18.03.1947
Efri deild: 96. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

27. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég hafði kvatt mér hljóðs í gær áður en fundi var slitið, en þar sem umr. var frestað áður en að mér kæmi, þykir mér hlýða að athuga nokkuð brtt., sem fram hafa komið frá hv. þm. Barð. Ég skal þó ekki fara að flytja hér langt mál, því að bæði er, að ég tel það ekki hafa mikla þýðingu, og svo er ég nú mjög illa til ræðuhalda fallinn, sökum þess hversu kvefaður ég er.

Þm. Barð. hélt því fram, að meiri hl. mundi vera fyrir þeim till., sem hann flytur. í nefndinni. Þetta held ég, að sé ekki rétt, þó að sumir nm. geti ef til vill fylgt einhverjum af till. hans. Hins vegar eru till. meiri hl. n. bein afleiðing af brtt. Nd., þó að ég viðurkenni hins vegar, að sumar þær till. mættu breytast.

Það, sem mér virtist vera aðalágreiningurinn um, var sú efnisbreyt., sem fjallar um eftirlitsmennina og þá aðallega, hvort hafa skyldi sérstakan eftirlitsmann í Vestmannaeyjum. Það eru til l. um eftirlitsmenn skipa frá 1938 eða 1939, sem komu að vísu ekki til framkvæmda fyrr en 1942, þegar því máli var þá hreyft af Vilhjálmi Þór. En þessir eftirlitsmenn starfa ekki eins ýtarlega og frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir. Það er ætlazt til, að eftirlitið verði fullkomið starf, svo að eftirlitsmennirnir geti ferðazt um, farið um borð og fylgzt nákvæmlega með öllum útbúnaði, sem lög mæla fyrir. Þessi háttur hefur þótt réttur, til þess að fyrirbyggja trassaskap í útbúnaði skipa. Ég skal taka fram, hvaða útbúnaður það er, sem þessum mönnum er skylt að líta eftir. Það er t.d., að öll lögboðin björgunartæki séu um borð og jafnframt að þau séu í góðu lagi. Þá skulu þeir og fylgjast með, að skip séu ekki ofhlaðin. Hins vegar er þessum mönnum ekki ætlað að framkvæma sjálft skipaskoðunarstarfið, til þess þarf sérfræðinga, þó að í einstökum tilfellum gæti það farið saman. Annars þurfa yfirskoðunarmennirnir að hafa góða þekkingu á byggingu skipa. Þá þarf og góða vélaþekkingu, hvort sem það yrði sami maðurinn, sem um þær dæmdi. eða sérstakur vélfræðingur dæmdi um vélarnar.

Skoðunin gildir fyrir eitt ár, nema aukaskoðun þurfi að gera, og það er algerlega á misskilningi byggt, ef einhver heldur, að það muni verða hægt að komast hjá þessari árlegu skoðun. Öll skip, sem eru yfir 12 smálestir, er skylt að skrásetja, en til þess að sú skrásetning geti átt sér stað, verður skoðunarvottorðið að vera í lagi. Það hefur hvað eftir annað komið fram sú skoðun hjá þm. Barð., að eftirlitsmennirnir þyrftu fyrst og fremst að vera vélamenn. Það er að sjálfsögðu gott, að þessir menn hafi vit á vélum, en hins vegar tel ég, að fyrsta skilyrðið sé, að mennirnir séu vanir og reyndir sjómenn. Það er almennt lagt svo mikið upp úr. að vélin sé í góðu lagi þegar lagt er úr höfn, að ég tel minnsta hættu í því atriði, og þess vegna ekki meiri ástæðu til þess að hafa eftirlitsmanninn véllærðan en reyndan sjómann. Um það atriði, hvort hafa skuli eftirlitsmann í Eyjum, erum við á öndverðum meið. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt, að þar sé sérstakur eftirlitsmaður, vegna þess að þar er mikið útræði og nauðsyn á daglegu eftirliti, og því engin von, að maður, sem væri búsettur hér, gæti annazt þar eftirlit, svo að nokkur mynd væri á. Auk þess eru Eyjarnar sérstakar um svo margt, t.d. eru

þær læknishérað út af fyrir sig, þar er og sérstakt bæjarfélag og því alls ekki óeðlilegt, að þær væru eftirlitsumdæmi út af fyrir sig. Ég skal játa það, að þessi brtt. á fullan rétt á sér. Og ég veit ekki, hvers vegna þessari gr. hefur verið kippt út úr frv. Hins vegar vil ég enga áherzlu leggja á að knýja slíka breyt. inn í frv. nú, ef Nd. hefði það sem átyllu til að breyta frv. Ég vil ekki láta þetta frv. fá sömu meðferð og þau frv., sem eru að veltast á milli n. Það er svo mikil togstreita á milli n. í þinginu, að engin getur fallizt á það, sem önnur gerir. Slíkt vil ég ekki að endurtaki sig með þetta frv.

