl. Málið kom svo til þessarar d. og var vísað til sjútvn. d., en af skiljanlegum ástæðum gat hún ekki lokið athugun á málinu þá. og dagaði það svo uppi.

Frv. er nú flutt eins og Nd gekk frá því, og í því formi hefur n. fjallað um málið. Taldi hún ekki rétt að gera breyt. við þær breyt., sem gerðar voru í Nd., en ýmsar þeirra eru vafasamar, en ekki svo efnislega hættulegar, að ekki verði þolað.

N. hefur haft málið til umræðu á mörgum fundum, eða alls 16, og er það hér um bil á öðrum hverjum fundi. Það skal játað, að málið er nokkuð umfangsmikið, og kemur því margt til greina. Við höfðum samband við skipaskoðunarstjóra og þann mann, sem var form. í mþn., og við þessa menn ræddum við ýtarlega, og niðurstöðurnar eru þær brtt., sem eru á þskj. 501.

Um frv. má flytja langt mál, ef farið er ýtarlega út í efni þess, en þar sem ýtarleg grg. fylgdi frv. 1946, þskj. 418 það ár, þá tel ég þess ekki þörf. Þó mætti ræða um það, eftir að við höfum tekið til athugunar brtt. og einnig eins og n. gekk frá því upphaflega, og yrði það of langt mál, ef farið væri út í hverja gr. frv. En ég vil geta þess, að frv. er byggt á þeirri löggjöf, sem við búum nú við, sem ekki er ýkja gömul, því að það er eftir 1920, sem skriður kemst á að setja löggjöf um eftirlit með skipum, og síðan er hún að taka ýmsum breyt. allt til 1941.

Þessi löggjöf er öryggislöggjöf fyrir alla þá, sem stunda atvinnu á sjó, fyrir þá, sem ferðast á sjó, og þeir eru margir, þar sem samgöngur okkar eru svo mikið á sjó. Hún snertir alla þá, sem ferðast með skipum milli landa, og kemur þá til greina hinn mikli farþegafjöldi. Þessi löggjöf snertir öll þau skip, sem hér sigla. Í henni er í meginatriðum stuðzt við þá löggjöf, sem við búum nú við. en það er líka stuðzt við löggjöf Norðurlanda, en einnig litið á brezka, hollenzka og jafnvel bandaríska löggjöf, og er reynt að samræma það, sem passar fyrir okkur hér. Þessi nýmæli eru í samræmi við það, sem gert hefur verið á Norðurlöndum. Eitt stórt nýmæli, það er siglingadómurinn, er sótt til Hollands, en þeir hafa mikla reynslu í þessum efnum. En í þeim lögum, sem nú gilda, er gert ráð fyrir dómstóli, sem fjalli um þetta, og það skal gert hjá okkur með sjódómi, er eigi að fjalla um það, sem miður fer og kært er yfir. En sú breyting, sem nú er gerð, er, að allt, sem þessu frv. er viðkomandi, það sé flutt frá sjódómi og sérstakur dómstóll fjalli um slík mál, en rannsókn er í höndum sjódóms, sem er til staðar í hverri lögþinghá, og sé dómurinn einn og skipaður eins og frv. gerir ráð fyrir.

Um kostnaðarhlið þessa dóms skal ég fara örfáum orðum. Það er talað um, að hér væri verið að setja á stofn dómstól, sem hefði mikinn kostnað í för með sér. En það er ætlan okkar í mþn., að hér væri haft nokkuð sama form varðandi kostnað dómstólsins og er nú hvað snertir félagsdóm. Og manni virðist hann ekki kosta svo mikið fé, að það sé ekki viðráðanlegt. En höfuðkosturinn er sá að fá dómstól, sem samrýmdist þessu verksviði betur en ella, og málin yrðu þá tekin fastari tökum en nú virðist almennt gert hjá sjódómnum. Ég skal upplýsa, að sjómannastéttin — og á ég þá, við bæði undir- og yfirmenn — leggur mikla áherzlu á, að l. um siglingadóm séu sett á stofn í því formi, sem frv. gerir ráð fyrir.

