10.11.1947
Efri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

1. mál, menntaskólar

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. — Menntmn. hefur athugað þetta frv. um breyt. á l. um menntaskóla.

Þegar l. voru sett 1946, þá var í 5. kafla 1. allýtarlegur kafli um, hvaða skilyrðum þeir yrðu að fullnægja, sem hefðu rétt til að gerast fastir kennarar við menntaskóla. Þar segir í 15. gr., að þeir skuli hafa numið uppeldisfræði og stundað kennsluæfingar. Það mun hafa komið í ljós, þegar átti að framkvæma l., að mjög mikill skortur yrði á kennurum í landinu, sem fullnægðu þessum ströngu skilyrðum, sem sett voru í l. upphaflega, og sá hæstv. kennslumrh. sér ekki annað fært en að fá að setja bráðabirgðal., sem slökuðu til á a.m.k. þessu atriði að því leyti, að þeir kennarar, sem lokið hefðu prófi við háskólann fram til þessa og ekki haft aðstöðu til að fullnægja skilyrðinu um nám í uppeldisfræði og að stunda kennsluæfingar, gætu gerzt fastir kennarar við menntaskóla án þess að uppfylla þetta skilyrði laganna.

Menntmn. gat ekki annað en fallizt á, að brýna nauðsyn hefði borið til, að þessi bráðabirgðal. voru sett og því ákvæði skotið inn í l., að þeir, sem lokið hefðu fullnaðarprófi fyrir árslok 1948, skyldu vera undanþegnir því skilyrði að hafa lagt stund á uppeldisfræði og kennsluæfingar, en þeir, sem síðar útskrifast frá háskólanum, eiga kost á að njóta tilsagnar í kennslufræðum og kennsluæfingum. Við teljum sjálfsagt, að þessi bráðabirgðal. verði staðfest og frv. afgr. sem breyt. á l. um menntaskóla.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið. Það er aðeins eitt atriði, sem frv. fjallar um. Það er sjálfsagt réttlætismál og sjálfsagt, að úr því verði bætt.