Varðandi brtt. þær. sem hv. þm. talaði um, að ég hefði getað fylgt. þá kemur það fram við atkvgr., hverjar þær eru. Ég viðurkenni, að það eru hér brtt., einkum þær, er hann vitnaði til og komu fram í Nd., sem ég tel, að gæti komið til mála að breyta. En um það varð ekki samkomulag í n. En þar sem ég veit, að ef til vill eru menn hér, sem fylgja frv. nú, tel ég rétt að láta þær standa. Ég vil ekki, að menn fari að snúast gegn frv. vegna þeirra hluta. Mun ég því fara hægt í sakirnar með breyt., þótt ég geti fallizt á breytt orðalag í þessu efni.

Ég get ekki farið nákvæmlega út í allar þær brtt., sem hér liggja fyrir. Ég mun aðallega tala um þær, sem marka mestan ágreining. Ég hef rætt um eftirlitsmennina frá mínu og annarra sjónarmiði í n., enda sagði hv. þm. það réttilega, að deilur hefðu. staðið innan n. um skilning og framkvæmd á þessum eftirlitsmönnum. Annað atriði, sem mér skildist hann leggja mikið upp úr, var um aðalskoðun og aukaskoðun, hvernig eigi að skilja það. Sú breyt. er við 23. gr. Ég hef síðan í gær borið mig saman við skipaskoðunarstjóra og spurt hann, hvort hann telji, að mikil nauðsyn sé að breyta orðalaginu frá því. sem nú er í frv., frá einni aðalskoðun og aukaskoðun og að því, er mér skilst hv. þm. Barð. vilji láta það heyra undir. almenna prófskoðun (aðalskoðun). Skipaskoðunarstjóri tjáði mér, að hann teldi langbezt að breyta engu um orðalag í þessu efni. Það mundi ef til vill valda nokkrum misskilningi og ágreiningi annars staðar í l., ef farið væri að breyta um þetta orðalag. Ég hef alltaf álitið aðalskoðunina sem millistig milli þeirrar skoðunar, er fram fer 4. hvert ár, og annarra aukaskoðana, sem að sjálfsögðu eru minni háttar en aðalskoðunin. Nú er gert ráð fyrir í alþjóðal., að farþegaskip skuli hljóta aðalskoðun árlega. Ein af þeim breyt., sem gerð er á l., er, að þau skip, sem eru úr stáli og orðin eru 12 ára gömul, skuli ganga undir árlega aðalskoðun og skip, sem eru 16 ára og eru úr tré, skuli koma árlega til aðalskoðunar. Þetta er byggt á þeim skilningi, að skip. sem eru komin á þennan aldur, væru komin á það hættulegt stig, að með þeim þyrfti nákvæmara eftirlit en með skipum, er væru fyrir neðan þann aldur. Og þess vegna bæri að viðhafa sama hátt um skoðun þeirra og um farþegaskip nú. Þessi árlega skoðun á farþegaskipunum er byggð á því, að fyllsta öryggis sé gætt um sjóhæfni þessara skipa vegna þeirra farþega, er með þeim flytjast. En mþn. sagði, að ef það er nauðsyn að hafa almenna aðalskoðun vegna farþeganna, þá væri engu síður nauðsyn að viðhafa slíka skoðun á þessum skipum, er ég nefndi. þótt þau væru fiskiskip eða flutningaskip. Mannslífin á þeim skipum eru jafnverðmikil og mannslíf flutningaskipanna og því ber að viðhafa sama hátt um fullt öryggi á þessum skipum. Önnur efnisbreyt. er eiginlega ekki frá því, sem nú er í l. En mér virðist hér um mjög mikinn skoðanamun að ræða, þar sem hv. þm. Barð. virðist vilja fella niður þessa árlegu skoðun á skipum. sem eru komin yfir 12 og 16 ára aldur. Hins vegar er það, að flest þessara skipa eru í svokölluðum flokkunarfélögum erlendis. t.d. togarar og önnur skip, og þeim fer fækkandi, sem ekki eru það. En það gilda ákveðnar reglur um skoðun þeirra skipa. Ég get því ekki séð. að hér sé nein hætta á ferðum eða að verið sé að búa til óþarfa kostnað, eins og mér skildist á hv. þm. Barð., þótt þessi skoðun fari fram árlega. Ég get ekki fallizt á að breyta þessari gr.

