23.03.1948
Neðri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Gunnar Thoroddsen:

Út af 1. lið vildi ég flytja brtt. ásamt hv. þm. N-Ísf. þess efnis, að við liðinn bætist: „Þetta gildir þó ekki gagnvart þeim byggingarframkvæmdum, sem hafnar hafa verið eða undirbúnar samkvæmt þessum kafla laganna.“ Eins og kom fram í umr., hafa bæjarfélög hafið framkvæmdir í trausti þess að njóta aðstoðar samkvæmt lögunum. Sumpart eru þessar byggingar í smíðum, sumpart eru þær undirbúnar og staðfestar af stj. Þótt stj. telji sér ekki fært að rísa undir þeim lánveitingum, sem lögin gera ráð fyrir, ef framkvæmdir eru miklar, virðist óhjákvæmilegt, að þau bæjarfélög, sem ráðizt hafa í framkvæmdir og jafnvel fengið þær staðfestar af stj., njóti stuðnings.

Málið hefur verið rætt mikið, bæði í gær og í dag, og skal ég ekki fjölyrða um það frekar, en leyfi mér að leggja fram þessa skriflegu brtt.