Um frv. að öðru leyti er ýmislegt að segja, en það tæki of langan tíma að fara út í einstakar gr. Hér eru ýmis nýmæli um eftirlit með nýbyggingu skipa og varðandi breytingar á skipum. Eftirlitskerfið er sett fyllra en áður. Er ætlazt til með því fyrirkomulagi að fá miklu betra eftirlit en verið hefur í einstökum framkvæmdaratriðum. Það er vitað, að með vaxandi skipastól er hér um miklu meira starf að ræða en áður. Og það ætti að vera hverjum manni ljóst, sem um málin hugsar, að eftir því sem skipastóllinn er stærri og fleiri menn stunda þessa vinnu, því meir ber að leggja í sölurnar til þess, að allt sé í lagi samkv. því, sem l. og reglugerðir ætlast til á hverjum tíma. Ég hef sagt það, að frv. þetta hafi fengið mikla og gagngerða endurskoðun. Ég vil einnig upplýsa það, — og það er meira en hægt er að segja um flest önnur frv., — að frv. þetta hefur verið sent til allra stéttarfélaga sjómanna, jafnt undirmanna sem yfirmanna, til lagfæringar og álits. Frv. hefur fengið þær undirtektir, að þing verkalýðsins, Alþýðusambandsþingið, hefur á tveimur þingum samþ. frv. eftir að sú athugun hafði farið fram. Ég vil geta þess, að þing farmanna og fiskimanna hefur einnig fjallað um málið á tveim þingum, og leggur það áherzlu á, að málið nái fram að ganga í því formi, sem það er nú í. En vegna sérþekkingar sinnar og reynslu í þessum efnum hefði helzt mátt vænta gagnrýni úr þessari átt. Ég vil benda á enn eina stofnun, Fiskifélag Íslands, sem hefur tekið mál þetta upp á sínum þingum. Það hefur lagt áherzlu á vilja sinn í þessu máli með áskorun til Alþ. um, að málið nái fram að ganga. Hér hef ég nefnt þær stéttir og sambönd, sem hafa með málefni sjómanna sérstaklega að gera. Þetta mál hefur í meðförum þessara aðila fengið þær undirtektir, að nokkurn veginn einróma leggja þessir aðilar til, að frv. fái lögfestingu og verði framkvæmt eins og frv. gerir nú ráð fyrir. Það liggur nokkurn veginn fyrir, að landsmenn álíti, að ekki sé horfandi í nokkurn kostnað, til þess að slíkt öryggi og hér um ræðir sé tryggt eftir því, sem frekast má verða. Ég skal játa, að löggjöf í þessu efni er sem oft áður pappírsgagn, sem mestu varðar um, hvernig á er haldið. Það má ekki dæma löggjöfina eftir því, þótt slælega hafi verið á l. haldið. En almennt er álitið, að því ýtarlegri sem löggjöfin er, þá verði framkvæmdin að sama skapi. Og ég örvænti ekki um framkvæmdirnar, ef frv. nær lögfestingu á þessu þingi, því að hér mun verða hægt að skipa í starfið menn, sem sjálfsagt vita, hvað þeir takast á hendur og hvaða ábyrgð hvílir á þeim.

Ég vil að síðustu upplýsa það, að samkv. þessu frv. verður að útbúa ýmsar reglugerðir. Sumar eru að vísu til, en þarfnast endurskoðunar. Þetta er eitt af því, sem þessari mþn. var ætlað að vinna þegar l. væru staðfest af Alþ., svo að hún vissi, um hvað hún ætti að semja reglugerðir. Nú er það vitað, að margar þessara reglugerða kalla mjög að. Sumar hafa verið gerðar að nokkru, undirbúningur hefur farið fram varðandi aðrar, en að sumum hefur ekkert verið unnið. Þær bíða sem sé lögfestingar frv. Þetta er meðal annars ein ástæðan til þess, að ekki má láta það koma fyrir, að frv. þetta nái ekki staðfestingu á þessu þingi. Og ég hygg, að við getum allir verið sammála um það, þótt okkur greini á um einstök framkvæmdaatriði eða hvernig frv. á að vera í einstökum atriðum.

