19.03.1947
Efri deild: 97. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

27. mál, eftirlit með skipum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta er þriðji dagurinn, sem þvargað er um þetta mál, og hefur rimma staðið á milli form. n. og frsm. Málið stendur þannig nú, að form., sem skrifaði undir með fyrirvara, hefur skilað 27 brtt., en tekið þó eina aftur, og frsm. hefur lýst einni brtt. frá n. Ég held, að starf n. sé að samhæfa ólík sjónarmið, sem fram koma og verður þá árangur af nefndarstarfinu, en ekki geti verið um önnur meginsjónarmið að ræða en sjónarmið meiri hl. og minni hl. En að nál. komi frá óklofinni n. og svo komi margar brtt., kannske 20–30, frá einum nm. og nm. standi svo hver uppi í hárinu á öðrum, þá er það verr farið en ef n. hefði ekki starfað. Út af dæmi hv. þm. Barð., að þm. hefðu skrifað undir nál., en hefðu svo borið fram brtt., vildi ég segja það, að það var þessi sami hv. þm., sem gerði þetta t. d. um verndun barna og ungmenna, en flytur svo 27 brtt. við málið. Ég tel, til þess að d. standi ekki verr að vígi en með engu nefndarstarfi, að þá verði nm. að samhæfa skoðanir sínar, svo að meginsjónarmið verði ekki nema tvö eða í hæsta lagi þrjú, sérstaklega í svo tæknilegu máli sem þessu, sem erfitt er að átta sig á. Ég veit, að frv. er til bóta frá núgildandi l. og ætti að vera hættulaust að afgreiða það, en væri þó miður, ef brtt. hv. þm. Barð., sem eru til aukins öryggis, yrðu ekki samþ. Hann er í hópi þeirra manna, sem bezt ættu að vita, og frsm. hefur einnig mikla þekkingu á þessu máli, og áttu þeir að geta skorið úr, hverjar af brtt. hv. þm. Barð. væru til öryggis, því að mér skilst, að hv. frsm. sé ekki andvígur öllum brtt. hv. þm. Barð., en að hann telji, að aðrir kynnu að snúast gegn frv., ef þær yrðu samþ. Ég vildi taka það fram. að ég styð frv., en mun fylgja þeim brtt. hv. þm. Barð., sem eru til aukins öryggis, svo fremi þær raski ekki samræmi lagabálksins, en það er erfitt að átta sig á því, þegar þær eru svo margar. Ég mundi óska, að einhverjir nm. vildu gera nokkra grein fyrir, hverjar till. hv. þm. Barð. miði að auknu öryggi og hverjar raski ekki samræmi frv., og gæti það orðið til leiðbeiningar. Annars er ekki fullnægjandi, að n. ljúki störfum þannig eins og gert hefur verið nú, og gæti orðið úr því hreint „kaos“.