18.03.1947
Efri deild: 96. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

27. mál, eftirlit með skipum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér er sönn ánægja að leiða hv. 3. landsk. í allan sannleika um meðferð þessa máls, eftir hans mikla reiðilestur. Ég vildi minna hv. þm. á það, þegar hann talar um, að með flutningi þessara brtt. minna sé heimskulega að farið, þá vildi ég, að hann minntist þess. að ekki alls fyrir löngu hafði ég sama háttinn á, og hafði þá enginn neitt við það að athuga (HV: Svo að þetta eru þá vinnubrögð hv. þm.). Ég hef ekki fyrr séð óánægju hjá hv. 3. landsk. út af þessum vinnubrögðum, en hann er e.t.v. óánægður nú. af því að hann kann að vera á móti sumum brtt. Meiri hl. n. var samþykkur því, að brtt. væru fram bornar, og ég tók það fram, að þó að þær yrðu felldar, þá mundi ég ekki í neinu hefta framgang frv., og ég tel ekkert óþinglegt við það, þó að n. beri fram sameiginlegt álit um frv., sem samkomulag var um, að ætti fram að ganga.

Hv. 1. landsk. var með hótanir um, að hann mundi ekki skila óklofnu nál. um málið, ef nokkuð yrði samþ. án hans vilja í n. Ég er viss um, að sumar af brtt. mínum hefðu verið samþ. í n., og ég hygg, að hv. 1. landsk. sé mér sammála um ýmsar þessar brtt., og var hann að hugsa um að vera meðflm. minn að þeim sumum. en hann hefur e.t.v. ekki kunnað vel við það vegna kaflans um eftirlitið, en það þarf að setja sig betur inn í það en í fljótu bragði er hægt að gera, til þess að fá þá þekkingu, sem ég hef á þessu máli eftir 25 ára reynslu. Ég sé ekkert á móti því, að þessi háttur sé á hafður um þessar brtt. mínar, en þó að þær væru allar drepnar, þá mun ég, eins og ég hef áður sagt. vera með frv., og það má þá e.t.v. laga þá agnúa, sem á því kunna að koma í ljós síðar meir, á næstu þingum. Mér dettur ekki í hug að ætla það, að hv. 3. landsk. mundi greiða atkv. á móti frv., þó að allar mínar brtt. væru samþ., svo mikið nauðsynjamál er hér um að ræða. Ég vildi heldur skrifa undir nál. og bera svo sér fram brtt. mínar, og gerði ég það af samúð við málið.

Í sambandi við málið sjálft, þá vil ég geta þess, að við prentun hefur ein af brtt. mínum fallið burtu, og er það veigamikil brtt. við 7. gr. frv. Ég vil, með leyfi hv. forseta. bera hana hér fram skriflega. „Í stað orðanna „eða sérfræðingur um smíði tréskipa eða siglingafræðingur“ í 2. málsl.. komi: og hafi að minnsta kosti verið í siglingum 6 mánuði á skipi yfir 300 smálestir.“ Þetta er sérstaklega skilyrði fyrir því, að maður geti orðið skipaskoðunarstjóri. Þetta er atriði, sem við gátum ekki orðið sammála um í n., en ég tel þetta eitt af meginatriðum máls þessa. Í sambandi við það. sem hv. 1. landsk. sagði, að ég hefði eingöngu sjónarmið vélfræðings, þá skal ég benda á hvers vegna þetta er meginatriði. Skipaskoðunarstarfið er þannig, að það útheimtir a.m.k. 90% tæknilega þekkingu, ekki aðeins á vélum, heldur á allri byggingu skipanna. Ef taka á siglingafróðan mann til þess að vera skipaskoðunarstjóri, þá þarf hann, til þess að geta haft nægilega þekkingu á starfi sínu, að leggja á sig a.m.k. 4 ára nám til þess að geta fengið hana. Aftur á móti þarf vélfræðingur ekki að leggja neitt slíkt nám á sig til þess að geta athugað skip ofanþilja. Hver meðalgreindur vélfræðingur getur lært það á skömmum tíma. Að ég vil setja það ákvæði inn í, að maðurinn hafi siglingatíma, kemur af því, að ég tel, að það sé meginatriði. að hann þekki skip og hafi vit á þeim. Sjálfur skipaskoðunarstjóri segir hér í bréfi til n., með leyfi hæstv. forseta:

„Skipaskoðunarstjóri verður að hafa þekkingu á því starfi, sem undir hans stjórn heyrir, og tel ég mjög æskilegt, að hann hafi verið sjómaður.“ Og ég tel líka, að það sé nauðsynlegt til þess að hann geti rækt þetta starf.

Í sambandi við þetta kom upp sú spurning, hvort Benedikt Gröndal mundi ekki hæfur til þess að vera skipaskoðunarstjóri. Hann er vélstjóri, en var ekki vel fær til starfsins til að byrja með, en gegnum starf sitt hefur hann aflað sér meiri þekkingar við skipaviðgerðir en hægt er að ná á 6 mánuðum við að sigla, og þó veit ég, að mörg af þeim atriðum, sem koma fyrir, mundi hann eiga erfitt með, einmitt af því, að hann hefur ekki siglt.

