18.12.1946
Efri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

45. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. — það er nú reyndar varla ástæða til þess að reka hv. þm. Barð. betur á gat, en búið er að. Þeir hafa gert það svo rækilega, hv. menntmrh. og fleiri. það er hreinasta vitleysa, að verið sé að stytta vinnutíma kennara, og veit ég ekki, hvaðan hv. þm. Barð. hefur það. Hvað viðkemur aukaþóknun þeirri, sem gert er ráð fyrir, að kennarar fái fyrir stílaleiðréttingar, þá er aðeins átt við, að þeir kennarar njóti hennar, sem kenna íslenzkan stíl í efri bekkjum menntaskólanna, og hygg ég, að hún sé ekki það há, að hún ætti að vera nokkrum manni þyrnir í augum. Hv. þm. Barð. ætti að komast í það að leiðrétta fjöldamargar íslenzkar ritgerðir eftir misjafna nemendur og vita, hvernig honum fyndist það, einkanlega ef mikill hluti nemendanna væri nú hljóðvilltur eins og hann sjálfur.