18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. meiri hl. fjhn. fyrir fyrirgreiðslu þessa máls, og það er auðvitað rétt hermt hjá hv. frsm. meiri hl., að mér vannst ekki tími til að bera undir n. sérstaklega þær brtt., sem ég síðan hef flutt við þetta frv., en vona, að þær séu þó ekki annars eðlis en þess, að hv. meiri hl. geti greitt fyrir þeim líka.

Að því er snertir afstöðu hv. minni hl. n., kemur mér hún ekkert á óvart, þar sem hann hafði við 1. umr. málsins svipuð ummæli um frv. og hann nú hefur gert. Hv. 4. landsk. þm. vill ekki sjá það, að aðstæður hafi breytzt síðan sú löggjöf var sett, er 1. liður frv. fjallar um, þ.e. l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Ég held því hins vegar fram, að því miður hafi hér mikil breyting á orðið að því leyti, er snertir gjaldgetu ríkissjóðs. Hv. þm. sagði, að þessi löggjöf hefði þó ekki verið að hans áliti og flokksbræðra hans fullnægjandi. Ég verð nú að segja, að ef sleppt er því að byggja klárlega yfir menn án þess að þeir beri nokkurn hluta kostnaðar þar af, hefði með þessari löggjöf verið farið eins nálægt því og þá þótti unnt, en í sjálfu sér er þessi löggjöf óframkvæmanleg, nema fyrir hendi sé gnægð lánsfjár í landinu og hagur ríkissjóðs góður. Hvort tveggja þetta hefur breytzt svo mikið til hins verra síðan þessi löggjöf var sett, að það er því miður lítið samanberandi ástandið 1946 og ástandið nú, enda þótt tímabilið sé ekki langt. Allar þær miklu byggingar, sem hér hefur verið ráðizt í meðal annarra framkvæmda í landinu, hafa upp urið lánsfjármarkaðinn. Það viðurkenna allir, og ég er þess fullviss, að hv. 4. landsk. þm. er ekki það ógreindari en aðrir menn, heldur miklu fremur það gagnstæða, að honum er þetta eins vitanlegt og mér og öðrum dm. Hvaða ráð var nú fyrir hendi hjá ríkissjóði árið sem leið til þess að standa við þær kvaðir, sem þessi l. lögðu honum á herðar gagnvart húsbyggingun í Rvík? Það var ekki hægt að gera það nema með lántökum, sem meira að segja veittist nógu erfitt að útvega. Ég ætla, að það muni vera öllum ljóst, að þar sem ríkissjóður hefur alltaf um og yfir 40 millj. kr. yfirdrátt hjá Landsbankanum, muni honum ekki vera hægt um vik með fjárútlát, og það er ekki þessi löggjöf ein, sem miðar að því í þessu landi að hjálpa mönnum til að koma upp íbúðarhúsum, þó að með setningu þessarar löggjafar hafi ráðið of mikil bjartsýni, eins og reynslan hefur nú sýnt. Hv. þm. þarf ekki að ætla, að nokkur maður hafi ánægju af því að draga saman seglin í þessum efnum. Þær ráðstafanir, sem hér er lagt til að gera, eru þvert á móti gerðar af brýnni og sárri nauðsyn. Hvaða löggjöf sem um er að ræða og undir kunna að renna mismunandi sterkar stoðir, þegar hún er sett, þá er víst, að þegar reynslan leiðir í ljós, að ekki er hægt að framkvæma hana sómasamlega, þá er ekki annað fyrir hendi en að fresta eða breyta ákvæðum hennar. Hv. þm. hafði líka þau orð um 3. lið, sem er frestun eða tilfærsla á hluta af greiðslu þess framlags ríkissjóðs, sem honum ber að greiða til byggingarsjóðs samkv. 13. gr. l. nr.:15/1946. Það er ekki heldur gert til þess að eyðileggja þá löggjöf, að þetta er sett hér fram, enda bygg ég, að dæmin séu deginum ljósari í þá átt, að ríkisstj. hefur einmitt lagt sig í framkróka síðustu mánuðina sérstaklega varðandi þessa löggjöf og hefur nú tekizt að opna leið að því, að ræktunarsjóður og landnámssjóður geti fengið 5–10 millj., sem sama löggjöf gerir ráð fyrir. Þau verk, sem unnin hafa verið með því að úfvega þetta fé til þess að fullnægja þessum l., hafa alls ekki verið unnin vegna þess, að ríkisstj. vilji ekki styðja byggingar í sveitum og kaupstöðum og ræktun landsins, heldur þvert á móti. Þau vitna á móti því, sem hv. 4. landsk. þm. var hér að segja, þannig að það, sem hann hefur til síns máls, er aðeins það, að hér er lagt til, að 1 millj. kr. af framlagi ríkissjóðs í báða þessa sjóði, sem er 5 millj., sé frestað um nokkurra ára bil.

