23.03.1948
Neðri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil benda hv. þm. Borgf. á, að hvað formið á þessu snertir, þá er það í frv., bandorminum, sem heimild um, að ríkisstj. megi heimila stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að gerast hluthafi í Hæring h/f. (PO: Þetta á að koma sem alveg sérstakur liður). Ég veit það, en ég hefði álitið, að ef hugsað væri um, að ríkið hefði hlutdeild í þessum litlu verksmiðjum, sem ég verð því miður að álíta, að ekki sé heppilegt, að þá væri réttara, að það væri stjórn Síldarverksmiðja ríkisins fyrir þeirra lönd, sem mætti gerast hluthafi í þessum fyrirtækjum, heldur en að ríkið sjálft færi að eignast hlut í allmörgum þeim smáverksmiðjum, sem hér eru við Faxaflóa. Það er ekki nema eðlilegt, að þessir menn eigi í fjárhagslegum örðugleikum við að koma upp þessum verksmiðjum, sem hv. þm. Borgf. talaði um. En að því er snertir gjaldeyrisöflun til þeirra, þá hefur ríkisstj. reynt að fara þá leið að afla þessa gjaldeyris með lántöku, þó að ekki sé vitað um það enn, hvort hún fáist.

Ég hefði heldur kosið aðrar leiðir til þess að styðja þessar framkvæmdir en að gera ríkið að hluthafa í þeim, en hv. d. tekur sínar ákvarðanir í því efni.