22.03.1948
Neðri deild: 80. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Pálmason:

Í 3. lið 1. gr. þessa frv. er svo mælt fyrir, að fresta skuli í 10 ár greiðslu 1 millj. kr. til landnáms samkvæmt l. nr. 35 frá 1946. Þegar till. kom fram við 2. umr. fjárl., lýsti ég afstöðu minni, og ég vil ítreka það, að ég get ekki samþ. þennan lið. Það hefur ekki verið leitað samþykkis nýbýlastjórnar um þennan lið. Ég og hv. þm. Skagf., sem eigum sæti í nýbýlastjórn, greiddum atkv. gegn þessu í sambandi við fjárl., og munum gera það nú. Ég vænti því þess, að hæstv. forseti beri upp hvern lið sérstaklega, svo að ekki þurfi að bera fram brtt. til þess að fella þennan lið sérstaklega.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða málið í heild. Ég vænti þess, að hv. þm. sé kunnur sá áhugi, sem er fyrir því að hefja framkvæmdir samkv. l., og þótt talað sé um það nú að fresta l. í 10 ár, veit enginn, hvað þá verður. — Ég skal svo ekki segja fleira, en ítreka þá ósk mína, að hver liður sé borinn upp sérstaklega.