Það er erfitt að vera skipaskoðunarstjóri fyrir þann mann, sem hvorki er vélstjóri né siglingafræðingur, sérstaklega ef hann á að hafa svo og svo marga fulltrúa og undirmenn, en hefur svo ekkert vit á þessu sjálfur. Hversu margar raddir hafa ekki alltaf komið fram um það, að lögreglustjórinn í Rvík hefði þurft að vera lögfræðingur? Ég þekki engan trésmið, sem gæti verið skipaskoðunarstjóri. (SÁÓ: Þannig er það þó í sumum nágrannalöndum okkar.) Mig varðar ekkert um önnur lönd. Rauði þráðurinn í þessu á að vera trygging og öryggi, hvað sem öðrum löndum líður. Þetta er ekki sjónarmið vélfræðings öðru fremur, heldur er það trygging fyrir öryggi, sem á að ráða, hvaða ákvæði eru sett um þetta, og ekkert annað. Eins og ég hef áður drepið á, hafa verið mjög miklar deilur um það á Alþ. og víðar, að ekki væri viðunandi, að ekki væri lögfræðingur í lögreglustjóraembætti Reykjavíkur. Á sama hátt álít ég, að mjög væri misráðið að setja í skipaskoðunarstjórastarfið mann, sem ekki væri lærður siglingafræðingur.

Ég skal nú víkja nokkrum orðum að ræðu hv. frsm. Hann sagðist telja hér fyrir hönd n., að ég hafi lagt of mikla áherzlu á það, sem fram kemur í brtt. minni. Hann lýsti yfir því, að eftirlitsstarfið ætti að vera fullkomið starf, en ekki aukastarf. En ef það á að vera fullkomið starf, en ekki aukastarf, þá sé ég ekki, hvers vegna ekki á að vera hreinn og beinn yfirskoðunarmaður, sem hefur meira vit á þessu en venjulegur skoðunarmaður, og þá er sannarlega hægt að fá mann með þessari þekkingu til þess að gegna þessu starfi, og þá á þessi maður að geta upplýst skoðunarmenn, en það getur hann ekki, ef hann hefur ekki meiri þekkingu en frsm. segir, að hann þurfi að hafa. Hann talaði um að hann skyldi líta eftir björgunartækjum og eftir ofhleðslu. Ég álít að hann eigi að líta eftir öllu og ekki sízt eftir vélunum. Hv. frsm. hélt því fram, að lítið eftirlit þyrfti með þeim hlutum. Ég segi bara það, að það er ekki lítið öryggi, sem þessi hv. þm. berst fyrir! Líklega 80% af stórslysum, sem hér hafa skeð á öðrum skipum en togurum, hafa stafað af vélbilunum. Hversu lengi var m.b. Kristján að velkjast út í hafi með bilaða vél? Og hvers vegna komst hann ekki til hafnar? Vegna vélbilunar. (SÁÓ: Var hægt að sjá þá bilun fyrir?). Það var ekki hægt að sjá hana fyrir áður en farið var úr höfn, en það hefði verið hægt fyrir skoðunarmann að halda uppi fræðslu um það, hvernig fara ætti með þessar vélar. Hér á Alþ. var kippt undan því öryggi, að hæfir menn væru vélstjórar á mótorbátum, með því, að samþ. voru l. um að rýmka ákaflega réttindi þeirra manna til að fara með bátavélar, manna, sem ekkert höfðu lært. Það er vitað mál, að langmestur hluti af slysum á mótorbátum hefur stafað af því, að mennirnir kunnu ekki nægilega vel að fara með vélarnar.

Á sama tíma og þessi lög voru samþ., voru lögð hundruð þúsunda kr. í björgunarskútur til þess að hirða alla þessa vélbiluðu báta, sem voru eins og hráviði um allan sjó, af því að Alþ. hafði lagt of litla áherzlu á það, að þeir, sem með vélar færu, hefðu næga þekkingu á starfi sínu. Ég var á móti þeirri rýmkun, sem Alþ. gerði í þessu efni. Svo er sagt, að ég hafi sjónarmið vélfræðings, en ekki sjónarmið þess, sem öryggisins á að njóta. Ef þetta er aðalatriði eftirlitsins, þá er líklega rétt að setja hér einn mann, sem yrði líklega maður sem samkv. 8. gr. frv. á að setja sem fulltrúa og á að vera sérfræðingur í öryggismálum. Þá gæti hann ferðazt um og frætt menn í þessum efnum, og væri þörf á að fjölga þeim í tvo og láta þá líta eftir þessu báða. Ég álít einmitt, að það sé eftirlitið með vélunum, sem sérstaklega þarf að rækja, og tel það mikilvægara en margt annað.

Hv. þm. taldi, að óþægilegt væri fyrir eftirlitsmanninn í Vestmannaeyjum að vera einnig eftirlitsmaður í Rvík og vera hér með annan fótinn. Ég tel þetta engin rök. Fyrir það fyrsta er það nú svo, að aðalvertíðin í Eyjum er frá áramótum fram í miðjan maí, og ég sé ekkert á móti því, að maðurinn sé að mestu leyti í Eyjum þann tíma.

