18.02.1947
Neðri deild: 76. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tók víst rétt eftir, að þetta væri 3. dagskrármálið. Þm. er kunnugt um, að þetta frv. var lagt fyrir af hæstv. samgmrh. og að það gekk hér lítið breytt gegnum þessa d. til Ed. Nú hefur frv. fengið meðferð í Ed. og tekið þar mjög miklum breytingum. Aðalefnisbreytingin, sem orðið hefur í Ed., er sú að þessi fyrirhugaði skóli er í raun og veru orðinn að stuttu námskeiði fyrir matsveina á fiskiskipum. Nú er það svo, að ætlazt er til að taka mikið og dýrt húsnæði í stýrimannaskólanum fyrir þennan skóla og að stofnkostnaður við hann verði mjög mikill. Það virðist því á nokkrum misskilningi byggt hjá Ed. að ætla að skerða störf skólans svo mjög sem gert er með þeim breyt., sem voru gerðar þar, og virðist líka mjög undarlegt, að menn koma ekki auga á það, hversu mjög er þörf á því, að menn læri ekki aðeins að elda einfaldasta mat á fiskiskipum, heldur að menn eigi kost á að læra eldhússtörf og framreiðslu og annað, sem menn þurfa að kunna, sem vinna á farþegaskipum, hótelum og gistihúsum. Þessa menntun hafa menn þurft að sækja til annarra landa. Það er mjög dýrt, og er nú orðinn mikill skortur á mönnum á þessu sviði, og höfum við fram á síðustu ár orðið að hafa útlendinga við þessi störf.

Okkur virðist í sjútvn. þessarar d., að óhætt muni vera að breyta frv. í það horf, sem það hafði, í þeirri trú, að Ed. muni átta sig á því, að þetta er rétt stefna, að það eigi að vera fullkominn skóli til þess að mennta menn í þessari grein.

Hv. Ed. hefur breytt ýmsum smáatriðum, sem ég sé ekki ástæðu til að gera að umtalsefni, því að þau varða ekki miklu. En þó er ein breyt., sem ég verð að minnast á og fram kemur í 7. gr., eins og hún er nú, þar sem ætlazt er til, að ríkið reki veitingar ég hafi veitingasölu til þess fólks, sem dvelur í sjómannaskólanum. Þetta getur orðið mjög umfangsmikið og stórkostlega mikið fyrirtæki fyrir sjómannaskólann, en hitt er öllum vitanlegt, að a. m. k. allir skólar landsins, sem hafa heimavist, hafa félagsbú fyrir nemendur og kennara, og er ekki ástæða til að efast um, að þessi skóli mundi einnig hafa það fyrir sína nemendur og kennara, sérstaklega þegar gert er ráð fyrir fullkomnara og betra húsnæði en er í öðrum skólum. Ég held, að ekki þurfi að hugsa fyrir þessu. Það verður sjálfsagt sama fyrirkomulag þarna og í öðrum skólum, að nemendur ganga í félagsmötuneyti og kjósa stjórn, sem lætur þá greiða fæðið, eins og það kostar, þegar gert er upp á vorin. Auk þess gæti félagsskapur nemenda eða skólinn sjálfur að einhverju leyti haft veitingar á öðrum tímum, því að í þessum skóla má búast við, að mikið verði um samkomur, sem veitinga krefjast. Ég ræð þetta af því, að í skólanum er fullkominn og góður veitingasalur, og a. m. k. allar greinar sjómannastéttarinnar og eflaust margir fleiri munu sækjast eftir að halda þarna skemmtanir.

Ég vil ekki þreyta hv. d. með því að fara út í hvert smáatriði. Ég vona, að þm. séu samþykkir þeim breyt., sem við höfum gert, og átti sig á því. Ég skal þó taka það fram, að við athugun leit sjútvn. svo á, að sú breyt., sem gerð var við 8. gr. í Ed., muni vera til bóta, og hefur því mælt með. að hún komi í staðinn fyrir 8. gr., sem í frv. var, en sú grein fjallar um stjórn skólans. Í frv. er ætlazt til, að skólanum sé stjórnað af skólaráði. er tilnefnt sé af ýmsum félagasamtökum. Nú er ætlazt til, að skólanum sé stjórnað af skólanefnd og sé skólastjóri formaður hennar. Við höfum fallizt á þessa breytingu að undanskildu því, sem talað er um ríkismötuneyti.

Ég vil að lokum leyfa mér að mælast til þess. að þm, fallist á þessa breyt., sem gerð er á þskj. 416.