11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

75. mál, skemmtanir og samkomur

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Herra forseti. Meiri hl. allshn. þessarar d. flytur hér frv. á þskj. 95 um lokunartíma á skemmtunum og samkomum. Frv. þetta er flutt að ósk hæstv. dómsmrh., og fylgdi því grg., en í henni er bent á, að skemmtanir og ýmiss konar samkvæmi hér á landi dragist oft óhæfilega fram á nótt, og er það álit meiri hl. n., að hægt væri að stemma stigu við því með því að veita hæstv. dómsmrh. heimild til þess að ákveða með auglýsingu, hvenær skemmtunum skuli ljúka. Með því að ljúka skemmtunum fyrr en tíðkazt hefur mundi vera bægt að koma í veg fyrir ýmsa þá óreglu, sem af þessum næturskemmtunum leiðir. Meiri hl. allshn. var samþykkur því, að frv. næði fram að ganga, en einn nm. (ÁkJ) var ekki viðstaddur, þegar málið var til umr. í n.