Ég ætla, að það sé óþarfi fyrir mig að eyða hér fleiri orðum um þetta frv. Ég býst við, að það væri alveg sama, hvað ríkisstj. legði til í sambandi við þessa löggjöf hvað snertir byggingar í kaupstöðum og kauptúnum, sem hv. þm. sagði, að væri að hans dómi ófullnægjandi og að hann mundi alltaf sjá á því einhvern ljóð.

Ég hef leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við þetta frv. um bráðabirgðabreyting nokkurra laga, sem kallað hefur verið bandormurinn, en það er ekkert nýtt nafn og ekki heldur nýtt fyrirbæri, að gerðar sé breyt. á l. á þennan hátt.

Hér er þá. fyrst brtt. á þskj. 548. Þar er lagt til, að á eftir 3. tölul. komi nýr liður: „Niður skal falla umboð nýbyggingarsjóðsnefndar samkv. 14. gr. l. nr. 20 20. maí 1942, um breyt. á I. nr. 6 9. jan. 1935, um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkisskattanefnd annast störf þau, er nýbyggingarsjóðsnefnd eru falin með framangreindum lögum, enda hefur hún þá fullnaðarúrskurð um þau mál.“ — Þetta er lagt til til þess að spara ríkissjóði fé. Þeir, sem störfuðu í n. eða formaður hennar töldu rétt að leggja n. niður og fela störf hennar ríkisskattanefnd.

Í annan stað er hér brtt. á þskj. 562, sem ég hef leyft mér að bera fram, varðandi gjald af innlendum tollvörutegundum. Hún er við 1. gr. og er lagt til, að aftan við hana bætist nýr tölul., svo látandi: „Fyrir orðin „100%“ í 1. gr. laga nr. 18 1948, um breyt. á l. nr. 60 1939, um gjald af innlendum tollvörutegundum, komi: 200%.“ — Þetta þýðir það m.ö.o., að sá raunverulegi tollur á þessum vörum mundi hækka, ef brtt. yrði samþ., um 50%, og er þessi till. borin fram til þess að afla ríkissjóði tekna, því að eins og þm. vita, eru ekki horfur á öðru en fjárl. verði nú afgr. með tekjuhalla, ef ekkert er gert varðandi tekjuöflun.

Við síðustu afgreiðslu fjárlfrv. frá 2. umr. nam tekjuhallinn 4.–5 millj., og ég hef grun nm, að hann muni fremur vaxa en minnka við 3. umr., og allir vita, að tekjuhallinn er þó aðeins brot af greiðsluhallanum, því að hann er um 28 millj., og ég ætla, að einhvers staðar þurfi að taka fé til að mæta þeim útgjöldum.

