22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Pétur Ottesen:

Það er aðeins í sambandi við einn lið þessa frv., þ.e. 6. liðinn, sem mig langar að segja nokkur orð. — Mér skilst, að reynslan, sem fengizt hefur á þessum vetri um það að flytja síld til bræðslu héðan til Norðurlands, hafi leitt það í ljós, að það sé óhugsandi að leysa þau mál áfram með þeim hætti. Ef menn ætla sér á annað borð að hagnýta síldveiði hér í Faxaflóa, verður að skapa hér þá aðstöðu við flóann, sem nauðsynleg er til þess að geta hagnýtt þessa veiði. Það er talað um það hér, að það muni verða allmikið tap, milljónatap, á síldarbræðslunni, sem framkvæmd hefur verið norður á Siglufirði. Það hefur nú verið rakið hér í þessum umr., að uppi hafa verið allmiklar ráðagerðir um það að leysa þetta hlutverk, og átti ég snemma á þessu þingi nokkurn þátt í að bera fram till þar að lútandi, að reist yrði 5 þúsund mála síldarbræðsluverksmiðja á Akranesi, og hafði ég þá í huga, að samningar gætu tekizt um það, að síldarbræðsluvélar, sem til eru hér á landi og ekki hafa enn verið notaðar. væru settar upp á Akranesi. Nú hefur önnur skipan komizt á um þetta. sem vikið er hér að í 6. lið þessa frv., og má vel vera, að sú till. út af fyrir sig sé hagkvæm og heppileg. Ég hef af þessum ástæðum algerlega horfið frá því að halda nokkuð til streitu þessu frv., sem ég flutti. Því var vísað til n., sem ég á sæti í, og þar liggur frv. En það er vitað, að sú lausn, sem fæst á þennan hátt, nær mjög skammt, ef eftirleiðis verður hér um að ræða svipað síldarmagn og s.l. haust, og þess vegna þarf að koma annað og meira til að geta mætt þeirri nauðsyn. Mér skildist á hv. þm. Ísaf., sem er kunnugur þessum málum gegnum störf sín í fjárhagsráði, að ráðagerðir væru uppi um að skapa aðstöðu til þess að bræða í landinn allt að 15 þús. mál á sólarhring, og er þá miðað við þá aðstöðu, sem fyrir er núna. Ég geri ekki ráð fyrir, að framkvæmdir á þessu geti orðið í svo stórum stíl sem þar er gert ráð fyrir, en eigi að síður er hér um stórar framkvæmdir að ræða. En þessar ráðagerðir eru háðar því, að fjárhagsgeta verði fyrir hendi hjá þeim mönnum. sem standa að þessum fyrirætlunum.

Mér þykir slæmt, að hæstv. fjmrh. er ekki hér viðstaddur, því að ég mun ekki flytja brtt. um þetta fyrr en mér hefur gefizt tóm til að ræða þær við fjmrh. og líka þá n., sem fær það til meðferðar, sem ég geri ráð fyrir, að verði fjhn. Ég vildi hreyfa því, hvort ekki mætti takast samkomulag um það, að ríkisstj. væri heimilað að gerast þátttakandi að 1/4 hluta t.d. í endurbyggingu og stækkun þeirra síldarbræðslufyrirtækja, sem starfrækt voru hér á þessu síðasta hausti eða þessum vetri, og þeirra slíkra fyrirtækja, sem hugsað er að reisa hér við Faxaflóa. Ég örvænti mjög um það, að takast muni að koma þessu í framkvæmd með öðrum hætti en slíkur stuðningur komi frá því opinbera, og væri það þá alveg í samræmi við þann stuðning, sem það opinbera veitir því fyrirtæki, sem nú hefur verið stofnað hér og 6. liður þessa frv. lýtur að, að afla heimilda handa ríkisstj. til þess að leggja fram fé að 1/4 handa þessu fyrirtæki. því vildi ég boða það hér við þessa umr., að ég mun ef til vill hreyfa þessum möguleika við hæstv. ríkisstj. og þá n., sem fær málið til meðferðar. Má vera. að sum þessi fyrirtæki hafi aflað nægilegs fjár til þess að hrinda þessu í framkvæmd, en hins vegar veit ég, að önnur fyrirtæki, sem hyggja á slíkar framkvæmdir, hafa ekki enn þá getað skapað sér þá fjárhagslegu aðstöðu, sem geri þeim kleift að koma þessu nauðsynlega verki í framkvæmd, en slík þátttaka af hálfu ríkisins í þessum framkvæmdum mundi leysa þau vandræði. Þetta er enn nauðsynlegra, þegar tekið er tillit til þess, að samningar þeir, sem tekizt hafa um þetta nýja fyrirtæki, eru bundnir því skilyrði, að eingöngu þeir útgerðarmenn, sem þar eiga hlut að máli, eiga einir forgangsrétt að því að leggja afla sinn inn í þessa síldarbræðslu. Þess vegna leiðir af sjálfu sér, að þeir menn, sem hafa ekki gerzt þarna aðilar, eru mjög illa settir hér, ef þeir geta ekki komið þessum framkvæmdum áfram, því að þá eiga þeir ekki innhlaup í þessa verksmiðju, nema því aðeins að þeir menn, sem þar eiga forgangsrétt, hafi ekki nógu mikið aflamagn upp í afkastagetu verksmiðjunnar.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vona, að mér gefist tækifæri fyrir 2. umr. að ræða við ríkisstj. og n. um þetta atriði og mun ef til vill, eins og fyrr greinir, leggja síðar fram tillögu um lausn málsins á þessum grundvelli.