20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

27. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Ég tek alveg undir skýringu hæstv. dómsmrh. og tel óþarft að bæta þar nokkru við um minni háttar atriði, sem ekki varða haffæri skipa, og því mundi sennilega aldrei beitt undir slíkum kringumstæðum. Ég stóð ekki upp til að karpa við hv. þm. Barð., og skil ég ekki, af hverju hann var svo æstur. Oft heyrir maður stóryrði úr hans munni, en þessi miklu stóryrði og getsakir á ég ekki gott með að taka sem góða og gilda vöru. Hann sagði, að fyrir mér vekti með þessu frv. að minnka raunverulega öryggið. Ég veit, að mitt er ekki að dæma, hvað um mig má segja, en hann er hér að dæma alla þá menn, sem að undirbúningi þessa máls hafa unnið, allt valinkunna menn, m. a. ágætir flokksmenn hans, eins og Guðmundur Markússon skipstjóri, Benedikt Gröndal skipaverkfræðingur. Barði Tómasson skipasmíðaverkstjóri o. s. frv., og kalla ég það nokkuð þungan dóm eins flokksbróður, að þeir búi til löggjöf, sem rýri öryggið og geri það að verkum, að það, sem fyrir er, — ef ég skil þm. rétt —, þurrkist út með þessari breyt., af því að ekki er fallizt á hverja þá till., sem honum dettur í hug að gera við hverja gr. Þetta kalla ég að taka nokkuð mikið upp í sig, sem heitir á sjómannamáli að „spýta mórauðu“ og ég held, að þm. hafi laglega gert í þetta skipti. Ég skil ekki þennan æsing alltaf þegar komið er inn á þetta. Það er ekki af eintómri umhyggju fyrir öryggi. Ég ætla ekki að fara að hnýfla hann, en hann hefur sjálfur oft legið undir þungum dómi og e. t. v. stundum ómaklega — gegnum sína starfsævi, en ég ætla ekki inn á það nú. Þetta hittir hann kannske frekar en mig — allt hans brölt í þessu máli í eyrum þeirra, sem hafa fylgzt með gangi málsins. — Ég hef gert grein fyrir, hvers vegna ég get ekki fylgt till. hans. Ég tel hana ekki til bóta, og sá hugsunargangur, sem hefur komið fram hjá honum við meðferð málsins, er á allt öðru bylgjusviði en ég get viðurkennt. Ég skal svo láta útrætt um málið.