18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hélt í alvöru, að þetta frv. kæmi ekki úr n., og sízt af öllu bjóst ég við þeirri breyt„ sem tilkynnt hefur verið. Þegar ég við 1. umr. hafði lýst afstöðu minni, benti ég á, að þetta væri allt annað en samkomulag hefði orðið um við afgreiðslu fjárl. Ég er hæstv. fjmrh. sammála um það, að sú frestun, sem um ræðir í þessu frv., verði ekki til þess að drepa l., ef nauðsyn hefði borið til að gera þetta, en um þá nauðsyn erum við aftur ekki sammála. Það er því mín skoðun, að hér sé gengið inn á afar vafasama leið, og sú skoðun mín styrkist við það, að ráðh. hefur nú fallið frá veigamesta atriðinu til að ná jöfnuði, svo að í rauninni er ekkert eftir nema þessi tvö deiluatriði. Ég trúi því satt að segja ekki enn þá, að ráðh. ætli þessu frv. að fara hér í gegn, og því síður þar sem það fer stigversnandi.

Ég er sammála honum um, að rétt hafi verið að setja inn till. á þskj. 548, um það var fullt samkomulag. En þá kem ég að brtt. á þskj. 562. Ég verð að segja það, að það undrar mig stórlega, að þessi till. skuli vera komin fram, og það frá hæstv. ráðh. Ég minnist þess ekki, að hann nefndi þetta nokkurn tíma við fjvn. eða segði henni að ætla fyrir þessum aukatekjum, og meiri hl. fjvn. hefur margsinnis lýst yfir því, að hann muni ekki samþykkja neinar nýjar tollhækkanir á þessu ári. Og hvað vinnst mikið fé með þessum tollhækkunum? Hæstv. ráðh. hefur alltaf sagt, og þar höfum við verið sammála, að hann vildi ekki neinar tollhækkanir, og því skil ég hreint ekki í afstöðu hans nú. Ein tollhækkunin, sem talað hefur verið um, er að hækka benzínskattinn um 6 aura, en frá þessu var aftur horfið. Sumir hafa viljað leggja sérstakan skatt á það benzín, er selt væri án skömmtunar, en fjvn. hefur ekki gengið inn á það. Þá hefur það komið fram í deildum þingsins að hækka benzínskattinn beinlínis með tilliti til hins gífurlega vegaviðhalds, og renni hækkunin til þeirra framkvæmda, og hafa nm. fallizt á það með öðrum þm., að skatturinn yrði svo hár, að hann standi undir öllu vegaviðhaldi, og kemur það bifreiðaeigendum beinlínis til góða í bættum vegum og minna bifreiðasliti. En mér hefur ekki verið kunnugt um það fyrr en nú, að hækka eigi skatta á landsmönnum enn á ný. Mér þykir það afar leiðinlegt að geta ekki stutt þennan ágæta ráðh., sem ég vildi svo gjarnan styðja að málum, en í þessu máli get ég ekki fylgt honum. Við höfum hingað til verið sammála, en sammála um að fara aðrar leiðir en þær að bera fram till. um nýjar álögur. Við höfum einnig rætt um, hvernig eigi að mæta rekstrarhalla, og eru skiptar skoðanir um ýmislegt í því sambandi. Sannleikurinn er sá, að rekstur ríkisins hefur verið með ágætum undanfarin ár, og það er því alveg sannarlega tvíeggjað sverð að telja þjóðinni trú um allt annað en veruleikann í því efni. Ég trúi því ekki, að hæstv. fjmrh. vilji láta hafa sig til þess með Framsókn að vera fremstur í flokki með það að innprenta þjóðinni þá skoðun, að allt sé hér að fara niður á við í fjármálunum, og blanda saman rekstrarafkomunni og kaupum á ýmsum ágætum hlutum og tækjum. Þeirri stefnu treysti ég mér ekki til að fylgja, en hún kemur greinilega fram í þessu frv.

