15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka mjög ákveðið undir þær skoðanir, sem komu fram hér áðan í ræðu hv. þm. Barð., um það, að fjárhagur ríkisins eins og hann er nú og hefur verið undanfarin ár gefur ekkert tilefni til þess, að borið sé fram slíkt frv. sem þetta, er hér liggur fyrir á þskj. 490. Hv. þm. er, eins og kunnugt er, form. fjvn. og þess vegna mjög vel kunnugt um fjárhag ríkisins. enda öllum þm. kunnugt, að undanfarin ár hefur orðið verulegur tekjuafgangur á rekstri ríkisins. Og þótt mikið sé talað um það nú, að mjög mikill samdráttur muni verða frá því. sem áður var, held ég, að ekkert sanni enn, að rekstri ríkisins sé enn nokkur hætta búin, sem gefi ástæðu til að flytja mál á borð við það frv., sem hér liggur fyrir. Ég held líka, að frv. sjálft sanni það í raun og veru, að sjálf hæstv. ríkisstj. taki ekki þetta mál, þessi fjárhagsvandræði ríkissjóðs, mjög alvarlega, því að ef það væri, þá mundi hún áreiðanlega stíga stærra skref en með þessu frv., því að sá sparnaður, sem hér er um að ræða, er raunverulega alls ekki mikill miðað við þær upphæðir, sem fjárl. eru farin að velta á í dag. Sparnaðurinn felst í 1.–2. tölul. 1. gr., og ef miðað er við þær fjárveitingar, sem verið hafa á fjárl. t.d. s.l. ár og nú til þeirra framkvæmda, sem 1. tölul. fjallar um, er það ekki nema innan við 1/2 millj. kr., nú um 400 þús., sem áætlað er í þessum kafla. Og sá sparnaður, sem felst í 3. Tölul., nemur 1 millj. kr., eða sparnaður á þessu samanlögðu innan við 11/2 millj. kr. Nú held ég, að menn hljóti að kannast við það, að ef fjárhag ríkisins væri út af fyrir sig slík hætta búin sem látið er í veðri vaka í sambandi við þetta frv., gæti þetta áreiðanlega ekki valdið neinum úrslitum, hvort ríkissjóður fer svo að segja á höfuðið eða ekki. Ég held, að ef ríkisstj. meinti það, sem hún lætur í veðri vaka með þessu, mundi hún gera róttækari ráðstafanir en felast í þessu frv.

Ég vil líka taka undir það, að ef fyrir hendi er virkileg þörf til þess að fara að bjarga fjárhag ríkissjóðs með þessum hætti, þá væri margt annað, sem frekar ætti að taka og spara útgjöld til en þau mál, sem hér er fyrst og fremst ráðizt að. Ég held, að sparnaðurinn, ef þörf er fyrir hann, ætti að koma fram í allt öðru sambandi en við þau mál, sem hér er lagt til, að sparað verði á. En ég held líka, að það sé ekki fyrst og fremst sparnaður, sem er í huga ríkisstj., þegar hún flytur þetta frv. Ég held, að það sé annað, sem fyrir henni vakir, og þá fyrst og fremst það að hindra, að tilætlað gagn verði af þeirri lagasetningu, sem sett var hér fyrir aðeins tveimur árum síðan fyrir þáv. ríkisstj. Ég hygg, að frv. beri þannig vott um, ekki sparnaðarhug ríkisstj., heldur um hitt, að hún sé andstæð þeim málum, sem hér á að fara að spara á, og vilji því koma í veg fyrir, að af þeirri lagasetningu verði sá árangur, sem efni stóðu til af þeim, sem beittu sér fyrir henni á sínum tíma.

