21.10.1947
Efri deild: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

28. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það kann að mega til sanns vegar færa, sem hv. þm. Barð. sagði, að endanleg afstaða n. í þessu máli væri óljós, enda er till. n. sú, að málið fái að ganga til 3. umr., og mun n. þá reyna að afla sér þeirrar þekkingar á málinu, sem kostur er á. Hlýtur afstaða n. til einstakra atriða málsins að fara eftir því, hvaða upplýsingar liggja síðar fyrir. Annars komu fram nýjar upplýsingar í ræðu hæstv. fjmrh. nú. Á hinn bóginn held ég, að ég verði að segja nú þegar, að sá hluti n., sem hefur fjallað um þetta mál, sé því þó velviljaður, enda þótt n. bindi sig ekki enn sem komið er við einstök atriði. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál á þessu stigi, enda fundartími á þrotum. En ég tek undir með hæstv. ráðh., að það er alls ekki víst, að nokkur sanngirni sé, að sami tollur gildi á flugvélabenzíni og bifreiðabenzíni. því að þar er um ólík not að ræða. Einnig er á það að lita, að flug hér á landi er í byrjun, og er án efa miklu meiri þörf, að ríkisvaldið styðji að því, að flugið geti eflzt í landinu og milli landa, heldur en að styðja beinlínis að auknum bifreiðaflutningum, a.m.k. fólksflutningum, sem sýnust vera orðnir allmiklir.

N. mun sem sagt reyna að afla sér allra þeirra upplýsinga um þetta mál, sem hún á kost á. En í því efni mun koma vandi fyrir n., ef hún ætlar að gera svo að hv. þm. Barð. líki, því að eftir því sem á honum var að heyra í ræðu, er ekki víst, að hann taki gildar upplýsingar frá íslenzkum embættismönnum, sem um þessi mál eiga að fjalla samkv. embættisskyldu sinni, en það mundi n. sennilega telja fullgildar upplýsingar.

Ég geri tæplega ráð fyrir, að n. hafi tækifæri til að leita mikilla upplýsinga beint frá útlöndum. Þennan varnagla vildi ég slá. Og ég vona, að engu sé teflt í neina hættu, hvorki hagsmunum þjóðarinnar né öðru, þó að málið fái að ganga þannig til 3. umr. og frekari athugunar í n. Ég skal aðeins geta þess í sambandi við þetta, að þegar n. hélt fund um þetta, mjög stuttan, náðist ekki í nema þrjá nm. Var það kannske meðfram þess vegna, að n. athugaði ekki málið eins gaumgæfilega og ef fullskipuð hefði verið og hún haft nægan tíma. En það gengur oft erfiðlega hér á þingi að koma saman nefndarfundum, ýmislegt, sem að kallar fyrir um.