20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

27. mál, eftirlit með skipum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar til mín frá hv. þm. Barð. út af brtt. við 17. gr. þessa frv., hvort ekki sé meira öryggi í því að stöðva skip en að sækja útgerðarmenn eða skipstjóra til saka. Það er auðvitað meira öryggi í því að stöðva skipið, því verður ekki neitað.

Ég vil vekja athygli á því, að í 17. gr. er greint á milli þess, hvort um er að ræða slíka galla, sem gera skipið óhaffært, eða ekki. Og það er tekið fram í 3. mgr. 17. gr., að skoðunarvottorðið skuli eigi afhent fyrr en kröfum þeim, sem gerðar eru, sé fullnægt. Svo segir aftur í upphafi 5. mgr.: „Ef það sem áfátt þykir, er þannig vaxið, að haffæri skips er óskert og eigi er hægt að bæta úr því þegar í stað,“ o. s. frv. Og síðar kemur í þessari gr., að það skuli tilkynna útgerðarmanni eða skipstjóra. En eftir að sá frestur er liðinn, sem um getur, þá ber samkv. þessari gr. að sækja þessa aðila til saka. Og ég verð að segja, að svona fljótt á litið án þess að ég hafi grandskoðað það, að það sé í raun og veru of harkalegt að stöðva skipið, ef það er haffært, þó að það sé að einhverju leyti ábótavant með annan útbúnað þess.

Ég verð þess vegna að segja það við hv. þm. Barð., að mér virðist brtt. hans ganga nokkru lengra en efni standa til, miðað við ákvæði þessarar gr. að öðru leyti.