Hv. frsm. ræddi um aðalskoðun og aukaskoðun og sagðist hafa rætt það efni við skipaskoðunarstjóra og að hann teldi heppilegast að breyta engu þar um, því að það gæti valdið misskilningi. Samtímis þessu var hv. frsm. að tala um einhver millistig á skoðuninni. En hvers vegna ekki setja skír ákvæði um, hvar hástigið eigi að vera. Vil ég ekki skilja svo við þetta frv., að ekki sé ákveðið, hvernig eigi að fara með hástigið. Allt öryggið hvílir á aðalskoðuninni, vegna þess að þá eru skipin skoðuð frá stafni niður í kjöl. Það tel ég ekki eðlilegt, að gert sé á hverju ári, vegna þess að slík skoðun hlýtur að tefja skipin um 2–3 mánuði, ef hún er framkvæmd eftir 1., og er þetta sams konar skoðun og Lloyds heimtar fjórða hvert ár. Ég teldi því betra, að aðalskoðun skipa, sem ekki eru í klassa, sé látin fara fram annað hvert ár, en síðan fari fram nokkuð víðtækari aukaskoðun en nú er ákveðið í l., sem gerð sé einu sinni á ári hverju. Álít ég að í þessu felist meira öryggi en með núgildandi 1., og legg ég mjög mikla áherzlu á, að þessi breyt. verði gerð á frv.

Þá ræddi hv. frsm. nokkuð um verksmiðjueftirlit. Það kann vel að vera, að það þyki varhugavert að samþ. ákvæðin í frv., er snerta það, vegna þess að ekki hafi unnizt tími til að athuga skipaeftirlitslögin yfirleitt, en hér er ekki annað lagt til en fella inn í þetta lagakerfi breyt. til samræmis. Ég mun ekki hverfa frá þeirri skoðun, að ég tel mikið öryggi felast í því, bæði fyrir verksmiðjueftirlitið sjálft og einnig fyrir skipaeftirlitið, að þetta sé sameinað, vegna þess að á þann hátt er hægt að tryggja eftirlitinu á eftir miklu betri starfskrafta, þegar sömu mennirnir eiga að skoða og hafa eftirlit með báðum þessum verkum. Það verður aldrei hægt að telja mér trú um, að það þurfi aðra menn til að þekkja dieselmótora á landi en á sjó.

Fyrir mér er það ekkert kappsmál, hvort gjöldin skuli ákveðin með reglugerð eða 1., en teldi þó eðlilegra, að þau væru ákveðin með reglugerð vegna verðsveiflna, sem kynnu að verða á hverjum tíma.

Hinu er ég algerlega mótfallinn, að það hafi komið fram háværar raddir um það frá sjómönnum, að skipaskoðunarmenn þyrftu að skríða fyrir útgerðarmönnum til þess að fá laun sín. Veit ég ekki, hvaðan heimildir koma fyrir slíkum fullyrðingum.

Hv. frsm. talaði um, að það væri ekki eðlilegt, að nafn þess aðila væri gefið upp, sem hefði kært, og þóttist hann færa fyrir því nokkur rök og hann fullyrti, að sjómönnum hefði verið vikið úr stöðu sinni, af því að þeir hefðu kært. Ég mótmæli því algerlega, að slíkt hafi komið fyrir, ef kæran hefur verið á rökum reist, því að útgerðarmenn hafa fyrst og fremst hag af því, að allt sé fullkomlega öruggt, sem viðkemur skipunum. Hins vegar skal ég ekkert fullyrða um, hvort útgerðarmenn hafa látið sjómenn fara úr skipsrúmi, ef þeir hafa sent inn kæru og rannsóknin, sem oft tekur langan tíma og tefur þar með skipin, hefur leitt í ljós, að ekkert hefur fundizt athugavert, og veit ég, að slíkt hefur oft komið fyrir. Mér finnst rétt, að það væri í l. að einhver aðili sé ábyrgur fyrir slíkum kærum, ef t.d. Sjómannafélagið eða annað slíkt stéttarfélag vildi taka á sig þá kvöð, sem því fylgdi að kæra, og bera þá tjónið af því á eftir, ef hún væri ekki á rökum reist. Þá gætu viðkomandi menn snúið sér með kæru sína til stéttarfélagsins og eiga þá ekki á hættu að vera sagt upp starfi sínu fyrir þá sök, því að félagið bæri ábyrgðina.

Hvað snertir brtt. mína varðandi 70. gr., mun ég taka hana aftur til 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál meira, nema frekara tilefni gefist til þess. Sé ég ekki ástæðu til að taka málið aftur til sjútvn., þótt hv. 3. landsk. þm, hafi óskað eftir því. Því hefur verið lýst, hvers vegna n. sendi málið svona frá sér, og er því rétt, að atkvgr. fari fram um það, hvað hv. dm. geta fallizt á og hvað ekki.