22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jóhann Hafstein:

Aðeins nokkur orð, sem ég vona, að lengi ekki mikið umr., í sambandi við ræðu hv. 2. þm. S-M., að því leyti sem hún snerti Hæring h/f og síldarbræðslu við Faxaflóa. Ég undrast stórlega allar þær rangfærslur og í raun og veru hreinan þvætting, sem fram kom í þessari ræðu hv. þm., sem gaf gersamlega ranga hugmynd um það, sem hér hefur verið gert í þessum málum og hvað er hér á ferð, og ég vildi ekki láta þessu ómótmælt. Efnið í þessari ræðu hv. þm. að því er þetta snerti var í stuttu máli saman dregið, að hér væri á ferð, ja, kannske meira eða minna þjóðhættulegt fyrirtæki, sem væri að stinga upp kollinum hér í bænum, h/f Hæringur, þar sem svo væri um hnútana búið, að ríkisvaldið rétti fram til þess að aðstoða hina ríkari útgerðarmenn milljónir króna, til þess að létta þeirra lífsbaráttu. Þetta var efnið og innihaldið í ræðu þessa hv. þm. Og að hans meiningin átti að koma í veg fyrir þetta með því að fella heimild ríkisins til að leggja fé í þetta fyrirtæki. — Að gefa slíka mynd af því, sem hér er í raun og veru um að ræða, það er svo fráleitt, að mig stórundrar það. Ég hafði tekið fram í minni fyrri ræðu, að engin gagnrýni hafði komið fram, fyrr en nú á síðustu dögum, gagnvart því, sem hér er um að ræða, að af einum aðilanum, sem er í því félagi, var tilskilin forgangsaðstaða viðkomandi bátaflotanum. Í þessu félagi eru: Reykjavíkurbær. Síldarverksmiðjur ríkisins og Óskar Halldórsson, sem leggur til vélarnar, og h/f Hafsíld. Og það var frá h/f Hafsíld, sem krafan er fram komin um þetta skilyrði. Það er undarlegt að hlusta á það, að hér sé um forréttindaaðstöðu fárra manna að ræða. Hv. 2. þm. S-M. talaði um, að þegar félag, sem myndað hefði verið, fengi stuðning frá Síldarverksmiðjum ríkisins og ríkisvaldinu með þessu móti til þess að framkvæma síldarbræðslu, þá ættu önnur félög hér, sem fást við síldarbræðslu, að sjálfsögðu að reyna að afla sér sama stuðnings frá ríkisverksmiðjunum og ríkisvaldinu, sem hér er um að ræða. Ekkert af þessu er það, sem fyrir liggur, að neitt félag hafi aflað sér þessa stuðnings frá Síldarverksmiðjum ríkisins.

Þegar málum hagaði þannig, að í tvö skipti var síldveiði mjög mikil við Faxaflóa, þá fóru menn að hugsa um að reyna að búa svo um hnúta að koma upp betri aðstöðu til að taka síld til bræðslu, sem veiddist hér syðra, sem var mjög lítil fyrir hendi, aðeins litlar fiskimjölsverksmiðjur. Og hitt var lakast, hve flutningskostnaðurinn á síldinni norður varð mikill. Hann varð mjög mikill, svo að mönnum hrýs hugur við þeim kostnaði. Menn eru því sammála um, að skapa verði aðstöðu til þess, að ekki þurfi að grípa til þess að flytja síldina norður til bræðslu þar, heldur sé hægt að hagnýta síldaraflann hér við flóann.

Reykjavíkurbær átti nokkurn hlut að því máli, að stofnað var í upphafi til samvinnu með honum og Síldarverksmiðjum ríkisins og útgerðarmönnum og fleiri aðilum, svo sem Sjómannafélagi Reykjavíkur, til þess að rannsaka og gera till. um úrlausnir í málinn. Og upp úr þessum samtökum var stofnað hlutafélagið Hæringur. En áður en það var stofnað, höfðu útvegsmenn stofnað Hafsíld h/f. sem gengur sem eins fjórða hlutar hluthafi í h/f Hæring. Og félagið h/f Hafsíld var stofnað á fundi í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, þar sem allir útvegsmenn gátu mætt. Svo að það er fráleitt að segja, að hér sé um einstaka fáa útvegsmenn að ræða, sem séu í h/f Hafsíld, heldur er það almennt félag útgerðarmanna sjálfra. Það hefur því verið alveg í höndum útgerðarmanna, að h/f Hafsíld var stofnað og eftir hvaða reglum það var stofnað. En við stofnun h/f Hærings óskuðu þeir, sem höfðu viljað gerast félagar í h/f Hafsíld og vildu leggja fram hlutafé í h/f Hæring, að þessir útvegsmenn í h/f Hafsíld fengju þennan forgangsrétt, sem þarna er um að ræða. Ég sagði í minni fyrri ræðu, að þetta hefði verið rætt við stofnun h/f Hærings. Og þar kom það sjónarmið, að þar sem Síldarverksmiðjur ríkisins væru aðili þarna og legðu fram fé, væri vafasamt að hafa þessi forréttindi. Hins vegar lögðu ýmsir allmikið upp úr því að koma þessu ákvæði fram. Það getur verið, að þeir, sem ekki vilja sækjast eftir því að fá einstaklingsframtakið til þess að leggja fé í fyrirtæki eins og þetta, vilji ekki vera með því að vinna þetta til. En það var ekki annað að heyra en það fengi hljómgrunn hjá þeim, sem stofnuðu til þessa félagsskapar, og vísa ég um það í umr. í bæjarstjórn Rvíkur. — Þá kom fram hjá hv. 2. þm. S-M. ósk um, að nefnd, sem fengi málið til athugunar, athugaði um þetta atriði sérstaklega. Og það fyndist mér eðlilegt, sérstaklega til þess að upplýsa málið betur fyrir hv. þm., sem vaða í svo mikilli villu og svima um þetta mál eins og hv. 2. þm. S-M., og ef hv. þm telja nokkra ástæðu til þess, þá að athuga einhverjar aðgerðir í þessu sambandi. Nú er á það að líta, að hér er ekki um fé Síldarverksmiðja ríkisins og ríkissjóðs að ræða nema að einum fjórða hluta í fyrirtækinu. Og ég verð því að álíta þetta forgangsréttarákvæði hættulaust og skaðlaust. Og þetta er ekki komið frá h/f Hæringi og ekki frá neinum fáum ríkum mönnum, sem ætli að nota sér góða aðstöðu þarna, meðan aðrir fátækir útgerðarmenn á Austur-, Vestur- og Norðurlandi geti ekki notið sömu kjara, heldur er þetta í fyrstu komið frá L.Í.Ú., þannig að Landssambandið stofnaði h/f Hafsíld með útvegsmönnum, sem svo settu fram þessa kröfu. Og L.Í.Ú. er samtök útvegsmanna um land allt.

