16.10.1947
Efri deild: 6. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

28. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Þegar benzínskatturinn var settur í vor, var það höfuðtilgangur fjmrn. að vinna upp fé til að vega á móti því mikla vegaviðhaldsfé, sem ríkið leggur fram nú orðið. Þótti af þeim ástæðum rétt að auka benzíntoll svo sem raun varð á. Bæði ég og þeir, sem ég talaði við um þetta mál, höfðum í huga ýmiss konar bila fyrst og fremst. En íslenzku flugfélögin tóku fljóti að kvarta mjög undan tollinum og sneru sér bréflega einu sinni, ef ekki tvisvar, til ráðuneytisins, og höfðu þar að auki fengið viðtal út af þessu máli. Bæði Loftleiðir h/f og Flugfélag Íslands h/f álitu það vera í valdi ráðuneytisins að gera nauðsynlegar réttingar. En eins og lögin eru, þótti það ekki heimilt.

Flugfélögin hafa í bréfum sínum, sem ég hef ekki prentað með, en get lagt fram síðar, rökstutt mjög greinilega, að með tilliti til ýmislegs kostnaðar. sem þau hafa, og stopulla tekna af farþegaflutningum, sé þeim þetta gjald of þung byrði. Og nú ber þess að gæta, að flugvélar bera annað gjald samkv. samningi við Reykjavíkurflugvöll, sem mig minnir að sé 9 aurar á lítra, og gengur það til viðhalds vellinum.

Enda þótt flugfélögin sneru sér til ráðuneytisins tímanlega í vor, sá ég ekki ástæðu til að gefa út bráðabirgðalög, en lofaði að bera málið undir Alþ. og vita, hvort það féllist ekki á þessa breyt., sem ég get sem fjmrh. samþ. Nú hefur einnig formaður flugráðs komið að máli við ráðuneytið og sent því rökstutt álit um það, sem flugfélögin vitaskuld komu ekki inn á í sinni kvörtun, að þetta háa benzíngjald hefur líka áhrif á viðkomur ýmissa erlendra flugvéla, þar sem þeim þykir benzín vera svo dýrt hér, að ekki sé sem aðgengilegast að hafa hér viðkomu. Getum við með þessu verið beinlínis að hafa af ríkissjóði fé. Ég skal taka fram, að þessi tollur mun engan veginn snerta flugvélar á Keflavikurflugvelli. En það koma hér ótal flugvélar, sænskar, franskar og annarra landa, sem taka benzín og borga viðkomugjald, og þá er það athugandi mál, hvort við eigum að hafa tollana svo háa, að slíkar flugferðir leggist niður. En höfuðástæðan fyrir því, að þetta mál er fram komið, eru kvartanir þeirra tveggja flugfélaga íslenzkra, sem hér stunda ferðir. Félögin hafa sent rökstutt bréf þess efnis, að þessi skattur, í ofanálag á hinn benzínskattinn, sem þau greiða, sé þeim of þungur og þau treysti sér ekki til þess að hækka svo fargjöldin, að þau sleppi skaðlaust á þann veg, og því ekki önnur leið en sú, sem hér er lagt til.

Ég vildi svo taka undir þær óskir, sem form. fjhn. kom með, að þetta mál gangi í gegn án þess að koma í n., þar sem það er flutt af n. fyrir mína beiðni. Vona ég svo, að hægt verði að fá málið afgr. til 2. umr.