Þá er það till. á þskj. 573. Ég varð nú enn þá meira undrandi á henni. Það er ekki lítið samræmi í því, að sami ráðh. og ber fram þá till. lýsir því yfir á hinu leitinu, að allt sé að fara niður á við í fjármálunum. (Fjmrh.: Getur hv. þm. aldrei vanið sig á að taka rétt eftir?) Hæstv. ráðh. hefur lýst yfir því, að ríkið geti ekki borið gjöldin, og skýrasta sönnunin fyrir því eru nú þær till., sem hann ber fram um nýja skatta og frestun á lögboðnum útgjöldum ríkisins. Á hinn bóginn ber hann svo fram till. þá, er ég nefndi, á þskj. 573, þar sem hann fer fram á heimild fyrir hönd stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins til að leggja fram eina og einn fjórðung úr milljón króna sem hlutafé í Hæring h/f, svo að síldarverksmiðjurnar fái að fara inn í félagsskapinn. En ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvort sú leið sé lokuð, að nægilegt hlutafé fáist í þetta fyrirtæki án þess að ríkið sé með. Og hvaða vit er í því, að ríkið sé að ganga inn í þetta fyrirtæki, ef maður litur á málið frá sjónarhóli hæstv. ráðh. sjálfs, sem er nýbúinn að lýsa yfir því, að ríkissjóður sé kominn í 40 milljón króna yfirdrátt hjá bankanum? Mér skildist svo í umr. um það mál, að ríkisverksmiðjurnar ætluðu sjálfar að standa undir framlaginu, en svo virðist nú ekki vera. Annars vegar er hæstv. ráðh. að leitast við að telja þjóðinni trú um, að hún verði að spara meira og gera minni kröfur til ríkisins, hins vegar er hann að leggja inn á þá braut að hafa ríkissjóð í fyrirtæki, sem getur ekki verið annað en tap á. Nú á að kaupa nærri hálfrar aldar gamalt skip til síldarbræðslu, og þetta er samþ. af sama ráðh., sem var með því að samþ. 1938 lög um eftirlit með skipum, sem fyrirbjóða að flytja inn skip eldri en 12 ára. Ég segi fyrir mína parta, að það eitt, að ríkið tekur þátt í þeirri ósvinnu að kaupa 50 ára gamalt skip, er nóg til þess, að mér dettur ekki í hug að vera með brtt. á þskj. 573. Ef einhverjir þegnar ríkisins eru þeir glópar að kaupa slíkt skip, þá þeir um það, en ráðh. og ríkisstj., sem kvöld eftir kvöld og hvað eftir annað hafa boðað allri þjóðinni í útvarpi og við önnur tækifæri, að allt væri að fara á hausinn, þeir geta ekki verið þekktir fyrir að mæla með því, að ríkið leggi fram á aðra milljón króna til kaupa á járnarusli. Og hvaða útreikningar liggja hér fyrir hjá hæstv. fjmrh., þegar hann leggur til, að ríkið leggi fram þessa upphæð í áðurnefnt félag? Ef það á að gefa arð, væri eðlilegt, að slíkir útreikningar fylgdu till., en þá vantar. Það hafði orðið samkomulag um, að ríkið fengi heimild til að taka allt að 15 milljón kr. lán til að stuðla að öflun síldarvinnslutækja, en að ríkið færi að leggja fram stórfé í annað eins glæfrafyrirtæki og hér um ræðir, það er allt annað mál, það hefði það átt að láta öðrum eftir, ef þeir hefðu viljað leggja í það. Ég hélt sannast að segja, að ríkið hefði ekki ástæðu til þess að taka þátt í rekstri eins tapfyrirtækisins í viðbót, eins og t.d. fiskiðjuversins, sem hefur tapað á 9. milljón króna, og landssmiðjunnar, svo að eitthvað sé nefnt. En sá bikar virðist enn þá ekki vera fullur, að hið opinbera sé að skipta sér af slíkum rekstri. Ég mun því greiða atkv. gegn þessari till., þó að ekki væri af öðru en því að mótmæla því, að verið væri að kaupa til landsins 50 ára gamalt skip.

