31.10.1946
Neðri deild: 8. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er lagt fram af ríkisstj., er um matsveina- og veitingaþjónaskóla. Þegar bygging sjómannaskólans var hafin, og raunar áður, þegar rætt var um skóla fyrir sjómannastéttina, var gert ráð fyrir, að í þessum skóla, sem nú er langt komið að byggja, yrði einnig hafður skóli fyrir matsveina, samtímis því sem hann yrði skóli fyrir skipstjóra, vélstjóra og aðra fagmenn sjómannastéttarinnar. Skólahúsinu er nú svo langt komið, að ætla má, að það húsnæði, sem ætlað er fyrir matsveinaskóla, verði búið um næstu áramót eða í byrjun næsta árs, og kemur því nú til kasta ríkisstj. og Alþ. að skipa þessum málum þannig, að skólastarf geti þar hafizt.

Ég þarf ekki að eyða að því mörgum orðum, hvílík nauðsyn það er, að þessi skóli sé settur á stofn. Mér hafa sagt kunnugir menn, að skortur mikill sé á lærðum mönnum í þessari grein, eða mönnum, sem geta farið svo með, að unnt sé að sætta sig við. Mér hefur t. d. verið sagt, að matsveinar á fiskiskipum séu það misjafnir, að oft og einatt sé fæðiskostnaður skipverja allt að því tvöfaldur á einu skipinu, miðað við það, sem er á öðru, en maturinn þó ekki betri, og kemur það víst til af því, að ekki sé of mikilli kunnáttu fyrir að fara. Þetta skólahald þarf að skiptast í margar greinar. Það þarf að kenna mönnum matreiðslu á fiskiskipum og flutningaskipum, t. d. auðvelda matargerð og framreiðslu, sem mundi ekki taka langan tíma, og svo þyrfti í öðru lagi að kenna matsveinum og veitingaþjónum það starf, sem þeir eiga að taka að sér við framreiðslu á farþegaskipum, sem er allt annars eðlis. Og loks hefur samband veitinga- og gistihúseigenda óskað eftir, að í þessum skóla yrði nokkurt tillit tekið til þeirra þarfa, þannig að veitingaþjónum yrði kennt þarna líka. Ráðuneytinu hafa borizt drög að frv. frá farmanna- og fiskimannasambandinu um þetta efni, sömuleiðis till. frá sambandi veitinga- og gistihúseigenda og þar að auki margar gagnlegar till. frá áhugamönnum í faginu. Allar þessar till. hefur ráðuneytið tekið til athugunar og reynt að samræma þær, og kemur árangurinn fram í því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég skal ekki fara langt út í að rekja efni frv. Það er ekki lengra en svo, að ég vænti þess, að hv. þdm. geti veitt sér tíma til að lesa það, en í frv. er kveðið á um það, hvað skuli kenna í skólanum, inntökuskilyrðin og hvernig kennslunni skuli hagað, um skólastjórn og annað það, sem venjulegt er að taka fram um hliðstæða skóla aðra. Það kann að orka tvímælis, hvað skuli taka af kennslunni og hvernig henni skuli hagað. En reynslan verður að skera úr því, og verður þá, ef annað reynist betra en hér er gert ráð fyrir, að byggja á þeirri reynslu og fá l. breytt samkv. því. En eins og nú standa sakir, er engin reynsla til að styðjast við í þessum efnum.

Tel ég svo ekki ástæðu að hafa fleiri orð um þetta frv., en vænti þess, að hv. þdm. taki því vel og skilji nauðsyn þess, að þessi skóli verði stofnaður, og greiði götu frv. gegnum deildina. Vænti ég þess svo, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.