Annað ágreiningsatriðið er varðandi 28. gr. Það er varðandi rétt manna til að kæra ýmislegt. sem þeir telja athugavert við skipin. Það eru ákvæði um, að vissir starfshópar geti kært til réttra hlutaðeigenda. t.d. ef þeim þykir athugavert við hleðslu skipa. En í gr. er gert ráð fyrir, að því skuli vera haldið leyndu, hver kæri. Þetta ákvæði er til í l. eins og þau eru nú. Ég skal skýra frá, hvernig þetta er komið inn í l. Það hefur verið svo undanfarin ár. að ef menn kærðu ýmislegt, sem áfátt var um útbúnað skipa eða þess háttar, þá fullyrði ég, að það gat valdið stöðumissi hjá þeim, er það gerði. Það eru dæmi fyrir hendi, er sanna, að þetta var gert. Og það má gera ráð fyrir því, að það, sem hefur átt sér stað, geti aftur komið fyrir. Það er nauðsynlegt, að menn hiki ekki við að kæra til skipaeftirlitsins, ef þeim finnst einhverju áfátt, því að ef kæran er ekki á rökum byggð, þá skeður ekki neitt. Það er þá eins og hvert annað fleipur, sem hefur verið haft í frammi. Hins vegar hef ég orðið var við svo að tugum og hundruðum skiptir, að menn hafi sumir símleiðis, en aðrir hvíslað að mér, að svona væri þetta og svona hitt, er varhugavert mætti telja. Ég hef verið ófeiminn að láta þetta uppi, því að ég á enga stöðu um borð í skipi. Þegar ég hef hreyft aths., þá hefur þetta haft við mismunandi mikil rök að styðjast, en í flestum tilfellum einhver. Það er því full nauðsyn að halda leyndum nöfnum þeirra manna. sem kæra yfir því, er þeir telja misfellur í þessu efni. Mér skildist, að hv. þm. breiddi sig mjög út yfir þetta og teldi það mikla óhæfu, ef sá maður, er kærði, hefði ekki rök fyrir sinni kæru og yrði dreginn fyrir lög og dóm. Ég vil minna menn á, að í siglingal. er ákvæði um, að ef skipshöfn leyfir sér að gera kröfu til, að skip verði skoðað, og ef þeir, sem í landi eru og framkvæma skoðunina, telja það sjófært og kæruna ómaklega fram komna, þá gildir það skipshöfnina allt að því fangelsun fyrir að hafa leyft sér slíkt. Ég tel, að þessu þurfi sannarlega að breyta, og tel þetta ekki í samræmi við nútímakröfur, er menn vilja búa við.

