13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Menntmn. hefur rætt þetta mál og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með óverulegri breyt. Öll n. var sammála um þá meginstefnu, sem fram kemur í frv., að rétt væri að hverfa að því að skipta skemmtanaskattinum þannig, að nokkur hluti hans renni framvegis til þess að stuðla að því, að byggð verði ný og fullkomin samkomuhús úti um byggðir landsins, þannig að aukin og bætt skilyrði skapist fyrir félagslíf úti um landið. Hins vegar ríkti nokkur ágreiningur um það, í hvaða hlutfalli þessum skatti skyldi skipt milli þeirra aðila, sem frv. ræðir um. einstakir mn. áskilja sér rétt til þess að bera fram eða fylgja brtt. um það atriði. Ég get hins vegar gefið upplýsingar fyrir mína hönd og hv. þm. Snæf. Við munum ekki við þessa umr. flytja neinar brtt. um þessi atriði, sem við þó höfðum áskilið okkur umhugsunarfrest um, og ég tel æskilegt fyrir framgang málsins, að á þessu stigi yrðu ekki bornar fram aðrar brtt. en þær, sem n. flytur á þskj. 821, en þær eru tvær. Í fyrsta lagi leggur n. til, að 1. málsgr. 1. gr. verði breytt eins og segir í brtt. En samkv. henni eru aðeins tekin inn orðin og viðaukum við þau. Það hafa verið samþ. viðaukal. við skemmtanaskattinn, og er þess vegna betra samræmi í því, að þau væru einnig tekin upp í þessa gr. Við 3. tölul. flutti n. brtt., sem að vísu kemur ekki fram í nál., vegna þess að þar er um misprentun að ræða. Þetta átti að vera þannig, að í staðinn fyrir „kennslukvikmyndasafns“ átti að koma: kennslukvikmyndasafna. Þessi brtt. er sprottin af því, að í l. um lestrarfélög og kennslukvikmyndir er einungis gert ráð fyrir kennslukvikmyndasafni ríkisins. Nú er það hins vegar þannig, að einstök bæjarfélög og sveitarfélög hafa stofnað kennslukvikmyndasöfn og eru í undirbúningi með það. N. þótti því rétt, að þessi kennslukvikmyndasöfn bæjar- og sveitarfélaga gætu einnig notið þeirra tekna, sem þarna er gert ráð fyrir. Ég hef því óskað þess, að þetta þskj. verði prentað upp og jafnhliða yrði felldur niður síðasti málsliður þessarar málsgr., og býst ég við, að þessu þskj. muni mjög fljótlega verða útbýtt uppprentuðu í hv. d. Enn fremur hafa hlutföllin í 3. málsgr. snúizt við, þar stendur 2/3, en á að vera 1/3, er það prentvilla, og hefur n. leiðrétt það. Ég hef svo ekki fleira um þetta að segja fyrir hönd menntmn., en vil vænta þess, að þetta mál fái góðar undirtektir hjá hv. þd. Hér er um merkilegt mál að ræða, sem miklar vonir standa til, ef til framkvæmda kemur. Vil ég svo óska þess, að málinu verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.