Þá kem ég að sjálfu frv. Ég boðaði það við síðustu umr. þessa máls, að ef þetta frv. kæmi úr n., sem ég trúði ekki, að mundi verða, og trúi ekki enn þá, mér finnst það eins og vondur draumur, já, ég boðaði, að ef frv. kæmi úr n., þá mundi ég flytja við það brtt., og nú vil ég leggja fram hér skriflega brtt. við þessa umr., og er hún í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er við 1. gr. 1. tölul., er orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fresta skal um óákveðinn tíma framkvæmdum laga nr. 70 5. júní 1947, um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, enda kjósi Alþingi með hlutfallskosningu nú þegar 5 manna viðskiptanefnd til þess að úthluta innflutnings- og gjaldeyrisleyfum í samráði við banka þá, sem leyfi hafa til að verzla með erlendan gjaldeyri, og að annast önnur þau störf varðandi viðskiptamál og verðlagseftirlit, er ríkisstjórnin telur enn nauðsynleg og viðskiptamálaráðuneytið getur ekki annazt.“

Seinni liður brtt. minnar er um það, að 3. töluliður 1. gr. frv. falli niður.

Ég skal nú rökstyðja þessar brtt. mínar nokkuð.

Ef það er rétt, sem við skulum í þessu tilfelli segja, að sé, að nauðsynlegt sé vegna bágrar afkomu ríkissjóðs að spara og draga úr opinberri eyðslu með öllum ráðum, þá er ekki nema alveg rétt að byrja á þeim ráðstöfunum, sem gera hvort tveggja í senn, draga beint úr úfgjöldum ríkisins og hjálpa almenningi til að ávaxta betur fé sitt og afla sér meiri tekna. Brtt. mín, ef samþ. yrði, mundi bæði spara ríkissjóði mikið fé í beinum peningum vegna fjárhagsráðs og auka á hinn bóginn tekjurnar, sem renna í ríkissjóðinn frá almenningi, því að þá fengju menn fyrst að snúa sér við í athafnalífinu, en væru ekki kúgaðir undir mönnum, sem aldrei geta haft vit á því.

Það vill nú svo til, að hv. þm. Str., sem á sæti í fjárhagsráði, hefur lýst yfir því ófeiminn hér í þinginu, að fjárhagsráð ætti að leggjast niður. Hann segir, að hann álíti, að þetta fyrirkomulag sé ekki heppilegt. Hann er ábyggilega ekki einn um það álit. Það væri ómaksins vert að láta fara fram skoðanakönnun um þetta, og ég er viss um, að það sannaðist þá, að ekki 5% af þjóðinni álitu þetta fyrirkomulag heppilegt, og ég skil ekki. hvernig ríkisstj. ætlar sér að viðhalda fyrirkomulagi, sem allir hafa fordæmt, með sívaxandi álögum á þá menn, sem ekki vilja þó hafa þetta.

Þá sagði hv. þm. Str. í öðru lagi, að ríkisstj. hefði aldrei óskað eftir, að fjárhagsráð gerði till. um dýrtíðarmálin, en það átti þó í upphafi að vera eitt aðalverkefni ráðsins. Á fjárl. þessa árs er nú varið 55 milljónum króna til að standa undir dýrtíðinni í landinu, en þó má fjárhagsráð ekki gera till. um dýrtíðarmálin. Og þetta er upplýst af hv. þm. Str., sem sjálfur á sæti í þessu ráði og fær fjörutíu og tvö þúsund krónur þar á ári fyrir að mega ekki gera till.