Ég mun hlaupa yfir ýmsar brtt., er hv. þm. var að ræða um. Það mun taka of langan tíma að fara út í hvert einasta atriði. En hv. þm. hefur komið með þessar brtt. af því, að n. gat ekki orðið honum samferða og tekið þær upp. Ég skal játa, að 16. brtt. er stór efnisbreyt., sem ég kemst ekki hjá að minnast á. Hún er um eftirlit með vélum og verksmiðjum. Það er meiningin með brtt. að koma því undir skipaeftirlítið. Í fljótu bragði mundi einstaka manni virðast svo sem þetta gæti farið saman. En ég álít og tel, að það sé skoðun þeirra, sem til þessara mála þekkja, að hér sé í mörgum tilfellum um óskyld verkefni að ræða. Hv. þm. vitnaði í. að ef skoðuð væri vél í skipi og vél á landi, þá væri ekki um neinn stigmun að ræða. Það fer nokkuð eftir því, hvað vélin er stór og henni ætlað að inna af hendi. En það má vel vera. að þetta geti farið saman að ýmsu leyti. Hins vegar vil ég minna á, að skipaeftirlitið verður að skoða meira en vélar einar. Nú er rétt að geta þess, að þegar l. um eftirlit með skipum og vélum voru sett 1929, má segja, að við værum aðeins að byrja að nota vélar. Þá var þó talið nauðsynlegt að setja hér á stofn eftirlit með öllum vélum, sem þá voru komnar í gang. Síðan 1929 hefur þróunin í þessum efnum orðið hér afar ör. Vélanotkun í landinu hefur aukizt geysilega mikið. Hver verksmiðjan af annarri hefur risið upp með margs konar vélum. Rafmagn er komið út um landsbyggðina og allt stefnir þetta til enn þá meiri þróunar í þessum efnum. Við erum að stefna inn í nýja vélaöld á einu og öðru sviði. Hér er því ekki um neitt smáræðis verk að ræða fyrir þá, er eiga að hafa eftirlit með verksmiðjum og vélum með höndum. Í öðru lagi stefnir að því, og ég álít, að sú krafa eigi fullan rétt á sér, að endurskoðuð verði löggjöfin um eftirlit með verksmiðjum og vélum. Og meðan sú endurskoðun hefur ekki farið fram, þá tel ég það ekki tímabært að vera að tala um að leggja vélaeftirlitið undir skipaeftirlitið. Hv. þm. færði sem rök fyrir þessu, að nú væri einn og hálfur maður við þetta. L. mæla fyrir, að eftirlitið skuli ekki haft á hendi af vélfræðingi, heldur af vélstjóra af fyrsta flokki, af manni, sem hefur fyllstu próf og þekkir að öllu leyti til meðferðar á vélum. Það getur enginn komizt í það starf, nema hann hafi staðizt öll þau próf, sem skipa honum í röð fyrsta flokks vélstjóra. Hitt er svo aftur rétt, að vélaeftirlitið hefur ekki verið rækt eins vel og vera ætti. Sá maður, sem það hefur haft á hendi og ég ber ekki brigður á, að hafi þekkingu á sínu starfi, hefur verið kallaður til annarra starfa. Ég er sammála hv. þm. um, að slíkt á að hverfa úr sögunni. Starfið er nóg, þótt hann hafi annan mann sér við hlið. Það má ekki kalla þennan mann til annarra verkefna, þar sem líf fjölda manna er undir því komið, að allt sé í lagi. Þetta er út af fyrir sig nægileg ástæða til þess, að ég tel ekki rétt að kúpla þessu tvennu saman. Það skiptir kannske ekki máli, en þó vil ég geta þess, að á Norðurlöndum eða í Bretlandi þekkist ekki annað en að aðskilja þessi tvö eftirlit. Menn segja, að ekki sé að miða við það, þar sem þessar þjóðir séu svo mörgum sinnum fjölmennari. En því er til að svara, að eftir því sem þeir eru fjölmennari, þá hafa þeir þeim mun fleiri menn í eftirlitinu. Ég mun leggja eindregið gegn því, að inn í skipaeftirlitið sé tekið vélaeftirlit landsins. Hvað síðar verður gert í því efni, er ef snemmt að segja um nú. Ég tel, að endurskoðun l. eigi að fara fram. Og þeir, sem að þeirri endurskoðun standa, eiga að dæma um, hvort rétt sé að sameina þetta tvennt, eins og hv. þm. Barð. leggur til. — Þetta læt ég nægja í bili sem röksemd hvað þetta snertir, en mikill hluti brtt. hv. þm. snýst um þetta atriði.