Ég taldi rétt að láta það, sem ég nú hef sagt, koma hér fram, til þess að leiðrétta misskilning hjá hv. 2. þm. S-M., sem mig furðar á, að skuli hafa getað komið hér fram, vegna þess að hann hefur fylgzt með þessum málum, því að hann hefur a.m.k. haft aðstöðu til þess að fylgjast með þessu á fundum L.Í.Ú., því að þar hefur hann oft komið við sögu.

Varðandi það, sem snertir afköst í síldarbræðslu við Faxaflóa, þá er það rangt hjá hv. 2. þm. S-M., að það bæti síður en svo úr skák, þó að þetta skip kæmi, vegna þess að þessi forréttindi fylgi því. því að forréttindi viðkomandi einni verksmiðju verða því minni hætta, ef hægt er að hafa meiri möguleika til þess fyrir skip að afsetja afla sinn vegna þess að þetta síldarbræðsluskip kemur.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að ráðagerðin um, að aukning bræðsluverksmiðjanna hér við flóann gæti orðið fyrir haustið, gæti með engu móti rætzt. Ég álít þvert á móti, að líkurnar séu meiri fyrir því, að þær vonir, sem margir hafa gert sér um, að þetta geti orðið, geti rætzt.

Að því leyti sem ég sem fulltrúi frá Reykjavíkurbæ átti aðild að þessu, þá er svo fráleitt, að ég telji hér um að ræða hættulega sérréttindaaðstöðu eða sérréttindaaðstöðu fárra ríkra manna. Og það kom reyndar hvergi fram við undirbúning málsins, að það gæti verið um það að ræða, að hér væri verið að skapa sérréttindaaðstöðu handa fáum útvegsmönnum, heldur var það aðalatriðið, sem alla aðila hlýtur að skipta mestu í þessu, að hér var stofnað til samvinnu fleiri aðila um það að bæta aðstöðuna til síldarbræðslu hér við Faxaflóa. — Ég get einnig upplýst, að af hálfu Reykjavíkurbæjar hefur ekki verið látið sitja við þann þátt einan, sem hann hefur átt í að koma þessu fyrirtæki á laggirnar, heldur hefur það komið fram af hálfu bæjarins að hafa samvinnu við Keflavík um að auka aðstöðu hennar til síldarvinnslu með því að koma upp samvinnu við þann aðila eða kannske koma upp nýrri síldarverksmiðju hér í Rvík, þar sem þá væri byggt á nýrri vinnsluaðferðum, sem sérstaklega hafa verið rannsakaðar á vegum þessa hlutafélags og gerð betur verið grein fyrir í opinberum blöðum. Þó að ekki sé langt komið enn viðræðum Reykjavíkurbæjar og þessa aðila um þetta mál, þá hefur verið að þessu unnið, og það standa vonir til þess, að stofnun slíkrar síldarverksmiðju komist töluvert áleiðis á þessu ári. Og viðkomandi því að stækka hinar síldarverksmiðjurnar hér, þá sýnist mér það vera of mikil bölsýni hjá hv. 2. þm. S-M., að menn geti ekki gert sér vonir um, að þær stækkanir verði framkvæmdar fyrir næsta haust. Og ég vil upplýsa, að í eina bræðsluna, sem stækka á hér, vantar gufuketil, og ketillinn er til í vélasamstæðu, sem Óskar Halldórsson á á Siglufirði og meiningin er, að h/f Hæringur fái. En ef þessu félagi heppnast að fá skip til síldarbræðslustarfrækslu, er gert ráð fyrir að fá gufuketil þar.

Hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráð hafa sýnt mjög mikinn góðvilja og skilning á því að aðstoða þetta umrædda síldarbræðslufyrirtæki í baráttunni fyrir því að koma upp þessari verksmiðju fyrir næsta haust. með því að ekki þurfi að standa á gjaldeyri til skipakaupanna. Því að hér er við mjög mikla erfiðleika að etja á mörgum sviðum. En sá erfiðleiki má ekki gleymast, að tíminn er mjög naumur. Og sérhver töf, sem kann að verða á framkvæmd þessa verks, að koma upp síldarverksmiðjuskipi og síldarbræðslutækjum við Faxaflóa, getur orðið tuga milljóna kr. virði. Þess vegna er það mikils virði, að þetta mál mæti góðum skilningi hjá því opinbera, ríkisstj. og fjárhagsráði.