23.03.1948
Neðri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég hef áður hreyft þessari till. hér og þarf ekki að fara um hana mörgum orðum. Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að hagnýting á Faxaflóasíld eftirleiðis hlyti að byggjast á því, að hér væri fyrir hendi aðstaða til þess að bræða eða vinna úr þeirri síld og að reynsla sú, sem fengizt hefur af síldarflutningum norður í vetur. væri á þann veg, að ekki mundi þykja tiltækilegt að ætla sér að byggja síldveiðar hér á því fyrirkomulagi með vinnslu úr síldinni. Það virðast líka vera nú á ferðinni slíkar fyrirætlanir, sem er spor í þá átt, að hægt verði að vinna úr Faxaflóasíldinni hér fyrir sunnan. En slík framkvæmd, sem nú er verið að tala um, mundi þó ekki nægja til þess að vinna úr álíka magni og barst hér á land í vetur. En því fjær stendur þetta því takmarki, ef svo færi, að sumar af þeim verksmiðjum, sem eru að rísa upp, verður ekki hægt að fullgera vegna fjárskorts, en þannig veit ég, að stendur á með tvö eða þrjú fyrirtæki, sem hófust handa um þetta. En ekki lítur út fyrir, að þau fái þá lausn á fjárhagsaðstoð til þessara hluta eins og nauðsynlegt er. Vegna þessa hef ég gripið til þess ráðs, sem felst í þessari brtt., að ríkisstj. sé heimilt að gerast meðeigandi að 1/4 í þeim síldarbræðslufyrirtækjum við Faxaflóa, sem nú eru starfandi eða ver;ð er að reisa og rekin eru sem hlutafélög eða samvinnufélög. Náttúrlega er það á valdi ríkisstj. að kynna sér allar aðstæður á þessum stöðum og ganga úr skugga um, að slíkur stuðningur sé nauðsynlegur. Mér urðu það töluverð vonbrigði, að hæstv. sjútvmrh., sem sýnt hefur mjög lofsverðan áhuga á þessum málum með fyrirgreiðslu sinni á margvíslegan hátt í vetur og till., sem hann hefur borið fram um það að búa í haginn fyrir seinni tímann, skyldi nú heldur leggjast gegn því, að lausn þessa máls yrði með þeim hætti, sem ég legg til í brtt. Að vísu lagði hæstv. ráðh. ekki neinn þunga í þessa afstöðu sína, og vænti ég þess, að við nánari athugun geti hann fallizt á, að ríkisstj. sé veitt heimild í þessu efni, sem hún að sjálfsögðu ekki notar framar því, sem nauðsynlegt er til þess að hrinda þessum fyrirtækjum áfram.

Það hafa orðið miklar umr. um þessi forréttindi, sem tengd eru við það fyrirtæki, sem ríkið hefur lagt fram 1/4 hluta af stofnfé í. Og eins og ég tók fram í grg. fyrir afstöðu minni áður, þá lít ég svo á, að hér sé farið inn á allhæpna og vanhugaverða braut. Það er náttúrlega ekkert við því að segja, að einstakir menn og félög komi slíkum fyrirtækjum upp á eigin spýtur. án stuðnings eða þátttöku hins opinbera, og ákvarði sjálfum sér not af sínum eigin fyrirtækjum, og slíkt er allt annað mál en að slík réttindi séu gefin fyrirtækjum, sem ríkið leggur fé í. Ég hef með þessari brtt. alveg viljað þræða hjá slíkum grundvelli, sem lagður hefur verið vegna þessa síldarbræðsluskips, heldur byggt á þeim grundvelli, að ríkissjóður legði fram fé, og svo yrði það samkomulagsatriði á milli ríkisstj. og þeirra manna, sem fé eiga í fyrirtækinu, hvernig síldarmóttöku í þær verksmiðjur yrði háttað. Og þess hafði ég vænzt, að ríkisstj., sem lýsti hér yfir, bæði hæstv. menntmrh., sem taldi þetta fyrirkomulag, sem felst í frv., mjög hæpið og þótti ástæða til þess að gera grein fyrir atkv. sínu um þetta mál út frá þeirri skoðun sinni, og eins hæstv. fjmrh., sem lýsti hér yfir. að hann vildi taka til athugunar. hvort ekki væri hægt að fá einhverja breyt. hér á. En þrátt fyrir þessa skoðun mína greiði ég atkv. gegn því, að sett yrðu ákvæði inn í frv., sem tækju alveg af skarið í þessu efni, af ótta við, að það gæti ef til vill orðið til þess að torvelda gott samkomulag um stofnun þessa þarfa félagsskapar.

Jafnframt því, sem ég mælist til þess, að hv. þdm. líti á nauðsyn þessa máls, sem ég flyt brtt. um, — og ég veit, að ég mun fyrir stuðning þeirra mega vænta þess, að hægt yrði að hrinda málinn áfram fyrir næstu vertíð, — þá vildi ég mega vænta þess, þrátt fyrir andmæli hæstv. fjmrh. áðan gegn tillögu minni, að hann vildi ásamt hæstv. menntmrh. bera fram brtt., sem veitti ríkisstjórninni heimild til að leysa þau vandkvæði, sem hér gætu á orðið.