18.03.1947
Efri deild: 96. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

27. mál, eftirlit með skipum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í máli þessu liggur fyrir nál. óklofinnar nefndar. Aðeins einn nm., hv. þm. Barð., skrifaði undir það með fyrirvara. Nú hefur það komið í ljós, að til grundvallar þessum fyrirvara liggja hvorki meira né minna en 26 brtt. frá þessum hv. þm., og þær ekki ómikilvægari en svo, að ef þær verða allar samþ., þá verða felldir inn í frv. tveir nýir kaflar. Ég skil nú satt að segja ekki, til hvers n. og nefndastörf eiga að eiga sér stað á Alþ., ef slíkar aðfarir sem þessar eiga rétt á sér. Það gefur að skilja, að ef sumar af brtt., en ekki aðrar, yrðu samþ. í viðbót við frv., þá gæti með því skapazt ósamræmi. Það er nú uppvíst, að sumar þessar brtt. eiga meiri hl. n. að baki sér, og sagði frsm. n., að svo væri. (SÁÓ: Ónei). Hv. frsm. getur ekki borið á móti því. (GJ: Það kemur í ljós við atkvgr.). Ég tel það allsendis þýðingarlaust að hafa um hönd nefndarstörf, ef nm. eiga svo eftir á að koma með fleiri og færri brtt. og þær meira að segja svo að tugum skiptir.

Þá var það eitt atriði í máli hv. 1. landsk., sem ég skildi ekki. Hann kvaðst ekki vilja fallast á sumar brtt., af því að þá kynni einhver að snúast á móti frv. í heild. Ég sé ekki betur en sumar af brtt. hv. þm. Barð. eigi rétt á sér. (Rödd af þingbekkjum: Það er víst sjaldgæft, að þessir tveir þm. séu sammála). Það vill þó svo til í þessu tilfelli. Ég tel það nauðsynlegt, að hv. n. taki málið til athugunar á ný og geri sér grein fyrir því, hvort hinar mörgu brtt. finni náð fyrir augum hennar, en síðar verði svo gefin út nál., svo að fyrir liggi bæði meiri- og minni hl. nál. Mér finnst það viðurhlutamikið að feila e.t.v. brtt., sem horfa til bóta, en samþ. svo aðrar, sem kunna að verða til ógagns.

Það er næsta furðulegt, að hv. frsm. n. og hv. þm. Barð. skuli fara í hár saman út af þessu mikilvæga máli og eyða tveimur dögum af starfstíma hv. þd. í rifrildi, og hygg ég, að vart mundu endast 52 vikurnar til þinghalds, ef slík væru alltaf vinnubrögðin.