13.10.1947
Efri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

17. mál, búfjártryggingar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Frv. Þetta er flutt samkv. ósk hæstv. landbrh. og flutt af landbn., sem hefur þó óbundnar hendur til að flytja brtt. við það eða fylgja þeim brtt., sem fram kunna að koma. Um málið sjálft er það að segja, að lengi hefur verið á döfinni að tryggja búpening, en það hefur aðallega strandað á tvennu. Í fyrsta lagi hefur það strandað á því, að mönnum hefur ekki þótt vert að leggja út í tryggingar, meðan sú hætta vofði yfir, að búpeningur félli af fóðurskorti, og í öðru lagi hefur það strandað á því, að talin hafa verið vandkvæði á að fá vottorð frá dýralækni um, að veikin, sem varð grip að bana, hafi ekki stafað af vanhirðu eiganda. Þrátt fyrir þetta hafa einstaka hreppsfélög fyrir löngu tekið upp tryggingu á nautgripum hjá sér, t.d. Vestmannaeyjar. Kelduhverfi o.fl.

Árið 1943 voru hér á Alþ. samþ. heimildarlög um tryggingu búfjár, og náði sú trygging fyrst og fremst til kynbótaskepna, þ.e.a.s. kynbótanauta, hesta og hrúta. þá vildu sumir taka upp víðtækari tryggingu, og varð það úr og sett í lögin hóptrygging, t.d. fyrir snjóflóðum, flæði og fleiri vanhöldum. Eftir heimildarl. 1943 átti að setja reglugerð um framkvæmd laganna. Um þetta leyti í fyrra innti ég eftir, hvað setningu reglugerðarinnar liði, en komst að því, að hún hafði ekki verið sett. Brunabótafélag Íslands átti að hafa þetta með höndum, og ríkisstj. fól því, eftir að ég hafði minnt á það, að setja reglugerð um málið. Uppkast þess var sent Brunabótafélagi Íslands í fyrra, og var í henni, að enga skepnu mætti tryggja hærra en fyrir tvöfalt skattmat. Á síðustu árum hefur verðlag kynbótaskepna mjög hækkað og er nú margfalt, kannske allt að tifalt skattmat. Nú hlýtur öllum að vera ljóst, að skepnur, sem keyptar eru svo dýru verði, sé fullkomlega réttmætt að tryggja hærra verði en tvöföldu skattmati. Nú hefur komið fram sérstaklega góður nautgripastofn, sem kenndur er við Kluftir í Hrunamannahreppi. Hvort tveggja er, að kýr af þessum stofni mjólka betur en almennt gerist og að fitumagn mjólkurinnar er hátt. Undan nauti, sem heitir Máni, eru til 82 kýr, allar hámylkar, og einnig hefur fitumagnið reynzt hátt, — eða yfir 4% að meðaltali úr þeim öllum. Nú er farið að bjóða mjög hátt í gripi af þessu kyni, þar eð það hefur sýnt sig að vera sérlega vænt. T.d. er búið að bjóða 4000 kr. í óborinn kálf af þessu kyni, og sýnir það, hversu vel menn kunna að meta góða gripi og hversu mjög það borgar sig að eiga þá.

Menn geta af þessu séð í hendi sér, að sjálfsagt er að tryggja svo góða gripi og meira að segja sjálfsagt að tryggja þá háu verði. Nú er það svo, að þeim mun hærra sem gripurinn er virtur, þeim mun hærra iðgjald verður að borga af honum. Þess vegna höfum við lagt til í þessu frv., að eigandi kynbótagripa megi vátryggja þá fyrir það verð, sem hann ákveður. En þyki stjórn Brunabótafélagsins vátryggingarupphæðin grunsamlega há — gripurinn kannske kominn á fallandi fót og virðingarverðið ákveðið mjög hátt til þess að fá mikla peninga útborgaða, þegar hann hrekkur upp af —, er gert ráð fyrir, að hún geti leitað til ráðunauts Búnaðarfélags Íslands í viðkomandi búfjárgrein, sem þekkir ætt gripsins, og hann þekkir ættir allra þessara gripa, sem hér koma til greina. Verði ákvörðun hans látin ráða, ef ágreiningur verður milli eiganda og félagsins.

Þó að landbn. hafi ekki farið gegnum þetta frv., tekið afstöðu til þess, er það mín skoðun — og tala ég þar ekki fyrir hönd n. —, að þessi breyt. á l. sé alveg sjálfsögð, og ég hygg. að fyrr en hún er komin á, komi búfjártryggingar tæpast til framkvæmda. — Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meir.