Enn fremur sagði hv. þm., að fjárhagsráð fengi engu ráðið um rekstrarkostnað ríkisins. Þegar allt þetta er upplýst af einum ráðsmanninum, þá veit ég ekki, hvernig hægt er að verja það að verja á fjórðu milljón króna í þessa stofnun, greiða þennan kostnað úr skuldum vöfnum ríkissjóðnum, eins og honum hefur verið lýst, sem verður að fá lán í Landsbankanum til að greiða mönnum, sem eru að eyðileggja atvinnulíf landsmanna með þessum ráðum, samkvæmt orðum hv. þm. Str. sjálfs. — Loks segir hann, að ráðið ráði engu um verzlunarmálin fyrir ríkisstj., og að fjárveitingavaldið geti ekki fellt sig við það vald, sem ráðinu er gefið, og því geti það ekki beitt því valdi. Hvað á fjárhagsráð að gera? Það er ekki orðið annað en hagstofa eða ein deild af hagstofu til að safna skýrslum. Það er að vísu gott starf, sem ráðið hefur leyst vel af hendi, en það hefði vitaskuld verið hægt að vinna undir umsjón hagstofustjóra, ef honum hefði verið séð fyrir nægilegu liði í því skyni. því að sjálfsagt hafa fjárhagsráðsmenn sjálfir ekki safnað þessum skýrslum, heldur haft annað fólk til þess, enda viðurkenndi hv. þm. Str., að þessi starfsemi ætti að flytjast inn í hagstofuna, það væri miklu ódýrara. Nú vantar peninga, að sögn fjmrh., og þá ætti að byrja á því að leggja fjárhagsráð niður. Eitt af því, sem hv. þm. Str. skýrði frá, að hefði átt að vera eitt af aðalstörfum fjárhagsráðs, var að ráðstafa vinnuafli í landinu. Hvernig hefur þetta verið gert? Þannig, að ráðið hefur ráðstafað 100–200 mönnum á dag til þess að standa klukkutímum saman til þess að fá samtal, — og öðrum flokki manna úti fyrir viðskiptanefnd til að vera þar dag eftir dag til að fá samtal. Þetta er nú ekki að ráðstafa illa vinnuafli þjóðarinnar! Það er ákaflega merkileg niðurröðun á starfskröftum þjóðarinnar að láta 200–400 manns sitja úti á tröppum og hanga útí í dyrum frá kl. 9 á morgnana til kl. 6 á kvöldin, til þess að fá svo nei um sólsetur frá þessum vísu ráðum. En þetta hefur verið eitt af aðalskipulagningaratriðum vinnuaflsins hjá fjárhagsráði. Fyrst lengi fram eftir sumri var það þannig, að byggingarmenn, sem þurftu einhvern vanda að leysa, sátu við allan daginn og þótti gott, ef þeir gátu farið heim með sementspoka á bakinu að kvöldi. En hundruð manna hafa setið á tröppunum til að komast í samband við þessa menn, til þess að fá hvað? Til að fá nei. Bak við tjöldin er svo úthlutað, eins og upplýst var frá hv. þm. Ísaf., meira en helmingi af öllum leyfum á þessu ári. (HV: Bak við tjöldin?) Já, bak við tjöldin, — eftir því sem upplýst var af hv. þm. Ísaf. Ég held, að viðskiptaráð og bankarnir hefðu getað gert þetta í félagi og ekki þurft að setja neina menn með 40–50 þús. kr. launum til þess að gera það, sem hér hefur verið framkvæmt. Mín till. er því hér, að ráðið verði lagt niður og að þessi verk, sem þarf að gera, verði falin viðskiptanefnd, þar sem m.a. væri sjálfsagt, að bankarnir ættu sinn fulltrúa. því að sannleikurinn er sá, að það eru bankarnir, sem alltaf verða að síðustu að segja til um það, hvort leyfin verða að gilda í raun og veru. Og það er ekkert vit í þessu fyrirkomulagi eins og það er nú: Fyrst í fjárhagsráð, svo í viðskiptaráð, svo í banka. Það getur liðið langur tími þangað til hægt er að fá að vita, hvort leyfi sé nokkurs virði. Hæstv. ráðh. veit, að þetta fyrirkomulag getur ekki gengið þannig. En ef það er ljóst, þá eigum við að vera menn til að viðurkenna það og stíga sporið strax til breytinga.

Mér er ljóst, að fyrstu verk fjárhagsráðs áttu tvímælalaust að vera skýrslusöfnun. Og þegar þeir sæju, hvernig ástandið var, var það hin sjálfsagðasta skylda að laga bak við tjöldin það, sem laga þurfti, en básúna ekki út eins og gert var utanlands og innan, að hér sé allt að fara um, en það er það, sem fjárhagsráð hefur gert langmest að. Það hefur gert okkur meiri bölvun á því sviði en nokkur svartidauði hefði getað gert, vegna þess að allir okkar viðskiptavinir, sem hafa treyst okkur í mörg ár, voru gripnir á einum degi með auglýsingu fjárhagsráðs um það, að hér væri að verða gjaldþrot. Það varð til þess, að ríkisstofnunum — það er yfirlýst hjá okkur — eins og landssímanum, sem hafði fengið fluttar inn vörur til landsins með þeim skilmálum að mega borga þær þegar ástæður eru til, var neitað um innflutning, allar skuldir heimtaðar inn og fyrirframgreiðsla fyrir 2–3 ára pantanir. vegna auglýsinga fjárhagsráðs. Hvernig færi bóndi að, ef kaupfélagsstjóri hans segði við hann: Ég vil fá svo marga dilka hjá þér í haust, að þú getir greitt allar þær vörur, sem þú ætlar að taka út í tvö til þrjú ár? Mundu ekki bændum vera veittar þungar búsifjar með slíku? En þetta er einmitt það, sem fjárhagsráð hefur verið að gera. Það tjón verður seint bætt. Það þarf að kaupa margar „ömmur“, eins og nú eru kölluð þessi 30 ára gömlu skip, sem ríkið ætlar nú að kaupa, — áður en hægt er að lækna þessi sár.

