11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

72. mál, dýralæknar

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins fara örfáum orðum um frv. þetta, vildi taka það fram, að það var sent landbn. af atvmrn., en frv. er samið af mþn. eða n., sem ráðuneytið skipaði til þess að athuga skipun dýralækna og skiptingu landsins í dýralæknishéruð.

Frv. þetta gengur að ýmsu leyti lengra en l., sem hingað til hafa gilt í þessu efni. T.d. er gert ráð fyrir, að dýralæknum sé fjölgað og einnig tekin upp ný læknishéruð, og er þar um algert nýmæli að ræða. Ég hygg, að menn geti verið sammála um, að breyt. þessar séu nauðsynlegar, og á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi litið yfir frv. og þá grg., sem fylgir, en hún er allýtarleg.

Ég vildi sérstaklega geta þess, að nm. hafa óbundnar hendur til að koma með brtt. við frv. eða fylgja þeim brtt., sem fram kynnu að koma. Ég vil að síðustu leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr., en ég sé ekki ástæðu til að vísa því til n., þar sem það kemur frá n.