Eins og frv. ber með sér, er hér um að ræða lög, sem sett voru fyrir tveimur árum síðan, og þá í fyrsta lagi l. um opinbera aðstoð við bygging íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, sem ég man eftir, að þótti mjög merkileg lagasetning, þegar hún var sett, og haft á orði ekki sízt af þeim flokki, sem taldi sig hafa forgöngu um þá lagasetningu, Alþfl. Hv. þm. Ísaf. (FJ), sem þá var félmrh., eins og menn muna, flutti frv., og ég man eftir því, að hann og flokksmenn hans töldu sínum flokki mjög til gildis að hafa haft forgöngu um þá lagasetningu og taldi hana mjög mikils virði, og vil ég ekki draga úr því; ég er sömu skoðunar, að full ástæða sé til, að henni hefði verið fylgt eftir eins og fyrirmæli l. stóðu til. Nú verður hins vegar að viðurkenna, að svo hefur ekki verið gert, — sízt af öllu um þann kafla, 3. kafla l., sem nú er lagt til, að frestað verði algerlega framkvæmdum á: um aðstoð við byggingar bæjar- og sveitarfélaga. Fyrirmæli þessa kafla voru þá algert nýmæli í l. og þess vegna líka eins merkilegur hlutur þessara góðu l. Tilgangurinn með því að setja þennan kafla var sá að útrýma á skömmum tíma, fjögurra ára bili, öllum heilsuspillandi íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum, og um það verður varla deilt. að sá tilgangur var mjög lofsverður. Hitt er svo að vísu mála sannast, að um framkvæmd þessa kafla l. hefur engan veginn orðið svo sem hefði þurft að vera, vegna þess að ríkið hefur ekki staðið við þær skuldbindingar, sem því voru lagðar á herðar með þessum kafla l. um útvegun lánsfjár til bæjarfélaga til þess að þau gætu byggt samkv. þeirri áætlun, sem gera átti og í ýmsum kauptúnum a.m.k. var gerð um útrýmingu þessara heilsuspillandi íbúða á tilteknum tíma. Ég vil í því sambandi geta þess hér, að t.d. Akureyrarkaupstaður fór strax eftir að þessi l. höfðu verið sett á grundvelli þeirra að gera rannsóknir og skýrslur um heilsuspillandi íbúðir á Akureyri, sem reyndust vera þó nokkuð margar, ekki síður hlutfallslega en í Rvík, og þessar skýrslur voru lagðar fyrir ríkisstj. og ekki rengdar af henni, vegna þess að fyrir því lágu fullkomin rök, að þessar íbúðir voru heilsuspillandi. Bæjarstjórn Akureyrar fór hvað eftir annað fram á það við ríkisstj., að henni yrði útvegað lán, eins og tilskilið er í 3. kafla l., til þess að geta byggt íbúðarhús með það fyrir augum að útrýma þessum heilsuspillandi íbúðum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í þá átt og fleiri en eina sendiferð af hálfu bæjarstjórnarinnar til Rvíkur á fund ríkisstj. til þess að fá fram þessa lögboðnu aðstoð til þess að útrýma sínum heilsuspillandi íbúðum hefur enn ekki fengizt nein aðstoð af hendi ríkisstj. í þessum efnum. Nú er upplýst hér, að ríkissjóður hefur tekið 5 millj. kr. lán til aðstoðar við bæjarfélög til þessara framkvæmda. Ég hefði gjarnan viljað í sambandi við þessa umr. biðja fjmrh. að gefa upplýsingar um það, hvernig þessu lánsfé hefur verið varið, hvaða bæjarfélög það séu, sem hafi orðið aðnjótandi þessara lána, og hve mikið það sé, sem lánað hafi verið til hvers bæjarfélags í þessu skyni. Það er ekki ófróðlegt að fá að vita um það og sérstaklega vegna þess, sem ég áðan sagði um þær undirtektir, sem Akureyrarbær hefur fengið í þessu máli, þar sem hann hefur ekki fengið neina aðstoð af hálfu ríkisins til þessa byggingarstarfs. Nú, — þó að útvegaðar hafi verið þessar 5 millj. kr., sem ég geri ráð fyrir, að að mjög verulegu leyti fari til byggingar í Rvík, enda ekki að neita, að þörfin hér er mikil, þá er víst, að með því er þörf bæjarfélaganna ekki fullnægt nema að örlitlu leyti, og þess vegna getur ekki heldur að mínu áliti náð neinni átt, að ríkissjóður fari nú þegar, tveimur árum seinna, meðan framkvæmdirnar enn eru jafnskammt á veg komnar, en þörfin hins vegar hjá mörgum bæjarfélögum langtum meir aðkallandi nú en þegar l. voru sett, þá getur ekki komið til nokkurra mála, að ríkið fari nú að kippa að sér hendinni og afturkalla með öllu þá aðstoð, sem því ber að veita bæjarfélögum samkvæmt þessum lögum. Og eins og ég gat um áður, ef fyrir hendi er jafnmikil þörf og áður að fara að spara á fjárlögum ríkisins, þá er áreiðanlega hægt að finna aðra staði, þar sem frekar væri verjandi að kippa að sér hendinni en á þessu sviði og í þessum lögum.

Svipuðu máli gegnir um 3. tölul., þar sem um er að ræða sparnað á framlagi ríkisins til landnáms og nýbyggða í sveitum. Þessi lagasetning miðar að því að greiða fyrir því að koma á verulegum umbótum í búskaparháttum landsins og gera mönnum auðveldara en ella að lifa á þessum stöðum svipuðu menningarlífi og gerist í fjölmenninu í kaupstöðum landsins, svo að mínu áliti gegnir um þetta sama máli. að þetta eru ein af þeim l., sem sízt skyldi á ráðizt, þegar ríkið telur sér nauðsynlegt að spara til ýmissa framkvæmda á fjárlögum ríkisins. Ég tel þess vegna, eins og ég gat um í upphafi, að það sé ekki fyrst og fremst sjálfur baráttuhugurinn, sem vakir fyrir ríkisstj. í þessum efnum, heldur annað, og ég tel enn fremur, að ef um sparnað væri að ræða, ætti sízt að byrja á því, sem ráðizt er að í þessu frv., og af þeirri ástæðu mun ég greiða atkv. móti þessu frv., þegar að því kemur að afgr. það hér frá deildinni.