22.03.1948
Neðri deild: 80. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hreyfði ég andmælum við einum lið frv., það var 1. tölul. þess, og bar þá fram brtt. þess efnis, að ég lagði til, að þessi liður yrði felldur. Ég hef síðan farið þess á leit við hæstv. forseta, að hann beri hvern lið gr. upp út af fyrir sig. Ég sé því ekki ástæðu til þess að bera fram brtt., en mun greiða atkv. gegn 1. tölul. og legg til, að hann verði felldur.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þau rök, sem þegar hafa verið flutt gegn þessu lagafrv. í þessum umr., sem fram hafa farið í málinu. En ég vil geta þess, að ég hef ekki heyrt hæstv. ráðh. gefa yfirlýsingu um það, að þessi stöðvun nái ekki til þeirra bygginga, sem nú standa yfir. Væri æskilegt, að hæstv. félmrh. gæfi yfirlýsingu um þetta. Ég óska þess eindregið, að hæstv. ráðh. gefi yfirlýsingu um þetta. Enn fremur vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé ætlazt til með 1. tölul. að fella niður það fyrirheit, sem bæjarfélög hafa áður um samið um lán til íbúðarhúsbygginga. Í sambandi við þetta má geta þess, að Ísafjarðarkaupstaður lét á sínum tíma gera áætlanir um nauðsynlegar byggingarframkvæmdir á næstu árum. Árið 1916 var byrjað á byggingu 12 íbúða, og síðan var gert ráð fyrir að byggja 12–16 íbúðir árlega til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði, en þó ekki meir en 32 íbúðir á næstu 4 árum. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann líti svo á, að þar sem slík áætlun sem þessi sé þegar samþ., þá nái ákvæði frv. þessa að breyta því, sem þegar er ákveðið samkv. þessari áætlun, þó að frv. þetta verði að l. — Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið, en ég legg mikið upp úr því, sem hæstv. ráðh. kann að segja um þetta.