Ég vil að lokum minnast á þær brtt., sem við erum sammála um að gera. Það er þá fyrst við 3. gr. Það er orðalagsbreyt. Í stað orðanna „eftirlitsmanni eftirlitsins“ í a-lið komi: skipaeftirlitinu. — Við 7. gr. er nokkur efnisbreyt., en ekki mikil. Hún snertir starf skipaskoðunarstjóra. Þess hefur verið krafizt hér á Alþ. í þeim efnum, að skipaskoðunarstjóri ætti ekki að hafa þau störf með höndum, sem snertu starf hans fyrir einstaklinga. Ég hygg, að það muni vera álit allra þeirra, sem um þetta mál hafa fjallað, að það sé rétt að skylda skipaskoðunarstjóra til að vera sem óháðastur, eftir því sem frekast má, í sínu starfi. Breyt., sem hér er gerð, er öllu strangari en nú er í frv. varðandi þetta. En þó er gert ráð fyrir, að hann geti gripið inn í störf, sem eru annars eðlis. Það hafa því miður verið nokkur brögð að því, að skipaskoðunarstjóri hafi verið fenginn til að standa fyrir opinberum ráðstöfunum og sumpart til að gegna trúnaðarmannastarfi fyrir einstaklinga og félög í þessu efni. Um þetta varð n. sammála.

Við 8. gr. er gerð nokkur breyt. á því, sem mþn. hafði gert í sínum till., en sú breyt. er ekki ýkja mikil. Sú brtt. er gerð til þess að gera meiri þekkingarkröfur. Þar er gert ráð fyrir, að vélfræðingurinn hafi unnið til sjós á skipi með að minnsta kosti 600 ha. vél eða stærri, og að þar skuli einnig vera maður, sem hefur þekkingu á öryggisútbúnaði skipa, og verður hann að hafa verið tvö ár í siglingum á skipi yfir 300 rúmlestir. Þetta eru helztu breyt. frá því. sem áður var. Þetta er öryggisventill, sem á að koma í veg fyrir, að menn með takmarkaða þekkingu verði settir í þessi störf. Þessi skyldugi siglingartími gefur alltaf nokkra reynslu í þessum efnum.

Við 30. gr. er nánast aðeins breytt orðalagi. Það er, eins og sjá má, aðeins fært til betra máls. — Við 33. gr. er lagt til, að síðasti málsl. í tölul. 3. A. falli niður, og er það gert til samræmingar, þar sem á öðrum stað í frv. stóð 30 tonn, en í hinum 50 tonn.

Við 35. gr. er brtt., sem er nokkur efnisbreyt. Hún er gerð til frekara öryggis. Þar er gert ráð fyrir, að skip eigi að þola vissan þunga úti í annarri hlið. Er þetta einkum til öryggis hvað farþegaskip snertir, þau verða að hafa vissan stöðugleika. Þetta er í fullu samræmi við það, sem krafizt er í erlendum hliðstæðum reglugerðum.

Við 37. gr. er nánast leiðrétting. Í gr. er talað um „daglegt“ eftirlit með smíði skipa. En það er ómögulegt að koma því við og hefði það því orðið aðeins pappírsgagn, þar sem menn hafa fleiri en eitt skip undir. Var því látið orðið „öruggt“ í staðinn. Varð n. sammála um, að það væri fullnægjandi. Þetta var a-liður brtt. B-liður er orðalagsbreyt., en ekki veruleg efnisbreyt. Sama er að segja um 8. brtt., hún er nánast leiðrétting.

Síðasta brtt., sem er við 51. gr., er efnisleg, en færð til ákveðins máls, sem n. kom sér saman um að gera.

Brtt. þessar eru, eins og ég hef bent á. yfirleitt ekki efnislegar, heldur leiðréttingar, sem n. taldi rétt að gera. Hins vegar er því ekki að neita, að uppi voru till. um að gera mjög miklar efnisbreyt., en meiri hl. n. gat ekki á það fallizt. Vænti ég því, að á okkar till. verði fallizt og ekki verði raskað meira við frv. en nauðsynlegt er. Ég óttast, að ef gerðar verði verulegar breyt. á frv. frá því, sem meiri hl. n. leggur til, að gerðar verði, þá verði það til þess, að málið gangi ekki fram og um það verði togstreita. Ég tel það mjög miður farið, ef málið nær ekki lögfestingu á þinginu eftir þann mikla undirbúningstíma, sem það hefur fengið bæði hér í þinginu. en þó einkum utan þess. Það hefur fengið undirbúning sérfræðinga og umsögn allflestra samtaka þeirra manna, sem undir l. eiga að búa. Ég tel því nokkuð vel frá málinu gengið og vona, að Alþ. taki undir það með því að samþ. frv. eins og það liggur fyrir með þeim brtt., sem sjútvn. leggur til, að gerðar verði.