Hv. þm. talaði um það, að tekjurnar væru of lágt áætlaðar, og hið sama sögðu flokksbræður hans í Sþ., er frv. var lagt fram. Um það má deila. En ég get fullyrt, að við áætlun á þessum tekjum taldi ég og þeir, sem um þetta fjölluðu með mér, fullhátt farið á sumum liðum, og því miður árar nú ekki svo, bæði hvað snertir innflutning og öflun útflutningsverðmæta, að líkur séu til þess, að við höfum verið of svartsýnir. Mér þykir fyrir því, en við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Og ég vísa algerlega á bug þeirri staðhæfingu, að ég hafi af ásettu ráði gert mér leik að því að áætla tekjurnar of lágt. Þvert á móti mun t.d. verðtollurinn of hátt áætlaður. Tollstjóri hefur gefið fjmrn. það upp, að verðtollurinn, ef miðað er við reynsluna í jan. og febr., sé langt neðan við áætlun, eða um 42 millj., en við áætluðum hann 60 millj., svo að það má koma hlutfallslega allmiklu meira í þennan sjóð en enn er orðið, ef áætlun fjmrn. á ekki að verða miklu lægri en niðurstöðurnar að lokum. Ég tel það aðeins sjálfsagða skyldu hvers fjmrh. að reyna að ná jöfnuði á fjárl., úr því að Alþ. gengur ekki lengra til móts við sitt eigið sparnaðartal en reynslan sýnir. Hitt má alltaf gera, að benda á einstaka pósta, eins og hv. þm. gerði varðandi dómgæzlu og tollgæzlu, sem hann taldi, að mætti lækka, en það er órannsakað að mestu, og hv. þm. veit, að breyt. á því mundu kosta lagabreyt., sem gætu vafizt eitthvað fyrir þinginu líka.

þessi tollur kemur mest á óþarfavörur og það, sem tæplega er hægt að telja nauðsynjavarning. Ég veit, að hann nemur aðeins broti af því, sem þarf til að jafna metin á fjárl., en það verður líka að lúta að því, sem lítið er, ef ekki á að verða allt of mikill munur gjalda og tekna að lokum.

Hv. þm. hélt því fram, að gjaldgeta ríkissjóðs væri nú engu óbjörgulegri en áður, en ég leyfi mér t.d. að benda á það, að hann varð þó fyrir því áfalli á síðasta ári að þurfa að greiða 20 millj. kr. verðuppbót á sjávarafurðir, og enn á þessu ári þarf að verðbæta þær, og við vitum ekki, hve mikið þeir tekjustofnar gefa, sem eiga að mæta þessum gjöldum. Árið 1946 var ríkissjóður hins vegar ekki farinn að dragast með neinar slíkar byrðar, svo að ég minnist á eitt atriði aðeins.

Síðasta brtt., sem ég flyt, er á þskj. 573. Ég vil víkja aðeins að því, að hún er að vissu leyti ekki rétt stíluð til þess að hún geti átt við þetta frv., því að til þess þyrfti að breyta fyrirsögn þess nokkuð, svo að það þyrfti að orðast: um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga o.fl. Hér er sem sagt ekki um lagabreyt. að ræða, heldur um sérstaka heimild, sem þarf að lögfesta, og mér fannst einfaldast að fá þá lögfestingu í sambandi við þessar bráðabirgðabreyt. Sem sagt, þetta er heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að leggja fram hlutafé í Hæring h/f, að upphæð 1250000 kr., til kaupa og rekstrar síldarbræðsluskips. Við höfum áður rætt þetta mál hér í d. í sambandi við annað frv., og þarf því ekki að fjölyrða um þessa brtt. og vona ég, að þm. geti samþ. hana. En ég legg fram skrifl. brtt. til að uppfylla form, þess efnis, að á eftir fyrirsögn þessa frv. komi orðin: og fleira. Með því að fá þá brtt. samþ., gæti formið alveg verið fullkomið, og brtt. ætti jafnan rétt á sér í frv. og annað, sem ég hef minnzt hér á.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þessar brtt., en vil leyfa mér að biðja forseta að taka á móti þessari skriflegu brtt. minni við fyrirsögn frv.