23.03.1948
Efri deild: 87. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

196. mál, ríkisreikningurinn 1944

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér verður nú náttúrlega svarafátt að því er snertir áfengisverzlunina frá 1944, hvernig það hefur gengið til, ég hef ekki sérstaklega sett mig inn í það. En hvað landsverzlunina áhrærir er vist hv. fyrirspyrjanda kunnugt um það, að hinar útistandandi skuldir eru nú taldar fyrndar að mestu, og verður varla mikils þaðan að vænta. Ég hef ekki vonir um að fá þar mikla fjármuni. En um hitt atriðið, þann seinagang, sem er á afgreiðslu landsreikninganna frá stjórnarráðinu, er ég honum algerlega sammála og hef gert talsvert að því að reka á eftir afgreiðslu þessara mála, en það, sem mest hefur staðið á, eftir því sem mér hefur verið sagt, hefur verið það, að fjmrn. hefur átt í brösum með að fá upplýsingar frá ýmsum stofnunum.

Að því er snertir innheimtu hjá embættismönnum, vil ég segja það, að þessar eftirstöðvar hafa verið nokkuð miklar, en ekki hafa þær versnað. Ég hef athugað þetta og skal gera það enn betur. Mér virðist þörf á að hraða gangi allra þessara mála í rn., og eftir því sem ég get, skal ég reyna að koma því til leiðar, að þessi afgreiðsla öll og prentun reikninganna verði framkvæmd sæmilega tímanlega. Það kostaði t.d. mikil afskipti af minni hálfu að koma þessum landsreikningi hér fyrir þingið áður en þessu þingi yrði slitið, og stóð á ýmsu; þ. á m. var prentsmiðjan svo hlaðin, en ég lét sérstaklega biðja prentsmiðjustjórann fyrir það, og hann hliðraði svo til, að þessi landsreikningur gat nú loksins orðið tilbúinn. — Ég skal taka til greina það, sem hv. þm. hefur sagt, að svo miklu leyti sem í mínu valdi stendur.