13.05.1947
Neðri deild: 127. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu þm. S-Þ., því að mér virðist hann ræða á skökkum forsendum. Það var aldrei gert ráð fyrir, að það fé, sem hér um ræðir, væri eingöngu notað til þess að byggja hús, því að það var líka ætlað til þess að styrkja leiksýningar. Og hér er alls ekki um það að ræða að verja öllu fénu til leiksýninga, heldur aðeins 45%. Það er líka misskilningur. að þetta fé sé skattur af öllu landinu, því að það er aðeins úr kaupstöðum og kauptúnum, sem telja fleiri en 1500 íbúa, svo að það er ekki verið að draga fé úr byggðunum. Það er líka misskilningur, að ráðnir hafi verið eða ákveðið sé að ráða 40 leikara, enda tel ég, að það sé alls ekki tímabært að ákveða þá tölu.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ráðnir verði fastir leikarar, en auk þess verður að semja við aðra leikendur um að starfa til viðbótar við húsið. Í frv. er gert ráð fyrir, að enginn leikandi sé ráðinn til meir en fimm ára. Bið ég afsökunar, að ég er farinn að tala um hitt málið, sem hér er á dagskrá.

Hv. þm. sagði, að ég hefði tekið við frv. kommúnista. Ég tók við frv. frá rekstrarnefnd, og því var talsvert breytt í ráðuneytinu. Rekstrarnefnd lagði til, að allur skemmtanaskatturinn færi til að kosta rekstur þjóðleikhússins, en ég lagði til, að tæpur helmingur af honum yrði lagður til þess að mynda rekstrarsjóð. Og þó að hv. þm. S-Þ. sé ekki nákvæmur, finnst mér hann ætti að geta gert mun á öllum skattinum og 45%.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta og læt hér við sitja.