21.05.1947
Sameinað þing: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það má segja, að þetta mál hafi verið mikið rætt, en þó kemst ég ekki hjá því að segja nokkur orð, eins og nú er komið.

Það hefur farið svo, að d. hafa ekki getað orðið sammála um málið. Það hefur gengið á milli d., og Nd. hefur verið, kannske ekki alveg sammála öll, en mikill meiri hl. hennar hefur verið því fylgjandi, eins og það liggur fyrir með brtt. á þskj. 670, en hins vegar hefur hv. Ed. viljað takmarka mjög ákvæði frv. og mun, að því er mér virðist, ekki vera fáanleg til að færa málið aftur í það horf, sem það var í upphaflega.

Þegar þetta mál var upphaflega flutt hér frá því ráðuneyti, sem ég veiti forstöðu, var það gert eftir samráði við stjórn farmanna- og fiskimannasambandsins og Landssambands ísl. útvegsmanna og ýmsa aðra málsmetandi menn, sem eru þessari stétt háðir, og var reynt að fara eftir ýmsum till. þeirra í því frv., sem hér hefur verið borið fram.

Brtt. á þskj. 670 er svipuð því, sem frv. var í upphafi, áður en Ed. breytti því. Það, sem hér ber milli mála, er það, hvort eingöngu eigi að vera um lítinn kokkaskóla að ræða fyrir fiskiskip og flutningaskip, skóla þar sem menn gætu numið þessi fræði í 6–7. kannske 8 mánuði, og síðan yrði það ekki meira. Er þá hugsað, að því námi væri komið fyrir með námskeiðum, eftir því sem fé yrði til þess veitt í fjárl. M. ö. o. allt skipulag skólans væri í lausu lofti og færi eftir því, hvað Alþ. vildi á hverjum tíma til skólans veita. Það er meginmunurinn, sem er á þessum tveimur sjónarmiðum d. og n., sem hafa beitt sér fyrir málinu og verður hver að taka afstöðu til þess eftir því, sem hann vill gera upp við sig.

Nú fá matsveinar og veitingaþjónar kennslu sína eins og aðrir iðnaðarmenn hjá meisturum. Um það þarf ekki að fjölyrða, hversu miklu fullkomnara er, að því sé hagað eins og frv. gerir ráð fyrir, að nokkur hluti kennslunnar yrði í skóla, en nokkur hlutinn meistarakennsla. Ég hygg, að það sé það form, sem bezt gefst erlendis, en einhliða meistaranám eða einhliða skólanám gefist ekki eins vel. Þetta er að vísu ekki útilokað, eins og frv. er nú, en það er allt í lausu lofti og yrði að fara eftir því, hvað veitt yrði til skólans í fjárl. hverju sinni. Ef það verður svona, sætti ég mig við það, að frv. verði afgr. eins og Ed. gekk frá því, en ég vil miklu heldur og tel miklu betra fyrir málið, að það verði afgr. eins og sjútvn. leggur nú til og eins og það var borið fram í upphafi. Ég tel ekki hægt að fá fast skipulag á þennan skóla, nema hann verði hafður eitthvað á svipaðan hátt og þar kemur fram, nema þá sem matsveinaskóla fyrir fiskiskip og minni háttar flutningaskip, þar sem ekki er um að ræða nema eins árs nám.

Ég skal enn geta þess, að þegar málið var hjá mér í undirbúningi, þá ræddu við mig fulltrúar frá sambandi íslenzkra veitingahúseigenda, en þeir hafa stofnað með sér félag. Nú eru í landinu milli 60 og 70 veitingahús, að vísu mismunandi stór og mismunandi fullkomin, en þurfa þó öll á starfsfólki að halda, sem kann verk sín, m. a. þau, sem hér er veitt fræðsla í. Það má segja, að það sé ekki hlutverk sjómannaskólans að veita slíku fólki fræðslu, en hins vegar væri æskilegt, ef þessi fræðsla ætti sér stað í sjómannaskólanum, þá gætu þessir menn notið góðs þar af. Það var ósk þeirra, að ég ynni að og beitti mér fyrir, að svo yrði um hnútana búið, að hótelmenn gætu haft samflot með þeim, sem þessi skóli er sérstaklega ætlaður, því að matsveinsstarfið er mikið til það sama, hvort sem það fer fram á farþegaskipi eða á hóteli. Ég ætlaðist líka til þess, að hægt yrði að verða við þessum óskum með frv., eins og það var, og það er hægt, ef sú breyt. er samþ., sem hér liggur fyrir, en það er ekki hægt, ef gengið er frá frv. eins og það nú liggur fyrir.

Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég ætla, að hv. alþm. hafi gert sér grein fyrir, hvað hér er um að ræða. Ég vil aðeins með þessum orðum lýsa yfir, að ég óska heldur annarrar lausnarinnar en hinnar, þó að ég eftir atvikum geti sætt mig við hina, ef sú fæst ekki, sem ég vil heldur. En það, sem ekki má koma fyrir, er að frv. sé fellt, því að það hefur verið gerður of mikill undirbúningur að byggingu sjómannaskólans til þess, að hann fari til ónýtis á þann hátt, að málinu sé drepið á dreif og ekki fæst að nota sér þá aðstöðu, sem er að verða þar fyrir hendi, því að með byggingu sjómannaskólans og þeim undirbúningi, sem þar hefur verið gerður, er hægt að hafa þessa starfsemi eins fullkomna og gert er ráð fyrir í frv., eins og það var og eins og brtt. fer fram á.