22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Lög um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum eru ekki að ófyrirsynju sett. Samkvæmt 3. kafla l. er svo til ætlazt, að hafin verði herferð í landinu gegn heilsuspillandi íbúðum. Bæjarstjórnum í kaupstöðum og kauptúnum var með þessu sett það mark að útrýma slíku húsnæði. Þeim var gert það að skyldu að láta fara fram ýtarlega rannsókn á ástandinu í þessum málum, og gegn þessu hét svo ríkið að lána. með hagkvæmum kjörum 85% af byggingarkostnaði slíkra húsa. Á þetta hefur verið bent rækilega af mér og fleiri þm. á sínum tíma, en þá fékk það ekki hljómgrunn. En reynslan hefur sýnt okkur, að við vorum ekki of svartsýnir í þessum efnum. Nú hefur komið í ljós, að löggjöfin hefur gengið of illa frá þessu, og rökstyður það skoðun mína, að þessi l., eða sérstaklega 3. kaflinu, hafi ekki verið sett að ófyrirsynju. Þessi húsrannsókn takmarkaðist að vísu við braggaíbúðir og kjallaraíbúðir. Tveir menn, sem áður fengust við slíkar rannsóknir, voru látnir skoða húsnæðið og gefa héraðslækni skýrslu. Að þeirri athugun lokinni skoðaði héraðslæknir einstaka íbúðir. þar sem honum fannst ekki fullljóst í skýrslunni, hvernig ástandið væri. Síðan var úrskurðað, hverjar voru taldar heilsuspillandi. Niðurstaðan af þessum athugunum varð sú, að 652 íbúðir voru úrskurðaðar heilsuspillandi fyrir röskum tveimur árum. Nú her að undirstrika, að þegar þessi úrskurður var felldur, var rannsókn ekki lokið, ekki einu sinni lokið að skoða allar kjallaraíbúðir. Þá hafði ekki verið lokið við að skoða ýmsar skúrbyggingar og bráðabirgðabyggingar, sem finnast víðs vegar í bænum, né heldur íbúðir, sem bærinn leyfir að byggja á erfðafestulöndum í Fossvogi og viðar. þær eru bundnar þeim skilyrðum frá bæjarins hálfu, að gólfflötur má ekki vera stærri en 25 m2. Var það gert til þess að tryggt væri, að þarna væri aðeins um sumarbústaði að ræða. Í þessum íbúðum, ef kalla má svo, er búið nærri öllum. Mega allir gera sér ljóst, að slíkar íbúðir fyrir fjölskyldur hljóta að vera heilsuspillandi. Það er ekki efamál, að talan 652 heilsuspillandi íbúðir er of lág, og má ætla, að hana megi margfalda með 2. Reykjavíkurbær hefur hafizt handa um að reyna að bæta úr þessu með því að reisa hús við Skúlagötu, sem var um 72 íbúðir. 8 íbúðum var ráðstafað á þann hátt, sem ekki er hægt að telja í sambandi við það að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Eftir eru þá 64 íbúðir, sem ríkið mætti vitaskuld fella undir 3. kafla l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Þá var ákveðið, að í 13 af þessum 64 íbúðum væri flutt fólk úr svo kölluðum „Selbúðum“. Þær voru ekki úrskurðaðar sem heilsuspillandi íbúðir, heldur rýmdar vegna þess, að þar átti að setja upp verbúð fyrir sjómenn, sem dvelja hér á vertíðinni. Það þótti meiri nauðsyn að breyta þessu en flytja fólk úr heilsuspillandi íbúðum. En þá eru eftir 588 íbúðir, sem héraðslæknir úrskurðaði heilsuspillandi. Þá eru í smiðum 32 íbúðir á vegum Reykjavíkurbæjar, sem ætla mætti, að kæmu upp í þessa þörf. Þær verða væntanlega tilbúnar einhvern tíma í sumar, og er þá eftir af hinum úrskurðuðu íbúðum 556. Síðan hefur Reykjavíkurbær ákveðið að byggja 2 hús með 64 íbúðum.

Þessar upplýsingar hafa verið gefnar til þess að sýna fram á, að 3. kafli l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum var ekki settur að ófyrirsynju, heldur vegna knýjandi og brýnna þarfa. Ég vil þó taka það fram, að ég hygg það rétt mælt hjá hv. Þm. N-Ísf., að ástandið í þessu efni muni vera viða eins slæmt eða verra en í Reykjavík. Hann lét þau orð falla, að hinar svo kölluðu Pólabyggingar hér í Rvík mundu þykja góð salarkynni borið saman við smáíbúðir í kaupstöðum landsins. Ég vil nú taka það fram, að Pólabyggingarnar hafa ekki verið úrskurðaðar heilsuspillandi, en mjög lélegar. Séu þessar fullyrðingar réttar hjá hv. þm. N-Ísf., þá er ástandið þar slæmt. Því segi ég það, að ég veit ekki, hvaða skylda hvílir þyngra á herðum íslenzka þjóðfélagsins en einmitt að leysa þetta vandamál, einmitt að framkvæma 3. kafla l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kauptúnum. Það er staðreynd, sem allir þekkja og viðurkenna, að þjóð okkar hefur búið frá ómunatíð í moldarkofum. Það er fyrst þessi kynslóð, sem tekur að reisa varanleg og góð hús, og það er hlutverk þessarar kynslóðar að hýsa svo landið, að allir landsmenn geti búið í sæmilegum húsum.

Nú kemur hæstv. ríkisstj. með frv. til 1. um að fresta framkvæmd 3. kafla þessara nauðsynlegu l.. og í Ed. er bætt við, að bæjarfél. séu einnig leyst undan þessari skyldu, sem á þau er lögð með þessum kafla. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. N-Ísf. sagði, að mér finnst það furðuleg ráðstöfun. Ég hefði nú haldið, að það væri ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. gæfi okkur þm. skýrslu um, hvað ýmsar framkvæmdir, sem hún hefur nú með höndum, kosta, áður en ætlazt er til, að við samþ. slíkt afturhvarf, sem hér er lagt til. Hvað kostar skömmtunarskrifstofan, fjárhagsráð og yfirleitt allar þær mörgu stofnanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur sett á laggirnar? Það er vissulega þess vert að fá þessar upplýsingar. Einhvers staðar verður að spara, en hvort virkilega á að byrja á því að fella niður framlög til þess að koma þjóðinni inn í mannsæmandi hús, það er vafamál.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að fjölyrða mikið um þetta. Ég vildi aðeins láta þessar upplýsingar koma fram, til athugunar fyrir n., og undirstrika það, sem ég hygg rétt hjá hv. þm. N-Ísf., að ástandið sé víða verra og jafnvel miklu verra. Þegar þetta er lagt saman, sem ég hef upplýst, og það. sem hv. þm. N-Ísf. hefur getið, þá fæ ég ekki skilið, að mjög margir þm. geti verið þeirrar skoðunar, að það sé rétt að fresta framkvæmd þessara h

Hv. þm. N-Ísf. hefur boðað breyt. á frv., og mun ég styðja þá brtt., þó að ég líti þannig á málið, að hún sé óþörf, því að ég mun eindregið standa á móti því og hindra, að þessum kafla verði frestað, og óska, að sem flestir þm. gætu orðið sammála um þá afstöðu.