21.05.1947
Sameinað þing: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég get sparað mér svo að segja allt, sem ég ætlaði að segja, því að hæstv. samgmrh. hefur nú þegar tekið það fram, og get ég því að mestu látið nægja að vísa til þess. Ég ætlaði að rekja gang málsins, en hann hefur gert það og þarf ég ekki frekar út í það að fara. En ég vil þó, af því að ég stóð upp, leiðrétta það, sem hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði sagt, að um þetta mál hefði verið togstreita, án þess að nokkuð bæri á milli. Ég sagði einmitt, að það hefði verið nokkur ágreiningur um málið, nefndi ekki togstreitu, en efnislegur ágreiningur hefði verið aðallega um 5. gr., og skýrði frá, hvað það væri, og það hefur hæstv. ráðh. nú undirstrikað.

Að öðru leyti þarf ég ekki neitt um þetta mál að ræða við hv. þm., en endurtek það, að málið er orðið svo kunnugt, að ekki ætti lengur að þurfa að deila um það. Ég vil þó skýra frá því, að hv. 1. landsk. sagði, að í þessum skóla gætu nemendur ekki, eins og hann komst að orði, haft nein skilyrði til að fullkomna sig, ef þar væri meira en eins vetrar nám, af því að þetta væri iðnskóli, en þeir gætu ekki fengið það verklega nám nema á hótelum eða farþegaskipum. Ég vil benda á, að það er ætlazt til, að þessi skóli hafi verulega starfrækslu í þessum efnum, bæði matreiðslu og framreiðslu, því að þarna verður eflaust fullkomið mötuneyti, og þarna verður eflaust haldið uppi veitingum mjög fullkomnum fyrir ýmiss konar samkomur og mót, og eins og hæstv. ráðh. tók fram, einhvers staðar verður þó það bóklega nám að fara fram, sem á að veita þessum mönnum rétt til að ganga undir próf í þeim greinum.

Hv. 1. landsk. heldur fram, að matsveinafélagið og brytar á skipum hafi undirbúið þetta og þeir vilji heldur það form, sem Ed. hefur samþ. Ég vil benda á, að það, sem hæstv. ráðh. hefur gert í málinu, er það, að hann hefur rætt undirbúning þess við þessa aðila, svo að það er ólíklegt, að þeir, sem hafa unnið að þessum málum svo að árum skiptir, vilji ekki það, sem felst í þessari tillögu.