23.03.1948
Efri deild: 87. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

196. mál, ríkisreikningurinn 1944

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er í sambandi við þetta mál, sem ég vildi spyrja ríkisstj. um einstök atriði.

Fyrsta spurningin er í sambandi við það, að samkvæmt skilgreiningu Áfengisverzlunar ríkisins hefur Eimskipafélagi Íslands 1944 verið selt vín með kostnaðarverði fyrir 42 þús. kr. Ég skal ekki segja, hve mikið það vin hefur kostað, sem í útsölu er selt á 42 þús. kr., en eftir álagningunni má fullyrða, að það er töluvert mikið, sem Eimskipafélaginu hefur þarna verið gefið. Þetta gerðist 1944. Kom þá fram aths. til ríkisstj., en síðan hefur allt hjakkað í sama farinu. Til hvers er að leitast við að gera aths. við ríkisstj., ef hún hefur þær að engu, og koma svo til Alþ. þremur árum eftir að reikningarnir áttu að vera komnir fram?

Það eru fleiri aths. hér, sem fyrir liggja, þar sem maður veit ekkert um, hvað ríkisstj. hefur aðhafzt. T.d. vita endurskoðendur, að það eru slæm skil hjá innheimtumönnum ríkisins. Það vex stöðugt við hver áramót, sem ógreitt er. Þótt tekjur manna hafi yfirleitt batnað og greiðslumöguleikar manna farið batnandi, hefur þetta versnað og aldrei eins mikið og 1944. Ríkisstj. telur nú, að hún sé að gera gangskör að því að fá þetta inn og framvegis verði reynt að ráða bót á þessu. Hvernig er þetta nú? Hefur verið ráðin nokkur bót á þessu? Eftir því sem ég heyri, hefur aldrei verið meira útistandandi en nú. Það lítur út fyrir, að ríkisstj. hafi yfirleitt ekki tekið tillit til þessara aths.

Þá er talað um, að enn séu óuppgerðar skuldir frá landsverzluninni gömlu, sem starfaði í fyrra stríði. Ríkisstj. lofaði í vor að sjá um, að farið væri að gera þetta, en mig langar að vita, hvort það hefur gerzt og hvað mikið er eftirstandandi enn af þessum skuldum.

Þá er upplýst, að Áfengisverzlun ríkisins á útistandandi svo og svo mikið af skuldum. ríkisstj. lofaði að sjá um, að þær yrðu innheimtar, en hefur hún gert það?

Það er fleira, sem ég vildi spyrja um. En vegna þess, að áliðið er kvölds og áliðið þings, sé ég ekki ástæðu til að fara út í þetta frekar, en vil aðeins segja það, að það eru í meira lagi rólyndir ráðh., sem geta fundið sig í svona vinnubrögðum.