Ég vík þá aftur að því, að þessi mál má gera einfaldari. Það er viðskiptaráð, sem vel gæti veitt slík leyfi, auk þess sem mikið af þessum störfum gæti legið í viðskmrn. Ég sé ekki, hvers vegna þarf að setja upp aðra ráðh. með enn hærri launum en ráðh. til að stjórna þessum málum. Ég vænti þess, að fyrsti maður til að greiða þessari till. minni atkv. verði einmitt hæstv. fjmrh. En þegar svo er komið, að þessi gr. hefur verið samþ., er fenginn svo mikill sparnaður við þessa einu ráðstöfun, að vel er hægt að greiða þessar lögboðnu greiðslur. Það er enginn vandi fyrir hæstv. ráðh. að greiða þetta og brosa af ánægju yfir. Því meira frelsi sem þjóðin fær, því meiri peninga græðir hún og því meiri peninga getur ráðh. fengið í ríkissjóð. Það er alveg rétt, að við afgreiðslu þeirra fjárlaga, sem fyrir hendi eru, hefur hæstv. fjmrh. staðið á verði gegn því, að útgjöld hækkuðu. Hann hefur barizt aðdáanlega fyrir því með þeim sérstaka lipurleik, sem honum er laginn, að finna alls konar leiðir til þess. Hann hefur hins vegar verið myrksýnni á tekjurnar en ýmsir aðrir. Og ég skil það. Það er vegna þess, að þetta uppeldisbarn hans, fjárhagsráð, er að taka af honum völdin. Hann sér, að drengurinn er orðinn það frekur, að hann ræður ekki við hann, ræður ekki við að fá inn það fé, sem hann annars fengi, ef ekki væri þetta vald yfir honum. Þess vegna er sjálfsagt fyrir hann að losna við þetta vald. Þá hækka tekjuliðirnir.

Það er ákaflega lærdómsríkt, að 1943 voru tekjur ríkissjóðs 110 millj. kr. En nú eru þær 220–240 millj. Það sýnir, að gjöld ríkissjóðs hafa gefið ríkissjóði aftur tekjur. Og það er það, sem hæstv. ráðh. verður fyrst og fremst undir öllum kringumstæðum að athuga, hvaða gjöld gefa ríkissjóði aftur tekjur og meiri tekjur, hvaða sparnaður minnki tekjur meir en það, sem sparast, því að þá er það ekki sparnaður. Ég er viss um, og ég veit, að hæstv. fjmrh. er líka viss um, að ef fjárhagsráð er afnumið, þá gerist hvort tveggja í senn, að spara ríkissjóði hundruð þúsunda og afla ríkissjóði milljóna, með því að menn fái að vera frjálsir í sínum atvinnuvegum, — að aftur sé hægt að skapa bjartsýni á Íslandi eins og á þeim tíma, sem hæstv. ráðh. var með í að skapa slíka bjartsýni með framkvæmdum, sem nú heldur uppi, svo að ekki sekkur allt, þrátt fyrir þá myrksýni, sem hvílir yfir hæstv. ríkisstj.

Ég sé ekki ástæðu til að fara meir út í þetta mál. Ég hef fært sterkustu rök, sem hægt er, með vitnisburði úr sjálfu fjárhagsráði. Og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Str. verði viðbúinn að staðfesta hann, ef hann er beðinn um það. Vitnisburðurinn er um það, að það eigi að breyta stofnuninni, gera hana einfaldari og ódýrari og samrýma hana betur við lífið og menningu þjóðarinnar. Og þess vegna á það að vera 1. gr. í þessu frv. að afnema fjárhagsráð. Leyfi ég mér að leggja þessa till. fyrir hæstv. forseta.