Þá er það eitt atriði enn, sem hv. þm. gerði mikið veður út af. Það er um, hvort þau gjöld, sem tekin eru af skipum fyrir skoðun, skuli vera ákveðin í l. eða með reglugerð. Eins og l. eru nú, þá er þetta ákveðið með reglugerð. Mþn. taldi það rétt að hafa þetta bundið í l. Nú situr ekki á mér að gerast talsmaður skipseigenda í þessu efni. En það er ekki óverulegt atriði, hvort skipseigendur eru háðir duttlungum hvers einasta ráðh., sem með þessi mál fer, hvaða gjöld ber að greiða til þessara hluta. Hins vegar veit viðkomandi maður, hver þessi gjöld eru, ef þau eru bundin með l. Hins vegar má vel vera, að ástæða verði til að hækka eða lækka þessi gjöld. Þá er ekki um annað að gera — og virðist það mjög einfalt ráð — en að hækka eða lækka þetta ákvæði l. t.d. um 10%, eftir því sem hentugast sýnist. Þetta hefur Alþ. alltaf á valdi sínu. Það, sem virtist höfuðatriðið hjá hv. þm. Barð., var, að skoðunargjaldið greiddi alltaf kostnaðinn við sjálfa skoðunina. Sú skoðun var ríkjandi innan mþn., að jafnvel þótt þetta mark næðist ekki, þ.e.a.s., að skoðunargjöldin yrðu ekki svo há, að þau hrykkju til að standa undir þessum kostnaði, þá hefði ríkið skyldur til að taka á sig að halda uppi skrifstofu og þess háttar. Hins vegar mundu skipaskoðunargjöldin geta borið uppi það, sem í l. er gert ráð fyrir að heiti skoðun. Nú er það svo, að þeir skoðunarmenn, sem inna þetta verk af hendi, fá vissan hluta af skoðunargjöldunum fyrir hvert skip. En þetta er ekki réttlátt, þar sem skoðunargjöldin fara eftir stærð skipa. Sumir geta því haft margfalt hærri tekjur en aðrir. Þess vegna taldi mþn. rétt, að ríkið innheimti öll gjöld og síðan væri hverjum manni greitt samkv. reglugerð. Var talið, að gjöldin mundu a.m.k. bera uppi hina almennu skipaskoðun. Hér í Reykjavíkurumdæminu er hægt að koma þessu saman í eitt. Þeir menn, sem væru á launum í sambandi við skrifstofuna. gætu haft skoðunina á hendi. Mér skildist á hv. þm., að hann vildi algerlega fella úr frv., að ríkið greiddi þessum mönnum laun. en þeir hefðu tekjur sínar á sama hátt og áður, hver fengi eitthvað ákveðið fyrir hvert skip. En það mundi valda misræmi í skoðunargjöldum til hinna einstöku manna. Og annað hitt. að það er rétt, að það kom fram á undanförnum árum, að uppi hafa verið háværar kröfur um, að sjómannastéttin í heild þurfi ekki að vera að skríða á eftir þeim, sem skipin eiga, eftir greiðslu fyrir skoðun, heldur fengju þeir hana greidda af viðkomandi valdsmanni á staðnum og hann innheimti gjöldin. Ég legg mikið upp úr réttara formi við greiðsluna, en tel og þetta fyrirkomulag í samræmi við það, sem okkur í mþn. var tjáð, að ætti sér stað um öll Norðurlönd. Hv. þm. vitnaði hér í fyrirkomulagið við fiskimat og slíkt. Ég held, að það sé að mestu úrelt, hygg, að þeir, sem hafa á hendi slík matsstörf á öðrum sviðum, fái laun sín greidd beint, eins og kallað er, en þurfi ekki að innheimta þau frá vörueiganda. verksmiðjueiganda eða þeim, sem hefur frystihús. En í l. um eftirlit með verksmiðjum og vélum er það á þann veg eins og gerð er till. um að taka upp í þetta frv., sem sagt ríkið innheimti þetta. Ég mótmæli því, að það valdi því, að eftirlitsmenn komi ekki á staðinn, heldur skrifi aðeins reikning, af því að það getur enginn maður fengið lögskráð skip, nema fyrir liggi nákvæmlega útfyllt skýrsla um hvað eina, sem krafizt er skoðunar á. Þetta liggur ekki fyrir í dæminu. Það er ekki hægt að banna fólkinu að vinna í verksmiðjunum, ef þær eru ekki skoðaðar, en það er hægt um skip.

Þá var það 70. gr. frv., sem hv. þm. Barð. vildi láta fella niður. Við ræddum sérstaklega um þessa gr. við lögfræðing n., Pétur Magnússon, 1. þm. Reykv.. og lögfræðinginn í mþn. Ég held, að ég fari rétt með það, að þeir telja rétt, að gr. standi með örlítilli breyt., sem komið gæti inn við 3. umr. málsins. Eins og mönnum er kunnugt, fjallar gr. um straff, og hefur það mikið að segja. að hún sé skýrt orðuð. Að beztu manna yfirsýn ætti þessi breyt. að koma inn við 3. umr., eins og ég hef áður sagt. Ég get getið um, hverju bæta þarf við gr., til þess að fá samhengi. Það hljóðar svo: „Við 71. gr. Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ komi: af ásetningi eða vítaverðu gáleysi.“ Þetta er sú eina breyt., sem við leggjum til. að komi inn í gr., og ætti því frvgr. að geta staðið fyrir henni.

Um refsiaðgerðir skal ég ekki vera fjölorður. Ég tel nauðsynlegt að hafa refsiákvæði í lögum þessum og að þeim sé stranglega framfylgt, engu síður en þegar um bifreiðar er að ræða. Hér er um umferðatæki að ræða og mikilvægt, að við meðferð þeirra alla sé gætt nákvæmni og varúðar og að settum reglum um það sé fylgt og tekið hart á því, ef vanræksla er sýnd í þeim efnum. Það var einróma álit n. að hafa þau refsiákvæði, sem í frv. eru. þótt þau kunni að hitta einhvern ómjúklega á ýmsum tímum, en við því er ekkert að gera. Sá sem sekur er, verður að taka afleiðingunum af því.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Mér fannst það bæði rétt og skylt að svara hv. þm. Barð., þó að ég hafi ekki gert það eins ýtarlega og fram kom í nefndinni.