06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem fram hefur komið. Það er talað hér um þetta mál eins og það sé verið að taka skemmtanaskattinn af dreifbýlinu í landinu og eigi að fara að verja honum í þágu Reykjavíkur, þótt það sanna í málinu sé, að skemmtanaskatturinn hefur runnið einvörðungu í þjóðleikhússjóðinn. Nú er gert ráð fyrir að taka nær helming af honum framvegis og verja því til samkomuhúsabygginga um allt land og er þar með stigið það mikla skref að styðja þetta mikla áhugamál að koma upp samkomuhúsum í landinu. Það eru til menn í landinu, sem líta þannig á, að það eigi að láta þjóðleikhúslögin vera óbreytt, það veiti ekki af skemmtanaskattinum til að standa undir leikhúsmálum. og n., sem undirbjó l., gerði ráð fyrir þessu. Að hinu leytinu eru svo öfgamenn, sem virðast líta þannig á, að það þurfi að taka allan skemmtanaskattinn frá rekstri þjóðleikhússins. En það er ekki hægt að fara eftir öfgamönnum, hvorki þeim, sem tala eins og hv. síðasti ræðumaður, né hinum, sem vilja, að skemmtanaskatturinn sé notaður til þess að kosta rekstur þjóðleikhússins. Hér verður að fara milliveginn, að ætla nokkuð eðlilega upphæð úr sjóðnum til þess að standa undir rekstri þjóðleikhússins sómasamlega, en verja hinu til þess að koma upp samkomuhúsum, en það er sú leið, sem mörkuð er í þessu frv. og ég vona, að hv. þd. og hæstv. Alþ. geti fallizt á. Það kann vel að vera, að það megi hnika eitthvað til prósenttölunni, sem ráðgerð er í frv., og má athuga það í menntmn., en aðalstefnan verður að vera sú, að þessu verði skipt nú að þessu sinni og síðan skeri framtíðin úr um það, hvort þá muni hægt að gera á því aðrar breyt. Ég býst við að hv. þm. S-Þ. hafi haldið ámóta ræðu eins og andstæðingar hans hafa haldið, þegar hann var að berjast fyrir þjóðleikhúsinu. Ég hygg, að mönnum hafi þá fundizt ekkert vit í því að draga saman allt þetta fé í byggingu leikhúss í Reykjavík. En ég veit, að sú skoðun er ekki ofan á nú að láta þetta undir höfuð leggjast. Nú er ekki um annað að ræða en að sjá fyrir rekstri þjóðleikhússins þannig, að þar geti farið fram starfsemi, sem sé landsmönnum til sóma. En það verður ekki gert án þess að leggja þar til eitthvert fé, því að þetta þjóðráð, sem hv. þm. S-Þ. segist hafa látið koma fram til að leiðbeina um það, að ríkið reki ekki þjóðleikhúsið, heldur verði það leigt einkafélagi til að reka þar starfsemi sína, mundi ekki verða kostnaðarlaust fyrir ríkið. Það er augljóst, að ekkert einkafélag mundi taka á leigu þjóðleikhúsið til þess að hafa þar leikstarfsemi með myndarbrag án þess að fá styrk frá því opinbera, og vafalaust yrði sá styrkur eins hár og sá halli, sem kynni að verða á leikhúsinu. ef ríkið ræki það. Þetta er vafasamt, auk þess sem ekkert einkafélag er til í landinu, sem tæki að sér að reka starfsemi þjóðleikhússins á þennan hátt. Hér er um tvær stefnur að ræða. Önnur er að láta þjóðleikhúsið standa autt og tómt, eftir að búið er að koma því upp, eða þá, að ríkið taki að sér að reka leikstarfsemi í húsinu. Hitt er svo annað mál, hvað umfangsmikil sú starfsemi má vera til þess að ofbjóða ekki fjárhagsgetu landsins, en um það skal ég ekki fara mörgum orðum í þessu sambandi. Ég vildi aðeins benda á þetta, að það eru öfgar á allar hliðar í þessu máli eins og öðrum. Hér er verið að þræða þá skynsamlegu meðalleið.

Mér finnst það vera óvirðingarorð. sem hv. þm. S-Þ. mælti í garð íslenzkra leikara, að þeir hefða engan áhuga á þessu nema nokkrir menn, sem vildu fá atvinnu. Ég þekki ekki marga af þessum leikurum persónulega, en mér finnst þeir eiga allt annað og betra skilið en þau svigurmæli, sem hv. þm. S-Þ. flutti. Það er merkilegt, hvað íslenzkir leikarar hafa lagt á sig undanfarin ár fyrir lítið endurgjald í aðra hönd. Þeir hafa haldið uppi leikstarfsemi um áratugi við skilyrði, sem hafa verið hörmulega erfið. Er furðulegt, að þessir menn skuli hafa lagt á sig annað eins erfiði fyrir sama sem ekkert endurgjald. og það er enginn vafi á því, að aðalástæðan til þess er sú, að þeir hafa tekið ástfóstri við þessa list að leika, og það er það, sem hefur rekið þá áfram. Þeir eiga því allt annað skilið en þessi óvirðingarorð hv. þm. S-Þ. Það er ákaflega eðlilegt, að þeir, sem hafa sýnt jafnmikla fórnarlund og íslenzkir leikarar, hafi áhuga fyrir því, að hér geti orðið rekið myndarlegt þjóðleikhús, og ég verð að segja það, að það þarf mikið hugmyndaflug til þess að bera þeim eigingjarnar hvatir á brýn, þegar athugað er, hvernig þeir hafa starfað að þessum málum undanfarin ár. Það er ekkert undarlegt við það, þó að íslenzkir leikarar láti frá sér heyra um það og ræði um það, að hér megi ekki skera við nögl. En hitt er annað mál, að það er ekki hægt að taka alveg til greina till. þeirra um þessi efni, vegna þess að okkur leikmönnum í þessari listgrein finnst þeir hafa spennt bogann hærra en í rauninni sé hægt að gera, og þess vegna verður að draga frá þeirra till. í þessum efnum. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.